47. Tumaganga með merkingarlausri málamiðlun

  

            Nú í kvöld verður ekki litið svo á að staða samstarfsflokkanna í ríkisstjórn sé hótinu skárri eftir að lagt var fram á Alþingi frumvarp til stjórnskipunarlaga um eignarhald á auðlindum. Eftir að hafa hlýtt á Einar Odd Kristjánsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, lýsa því yfir oftar en einu sinni í Kastljósi Ríkisútvarpsins að ákvæðið skv. frumvarpinu sé merkingar­laust og breyti engu, verður vart hægt að segja annað en að staða stjórnarflokkanna sé orðin verri en áður; kannski er næst sanni að málamiðlunartilraun Geirs og Jóns sé - eftir nokkrar klukkustundir - orðin að hinu versta klúðri sem þjóðin hefur lengi orðið vitni að. Inntakið í orðum Einars Odds var að Framsóknarmenn hefðu hótað stjórnarslitum og þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu fallist á málamiðlun Geirs og Jóns vegna þess að ákvæðið, sem lagt væri til að fella í stjórnarskrána, væri merkingarlaust og breytti engu. Mér liði ekki vel sem þingmanni Sjálfstæðisflokks að þurfa að greiða atkvæði með frumvarpi til stjórn­skipunarlaga sem ég hefði sagt merkingarlaust. Mér liði ekki vel sem þingmanni Framsóknarflokks að þurfa segjast fullkomlega sáttur við niðurstöðu sem sjálf­stæðismenn segjast vera sáttir við af því að hún sé merkingarlaus og þjóni einungis þeim tilgangi að láta líta svo út að framsóknarmenn hafi náð ásættanlegum sigri í baráttu sinni fyrir því að ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum sjávar verði bundið í stjórnarskrá.
            Ósköp er hann hjáróma - í ljósi þess sem þjóðin varð vitni að í kvöld - formaður Framsóknarflokksins þegar haft er eftir honum um málamiðlunina að hún beri „vitni um þann vana í þessu stjórnarsamstarfi að vandamálin eru greind, þau eru tekin sem viðfangsefni, viðfangsefninu er breytt í úrlausn og úrlausnin verður fram­farir og umbætur fyrir alla þjóðina." Ætlast forystumenn ríkisstjórnarinnar til þess eftir uppákomuna í Kastljósi að þjóðin beri fyrir þeim meiri virðingu en þeir virðast bera fyrir stjórnarskránni? Er þessu stjórnarsamstarfi ekki hér með lokið ef framsókn­armenn bera einhvern vott af virðingu fyrir sjálfum sér? Eru þeir slík lítilmenni að láta kaupa sig með niðurstöðu sem félagar þeirra í ríkisstjórn segja að sé merkingarlaus og breyti engu? Átti formaður Framsóknarflokksins við slit á stjórnarsam­starfinu þegar hann talaði um úrlausn sem fæli í sér „framfarir og umbætur fyrir alla þjóðina"? Eða voru þau orð hans líka merkingarlaus og ekki til þess ætlast að þau breyttu neinu? Jón er laginn að fara í svörum sínum eins og köttur í kringum heitan graut - en hér varð honum á að brenna sig. Jón er ekki í öfundsverðri stöðu. Ætli Siv sé ánægð? Hún hótaði mest allra framsóknarmanna. Bjó þar eitthvað meira undir en ástríðufull sannfæring um að auðlindir sjávar ættu að vera sameign þjóðarinnar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tumagöngur

Tumi sýndi mér þann vináttuvott á hverju kvöldi í 15 ár að fallast á að ég fengi að fara út með honum að ganga. Hann dró mig á eftir sér í ól og beið ævinlega rólegur ef ég þvældist frá honum eða villtist. Hann tók því einnig með jafnaðargeði þegar ég ræddi við hann um hvaðeina sem lá mér á hjarta í þessum gönguferðum og átti það stundum til að rjúfa einræðu mína með skarplegum athugasemdum. Nú er Tumi allur. Hann hefur hvílt í tvö og hálft ár undir björkum í Marteinsseli. Ég fer samt enn í Tumagöngu á hverju kvöldi. Ég skrafa enn upphátt við sjálfan mig og Tumi skýtur inn einu og einu orði. Ég finn hvernig hann togar í mig í ólinni á eftir sér. Ég þykist vita hvert við erum báðir að fara.

Höfundur

Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 480

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband