40. Tumaganga með gestum á Klámsögu

  

            Við Tumi eigum það sameiginlegt að vera báðir komnir á þann aldur þegar náttúran er farin að losa hreðjatökin sem hún hefur á karldýrum á meðan þau þykja vænleg vegna líkamsburða til að vernda kvendýr og ungviði og verja hvor tveggja gegn ásókn annarra karldýra. Af þeim sökum áttum við áðan á göngu okkar um Kópavogsdalinn að geta rætt bæði af yfirvegun og ástríðuleysi um yfirvofandi svonefnda klámráðstefnu á Íslandi í byrjun mars. Ég var samt eilítið hikandi að impra á þessu umræðuefni við Tuma. Ég veit sem er að Tumi var ekki barnanna bestur á sinni tíð, þegar hormónin voru að egna hann til fróunarleikja af ýmsu tagi, úti í móa og í barnaafmælum, og málið honum viðkvæmt. Hann brást líka við eins og mig grunaði þegar ég innti hann eftir hvað honum þætti um að halda klámráðstefnu í Reykjavík.
            - Mér finnst það forkastanlegt, ansaði hann og hristi sig duglega af hryllingi. Það á að banna svona fólki að koma inn í landið. Það getur stundað sitt fallus-gong-ding-dong annars staðar en á Íslandi.
            En það hefur jafnvel Vestur-Íslendingur boðað komu sína á ráðstefnuna, sonur landvers og skers og einhvers.
            - Hann er örugglega ekki rétt feðraður. Þetta er soralýður. Þeir ætla jafnvel að halda þessa ráðstefnu í sama sal og Framsóknarflokkurinn! Hver getur hugsað sér slíkt nema þá einhver sem er búinn að brjóta af sér alla siðferðilega mælikvarða!
            Er þetta ekki tómur tvískinnungur hjá þér, Tumi. Ég man ekki betur en að þú hafir nú haft lúmskt gaman af hinu og þessu sem fellur ekki beint í kramið hjá femínistunum. Það eru ekki svo mörg ár síðan að ég fann einhver blöð í skúffunni hjá þér. Þú værir líka örugglega að snuðra inn á vafasömum síðum á Netinu og ekki bara á heimasíðu Framsóknarflokksins ef ég hefði verið svo vitlaus að setja ekki á barnalæsingu.
            - Margur heldur mig sig, hreytti Tumi út úr sér. Þetta er ekki svaravert!
            Nú var það ég sem nam snögglega staðar og festi beittar sjónir framan í hundskvikindið.
            Þú ert þó ekki að gefa í skyn að ég hafi legið yfir nektarmyndum af kvenfólki í blöðum, stolist með félögunum inn á klámbúllur í gamla daga og slafrað í mig óhroða af klámrásum í sjónvarpi í hótelherbergjum erlendis eins og örþreyttur útrásargreifi eftir viðskipti dagsins?! Ertu að gefa það í skyn! Þekkirðu mig ekki betur en það eftir fimmtán ár!?
            Tumi titraði á öllum sínum fjórum fótum og lét skottið lafa.
            - Nei, nei, Jón, ég veit að þú hefur aldrei verið þannig, svoleiðis meina ég eða eitthvað í þá áttina, þú skilur.
            Nei, ég hef aldrei verið þannig, svaraði ég. Og ég þekki nánast engan, að minnsta kosti engan Íslending sem hefur verið þannig. Ég átta mig sannast sagna ekki á því á hverju þessi klámiðnaður þrífst. Hann hefur ekki fengið eina einustu krónu frá mér.
            - Ekki frá mér heldur, skaut Tumi inní, mjóróma. Ég fékk einu sinni blað gefins... en ég fleygði því strax.
            Við röltum áfram í áttina að Fífunni. Við vorum komnir undir gaflinn á þessari ægistóru æskulýðshöll þegar ég rauf vandræðalega þögnina.
            Ég er þér sammála, Tumi, það er forkastanlegt að halda svona klámráðstefnu á Íslandi. Stjórnvöld verða að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir þetta. Þó að risið sé lágt á Framsóknarmönnum er óþarfi að ganga svo langt að neyða þá og Bjarna Harðar til að halda flokksþing á Klámsögu.
            En Tumi svaraði engu. Hann var upptekinn af að virða fyrir sér snotra tík sem skokkaði yfir planið framan við Fífuna, eggjandi í spori í ólinni á undan húsbónda sínum.

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tumagöngur

Tumi sýndi mér þann vináttuvott á hverju kvöldi í 15 ár að fallast á að ég fengi að fara út með honum að ganga. Hann dró mig á eftir sér í ól og beið ævinlega rólegur ef ég þvældist frá honum eða villtist. Hann tók því einnig með jafnaðargeði þegar ég ræddi við hann um hvaðeina sem lá mér á hjarta í þessum gönguferðum og átti það stundum til að rjúfa einræðu mína með skarplegum athugasemdum. Nú er Tumi allur. Hann hefur hvílt í tvö og hálft ár undir björkum í Marteinsseli. Ég fer samt enn í Tumagöngu á hverju kvöldi. Ég skrafa enn upphátt við sjálfan mig og Tumi skýtur inn einu og einu orði. Ég finn hvernig hann togar í mig í ólinni á eftir sér. Ég þykist vita hvert við erum báðir að fara.

Höfundur

Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 480

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband