3. Tumaganga, 15.12.2006, á góðum Degi með Birni Inga

Mig hefur lengi dreymt um að taka að mér stundakennslu í Háskóla Reykjavíkur. Ég hef verið að gæla við þessa hugmynd vegna þess að ég hélt að væri nóg að vera í réttri klíku í viðkomandi fræðigrein og geta sýnt deildarforseta fram á að maður kynni nóg í greininni, sem maður ætlaði að fá að kenna, til þess að láta það líta svo út gagnvart umheiminum að maður kynni heilmikið. En nú er borin von að þessi draumur minn um stundakennslu við háskólann geti ræst. Ég hef ekki ráðstöfunarrétt yfir einni einustu lóð á höfuðborgarsvæðinu. Ég get þakkað Birni Inga Hrafnssyni þessa stöðu mála. Hann hefur leitt þjóðina í allan sannleika um að menn fá ekki aukastarf sem stundakennarar hjá Háskóla Reykjavíkur nema þeir geti látið háskólann fá í staðinn verðmætt byggingarland í höfuðborginni. Ég vissi ekki að háskólastjórnin væri svona útsmogin. Ég vissi ekki að háskólastjórnin væru svona gírug í byggingarlóðir. Ég get gleymt því að reyna að fá stundakennslu við Háskóla Reykjavíkur. Búið mál. For gettitt! "Heldurðu virkilega að Björn Ingi hafi verið segja satt - að þetta hafi verið svona þegar Dagur fékk stundakennsluna?" Það kemur fyrir bestu menn, jafnvel Framsóknarmenn þegar þeir gá ekki að sér, að þeir segi satt. Hverjum ætti annars að detta í hug að ráða Dag sem stundakennara? Og sástu ekki hvernig Dagur brást við? Hann varð í framan eins og suddalegur mánudagur eftir pöbbarölt og miðbæjarflandur síðan á föstudagskvöld. Björn bloggvíkingakappi sagði líka að hann hefði sjaldan séð jafn hnitmiðað millirifjahögg með vinstri á meðan sú hægri small á kjammanum. Hann ætti að vita það. Hann hefur verið í hringnum í áratugi. "Æ, taktu af mér ólina og leyfðu mér að hlaupa. Mér finnst einhver ólykt af þessu. Verð að fá meira af hreinu lofti." Ólykt og ekki ólykt. Háskóli Reykjavíkur er greinilega kominn á lóðarí. Kjartan Gunnarsson gæti þess vegna verið orðinn háskólarektor ef hann hefði ekki tekið gullið frá Villa Þonn fram yfir rektorstign. En ég get gleymt því að fá stundakennsluna. Það er kannski allt í besta lagi. Það er greinilega meira upp úr því að hafa að vera verktaki í 15 klukkustundir á viku hjá Faxaflóahöfnum. Ætli ég fari ekki bara í Framsóknarflokkinn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tumagöngur

Tumi sýndi mér þann vináttuvott á hverju kvöldi í 15 ár að fallast á að ég fengi að fara út með honum að ganga. Hann dró mig á eftir sér í ól og beið ævinlega rólegur ef ég þvældist frá honum eða villtist. Hann tók því einnig með jafnaðargeði þegar ég ræddi við hann um hvaðeina sem lá mér á hjarta í þessum gönguferðum og átti það stundum til að rjúfa einræðu mína með skarplegum athugasemdum. Nú er Tumi allur. Hann hefur hvílt í tvö og hálft ár undir björkum í Marteinsseli. Ég fer samt enn í Tumagöngu á hverju kvöldi. Ég skrafa enn upphátt við sjálfan mig og Tumi skýtur inn einu og einu orði. Ég finn hvernig hann togar í mig í ólinni á eftir sér. Ég þykist vita hvert við erum báðir að fara.

Höfundur

Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 480

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband