15.3.2007 | 18:41
49. Tumaganga með eldhúsdagsumræðum
Tumi kvaðst ekki hafa hlustað á eldhúsdagsumræður í gærkvöld. Hann hefur takmarkaðan áhuga á pólitík. Það kemur til af því að hann skilur illa mannamál; eins og flestir vita snýst pólitík meira um að segja eitthvað en að gera eitthvað.
- Þetta hefur varla verið spennandi þáttur, bætti hann við.
Ekki í heild, ansaði ég, en þó gætti spennu öðru hverju og ekki síst þegar þingforseti fór að slá í bjölluna undir ræðu hæstvirts þingmanns Ögmundar. Ég neita því ekki að ég var orðinn spenntur að sjá hvort þingforseti yrði á endanum að slá kjuðanum í höfuðið á hæstvirtum þingmanni svo að hann hætti að mæra fósturjörðina og hina grænu og vænu framtíð. En þingmaðurinn slapp naumlega við höggið. Þetta var lengsta niðurlag á ræðu sem ég hef heyrt. Um tíma hélt ég að einhver utanaðkomandi yrði að læðast upp að púltinu og hvísla í eyra hæstvirts þingmanns Ögmundar: Ekki spyrja hverjum klukkan glymur; hún glymur þér." Ég dró andann léttar þegar Ögmundur var örugglega búinn.
- Eitthvað annað sem þér fannst standa uppúr, spurði Tumi.
Kjóllinn hennar Þorgerðar menntó. Hún var eins og paradísarfugl innan um alla svartbakana, sannkallað vorblóm í skærum litum, stakk í stúf að þessu leyti; en hljóðin frá henni minntu leiðinlega á svartbak. Og ég sé líka fyrir mér frísörinn á Kolbrúnu Halldórs; hann var sér á parti; greinilegt að hárgreiðslumeistarinn fékk ekki að vera í neinu stóriðjustoppi þegar Kolbrún settist í stólinn hjá honum. Ég man ekki lengur hvað hún sagði.
- En karlarnir, þeir hljóta sumir að hafa talað líka.
Jú, jú, það sáust þarna dökk jakkaföt og bindi í púltinu. 24 prósentin virðast hafa virkað á Steingrím Sigfúss eins og róandi lyf. Hann var landsföðurlegur og talaði af blaði. Það var myglugræn slikja yfir ræðunni hjá honum. Steingrímur er eins og góður djassleikari. Hann nær sér ekki á strik nema hann tali af fingrum fram og sé skaphiti í honum. En sá sem gekk lengst í því að reyna að fá mann til þess að hlusta á eitthvað sem er lífsins ómögulegt að hlusta á var Björgvin G. Hann var sífellt að tala um frjálslyndan jafnaðarmann. Þegar hann lauk máli sínu var ég orðinn þunglyndur jafnaðarmaður.
- Var enginn með húmor í ræðunni hjá sér, spurði Tumi?
Nei, þetta var alvarlegasta samkoma sem ég hef orðið vitni að í sjónvarpi í háa herrans tíð. Það var engu líkara en allir þingmenn væru við kistulagningu. Munnvikin á Guðna Ág náðu næstum niður á stólarmana. Nei, það var ekki pláss fyrir húmor á alþingi í gærkvöld. Nema að ræðan hjá formanni Framsóknarflokksins hafi verið ísmeygilegur húmor frá upphafi til enda? Hann talaði látlaust um Framsókn eins og hún væri stærsta stjórnmálaaflið í landinu, vaktari æðstu hugsjónanna og hinn eini sanni boðberi glæstrar framtíðar. Ég veit að Jón formaður hefur húmor. Ég hélt að hann ætlaðist til að vera tekinn alvarlega þarna á skjánum frammi fyrir alþjóð. En hann hlýtur að hafa verið gripinn óviðráðanlegri gamansemi og íróníu þegar hann setti þessa ræðu saman. Mér fannst hún a.m.k. leiftrandi af hárbeittum, írónískum húmor.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:44 | Facebook
Um bloggið
Tumagöngur
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 480
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.