26. Tumaganga með Guðmundi og Ómari

              Forsætisráðherra fullyrti við þjóð sína í sjónvarpi á dögunum að allt efasemdatal um ágæti íslensku krónunnar segði meira um þann, sem hall­mælti krónunni, en um krónuna sjálfa og gildi hennar fyrir efnahagslíf á Íslandi og lífskjör almennings. Hafi forsætisráðherra hlustað á Guðmund Ólafsson, hagfræðing, í Silfri Egils nú eftir hádegið, hlýtur hann - með hlið­sjón af framangreindu - að hafa  orðið býsna fróður um Guðmund og allt hans innræti og styrkst enn frekar í krónískri trú sinni á íslenska gjald­miðilinn. Guðmundi er annars einkar lagið að stikla á aðal­atriðum, þegar hann rennir sínum haukfránu gagnrýnisaugum yfir íslenska hagkerfið, og að tala skýrt og tæpitungulaust svo að augu okkar almennings nái nú loks að opnast. Hann styður mál sitt með glöggum dæmum og útreikningum og sækir rök í brunn mikillar þekkingar á sérsviði sínu, í þroska sinn og reynslu og kynni af þeim öflum - og mönnum sem þar eru - sem ráða ferðinni. Hlutur Guðmundar í Silfrinu var hvort tveggja í senn tímabær upplýsing í upphafi kosningabaráttu til alþingiskosninga og þörf gagnrýni á efnahagsstjórn og viðskiptahætti hér landi. Óskandi að þeir hafi ekki verið í meirihluta á meðal hlustenda sem fengu ekkert út úr umfjöllun Guðmund­ar um íslensku krónuna, okrið og skattastefnu Sjálfstæðis­flokksins í 15 ár annað en nánari upplýsingar um og staðfestingu á hvað Guðmundur er illa innrættur. Egill á þakkir skildar fyrir að hleypa Guðmundi að.
            Egill á einnig hrós skilið fyrir að gefa Ómari Ragnarssyni færi á að þruma yfir landslýð og reyna þannig að virkja fólk til andstöðu við glóru­lausar stóriðjuáætlanir. Ómar hefur nú þegar aflað sér virðingar á meðal þjóðarinnar fyrir þolgæði gagnvart hinum alls ráðandi öflum, einurð og eldmóð. Barátta hans og þeirra, sem hafa stutt hann í verki með ráðum og dáð, er farin að skila árangri. Ljóst er að næstu virkjana- og stór­iðju­áformum verður ekki hrundið átakalaust í framkvæmd. Kann svo að fara að fleiru verði drekkt í Hálslóni en ásýnd lands, sem okkur var trúað fyrir, og hugsjónir manna eins og Ómars Ragnarssonar hefji sig til flugs af gruggugum vatnsfletinum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tumagöngur

Tumi sýndi mér þann vináttuvott á hverju kvöldi í 15 ár að fallast á að ég fengi að fara út með honum að ganga. Hann dró mig á eftir sér í ól og beið ævinlega rólegur ef ég þvældist frá honum eða villtist. Hann tók því einnig með jafnaðargeði þegar ég ræddi við hann um hvaðeina sem lá mér á hjarta í þessum gönguferðum og átti það stundum til að rjúfa einræðu mína með skarplegum athugasemdum. Nú er Tumi allur. Hann hefur hvílt í tvö og hálft ár undir björkum í Marteinsseli. Ég fer samt enn í Tumagöngu á hverju kvöldi. Ég skrafa enn upphátt við sjálfan mig og Tumi skýtur inn einu og einu orði. Ég finn hvernig hann togar í mig í ólinni á eftir sér. Ég þykist vita hvert við erum báðir að fara.

Höfundur

Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 480

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband