8.3.2007 | 21:18
47. Tumaganga með merkingarlausri málamiðlun
Nú í kvöld verður ekki litið svo á að staða samstarfsflokkanna í ríkisstjórn sé hótinu skárri eftir að lagt var fram á Alþingi frumvarp til stjórnskipunarlaga um eignarhald á auðlindum. Eftir að hafa hlýtt á Einar Odd Kristjánsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, lýsa því yfir oftar en einu sinni í Kastljósi Ríkisútvarpsins að ákvæðið skv. frumvarpinu sé merkingarlaust og breyti engu, verður vart hægt að segja annað en að staða stjórnarflokkanna sé orðin verri en áður; kannski er næst sanni að málamiðlunartilraun Geirs og Jóns sé - eftir nokkrar klukkustundir - orðin að hinu versta klúðri sem þjóðin hefur lengi orðið vitni að. Inntakið í orðum Einars Odds var að Framsóknarmenn hefðu hótað stjórnarslitum og þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu fallist á málamiðlun Geirs og Jóns vegna þess að ákvæðið, sem lagt væri til að fella í stjórnarskrána, væri merkingarlaust og breytti engu. Mér liði ekki vel sem þingmanni Sjálfstæðisflokks að þurfa að greiða atkvæði með frumvarpi til stjórnskipunarlaga sem ég hefði sagt merkingarlaust. Mér liði ekki vel sem þingmanni Framsóknarflokks að þurfa segjast fullkomlega sáttur við niðurstöðu sem sjálfstæðismenn segjast vera sáttir við af því að hún sé merkingarlaus og þjóni einungis þeim tilgangi að láta líta svo út að framsóknarmenn hafi náð ásættanlegum sigri í baráttu sinni fyrir því að ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum sjávar verði bundið í stjórnarskrá.
Ósköp er hann hjáróma - í ljósi þess sem þjóðin varð vitni að í kvöld - formaður Framsóknarflokksins þegar haft er eftir honum um málamiðlunina að hún beri vitni um þann vana í þessu stjórnarsamstarfi að vandamálin eru greind, þau eru tekin sem viðfangsefni, viðfangsefninu er breytt í úrlausn og úrlausnin verður framfarir og umbætur fyrir alla þjóðina." Ætlast forystumenn ríkisstjórnarinnar til þess eftir uppákomuna í Kastljósi að þjóðin beri fyrir þeim meiri virðingu en þeir virðast bera fyrir stjórnarskránni? Er þessu stjórnarsamstarfi ekki hér með lokið ef framsóknarmenn bera einhvern vott af virðingu fyrir sjálfum sér? Eru þeir slík lítilmenni að láta kaupa sig með niðurstöðu sem félagar þeirra í ríkisstjórn segja að sé merkingarlaus og breyti engu? Átti formaður Framsóknarflokksins við slit á stjórnarsamstarfinu þegar hann talaði um úrlausn sem fæli í sér framfarir og umbætur fyrir alla þjóðina"? Eða voru þau orð hans líka merkingarlaus og ekki til þess ætlast að þau breyttu neinu? Jón er laginn að fara í svörum sínum eins og köttur í kringum heitan graut - en hér varð honum á að brenna sig. Jón er ekki í öfundsverðri stöðu. Ætli Siv sé ánægð? Hún hótaði mest allra framsóknarmanna. Bjó þar eitthvað meira undir en ástríðufull sannfæring um að auðlindir sjávar ættu að vera sameign þjóðarinnar?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Tumagöngur
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 480
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.