38. Tumaganga með Gunnari í Heiðmörk

Það gerist ósjaldan að stjórnvöld, hvort sem er hér heima eða erlendis, reyna að smeygja sér undan lögbundnum fyrirmælum um hvernig skuli staðið að því að taka ákvörðun um tiltekin viðfangsefni eða á tilteknum sviðum. Í löggjöf um til dæmis skipulagsmál eða umhverfisvernd er þannig yfirleitt að finna fyrirmæli um hvernig stjórnvald eigi að standa að ákvörðun, mælt fyrir um álitsgjöf eða samþykktir ýmissa sérfræðiaðila og - stofnana, áður en ákvörðun er endanlega tekin, mælt fyrir um kynningu og frest til athugasemda frá aðilum, sem málið varðar, o.s.frv. Í einhverjum tilfellum kunna þessa lagafyrirmæli að hafa áhrif á ákvarðanatöku stjórnvalda. Það virðist hins vegar gerast mun oftar að stjórnvald tekur ákvörðun og fer síðan út í hið lögskipaða undirbúningsferli einvörðungu til málamynda. Sérfræðiálita, samþykkta þar til bærra opinberra aðila og athugasemda frá hagsmunaaðilum og almennum borgurum er aflað í þeim tilgangi aðeins að fullnægja lagabókstafnum; ákvörðun, sem á ekki að taka án þess að hafa hiðsjón af niðurstöðum úr hinu lögboðna undirbúningsferli, er tekin áður en undirbúningsferlið hefst og hún stendur óhögguðm, hvað sem á dynur að því er virðist.

Nú í vikunni var það niðurstaða dómstóls í Bretlandi að Tony Blair og ríkisstjórn hans hefðu ekki staðið rétt að lögbundnum undirbúningi að ákvörðun um frekari nýtingu kjarnorku til raforkuframleiðslu. Af endursögnum breskra blaða af niðurstöðu dómsmálsins má ráða að ríkistjórn Blairs hafi tekið ákvörðun um að ráðast í stórfellda uppbyggingu á kjarnorkuverum á Bretlandi án þess að virða með fullnægjandi hætti, að mati dómara, lögboðið undirbúningsferli að slíkri ákvörðun.

Hér á Íslandi urðu menn einnig vitni að í vikunni hversu "alvarlega" stjórnvöld líta á fyrirmæli laga um tiltekið ferli að ákvörðun og framkvæmdum. Gunnar Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, lét stórtækar jarðvinnuvélar rista djúp sár í útivistarperlu höfuðborgarsvæðisins í Heiðmörk og rífa þar upp með rótum þúsundir trjáa og trjáplantna án þess að lögboðnir aðilar hefðu gefið til þess nokkurt samþykki eða mælt fyrir um hvernig skyldi staðið að framkvæmdinni. Stjórnvöld í Reykjavík höfðu loks manndóm í sér til að stöðva - allt of seint - framkvæmdirnar vegna háværra mótmæla frá náttúruvinum og skógræktarmönnum; Hanna Birna, málsvari borgarinnar, sagði af því tilefni að ekki hefðu legið fyrir lögformlegt leyfi til að hefja þessa eyðileggingu í Heiðmörk. Gunnar Birgisson kom þá fram í fjölmiðlum og skýring hans á því, hvers vegna var ráðist í jarðvinnuna án þess að lögformleg leyfi lægju fyrir, var sú að búið hefði verið að undirrita samning milli bæjarstjórnar Kópavogs og borgarstjórnar Reykjavíkur um framkvæmdirnar. Það hefði einungis verið eftir að fá lögformlegar samþykktir frá tilteknum aðilum en hann hefði litið svo á (væntanlega að fenginni reynslu og með hliðsjón af öðrum slíkum ákvörðunum) að slíkar lögboðnar umsagnir og samþykktir væru einungis formsatriði; úr því að búið væri að undirrita samninginn væri í sjálfu sér óhætt að byrja verkið.

Í þessari sorgarsögu af Heiðmörk og Gunnari Birgissyni birtist enn eitt dæmið um þá ósæmilegu stjórnsýslu eða stjórnsýsluósið - í ljósi lagafyrirmæla - að ákvörðun, sem á að taka að höfðu samráði við ýmsa nánar til greinda aðila - er tekin fyrirfram af því að menn líta á hið lögboðna undirbúningsferli einungis sem formsatriði. Í dæmi Blairs er það þó huggun að hann var ekki byrjaður á að reisa kjarnorkuverin, sem deilt er um, en Gunnar er hins vegar búinn að láta vinna óafturkræft tjón. Er til of mikils mælst að Gunnar axli ábyrgð á þessum yfirgangi og stjórnsýslumistökum og segi af sér sem bæjarstjóri í Kópavogi?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gapripill (IP-tala skráð) 18.2.2007 kl. 04:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tumagöngur

Tumi sýndi mér þann vináttuvott á hverju kvöldi í 15 ár að fallast á að ég fengi að fara út með honum að ganga. Hann dró mig á eftir sér í ól og beið ævinlega rólegur ef ég þvældist frá honum eða villtist. Hann tók því einnig með jafnaðargeði þegar ég ræddi við hann um hvaðeina sem lá mér á hjarta í þessum gönguferðum og átti það stundum til að rjúfa einræðu mína með skarplegum athugasemdum. Nú er Tumi allur. Hann hefur hvílt í tvö og hálft ár undir björkum í Marteinsseli. Ég fer samt enn í Tumagöngu á hverju kvöldi. Ég skrafa enn upphátt við sjálfan mig og Tumi skýtur inn einu og einu orði. Ég finn hvernig hann togar í mig í ólinni á eftir sér. Ég þykist vita hvert við erum báðir að fara.

Höfundur

Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 480

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband