13.12.2006 | 21:52
1. Tumaganga, 13.12.2006, í stilltu veðri og vægu frosti.
Hefurðu heyrt talað um ferskeytluvind"? Hefurðu heyrt sagt um einhvern að hann hafi leyst ferskeytluvind?"
Það hef ég aldrei heyrt."
Halldór Blöndal leysir stundum ferskeytluvind. Ég á það líka til. Ræð ekki við það. Ég ræð ekki við rímgáfuna. Ég er ofurseldur sömu örlögum og Halldór Blöndal. Þetta kemur ósjálfrátt. Er oftast nær tómt prump. Þetta datt út úr mér í gærkvöld eftir Kastljósið - og nú syngja allir með:
Solla var á bláum kjól og Geiri í dökkum sjút.
Sigmar var með áhyggjur og setti á sig stút....
Ég týndi framhaldinu. Eða bragliðafreturinn var svo ógreinilegur í endann að ég náði honum ekki.
Það má þakka fyrir það. Þetta var leirburður og rangt kveðið."
En ég sé ennþá fyrir mér Sollu og Geira þar sem þau sátu hvort gegn öðru í Kastljósinu eins og nú ættu að fara fram úrslit í störukeppni sjónvarpsins. Sigmar var með svip á alvörustigi þrjú; þá bítur hann saman vörunum eins og litli frændi minn þegar hann vill ekki taka inn lýsið sitt. Stundum var Geiri svo fjarrænn á svip, jafnvel dreymilegur, að kæmi til greina að hann hafi verið að velta fyrir sér hvernig Solla væri innanundir bláa kjólnum.
Þetta er alrangt hjá þér. Hann var að raula með sér í huganum tenórröddina í Uppsala er bäst."
Solla virtist vera búin að sjá innundir sjútinn á Geira og hún brosti góðlátlega, stundum.
Já, tókstu eftir hvernig hún var alltaf að brosa. Hún hefði örugglega valtað yfir forsætsiráðherra í samtalinu ef hún hefði sleppt því að brosa og sett upp í staðinn lesgleraugun og skólastýruskeifuna."
Þau störðu hvort annað í hel og áhorfendur líka. Þau voru að ræða um fátæk börn á Íslandi. Það er nýr vinkill á umræðunni um aðför kapítalista að íslensku samfélagi. Vinstrimenn eru að reyna sannfæra Flíslendinga um að íslenskir kjósendur séu að búa til vont samfélag með því að koma Sjálfstæðisflokki til valda í hverjum einustu kosningum. Fyrr á þessu ári var reynt að sýna kjósendum fram á þetta með því að tala um fátækt, gamalt fólk. Ekkert hrín á íslenska kjósendur. Þeir virðast staðráðnir í að búa til enn meiri ójöfnuð. Þeir virðast halda að allir græði á því. Ég veit ekki hvaða áróðurssnillingi hefur tekist að sannfæra þá um það. Geiri sagðist ekki þekkja nokkurn mann sem vildi að börn væru fátæk. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins vilja auðvitað ekki að börn séu fátæk. En þeir amast kannski ekki við því fremur en Davíð og Halldór ömuðust við því þegar Búss og Bler réðust inn í Írak til að frelsa heiminn. Stundum verður að gera fleira en gott þykir til að frelsa kapítalið svo að það rati ekki í vitlausar hendur.
Foreldrar eru líka fátækir. En það er áhrifameira að tala um börnin en foreldra þeirra. Svona rétt fyrir jólin. Leyfið börnunum að koma til mín, segja farsímafyrirtækin. Allir tárast þegar þeir heyra söguna um litlu stúlkuna með eldspýturnar. Hún var dönsk. Hún átti í heima í Kaupmannahöfn laust eftir miðja 19. öld. Þá var danskt samfélag útbíað af meinsemdum og kaunum hins óhefta kapítalisma. Margt hefur breyst þar síðan. Og margt er líka að breytast hér. Við skulum amast við því áður en illa fer. Nú fást hvergi almennilegar eldspýtur nema í Bristol í Bankastræti. Hvar eru litlu stúlkurnar?
..... ........ ...... ......!"
Nei, ég trúi því ekki. Það getur ekki verið.
*******************
sjútur, -s, ar, no.kk.: jakkaföt (nýmyndun eftir e. orðinu suit").
sjútaður lo.: klæddur í jakkaföt
---------------------------
Um bloggið
Tumagöngur
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 480
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.