14.12.2006 | 21:38
2. Tumaganga, 14.12.2006, í hæglætisveðri með olíuforstjórum.
Löggjöf getur oft verið ófullkomin og þvælst fyrir mönnum sem vilja framfylgja réttlætinu. Nú draga lögfróðir menn í efa og þeirra á meðal lærifaðir í lögfræði við Háskóla Íslands að í Samkeppnislögum sé að finna heimild til að sækja einstaklinga til refsingar vegna brota á ákvæðum 10. greinar laganna. Í greininni sé einvörðungu rætt um fyrirtæki, sbr. upphafsmálsgrein hennar: Allir samningar og samþykktir milli fyrirtækja, hvort heldur þær eru bindandi eða leiðbeinandi, og samstilltar aðgerðir sem hafa að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún sé takmörkuð eða henni raskað eru bannaðar." Ríkissaksóknari hefur birt fyrrverandi forstjórum olíufélaganna ákæru vegna brota á 10. grein. Með ákærunni fylgja gögn sem sýna að þessi tilteknu einstaklingar höfðu forgöngu um og stjórnuðu verknaðinum sem ákært er fyrir. Í orðskýringakafla Samkeppnislaga er tilgreint að í lögunum merki orðið fyrirtæki" einstakling, félag, opinberan aðila eða aðra sem stunda atvinnurekstur. Saksóknari telur greinilega rétt að láta reyna á það fyrir dómstólum hvort ekki sé mögulegt á grundvelli 10. greinar að koma fram refsiábyrgð á hendur þessum forstjórum olíufélaganna í ljósi þess að orðið fyrirtæki" nái skv. lögunum til einstaklinga sem stundi atvinnurekstur. Spurningin er væntanlega sú hvort forstjóri fyrirtækis geti skv. almennri málvenju og almennum skilningi fólks á orðinu talist einstaklingur sem stundar atvinnurekstur. Þeir sem telja vafa bundið að lögsækja olíuforstjórana benda líklegast á að það sé fyrirtækið eða félagið, sem stundi atvinnurekstur, en forstjórinn stjórni fyrirtækinu eða félaginu en geti ekki skv. viðteknum skilningi talist einstaklingur sem stundi atvinnurekstur.
Í Samkeppnislögum er fangelsisvist eitt af viðurlögum sem nefnd eru vegna brota á lögunum. Nú verða aðeins einstaklingar settir í fangelsi og þegar brotin varða 10. greinina þá aðeins einstaklingar sem stunda atvinnurekstur. Maður sem á fyrirtæki eða hlut í fyrirtæki og tekur jafnframt mikilvægar ákvarðanir um rekstur þess, hvort sem hann er forstjóri þess eða situr í stjórn þess, hlýtur að teljast einstaklingur sem stundar atvinnurekstur í skilningi laganna. Ákvæði 10. gr. hljóta því að ná til hans sem einstaklings með hliðsjón af merkingarskýringu laganna á orðinu fyrirtæki". Ef til vill á það eftir að ráða talsverðu um niðurstöðu málsins, sem nú hefur verið höfðað á hendur fyrrverandi forstjórum olíufélaganna, hvort þeir áttu hlut í félögunum, sem þeir stjórnuðu, á þeim tíma sem ætluð brot voru framin.
Um bloggið
Tumagöngur
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 480
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.