49. Tumaganga með eldhúsdagsumræðum

              Við Tumi vorum að kanna áðan hvort fyndust einhver merki um vor hérna niðri í Kópavogsdalnum. Ekki sáum við mörg dæmi um hin klassísku vortákn en byggingarkranar spretta upp eins og krókusar, nærðir af útlendum áburði, Pólverjum, Lettum og Eistum. Þó að enn sé bið í söngfuglana barst mikið klaktíst niður í dalinn og mátti heyra vængjaslátt og einstaka illskugarg. Við nánari eftirgrennslan varð mér ljóst að tístið barst til okkar frá gráu hamraborginni við Austurvöll þar sem menn eru nú sem óðast að klekja út frumvörpum áður en bjargið verður rýmt, hreiðrum kastað af syllunum og allt haft til reiðu fyrir kosningar í maí.

            Tumi kvaðst ekki hafa hlustað á eldhúsdagsumræður í gærkvöld. Hann hefur takmarkaðan áhuga á pólitík. Það kemur til af því að hann skilur illa mannamál; eins og flestir vita snýst pólitík meira um að segja eitthvað en að gera eitthvað.
            - Þetta hefur varla verið spennandi þáttur, bætti hann við.
            Ekki í heild, ansaði ég, en þó gætti spennu öðru hverju og ekki síst þegar þingforseti fór að slá í bjölluna undir ræðu hæstvirts þing­manns Ögmundar. Ég neita því ekki að ég var orðinn spenntur að sjá hvort þing­forseti yrði á endanum að slá kjuðanum í höfuðið á hæstvirtum þing­manni svo að hann hætti að mæra fósturjörðina og hina grænu og vænu framtíð. En þingmaðurinn slapp naumlega við höggið. Þetta var lengsta niðurlag á ræðu sem ég hef heyrt. Um tíma hélt ég að einhver utanað­komandi yrði að læðast upp að púltinu og hvísla í eyra hæstvirts þing­manns Ögmundar: „Ekki spyrja hverjum klukkan glymur; hún glymur þér." Ég dró andann léttar þegar Ögmundur var örugglega búinn.

            - Eitthvað annað sem þér fannst standa uppúr, spurði Tumi.
            Kjóllinn hennar Þorgerðar menntó. Hún var eins og paradísar­fugl innan um alla svartbakana, sannkallað vorblóm í skærum litum, stakk í stúf að þessu leyti; en hljóðin frá henni minntu leiðinlega á svart­bak. Og ég sé líka fyrir mér frísörinn á Kolbrúnu Hall­dórs; hann var sér á parti; greinilegt að hárgreiðslumeistarinn fékk ekki að vera í neinu stór­iðjustoppi þegar Kolbrún settist í stólinn hjá honum. Ég man ekki lengur hvað hún sagði.

            - En karlarnir, þeir hljóta sumir að hafa talað líka.
            Jú, jú, það sáust þarna dökk jakkaföt og bindi í púltinu. 24 prósentin virðast hafa virkað á Steingrím Sigfúss eins og róandi lyf. Hann var landsföðurlegur og talaði af blaði. Það var myglugræn slikja yfir ræðunni hjá honum. Steingrímur er eins og góður djass­leikari. Hann nær sér ekki á strik nema hann tali af fingrum fram og sé skaphiti í honum. En sá sem gekk lengst í því að reyna að fá mann til þess að hlusta á eitthvað sem er lífsins ómögulegt að hlusta á var Björgvin G. Hann var sífellt að tala um frjálslyndan jafnaðarmann. Þegar hann lauk máli sínu var ég orðinn þunglyndur jafnaðarmaður.

            - Var enginn með húmor í ræðunni hjá sér, spurði Tumi?
            Nei, þetta var alvarlegasta samkoma sem ég hef orðið vitni að í sjónvarpi í háa herrans tíð. Það var engu líkara en allir þingmenn væru við kistulagningu. Munnvikin á Guðna Ág náðu næstum niður á stól­armana. Nei, það var ekki pláss fyrir húmor á alþingi í gærkvöld. Nema að ræðan hjá formanni Framsóknarflokksins hafi verið ísmeygilegur húmor frá upphafi til enda? Hann talaði látlaust um Framsókn eins og hún væri stærsta stjórnmálaaflið í landinu, vaktari æðstu hugsjónanna og hinn eini sanni boðberi glæstrar framtíðar. Ég veit að Jón formaður hefur húmor. Ég hélt að hann ætlaðist til að vera tekinn alvarlega þarna á skjánum frammi fyrir alþjóð. En hann hlýtur að hafa verið gripinn óviðráðanlegri gamansemi og íróníu þegar hann setti þessa ræðu saman. Mér fannst hún a.m.k. leiftrandi af hárbeittum, írónískum húmor.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tumagöngur

Tumi sýndi mér þann vináttuvott á hverju kvöldi í 15 ár að fallast á að ég fengi að fara út með honum að ganga. Hann dró mig á eftir sér í ól og beið ævinlega rólegur ef ég þvældist frá honum eða villtist. Hann tók því einnig með jafnaðargeði þegar ég ræddi við hann um hvaðeina sem lá mér á hjarta í þessum gönguferðum og átti það stundum til að rjúfa einræðu mína með skarplegum athugasemdum. Nú er Tumi allur. Hann hefur hvílt í tvö og hálft ár undir björkum í Marteinsseli. Ég fer samt enn í Tumagöngu á hverju kvöldi. Ég skrafa enn upphátt við sjálfan mig og Tumi skýtur inn einu og einu orði. Ég finn hvernig hann togar í mig í ólinni á eftir sér. Ég þykist vita hvert við erum báðir að fara.

Höfundur

Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 480

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband