67. Tumaganga með þáttaskilum í borgarstjórn

 

Þau stórtíðindi urðu í íslenskum stjórnmálum í dag að slitnaði upp úr meirihluta­samstarfi Sjálfstæðisflokks og Fram­sóknar í borgarstjórn Reykjavíkur. Ljóst er af fréttum á visir.is að það var eins og mig grunaði að gamlir framsóknarrefir stóðu á bak við þá leik­stýrðu framvindu mála að láta Björn Inga slíta samstarfi við Sjálf­stæðisflokkinn, Alfreð Þorsteinsson hefur að heita má játað því að hann hafi komið þarna við sögu (eflaust í nánu samráði við formann sinn og þingmenn flokksins). Sjálfstæðismenn úr röðum borgarfulltrúa tönnlast nú á því að þeir hafi ekki talið það samræmast almannahagsmunum eða hagsmunum Reykvíkinga að OR tæki þátt í áhætturekstri - eins og þeir kalla „útrásina" núna. Þess vegna hafi þeir viljað selja hlut OR í REI strax. Um þetta eru greinilega ekki allir sammála í Sjálfstæðisflokknum. Þorgerður Katrín spurði í Silfri Egils á sunnudag hvað lægi svona á að selja - menn ættu að bíða eftir lagaramma og reglum o.s.frv. Gísli Marteinn sagði svo í kvöld að stofnun REI hefði frá upphafi verið hugsuð til þess að losa OR út úr áhætturekstri. Það er stórfurðurleg fullyrðing í ljósi þess að Villi Þonn hafði aldrei hugsað sér að selja neinn hlut OR í REI - fyrr en hann var neyddur á þá skoðun af meðreiðarfólki sínu í borgarstjórn. Myndun nýja meirihlutans í borgarstjórn grundvallast á þeirri sameigin­legu skoðun allra flokka, sem þau eru fulltrúar fyrir, að þjóni ekki hagsmunum al­mennings að selja hlut OR í REI vegna þess að með þeirri gjörð verður spekúlöntum á borð við Hannes Smárason fengið óskorað vald yfir orkulindum á Reykjanesskaga og í Borgarfirði. Sala nú - áður en búið er að setja löggjöf um nýtingu orkulinda í eigu þjóðarinnar og hvernig einkaaðilar geti komið að henni - er einfaldlega upphafið á nánast stjórnlausri einkavæðingu þessarar dýrmætu auðlindar í þágu nokkurra fjárplógsmanna. Allt tal borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Villa Þonn um að afstaða þeirra til sölu mótist af umhyggju með almannahags­munum er tómt yfirklór og ógeðfellt að hlusta á þessa tuggu af vörum þeirra aftur og aftur í viðtölum. Bráðri hættu á einkaeignarvæð­ingu auðlindanna hefur verið bægt frá um stundarsakir en ógjörningur að spá hver verður framvinda mála. Raunverulegt eignarhald og yfirráð yfir orkulindum þjóðarinnar er grundvallaratriði sem tekist er á um í íslenskum stjórnmálum þessa dagana. Ekki kæmi mér á óvart þó að leikstjórar væru að velta fyrir sér að líta inn baksviðs á alþingi.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tumagöngur

Tumi sýndi mér þann vináttuvott á hverju kvöldi í 15 ár að fallast á að ég fengi að fara út með honum að ganga. Hann dró mig á eftir sér í ól og beið ævinlega rólegur ef ég þvældist frá honum eða villtist. Hann tók því einnig með jafnaðargeði þegar ég ræddi við hann um hvaðeina sem lá mér á hjarta í þessum gönguferðum og átti það stundum til að rjúfa einræðu mína með skarplegum athugasemdum. Nú er Tumi allur. Hann hefur hvílt í tvö og hálft ár undir björkum í Marteinsseli. Ég fer samt enn í Tumagöngu á hverju kvöldi. Ég skrafa enn upphátt við sjálfan mig og Tumi skýtur inn einu og einu orði. Ég finn hvernig hann togar í mig í ólinni á eftir sér. Ég þykist vita hvert við erum báðir að fara.

Höfundur

Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband