27.9.2007 | 15:12
64. Tumaganga eftir Noregsumferð
Dvaldist nokkra daga um helgina í Osló. Hún er falleg borg og Norðmenn þægilegir heim að sækja. Ég hef ekki komið þarna í aldarfjórðung eða svo. Vakti sérstaka athygli mína hversu almenningssamgöngum er vel háttað í Osló, neðanjarðarlestar, ofanjarðarlestar, ferjur, sporvagnar og strætisvagnar. Umferð í miðborginni óvenju fyrirferðarlítil með hliðsjón af að í Osló búa meira en hálf miljón manna og séu nágrannabyggðir teknar með í myndina eru íbúar á Oslóarsvæðinu um ein miljón manna. Umferðarmannvirki, jarðgöng og umferðarstokkar í jörðu í miðborginni bera þess greinilega merki að Norðmenn hafa úr drjúgum sjóðum að moka. Loftið hreint, ekki umferðaröngþveiti á götum borgarinnar. Svo kemur maður hingað heim - á höfuðborgarsvæðið - og manni verður ljóst hvílíkt ófremdarástand ríkir í umferðarmálum hérna og hvílíkt fyrirhyggjuleysi og óstjórn hafa nánast þurrkað út almenningssamgöngur, sama hvaða flokkar hafa átt í hlut. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru að drukkna í bílum og sitja fastir í löngum röðum á leið sinni til og frá vinnu. Á meðan er verið að greiða fyrir umferð nokkura bíla með miljarðaframkvæmdum á milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, verið að tala um göng undir fjallkjálka hingað og þangað til að tengja saman byggðir þar sem allir eru að flosna upp..... Er nokkuð skrýtið þó að maður sé að sannfærast um það betur og betur að Ísland er nánast eins og lítill og lélegur brandari. En þetta er kannski of kaldhæðnislegt. Hjá mörgu launafólki hér á landi, hvort sem það er íslenskt eða erlent, er íslensk tilvera smám saman að verða sorgleg og óyfirstíganleg staðreynd.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:29 | Facebook
Um bloggið
Tumagöngur
Tumi sýndi mér þann vináttuvott á hverju kvöldi í 15 ár að fallast á að ég fengi að fara út með honum að ganga. Hann dró mig á eftir sér í ól og beið ævinlega rólegur ef ég þvældist frá honum eða villtist. Hann tók því einnig með jafnaðargeði þegar ég ræddi við hann um hvaðeina sem lá mér á hjarta í þessum gönguferðum og átti það stundum til að rjúfa einræðu mína með skarplegum athugasemdum. Nú er Tumi allur. Hann hefur hvílt í tvö og hálft ár undir björkum í Marteinsseli. Ég fer samt enn í Tumagöngu á hverju kvöldi. Ég skrafa enn upphátt við sjálfan mig og Tumi skýtur inn einu og einu orði. Ég finn hvernig hann togar í mig í ólinni á eftir sér. Ég þykist vita hvert við erum báðir að fara.
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.