55. Tumaganga eftir brunann við Lækjartorg

              Ég er sammála Agli Helgasyni á visir.is þegar hann skrifar um húskumbald­ana sem brunnu á horni Lækjargötu og Austurstrætis á síðasta vetrardag. Þetta voru skrum­skældar leifar af fornminjum sem hafði verið sýnd þvílík vanvirða og skeyting­ar­leysi síðan um miðja síðustu öld að það er - þrátt fyrir allt - framfaraskref í sögu Kvosarinnar að höfuðskepn­urnar ákváðu loks að taka af skarið og fjarlægja þessa smán úr miðbænum.

            Af gömlum ljósmyndum má sjá að byggingarnar þarna á horninu voru bæjar­prýði í eina tíð. Þeir dagar eru löngu liðnir. Síðustu fjörutíu árin hefur verið níðst á húsunum með ýmsum hætti án þess að nokkur verndunarsinni eða fulltrúi borgaryfir­valda hreyfði andmælum - hvað þá að Reykvíkingar almennt væru að gera athuga­semdir við meðferðina á þessum „menningarverðmætum" eins og kumbaldarnir voru kallaðir hvað eftir annað í viðtölum í gær. Þarna tók ein sjoppan og búllan við af annarri og öllu umturnað í hvert skipti sem þurfti að skipta um virðis­aukaskattsnúmer. Framhliðar húsanna voru brennimerktar með glanna­legum söluskiltum og alþjóð­legum vörumerkjum og ég forðaðist að líta til húsanna þegar ég átti þarna leið framhjá.

            Eftir á að hyggja og úr því að dugmiklum afburðamönnum í slökkviliði höfuðborgarinnar tókst að afstýra mögulegum, hörmulegum afleiðingum af stórbruna í miðbæ Reykjavíkur og einangra tjónið við húsin á horninu, getur maður leyft sér að halda því fram að bruninn hafi verið lán í óláni. Nú gefst tækifæri til að reisa þarna á horninu nýjar og fallegar byggingar þar sem má þætta saman nútíma og liðna tíð. Nú gefst tækifæri til að flíkka upp á Lækjartorg. Nú gefst tækifæri til að fylla upp í gapið á milli steingaflanna á Iðuhúsinu og Eymundssonarhúsinu og skapa heildstæðan flöt þarna á horninu sem gleður augað. Því að í framhaldi af þessu er að sjálfsögðu einsýnt að menn rífa Hressingarskálann sem er líka afskræmd leif frá gömlum tíma og er löngu orðið brýnt að láta hverfa.

 

                             


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tumagöngur

Tumi sýndi mér þann vináttuvott á hverju kvöldi í 15 ár að fallast á að ég fengi að fara út með honum að ganga. Hann dró mig á eftir sér í ól og beið ævinlega rólegur ef ég þvældist frá honum eða villtist. Hann tók því einnig með jafnaðargeði þegar ég ræddi við hann um hvaðeina sem lá mér á hjarta í þessum gönguferðum og átti það stundum til að rjúfa einræðu mína með skarplegum athugasemdum. Nú er Tumi allur. Hann hefur hvílt í tvö og hálft ár undir björkum í Marteinsseli. Ég fer samt enn í Tumagöngu á hverju kvöldi. Ég skrafa enn upphátt við sjálfan mig og Tumi skýtur inn einu og einu orði. Ég finn hvernig hann togar í mig í ólinni á eftir sér. Ég þykist vita hvert við erum báðir að fara.

Höfundur

Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 480

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband