9.2.2007 | 21:42
35. Tumaganga með Rúmfó, sendiherra og forseta
Okkur Tuma varð hálfkalt áðan þegar við fengum okkur vanabundna kvöldgöngu, eilítill raki í austanandvara ofan frá Beverly Hills" sem ég kalla svo en hétu áður Hnoðraholt; þar eru nú dýrustu hrossataðsskákir á landinu. Leið okkar lá framhjá Jakobsstiganum sem nær ekki enn til himins, enda í smíðum, en mun gera það þegar hann hefur náð fullri hæð. Ég efast ekki um að verður glatt á hjalla þar uppi, þegar drottinlegir postular og englar fá loks tækifæri til að gera góð kaup í Rúmfatalagernum enda bráðnauðsynlegt eflaust að hagræða hjá himnaríkinu eins og hjá íslenska ríkinu. Ég spurði Tuma hvort honum þætti ekki mikið til koma þessa vísis að turni við Smáratorg en hann lét sér fátt um finnast. Hann er kvikindi sem hefur ekki áhuga á mannlegri framtakssemi annarri en þeirri sem felst í því að gefa honum að éta.
Hver hefði trúað því fyrir tuttugu og fimm árum að færeyskur maður ætti eftir að reisa hæsta turn á Íslandi? Maður hefur ekki undan að verða standandi hlessa þessa dagana. Og hver hefði trúað því fyrir tuttugu og fimm árum að hann ætti eftir að sjá allaballana og vini alþýðunnar, Ólaf Ragnar og Svavar Gests, skrúðklædda á fundi með fjáraflamönnum að lofsyngja kapítalismann og íslenska rokkefellera? Ég hefði fyrr lagt trúnað á þá fullyrðingu að þú gætir séð kött án þess að reka upp bofs! Róbert nokkrum Walpole eru eignuð þessi orð: Every man has his price." Ójá. Ég er farinn að venjast þessum hamskiptum, þegar forseti vor á í hlut, en ég á enn eftir að jafna mig á þessu með Svavar. Ég sé hann ennþá fyrir mér í portinu bak við MR, í flaksandi frakkanum með trotskímakkann að teyga að sér nautnina úr frímínúturettunni og boða byltingu alþýðunnar og úthellingu hins kapítalíska blóðs. Og hann stóð í mörg ár á eftir það á barríköðunum, fyrst Ólafslaus, því að Ólafur var að prófa hvort hann næði mannvirðingum í Framsókn, og síðan með Ólafi eftir að Ólafur reiknaði út að hann gæti náð meiri mannvirðingum sem Allaballi. Svona er það, Tumi minn. Það verður ekki allt fyrir séð í lífinu. Þú hefur kannski haldið, þegar þér var gotið, að ætti fyrir þér að liggja að verða villtur útigangshundur að berjast gegn klóbeittum fressum - og núna ertu orðinn pempíulegur stofuhundur og gæludýr, hafður í ól. En þú sérð þó rautt þegar lánlaust kattarkvikindi dirfist að birtast í grennd við þig. Ég er farinn að halda að Svavar sjái ekki lengur rautt, sama hvernig kvikindi eru allt í kringum hann og upp við hann.
Jæja, við skulum koma okkur heim. Ég ætla að útlista fyrir þér á leiðinni sparnaðarhugmynd sem ég kem hugsanlega á framfæri við Geir þegar hann er búinn að afnema allar skattálögur af auðmönnum. Þessi hugmynd gengur út að fá athafnamenn, grúppur, banka, fjárfestingarfélög og eignarhaldsfélög til að sponsorera forsetaembættið. Hvernig líst þér á það, Tumi. Forseti Íslands árið 2007 er í boði FL-Group og Kaupthing Bank." Áramótaávarp Forseta Íslands fram að næstsíðustu málsgrein er í boði Glitnis - þið megið eiga afganginn." Forseti Íslands er í boði Bónuss - það býður enginn betur í draumlandinu." Þetta er hugmynd, finnst þér það ekki?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Tumagöngur
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 480
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.