Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

47. Tumaganga með merkingarlausri málamiðlun

  

            Nú í kvöld verður ekki litið svo á að staða samstarfsflokkanna í ríkisstjórn sé hótinu skárri eftir að lagt var fram á Alþingi frumvarp til stjórnskipunarlaga um eignarhald á auðlindum. Eftir að hafa hlýtt á Einar Odd Kristjánsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, lýsa því yfir oftar en einu sinni í Kastljósi Ríkisútvarpsins að ákvæðið skv. frumvarpinu sé merkingar­laust og breyti engu, verður vart hægt að segja annað en að staða stjórnarflokkanna sé orðin verri en áður; kannski er næst sanni að málamiðlunartilraun Geirs og Jóns sé - eftir nokkrar klukkustundir - orðin að hinu versta klúðri sem þjóðin hefur lengi orðið vitni að. Inntakið í orðum Einars Odds var að Framsóknarmenn hefðu hótað stjórnarslitum og þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu fallist á málamiðlun Geirs og Jóns vegna þess að ákvæðið, sem lagt væri til að fella í stjórnarskrána, væri merkingarlaust og breytti engu. Mér liði ekki vel sem þingmanni Sjálfstæðisflokks að þurfa að greiða atkvæði með frumvarpi til stjórn­skipunarlaga sem ég hefði sagt merkingarlaust. Mér liði ekki vel sem þingmanni Framsóknarflokks að þurfa segjast fullkomlega sáttur við niðurstöðu sem sjálf­stæðismenn segjast vera sáttir við af því að hún sé merkingarlaus og þjóni einungis þeim tilgangi að láta líta svo út að framsóknarmenn hafi náð ásættanlegum sigri í baráttu sinni fyrir því að ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum sjávar verði bundið í stjórnarskrá.
            Ósköp er hann hjáróma - í ljósi þess sem þjóðin varð vitni að í kvöld - formaður Framsóknarflokksins þegar haft er eftir honum um málamiðlunina að hún beri „vitni um þann vana í þessu stjórnarsamstarfi að vandamálin eru greind, þau eru tekin sem viðfangsefni, viðfangsefninu er breytt í úrlausn og úrlausnin verður fram­farir og umbætur fyrir alla þjóðina." Ætlast forystumenn ríkisstjórnarinnar til þess eftir uppákomuna í Kastljósi að þjóðin beri fyrir þeim meiri virðingu en þeir virðast bera fyrir stjórnarskránni? Er þessu stjórnarsamstarfi ekki hér með lokið ef framsókn­armenn bera einhvern vott af virðingu fyrir sjálfum sér? Eru þeir slík lítilmenni að láta kaupa sig með niðurstöðu sem félagar þeirra í ríkisstjórn segja að sé merkingarlaus og breyti engu? Átti formaður Framsóknarflokksins við slit á stjórnarsam­starfinu þegar hann talaði um úrlausn sem fæli í sér „framfarir og umbætur fyrir alla þjóðina"? Eða voru þau orð hans líka merkingarlaus og ekki til þess ætlast að þau breyttu neinu? Jón er laginn að fara í svörum sínum eins og köttur í kringum heitan graut - en hér varð honum á að brenna sig. Jón er ekki í öfundsverðri stöðu. Ætli Siv sé ánægð? Hún hótaði mest allra framsóknarmanna. Bjó þar eitthvað meira undir en ástríðufull sannfæring um að auðlindir sjávar ættu að vera sameign þjóðarinnar?


46. Tumaganga með auðlindum sjávar og Framsóknar

  

           Okkur Tuma finnst stundum með ólíkindum hvað illa grundaðar andartakshug­dettur geta allt í einu valdið miklu veseni. Þessi setning úr stefnuyfir­lýsingu ríkis­stjórnar­innar frá 23. maí 2003 er einmitt dæmi um slíkt: „Ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar verði bundið í stjórn­arskrá." Nú hefur einhverjum framsóknarmönnum dottið í hug að þyrla upp moldviðri út af þessari illa grunduðu mála­myndainnskotssetningu í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Væntan­lega er það gert í þeim tilgangi að láta fjölmiðla draga upp mynd af Framsóknarflokki sem sé alls ekki taglhnýtingur Sjálfstæðismanna heldur þvert á móti sjálfstætt hugs­andi vera. Það á ekki að koma til neinna hjúskaparslita út af þessu. Málamyndaniður­staðan er væntanlega þegar til og skrifleg jafnvel. Leik­sýningunni er bara haldið áfram í nokkra daga í viðbót til þess að hnykkja enn betur á því, áður en Alþingi er slitið, að framsóknarmenn geti haft sjálfstæðar skoðanir þrátt fyrir allt; kjósendur skuli hafa það í huga þegar þeir ganga að kjörkössunum.
            Við Tumi höfum báðir á tilfinn­ingunni að þessari vandræðalegu setningu hafi í maí 2003 verið skotið inn í stefnu­yfirlýsinguna á síðustu stundu fyrir Vestfjarðaþing­manninn Kristin H. Gunnarsson. Auðvitað er þetta bara ógrunduð kenning hjá okkur Tuma. En setningin ber þess öll merki að hafa verið sett saman í flýti og án þess að menn hefðu nokkrar áhyggjur af hvað hún merkti í raun og veru eða hvort hún merkti yfirleitt nokkurn skapaðan hlut. Hún virðist stinga þarna upp kollinum allt í einu fyrst og fremst til þess að „friða" einhvern.    
            Í fyrsta lagi hefur mönnum orðið á að nota hér svo almennt orðalag, „auð­lindir sjávar", að okkur Tuma er ekki fyllilega ljóst við hvað er átt. Á þessu er einhver fljóta­skrift. Gefum okkur samt, þó að talað sé um „sjó" án nánari skýringa, að hér hafi einungis verið átt við sjó innan við 200 mílna fiskveiðilögsöguna við Ísland en ekki heimshöfin. En hvað er „auðlind sjávar"? Er hér átt við allar veiðanlegar tegundir sjávardýra? Er hér einnig átt við þörunga? Fellur þang undir þessa skilgreiningu? Teljast olíulindir, ef þær fyndust á hafsbotni innan lögsögu við Ísland, til „auð­linda sjávar"? Telst sandur, sem dælt er af hafsbotni við landið, til þessara „auðlinda sjávar"? Af hverju var það ekki afmarkað betur sem er ætlað þjóðinni til sameignar með stjórnarskrárákvæði? Hér var greinilega verið að „rubba einhverju af" eins og stundum er sagt.       
            Í öðru lagi - og er öllu mikilvægara - spyrjum við Tumi sjálfa okkur við hvað sé átt með því að segja að auðlind, hvernig svo sem hún er skilgreind, sé sameign þjóðar. Með einföldu orðalagi mætti kannski túlka þetta sem svo að við Íslendingar eigum umrædda auðlind öll saman og við megum ekki gefa einhverjum eða selja einhverjum þessa auðlind nema við viljum það öll saman. Eða dygði kannski að 2/3 atkvæðisbærra Íslendinga samþykktu að selja eða gefa sameignina í þjóðaratkvæðis­greiðslu? Væri nóg, eftir að búið væri að setja ákvæði af þessu tagi í stjórnarskrá, að gera stjórnar­skrár­­breytingu eftir lögbundnum leiðum til þess að heimila íslenska ríkinu að selja eða gefa ein­hverjum auðlindir sjávar? Og þá dettur manni í hug: Hvers vegna má ekki alveg eins orða þetta svo að hinar svokölluðu auð­lindir sjávar séu eign íslenska ríkisins? Hvers vegna er hugtakið „íslensk þjóð" komið þarna inn? Er íslenska ríkisvaldið ekki vald íslensku þjóðar­innar? Við Tumi héldum það. En það er kannski einhver barnaskapur. Ekkert að marka íslenskar stjórnskip­unar­reglur. Við vitum ekki betur en að íslenska ríkið - íslenska þjóðin - fari með yfirráða­rétt yfir íslenskri fiskveiðilögsögu, „eigi auðlindir sjávar", og fái að ráða því hverjir veiða þar og hversu mikið þeir veiða. Er það ekki nóg?
            Það er þá heldur meiri þörf á að huga að því að setja inn í stjórnarskrána ákvæði sem felur í sér að veiðiréttur eða kvóti sé ekki eign í hefðbundnum skilningi - þó að hann sé framseljanlegur - og því sé löggjafanum heimilt að breyta reglum um kvótakerfið og stjórn fisk­veiða án þess að það teljist brot á eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar.
            Við Tumi höldum það og ætlum að rölta heim til að horfa á kollega okkar, aukaleikara, í sjónvarpinu.


                 

 


45. Tumaganga með sérframboðum

 

            Margrét, konan sem yfirgaf flokkinn sem yfirgaf hana, hefur nú tekið saman við Ómar og Jakob - eða öllu heldur mætti kannski segja að Ómar og Jakob hafi tekið saman við hana. Af fréttum verður ráðið að þau ætli í sérframboð í næstu alþingis­kosningum. Nú er verið að leita að nafni á framboðið og að stefnu í öðrum málaflokk­um en þeim sem snúa að umhverf­is­vernd og stóriðju. Margrét hugsar sér eflaust að nota þetta sér­framboð til að ná til sín einhverjum af kjósendum Frjálslyndra, gömlum stuðningsmönnum sínum og umhverfisverndarsinnum. Takist henni að spilla þannig fyrir flokknum, sem yfirgaf hana, verður hún líkast til nokkuð sátt, jafnvel þó hún komist ekki inn á þing. Jakob Frímann er enn þeirrar skoðunar að hann eigi erindi inn á Alþingi og fer í framboðið af persónulegum hvötum. Ómar trúir því að með sér­framboði geti hann hrundið af stað vakningu til verndar fósturjörðinni sem ekkert fái staðist. Ég sé ekki fyrir mér að hinir sérstöku eiginleikar Ómars sem baráttu­manns fyrir náttúruvernd fái notið sín inni á Alþingi.
            Þá hefur hópur eldri borgara og öryrkja látið þau tíð­indi út ganga að þeir hyggist einnig í sérframboð. Þetta er ramakvein frá fólki sem efnishyggjusamfélagið hefur skilið eftir útundan og býr margt við ósæmileg kjör. Maður skilur óánægjuna og skaphitann sem býr að baki sérframboði af þessu tagi. En er það fullreynt að eldri borgarar og öryrkjar geti ekki látið til sín taka með mun áhrifaríkari hætti innan hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka? Ég held ekki.
            Sjálfsagt meinar allt þetta fólk vel og hefur hug á að afla hugsjónum sínum, skoðunum og hagsmunamálum brautargengis. Ég get samt ekki losnað við þá mein­ingu að sérframboð af þessu tagi séu til óþurftar. Þau reyta eitthvað til sín af atkvæðum, sem væru betur komin annars staðar, og drepa á dreif allri pólitískri umræðu fyrir kosningar. Pólitískar línur ná ekki að kristallast almennilega og kjósendur eru sumir hverjir settir í nokkurn vanda þegar kemur að kjörborðinu. Eini ávinning­ur af sérframboðum - eins og þeim sem nú eru í fæðingu - er sá að í aðdraganda kosninga knýja þau hina eiginlegu stjórnmálaflokka til að bregðast við í málaflokkum sem sérframboðin vilja setja mark sitt á. Það er svo undir hælinn lagt hvort stjórnmálaflokkarnir standa við loforð eða stefnumarkandi yfirlýsingar í þessum málaflokkum þegar þeir raða sér inn á þingið. Fulltrúar sérframboðanna standa þá fyrir utan með eitthvert samsafn af atkvæðum en engin þingsæti og engin völd til að hafa áhrif á gang mála. 

  

                 


44. Tumaganga með hægri-grænum

 

            Hægrimenn leggja áherslu á að hentast sé að ein­staklingar en ekki ríkisvald taki ákvarðanir um nýtingu hinna hagrænu gæða jarðar og hvernig þeim sé skipt á milli jarðarbúa. Hagkerfið, sem þeim hefur þótt falla best að þessari grundvallar­skoðun og líklegast til að vinna í anda hennar, er kapítalisminn. Kapítalistar taka ákvarðanir um nýtingu og skiptingu efnislegra gæða á grundvelli þess hvar og hvernig þeir telja að kapítalið nýtist best og gefi þeim mestan arð. Þessu er oft lýst sem svo að efnahagsstarfsemin lúti lögmálum markaðarins, hin „ósýni­lega hönd markaðarins" leiði menn til skynsamlegustu og affarasælustu nýtingar og skiptingar takmarkaðra jarðargæða.

            Umhverfisvernd hefur ekki átt upp á pallborðið hjá kapítalistum vegna þess að oftar en ekki hefur hún gengið þvert gegn skynsamlegustu nýtingu kapítalsins sam­kvæmt lögmálum markaðarins. Kapítalisti fellur sig ekki við umhverfis­friðun nema hann geti rökstutt hana með því að hún skapi tekjur, t.d. af þjónustu við ferðamenn, m.ö.o. að kapítalistinn geti sett á hana verðmiða og metið þannig gagnsemi hennar. Umhverfis­vernd, sem byggir eingöngu á tilfinn­ingalegum rökum, t.d. nýting land­svæðis sem er fólgin í því að nýta það ekki, er stefna sem kapítalistinn getur ekki aðhyllst, ef hann vill vera trúr skynsamlegri nýtingu á kapítali, og slík umhverfis­vernd er andstæð markaðslögmálum. Í ljósi þessa er hið nýja fyrirbæri í stjórnmálalífi nútímans, svonefndir hægri-grænir, eilítið ankannalegt og í raun ekki trúverðugt þegar litið er til þess að hægrisinnaður maður hlýtur að vilja efnahagskerfi sem byggir í öllum meginatriðum á kapítalisma.

            Höfum í huga t.d. virkjunaráform í neðri hluta Þjórsár. Ef maður, sem segist vera hægrisinnaður-grænn, styður það að samfélagið eða meirihluti einstaklinga í tilteknu byggðarlagi, taki ákvörðun um umhverf­isfriðun, sem kemur í veg fyrir að einstaklingur geti nýtt takmörk jarð­nesk gæði á landi sem hann hefur eignarrétt yfir, er sá sami hægri­sinnaði-græni að tileinka sér viðhorf sósíalista eða sósíal-demókrata, hann telur að hagsmunir heildarinnar séu ofar hagsmunum einstaklingsins.

            Kannski megum við ekki leggja of djúpa merkingu í ýmiss konar nafngiftir sem verða til í stjórnmálalífi líðandi stundar. Ef hægri-grænn er ekki nýtt lýsingarorð um framsóknarmann, sem mér þykir ekki fjarstæðu­kennd orðanotkun, er hægri-grænn kannski ekki annað og meira en áróðurskenndur frasi sem ætlað er að fá kjósendur, sem aðhyllast umhverfisvernd og einarðari afstöðu í umhverfismálum, til að halda áfram að greiða hægri­sinnuðum stjórnmálahreyfingum atkvæði sitt. Ef ætlast er til að maður trúi því að sé til raunverulega hægrisinnaður maður, sem sé hægri-grænn - eins og sumir vilja nú nefna sig - er alveg eins hægt að ætlast til að maður trúi því að séu til t.d. talíbanar sem séu talíbanskir femínistar eða kapítalistar sem séu sósíalískir kapítalistar. Mér er næst að halda að sá, sem segist vera hægri-grænn og meinar það einlæglega, sé í raun hægrimaður sem hafi smitast af grundvallarviðhorfum sósíal-demókrata. Það er óskandi að sjúkdómurinn nái að búa um sig til langframa og skili okkur nýjum og betri manni.  

 


43. Tumaganga í algerum jöfnuði

Við Tumi vorum í Marteinsseli um helgina. Það var sólríkt í Biskupstungum en norðangjóstur ofan af heiði og niður Haukadal svo að beit fast í kinnar ef maður vogaði sér út. Jörð snjólaus og gaddfreðin. Við bíðum báðir eftir vorhlýindum á Íslandi og á hinum pólitíska vettvangi. Óskandi að fari að hlána og heyrast kliður í lækjum löngu áður en sér fyrir endann á vitnaleiðslum í Baugsmálinu.

Ég missti af einvígi aldarinnar þar sem þeir áttust við um ójöfnuð, Hannes Hólmsteinn og Stefán Ólafsson. Ég ræð af ummælum þeirra, sem fylgdust með hólmgöngunni, að Hannes og Stefán hafi ekki skilið jafnir. Hins vegar greinir fólk á um hvor þeirra hafi lotið í lægra haldi. Ég hef sjálfur á tilfinningunni að ríkir Íslendingar séu núna mörgum sinnum meira ríkari en ég en þeir voru meira ríkari en ég fyrir tíu árum. Kannski er þetta misskilningur hjá mér af því að ég kann ekki að lesa í tölur eða ber ekki á þær sama skynbragð og t.d. Hannes Hólmsteinn. Tölurnar tala sínu máli, segir hann. Kannski ég lifi í einhverjum blekkingaheimi en við Hannes erum örugglega sammála um að ójöfnuður megi ekki verða of mikill. Sagan sýnir að samfélög þola ekki slíkt til lengdar. Hvenær er ójöfnuður hæfilegur? Hann er örugglega orðinn of mikill hér á landi þegar að því kemur að tiltölulega fáir fjáraflamenn og viðskiptajöfrar eiga nánast allt, sem hægt er að eignast á Íslandi, og geta sagt lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum fyrir verkum eða haft í hótunum við þau. Vonandi kemur aldrei aftur til þess.

Talsmenn stjórnarflokkanna segja að kjör allra hafi batnað til muna í valdatíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Mér finnst ég raunar ekki vera neitt sérstaklega miklu ríkari núna en ég var fyrir tíu árum. Ég hef á tilfinningunni að ég sé jafnblankur þanninlagað og að ég þurfi að reiða meira úr eigin vasa en áður þegar ég þarf á einhverri samfélagsþjónustu að halda. Ég gæti trúað að það væri svona um fleiri en mig sem teljast til meðaltekjufólks. Stoðirnar undir svokallaðri aukinni velmegun hins almenna borgara, sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa nú oft á orði, eru held ég saman settar nær eingöngu úr skuldum. Íslensk heimili eru sögð skulda liðlega 70 miljarða króna í yfirdráttarlán. Þar við bætast svo bílalánin, greiðslukortaskuldir og íbúðarlán. Margir hafa ráðstafað ráðstöfunartekjum sínum aldarfjórðung fram í tímann. Það virðist fremur fátítt - og hefur svo lengi verið - að venjulegt fólk á Íslandi miði neysluútgjöld sín við rauntekjur. Það hefur líka komið sér vel á undanförnum árum fyrir stjórnvöld og atvinnurekendur að venjulegt launafólk væri ekki að miða lífsstandardinn við rauntekjur sínar. Það hefur verið lán í lánunum. Óánægjan hefði ella verið meiri og sagt til sín í kjörkössunum og fólk hefði ekki þurft að ganga til kjarasamninga í skuldahlekkjum. En sé litið á viðskiptahallann hljóta sumir að vera uggandi yfir hvað staða okkar er ótrygg þegar á heildina er litið. Úrslit í alþingiskosningum breyta þar engu um.


42. Tumaganga með arfavitlausri hugmynd um jafnræði kynjanna

  

            Vinstri grænir hafa látið sér detta í hug að binda það í stjórnarskrá að konur og karlar skuli vera jafnmörg á Alþingi. Þetta er vanhugsuð tillaga svo að ekki sé fastar að orði kveðið. Það er meginregla að allir íslenskir ríkisborgarar eru kjörgengir til Alþing­is að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Nái frambjóðandi kjöri til Alþingis, þ.e. veiti tiltekinn fjöldi kjósenda honum eða flokkslistanum, þar sem hann skipar sæti, nægilega mörg atkvæði m.v. heildartölur í þingkosningum, er það stjórnarskrár­varinn réttur frambjóðandans að fá sæti á Alþingi og stjórnarskrárvar­inn réttur kjósendanna, sem greiddu honum eða flokkslista hans atkvæði, að viðkomandi frambjóðandi fái sæti á Alþingi; til þess hefur hann stjórnar­skrárvarið umboð kjósenda sinna. Það væri brot á grundvallarreglum stjórnarskrár um lýðræðislegar kosningar ef þessi tiltekni frambjóðandi hefði ekki rétt á að taka sæti sæti á Alþingi af því að hann væri 31. karlmaðurinn sem næði kjöri í viðkomandi alþingiskosningum.
            Þessi hugmynd Vinstri grænna er í reynd óframkvæmanleg án þess að brotinn sé sá stjórnarskrárvarði réttur sem líst er hér að framan. Setjum sem svo að allir stjórnmálaflokkar hefðu komð sér saman um að láta karla og konur skiptast á um sæti á framboðslistum, þ.e. karl væri í 1. sæti og kona í 2. sæti og þannig á víxl. Eflaust gætu stjórnmálaflokkar ekki komist lengra í að virða jafnræði kynjanna (kynjaröðunin gæti verið  á hinn veginn, þ.e. kona í 1. sæti og karl í 2. sæti, en það breytir í sjálfu sér ekki kjarna þess sem verið er að tala um). Nú eru þingmenn sextíu og úrslit kosninga yrðu þessi sem dæmi:

A flokkur  5 þingsæti - sem gerir 3 karlar og 2 konur
B flokkur  7 þingsæti - sem gerir 4 karlar og 3 konur
C flokkur 12 þingsæti - sem gerir 6 karlar og 6 konur
D flokkur 23 þingsæti - sem gerir 12 karlar og 11 konur
E flokkur 13  þingsæti - sem gerir 7 karlar og 6 konur

Úrslit eftir kynjum yrðu þá 32 karlar  og 28 konur. Þá yrði að neita 2 körlum um þingsæti og setja konur í stað þeirra á þing. Þá væri gengið gegn stjórnarskrárvörðum rétti tveggja frambjóðenda og stjórnar­skrárvörðum vilja kjósenda eins og hann kemur fram í úrslitum kosn­inganna. Í dæminu hér að framan hafa kjósendur kjörið 2 karla á þing sem mættu svo ekki taka þingsæti ef hugmynd Vinstri grænna væri orðin að veruleika. Sama væri upp á teningnum, ef konur skipuðu odda­tölusætin og þingmannafjöldi flokkanna væri eins og í dæminu. Þá yrðu tvær konur að víkja og væri brotinn á þeim stjórnarskrárvarinn réttur til þingsetu samkvæmt úrslitum kosninga. Eina tilfellið þar sem jafnræðis­hugmynd Vinstri græna gæti gengið upp án þess að brjóta meginlýð­ræðisreglur stjórnarskrár - m.v. að stjórnmálaflokkar hefðu lagt niður prófkjör og hefðu fyrir ófrávíkjanlega reglu að karl og kona skipuðu framboðslistasætin á víxl - væri þar sem fjöldi kjörinna þingmanna sérhvers stjórnmála­flokks eða framboðs til alþingis væri jöfn tala. Ég held að menn ættu ekki að eyða tíma sínum og kröftum í að ræða svona fjarstæðukennda hugdettu. Jafnræði kynja á ekki tryggja með stjórnarskrárbrotum og rangindum.

     

    


41. Tumaganga með ráðgjöfum í hlutabréfakaupum

 

Morgunblaðið skýrði frá því í dag að greiningardeild Landsbankans teldi hluta­bréfakaup í Straumi-Burðarási hagfelldustu viðskiptin í Kauphöll Íslands um þessar mundir. Það er eflaust rétt hjá greiningardeildinni. Að sjálfsögðu hefur starfsfólk á greiningardeild Landsbankans faglegan metnað og ekki þarf að draga í efa að eigend­um og stjórnendum Lands­bankans er það einnig kappsmál að fjárfestar treysti ráðgjöf greiningar­deildar. Samt sem áður er þessi staða dulítið skondin og rifjast upp orð manna, bæði austan hafs og vestan, sem hafa gagnrýnt það fyrirkomulag að greinandi (analyst), ráðgjafi, verðabréfamiðlari og fjárfestingarbanki séu einn og sami aðilinn þegar öllu er á botninn hvolft.

Það er yfirleitt talið miklu skipta um traust, sem fjárfestar bera til manns sem greinir kosti á hlutabréfamarkaði og veitir ráðgjöf um ábatasömustu kaupin, að hann eigi ekki persónulegra hagsmuna að gæta; ráðgjöf hans sé byggð á hlutlausu, faglegu mati sem enginn hafi ástæðu til að draga í efa vegna þess að ráðgjafinn sé fjárhagslega háður eða tengdur þeim sem á mikið undir niðurstöðum og ábendingum ráðgjafans. Þegar staðan er hins vegar með þeim hætti og hvað þá þegar staðan er sú að ráðgjafinn mælir nánast með kaupum „í sjálfum sér" þarf engan að undra þó að einstaka áhorf­andi að viðskiptum á íslenskum hlutabréfamarkaði staldri við og spyrji sjálfan sig hvort málum sé skipað með ákjósanlegum hætti - jafnvel þó að niðurstaða ráðgjafans sé í þessu tilfelli hárrétt og í samræmi við niðurstöður annarra ráðgjafa sem tengjast á engan hátt hlutafélaginu sem um ræðir. (Það er svo skemmtileg tilviljun - og væntan­lega ekkert annað - að blaðið, sem sér ástæðu til að birta boðskap greiningardeildar Landsbankans, svo að niðurstaðan fari sem víðast, er að nokkrum hluta í eigu sömu manna og Landsbankinn og Straumur-Burðarás. Sýnir einungis hvað allt er orðið samansúrrað í þessu litla samfélagi.)

P.S.: Ef fjár­málaráðherra er - eins og greiningardeild Landsbankans - að dást að stórfenglegum afkomutölum Straums-Burðaráss er svo sjálfsagt að minna Árna á að þessi öflugi, íslenski fjárfestingabanki „frestaði" í fyrra að greiða 10 miljarða króna í tekjuskatt; sú „frestun" er kölluð „varanleg" í stuttri frásögn af þessu og öðru fróðlegu, sem tengist „tekjufærslu tekjuskatts", á vef Viðskiptablaðsins 7. febrúar sl.

 


40. Tumaganga með gestum á Klámsögu

  

            Við Tumi eigum það sameiginlegt að vera báðir komnir á þann aldur þegar náttúran er farin að losa hreðjatökin sem hún hefur á karldýrum á meðan þau þykja vænleg vegna líkamsburða til að vernda kvendýr og ungviði og verja hvor tveggja gegn ásókn annarra karldýra. Af þeim sökum áttum við áðan á göngu okkar um Kópavogsdalinn að geta rætt bæði af yfirvegun og ástríðuleysi um yfirvofandi svonefnda klámráðstefnu á Íslandi í byrjun mars. Ég var samt eilítið hikandi að impra á þessu umræðuefni við Tuma. Ég veit sem er að Tumi var ekki barnanna bestur á sinni tíð, þegar hormónin voru að egna hann til fróunarleikja af ýmsu tagi, úti í móa og í barnaafmælum, og málið honum viðkvæmt. Hann brást líka við eins og mig grunaði þegar ég innti hann eftir hvað honum þætti um að halda klámráðstefnu í Reykjavík.
            - Mér finnst það forkastanlegt, ansaði hann og hristi sig duglega af hryllingi. Það á að banna svona fólki að koma inn í landið. Það getur stundað sitt fallus-gong-ding-dong annars staðar en á Íslandi.
            En það hefur jafnvel Vestur-Íslendingur boðað komu sína á ráðstefnuna, sonur landvers og skers og einhvers.
            - Hann er örugglega ekki rétt feðraður. Þetta er soralýður. Þeir ætla jafnvel að halda þessa ráðstefnu í sama sal og Framsóknarflokkurinn! Hver getur hugsað sér slíkt nema þá einhver sem er búinn að brjóta af sér alla siðferðilega mælikvarða!
            Er þetta ekki tómur tvískinnungur hjá þér, Tumi. Ég man ekki betur en að þú hafir nú haft lúmskt gaman af hinu og þessu sem fellur ekki beint í kramið hjá femínistunum. Það eru ekki svo mörg ár síðan að ég fann einhver blöð í skúffunni hjá þér. Þú værir líka örugglega að snuðra inn á vafasömum síðum á Netinu og ekki bara á heimasíðu Framsóknarflokksins ef ég hefði verið svo vitlaus að setja ekki á barnalæsingu.
            - Margur heldur mig sig, hreytti Tumi út úr sér. Þetta er ekki svaravert!
            Nú var það ég sem nam snögglega staðar og festi beittar sjónir framan í hundskvikindið.
            Þú ert þó ekki að gefa í skyn að ég hafi legið yfir nektarmyndum af kvenfólki í blöðum, stolist með félögunum inn á klámbúllur í gamla daga og slafrað í mig óhroða af klámrásum í sjónvarpi í hótelherbergjum erlendis eins og örþreyttur útrásargreifi eftir viðskipti dagsins?! Ertu að gefa það í skyn! Þekkirðu mig ekki betur en það eftir fimmtán ár!?
            Tumi titraði á öllum sínum fjórum fótum og lét skottið lafa.
            - Nei, nei, Jón, ég veit að þú hefur aldrei verið þannig, svoleiðis meina ég eða eitthvað í þá áttina, þú skilur.
            Nei, ég hef aldrei verið þannig, svaraði ég. Og ég þekki nánast engan, að minnsta kosti engan Íslending sem hefur verið þannig. Ég átta mig sannast sagna ekki á því á hverju þessi klámiðnaður þrífst. Hann hefur ekki fengið eina einustu krónu frá mér.
            - Ekki frá mér heldur, skaut Tumi inní, mjóróma. Ég fékk einu sinni blað gefins... en ég fleygði því strax.
            Við röltum áfram í áttina að Fífunni. Við vorum komnir undir gaflinn á þessari ægistóru æskulýðshöll þegar ég rauf vandræðalega þögnina.
            Ég er þér sammála, Tumi, það er forkastanlegt að halda svona klámráðstefnu á Íslandi. Stjórnvöld verða að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir þetta. Þó að risið sé lágt á Framsóknarmönnum er óþarfi að ganga svo langt að neyða þá og Bjarna Harðar til að halda flokksþing á Klámsögu.
            En Tumi svaraði engu. Hann var upptekinn af að virða fyrir sér snotra tík sem skokkaði yfir planið framan við Fífuna, eggjandi í spori í ólinni á undan húsbónda sínum.

   


39. Tumaganga með ósjálfráða bankastjórum

              Í umræðunni um „okur" bankanna, hefur komið berlega í ljós hvað bankarnir eru, þrátt fyrir alla einkavæðingu, nátengdir stjórnvöldum og ríkisstofnunum sem fara með yfirstjórn fjármála- og efnahagslífs. Útlánavextir banka eru mikilvæg stjórntæki í þjóðarbúskapnum. Þegar beita þarf þessum stjórntækjum af hörku til að draga úr þenslu og lagfæra t.d. við­skiptahalla er óhjákvæmilegt að stýra hönd hinna „frjálsu" bankaeigenda og banka­stjóra. Það er engin samkeppni, sem ræður hér eða yfirleitt fær að ráða vaxtastiginu, heldur ákvarðanir stjórnvalda sem verða að koma skikki á efnahagslífið ef ekki á illa að fara. Áður en bankar voru einkavæddir, runnu auknar tekjur af háum vöxtum í sameiginlegan sjóð - sem við getum kallað svo úr því að landsmenn voru allir eigendur bankanna - en eftir einkavæðingu renna slíkar auknar tekjur vegna hávaxtastigs, sem ákvarðast af stjórnvöldum, í vasa einstaklinga sem eiga bankana. Verðtrygging lána er ekki heldur uppfinn­ing hinna einkavæddu bankastjóra. Hún er stjórnvaldsákvörðun. Ef mönnum þykir hún tímaskekkja og ósanngjörn er ekki við bankana að sakast. Varla dettur svo nokkrum manni í hug, sem gagnrýnt hefur bankana fyrir „vaxtaokur", á Alþingi og utan þess, að sé eitthvert vit í eins og nú er komið málum í íslensku efnahagslífið að fara að knýja banka til að lækka vexti af lánum til þess eins að hrinda fólki út í enn tryllingslegra eyðslufyllerí og búa til enn ísjárverðri viðskiptahalla? Hinir einkareknu bankar njóta á vissan hátt ríkisverndar þegar litið er til þess hver beitir vöxtum sem stjórntæki í efnahagslífinu. Bankarnir hagnast svo gríðarlega í skjóli þessarar ríkis­verndar. Það væri helst vit í að reyna að fá bankana, sem þjóðin nánast gaf nokkrum einstaklingum, til að deila broti af góðri afkomu sinni með þjóðinni með því að hækka vexti af innlánum. Þeir sýndu þá okkur almenningi svolítið þakklæti fyrir gjöfina.

 

 

        


38. Tumaganga með Gunnari í Heiðmörk

Það gerist ósjaldan að stjórnvöld, hvort sem er hér heima eða erlendis, reyna að smeygja sér undan lögbundnum fyrirmælum um hvernig skuli staðið að því að taka ákvörðun um tiltekin viðfangsefni eða á tilteknum sviðum. Í löggjöf um til dæmis skipulagsmál eða umhverfisvernd er þannig yfirleitt að finna fyrirmæli um hvernig stjórnvald eigi að standa að ákvörðun, mælt fyrir um álitsgjöf eða samþykktir ýmissa sérfræðiaðila og - stofnana, áður en ákvörðun er endanlega tekin, mælt fyrir um kynningu og frest til athugasemda frá aðilum, sem málið varðar, o.s.frv. Í einhverjum tilfellum kunna þessa lagafyrirmæli að hafa áhrif á ákvarðanatöku stjórnvalda. Það virðist hins vegar gerast mun oftar að stjórnvald tekur ákvörðun og fer síðan út í hið lögskipaða undirbúningsferli einvörðungu til málamynda. Sérfræðiálita, samþykkta þar til bærra opinberra aðila og athugasemda frá hagsmunaaðilum og almennum borgurum er aflað í þeim tilgangi aðeins að fullnægja lagabókstafnum; ákvörðun, sem á ekki að taka án þess að hafa hiðsjón af niðurstöðum úr hinu lögboðna undirbúningsferli, er tekin áður en undirbúningsferlið hefst og hún stendur óhögguðm, hvað sem á dynur að því er virðist.

Nú í vikunni var það niðurstaða dómstóls í Bretlandi að Tony Blair og ríkisstjórn hans hefðu ekki staðið rétt að lögbundnum undirbúningi að ákvörðun um frekari nýtingu kjarnorku til raforkuframleiðslu. Af endursögnum breskra blaða af niðurstöðu dómsmálsins má ráða að ríkistjórn Blairs hafi tekið ákvörðun um að ráðast í stórfellda uppbyggingu á kjarnorkuverum á Bretlandi án þess að virða með fullnægjandi hætti, að mati dómara, lögboðið undirbúningsferli að slíkri ákvörðun.

Hér á Íslandi urðu menn einnig vitni að í vikunni hversu "alvarlega" stjórnvöld líta á fyrirmæli laga um tiltekið ferli að ákvörðun og framkvæmdum. Gunnar Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, lét stórtækar jarðvinnuvélar rista djúp sár í útivistarperlu höfuðborgarsvæðisins í Heiðmörk og rífa þar upp með rótum þúsundir trjáa og trjáplantna án þess að lögboðnir aðilar hefðu gefið til þess nokkurt samþykki eða mælt fyrir um hvernig skyldi staðið að framkvæmdinni. Stjórnvöld í Reykjavík höfðu loks manndóm í sér til að stöðva - allt of seint - framkvæmdirnar vegna háværra mótmæla frá náttúruvinum og skógræktarmönnum; Hanna Birna, málsvari borgarinnar, sagði af því tilefni að ekki hefðu legið fyrir lögformlegt leyfi til að hefja þessa eyðileggingu í Heiðmörk. Gunnar Birgisson kom þá fram í fjölmiðlum og skýring hans á því, hvers vegna var ráðist í jarðvinnuna án þess að lögformleg leyfi lægju fyrir, var sú að búið hefði verið að undirrita samning milli bæjarstjórnar Kópavogs og borgarstjórnar Reykjavíkur um framkvæmdirnar. Það hefði einungis verið eftir að fá lögformlegar samþykktir frá tilteknum aðilum en hann hefði litið svo á (væntanlega að fenginni reynslu og með hliðsjón af öðrum slíkum ákvörðunum) að slíkar lögboðnar umsagnir og samþykktir væru einungis formsatriði; úr því að búið væri að undirrita samninginn væri í sjálfu sér óhætt að byrja verkið.

Í þessari sorgarsögu af Heiðmörk og Gunnari Birgissyni birtist enn eitt dæmið um þá ósæmilegu stjórnsýslu eða stjórnsýsluósið - í ljósi lagafyrirmæla - að ákvörðun, sem á að taka að höfðu samráði við ýmsa nánar til greinda aðila - er tekin fyrirfram af því að menn líta á hið lögboðna undirbúningsferli einungis sem formsatriði. Í dæmi Blairs er það þó huggun að hann var ekki byrjaður á að reisa kjarnorkuverin, sem deilt er um, en Gunnar er hins vegar búinn að láta vinna óafturkræft tjón. Er til of mikils mælst að Gunnar axli ábyrgð á þessum yfirgangi og stjórnsýslumistökum og segi af sér sem bæjarstjóri í Kópavogi?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Tumagöngur

Tumi sýndi mér þann vináttuvott á hverju kvöldi í 15 ár að fallast á að ég fengi að fara út með honum að ganga. Hann dró mig á eftir sér í ól og beið ævinlega rólegur ef ég þvældist frá honum eða villtist. Hann tók því einnig með jafnaðargeði þegar ég ræddi við hann um hvaðeina sem lá mér á hjarta í þessum gönguferðum og átti það stundum til að rjúfa einræðu mína með skarplegum athugasemdum. Nú er Tumi allur. Hann hefur hvílt í tvö og hálft ár undir björkum í Marteinsseli. Ég fer samt enn í Tumagöngu á hverju kvöldi. Ég skrafa enn upphátt við sjálfan mig og Tumi skýtur inn einu og einu orði. Ég finn hvernig hann togar í mig í ólinni á eftir sér. Ég þykist vita hvert við erum báðir að fara.

Höfundur

Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband