11.1.2007 | 21:15
21. Tumaganga með Hjörleifi Hallgríms
Tumi er afleitur samferðafélagi þegar snjór er nýfallinn. Þá fyllist hann einhverri ástríðuþrunginni ókyrrð, rekur trýnið ofan í mjöllina og snusar án afláts út og suður án þess að lyfta höfði frá jörð. Ákefðin er svo mikil að hann minnir einna helst á prófkjörsframbjóðanda að snusa eftir atkvæðum. Hann lét svona í kvöld og ég gat ekki stillt mig um að segja að hann minnti mig á Hjörleif.
Tumi rak snoppuna upp úr mjöllinni og horfði á mig með spurnarsvip.
- Hvaða Hjörleif?
Hann Hjörleif Hallgrímsson, framsóknarmanninn á Akureyri sem stefnir á þriðja sætið í prófkjörinu þeirra fyrir norðan.
- Já, hann, umlaði í Tuma sem virtist gjörsamlega áhugalaus.
Þú gætir ekki hugsað þér að styðja hann í þriðja sætið? Hann er búinn að bjóðast til að leggja fram tvær miljónir króna í hússjóð framsóknarfélaga á Akureyri ef hann nær þriðja sætinu.
- Til hvers þurfa framsóknarfélög á Akureyri heilt hús? Dugir þeim ekki lítið kjallaraherbergi? Fer framsóknarmönnum ekki fækkandi fyrir norðan eins og annars staðar? Hefði ekki verið nær fyrir Hjörleif að bjóðast til að leggja fram peninga í minningarsjóð um framsóknarfélög á Akureyri?
Hjörleifur ákvað þetta nú samt og það hafa ýmsir orðið til þess að úthrópa hann fyrir útspilið. Björn Ingi Hrafnsson, einsetuframmari við Reykjavíkurtjörn og flokksbróðir Hjörleifs, segir til dæmis á blogginu sínu í dag að þetta sé verulega vond hugmynd" hjá Hjörleifi. En mér finnst þetta ekki jafnmikið einsdæmi og menn vilja vera láta - að öðru leyti en því að Hjörleifur hefur látið þessi boð út ganga á opinberum vettvangi, fer ekkert í launkofa með að hann sé reiðubúinn til að launa kjósendum sínum greiðann og að hann ætlar að reiða fram fé úr eigin vasa en ekki nota fé skattgreiðenda til þess að borga fyrir sig.
- Það er svolítið til í þessu hjá þér, ansaði Tumi. Má ekki halda því fram til dæmis að Björn Ingi hafi launað framsóknarmönnum í Reykjavík dyggilega fyrir stuðning við sig bæði í prófkjöri og í borgarstjórnarkosningum. Má ekki halda því fram að til þess hafi hann notað fé úr vasa útsvarsgreiðenda en ekki úr eigin vasa. Er það svo ýkja ólíklegt að Björn Ingi hafi í kosningabaráttu í bæði skiptin orðað það sisona lauslega við þá, sem kringum hann snerust, að hann skyldi muna eftir þeim ef hann kæmist í aðstöðu til þess að beita áhrifum sínum í stjórn borgarinnar?
Það er nú ekki að öllu leyti sanngjarnt af þér, Tumi, að nefna Björn Inga sérstaklega í þessu sambandi. Hann er örugglega ekki eini stjórnmála- og sveitarstjórnarmaðurinn sem hefur launað flokksbræðrum sínum dyggilega fyrir sig með því að fleygja til þeirra kjötflís. Og þess utan: Er þetta ekki bara eins og hvert annað kosningaloforð hjá Hjörleifi? Hafa menn yfirleitt einhverja ástæðu til að halda að Hjörleifur telji sér - fremur en öðrum stjórnmálamönnum - skylt að efna loforð og fyrirheit sem gefin eru í kosningabaráttu? Ég man ekki betur en Björn Ingi t.d.....
Tumi rykkti í ólina og gjammaði inn í miðja setningu hjá mér.
- Björn Ingi!? Varstu ekki að segja að það væri ekki sanngjarnt að taka bara dæmi um Björn Inga?
Jú, jú, en það er barasta ekki hægt að stilla sig um, þegar talað er um kosningaloforð, að minna á að Björn Ingi lofaði kjósendum gjaldfrjálsum leikskóla fyrir borgarstjórnarkosningar í vor. Og honum virðist samt ekki hafa fundist það neitt verulega vond hugmynd" að greiða atkvæði fyrir skömmu með 9% hækkun á leikskólagjöldum. Kannski tekur Hjörleifur kosningaloforðin sín ekki neitt alvarlegar en Björn Ingi.
- Ég held það sé misskilningur hjá Hjörleifi, sagði Tumi, að leiðin að hug og hjarta framsóknarmanna, sem eftir eru á Akureyri, liggi í gegnum hússjóð framsóknarfélaganna. Ég held að loforð um persónulegan greiða séu miklu betri gjaldmiðill í atkvæðakaupum.
Og svo er auðvitað spurning, Tumi minn, hvort framsóknarmönnum fyrir norðan finnst nóg að fá tværi miljónir fyrir að kjósa Hjörleif. Kannski þurfa menn að beita sig verulega hörðu til að greiða honum atkvæði sitt, jafnvel loka augunum og bíta á jaxlinn, og vilja fá þrjár miljónir fyrir eða jafnvel fjórar. Þarf Hjörleifur ekki að bjóða betur?
- Við látum framsóknarmennina á Akureyri svara því, ansaði Tumi. Það þýðir að minnsta kosti ekkert fyrir Hjörleif að reyna að múta mér. Ég á minn hundakofa sjálfur og meira að segja nokkrar krónur í sjóði fyrir upphitun og rafmagni. Ég læt það duga.
Um bloggið
Tumagöngur
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 480
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.