13.2.2007 | 21:31
37. Tumaganga með þjóðarsátt iðnaðarráðherra
Vel má vera að Jón iðnaðarráðherra og Steingrímur formaður séu í skeggbræðralagi en fjarri fer því að þeir séu í fóstbræðralagi. Vart hafði Jón friðflytjandi kynnt frumvarp sitt til þjóðarsáttar en Steingrímur Siff. umhverfðist í pontunni svo að gneistar hrukku af grön. Það var ekkert sáttahljóð í honum svo mikið er víst. Ég hef skilning á því. Ef blaðafrásagnir af efni frumvarpsins eru sæmilega réttar virðist það vera ætlun Jóns með frumvarpinu að ná fram þjóðarsátt um nýtingu orkulinda og stóriðjuframkvæmdir. En þar sem slík þjóðarsátt gæti stofnað í hættu stórfelldum stóriðjufram-kvæmdum og enn stórfelldari virkjunaráformum þykir Jóni ekki ásættanlegt að láta þjóðarsáttina verða að veruleika fyrr en árið 2011 þegar búið er að framkvæma það sem engin þjóðarsátt er um. Þetta gæti verið í líkingu við friðarsamninga sem stríðandi aðilar gerðu sín á milli með þeim fyrirvara að friðarsamningar tækju ekki gildi fyrr en búið væri að fella tl viðbótar a.m.k. 200.000 þúsund hermenn og óbreytta borgarara, særa 300.000 og eyðileggja meira af fasteignum og innviðum hinna stríðandi þjóða.
Ég hef á tilfinningunni að með þessu þjóðarsáttarfrumvarpi sé formaður Framsóknarflokksins einvörðungu að reyna í aðdraganda kosninga að setja á flokk sinn og samstarfsflokk í ríkisstjórn svolitla umhverfisvina- og náttúruverndarslikju. Það verður ekki séð að samþykkt frumvarpsins breyti nokkru um þau stóriðju- og virkjunaráform (ef áform skyldi kalla, sumt af þessu virðist fastákveðið) sem nú eru uppi. Þess er svo sem ekki heldur að vænta því að lýðræðislega kjörið framkvæmda- og löggjafarvald hefur afsalað sér öllu ákvarðanavaldi um þessi áform. Ákvarðanir um þreföldun orkuöflunar á Íslandi til stærri álbræðsluvera en áður hafa verið reist hér á landi virðast nú vera einvörðungu í höndum meirihlutans í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, íbúa í Hafnarfirði, á Húsavík og í Gnúpverjahreppi. Aldrei hafa jafnfáir tekið ákvörðun um jafnmikið fyrir jafnmarga.
Það er ekki allt með felldu í þessum efnum. Þjóðarsátt eftir árið 2010 stoðar lítið eins og málum er nú háttað. Þjóðarsátt núna kæmi að notum en framar öllu þurfum við nýjar Sigríðar í Brattholti svo þúsundum skiptir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Tumagöngur
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 480
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.