66. Tumaganga með A Taste of Iceland

Fékk að kynnast matargerð liðinna kynslóða í Icelandairþotu á leið frá Noregi til Íslands á mánudaginn. Ekki svo að skilja að um hafi verið að ræða mat, sem var tilreiddur samkvæmt uppskrift frá fyrri öldum, heldur var hér um að ræða mat sem var raunverulega frá fyrri öldum. Ég verð að segja eins og er að ég hafði ekki hugmynd um að Icelandair væri farið í samvinnu við Fornleifastofnun að stunda fornleifaupp­gröft í rusla- og frákastshaugum við forna mannabú­staði á Íslandi. Þetta kom því óneitan­lega á óvart. Matarfornleifafræði er vaxandi fræðigrein og til fyrirmyndar hjá Icelandair að vilja leggja henni lið með einhverjum hætti. Þetta sýnis­horn af fornmat (sem var án efa mjög dýrmætt með hliðsjón af aldri) var borið fyrir mig í öskju sem á var letrað „A Taste of Iceland”. Ég verð að játa að ég opnaði öskjuna með titrandi fingrum því að í þjóðminjasöfnum eru svona gersemar venjulegast hafðar í glerskáp­um, vörðum með leysi­geislum, og stranglega bannað að snerta við þeim. Í öskjunni reyndist svo vera einhver brúnleit spor­öskjulaga klessa sem minnti einna helst á smjör­horn eða croissant eins og það heitir á frönsku. Engar skýringar fylgdu með þessu, hvorki t.d. um fundarstað, fundarár eða frá hvaða tíma væri talið að þessi matarfornleif væri. Ég verð að segja að þetta kom verulega á óvart. Ég hafði aldrei látið mér detta í hug að Íslendingar hefðu búið til eitthvað í líkingu við frönsk croissant á fyrri öldum. En svona veit maður lítið um tengsl á milli Íslands og meginlands Evrópu á fyrri tíð. - Í flugvélinni voru a.m.k. 40 kínverskir ferðamenn. Þeir fengu einnig „A Taste of Iceland”. Sumir þeirra brögðuðu meira að segja á þessum fornaldardýrgrip, væntanlega svolítið forvitnir að kynnast brauðmat sem var tilreiddur um svipað leyti og víkingar fundu norðurströnd Ameríku. Ég bragðaði hins vegar ekki á mínu sýnishorni. Ég get barasta ekki fengið mig til að borða fornleifar sem hafa ómetanlegt gildi. - Svona undir lokin get ég svo ekki stillt mig um að nefna að í sælgætisdeildinni í komufrí­höfninni í Leifsstöð virðist einnig ríkja nokkur áhugi á að kynna matarfornleifa­fræði fyrir viðskiptavinum. Þessir tveir eða þrír inn­flytjendur erlends sælgætis á Íslandi virðast safna saman í gáma öllum sætindum, sem eru að komast á síðasta söludag eftir tvö til þrjú ár í verslunum, og moka þeim í tonnavís inn í komufríhöfnina í Leifsstöð. Ég hvet komufarþega til Íslands til að láta þessa sælgætishauga vera - nema þeir hafi auðvitað áhuga á að fá að kynnast hvernig sælgæti var búið til í Bandaríkjunum og Evrópu áður en innrásin var gerð í Írak.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tumagöngur

Tumi sýndi mér þann vináttuvott á hverju kvöldi í 15 ár að fallast á að ég fengi að fara út með honum að ganga. Hann dró mig á eftir sér í ól og beið ævinlega rólegur ef ég þvældist frá honum eða villtist. Hann tók því einnig með jafnaðargeði þegar ég ræddi við hann um hvaðeina sem lá mér á hjarta í þessum gönguferðum og átti það stundum til að rjúfa einræðu mína með skarplegum athugasemdum. Nú er Tumi allur. Hann hefur hvílt í tvö og hálft ár undir björkum í Marteinsseli. Ég fer samt enn í Tumagöngu á hverju kvöldi. Ég skrafa enn upphátt við sjálfan mig og Tumi skýtur inn einu og einu orði. Ég finn hvernig hann togar í mig í ólinni á eftir sér. Ég þykist vita hvert við erum báðir að fara.

Höfundur

Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband