25. Tumaganga með Hreini spritt, fyrrum Byrgismanni

 

          Við Tumi vorum á rölti áðan niður í Kópavogsdalnum þegar við rákumst á Hrein spritt, gamlan kunningja minn sem hefur marga fjöruna og flöskuna sopið. Hann virtist niðurdreginn og þegar ég gekk á hann sagðist hann vera hálfmiður sín út af honum Guðmundi í Byrginu og öllu þessu „andskotans klúðri" eins og hann orðaði það. Ég vissi að Hreinn hafði verið í meðferð í Byrginu í fyrravor og spurði hann hvort honum kæmi nokkuð á óvart hvernig málum væri háttað.
          „Byrgið var fínt pleis," svaraði Hreinn spritt. „Maður fékk gospela, kók eða appelsín, og sálmat, kjötbollur eða signaðan fisk, og desert í fjörutíu daga eins og frelsarinn. Svo batt Guðmundur mann við predikun­arstólinn og barði mann með ritningargreinum þar til maður var orðinn meyr og viðráðanlegur eins og postull. Hann var alveg ótrúlegur stuð­spjallamaður, hann Guðmundur. Það komst enginn með tærnar þar sem hann hafði hælana þegar hann var að engilja konurnar. Og hvernig böndin og svipan léku í höndunum á honum. Það fór ekki á milli mála að þarna fór sannur káfboj enda maðurinn ævinlega klæddur, þegar hann var ekki að frelsa konurnar, eins og hetjurnar í villta vestrinu. Hann er þriggja manna maki, ekki nokkur spurning, hann er bæði ðu gúdd, ðu badd and ðí ögglí. Já, ég hálfsé á eftir honum. Ég varð alveg blessunar­lega skraufaþurr í Byrginu og ég fann guð hjá Guðmundi. Ójá, ég fann guð - en þegar ég kom úr meðferðinni tíndi ég guði aftur niðrá Hlemmi svo að þess vegna er ég eins og ég er núna. Ég var að frétta að þeir hjá félagsklúðursráðu­neyt­inu væru til í að bjóða mér að finna guð aftur á ríkisins kostnað í einhverju Hlaðgerðarkoti. En mér líst ekkert á þessa Hlaðgerði. Nafnið er einhvern veginn svo gribbulegt, finnst þér ekki. Ég er viss um að það er miklu dauflegra að leita að guði hjá þessari Hlað­gerði en hjá honum Guðmundi. Honum var einhvern veginn svo eiginlegt að keyra upp fjörið, bæði í Rokk og rólvill og ég tala nú ekki um eftir að ríkið fór að dæla í hann peningum þarna rétt hjá Ljósafossi. Þá var hann Guðmundur sko í Grímsnessinu sínu. En - nú er þetta allt búið. Maður verður bara að halda áfram að drekka og vona að Guðmundur eigi eftir að rísa upp aftur, betri maður. Hann fær örugglega að taka út sína refsingu eins og við öll hin þegar okkur verður það á að láta komast upp um okkur. Kannski fá líka ein­hverjir skammir í félagsklúðursráðuneytinu. En þeir eiga finnst mér allt gott skilið. Þeir voru bara að hjálpa Guðmundi að hjálpa okkur, þessum ræflum, að finna guð. Þeir bara vissu ekki að Guð­mundur hafði gert per­sónulegt samkomulag við guð um að fá að nota svolítið af peningunum fyrir sjálfan sig, svona í guðslaun. Er það eitthvað nýtt? Fara ekki af því talsverðar sögur að í gegnum tíðina hafi ekki allar tekjur kirkna og klaustra runnið beint í vasa þurfamanna, fátæklinga og vesalinga. Fengu ekki biskupar og prelátar að skáskjóta nokkrum skildingum í eigin vasa til eigin þarfa. Og svo eru menn að heimta nótur og reikninga af honum Guð­mundi. Ég hef það á tilfinning­unni að guð sé svona að öllu jöfnu yfir það hafinn að þurfa að skila nótum og reikningum. Við eigum að standa reikn­ingsskil frammi fyrir honum en ekki öfugt. Það hefur Guðmundur sagt við mig og ég veit að það er rétt. En þeir hjá félagsklúðursráðuneyt­inu eru auðvitað í slæmum málum af því þeir hafa ekki ennþá fundið neinn til að bera ábyrgðina. Ætli ég rölti ekki niðreftir, banki upp á hjá honum Magnúsi og bjóðist til að taka á mig alla ábyrgð. Því að, ég meina, þegar öllu er á botninn hvolft og flöskunni líka þá erum það við, þessir ræflar sem eigum svo erfitt með brennivínið, sem erum undirrótin að öllu þessu hörmulega ástandi, primus motor. Ef við hefðum ekki verið vanda­mál, þá væri Guðmundur ekki neitt vandamál heldur og engin vandamál að plaga hann Magnús. Það er svo einfalt. Ég held ég fari strax niður í félagsklúðursráðu­neyti þegar ég er búinn úr sprittglasinu."
          Þar með slangraði Hreinn spritt upp á Fífuhvamm en við Tumi héldum áfram göngu okkar í froststillunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tumagöngur

Tumi sýndi mér þann vináttuvott á hverju kvöldi í 15 ár að fallast á að ég fengi að fara út með honum að ganga. Hann dró mig á eftir sér í ól og beið ævinlega rólegur ef ég þvældist frá honum eða villtist. Hann tók því einnig með jafnaðargeði þegar ég ræddi við hann um hvaðeina sem lá mér á hjarta í þessum gönguferðum og átti það stundum til að rjúfa einræðu mína með skarplegum athugasemdum. Nú er Tumi allur. Hann hefur hvílt í tvö og hálft ár undir björkum í Marteinsseli. Ég fer samt enn í Tumagöngu á hverju kvöldi. Ég skrafa enn upphátt við sjálfan mig og Tumi skýtur inn einu og einu orði. Ég finn hvernig hann togar í mig í ólinni á eftir sér. Ég þykist vita hvert við erum báðir að fara.

Höfundur

Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 480

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband