16.12.2006 | 20:07
4. Tumaganga, 16.12.2006, í vetrarblíðu með minnkandi tungli og Sigurjóni
Ritstjórinn raunum hryggi er rekinn af fjölmiðlatröllum, borinn út á hjarn fyrir önnur gráðug fjölmiðlatröll.
Ritstjórar og blaðamenn á Íslandi eru ekki öfundsverð hjörð. Tröll hafa menn sér til matar í helli sínum og hrækja þeim út úr sér ef þeim líkar ekki bragðið af skoðunum þeirra.
Ritstjórinn raunum hryggi boðaði útgáfu á nýju,íslensku blaði. Kollegi hans og þjáningarbróðir í íslenskum tröllmiðlahelli spurði ekki: Hvað stendur í blaðinu? Hann spurði: Hver stendur á bak við blaðið?
- Er það ekki stóra spurningin í hinum kapítalíska helli á Íslandi: Hvaða tröll á hvað? Ekki svo að skilja að þurfi að vera spyrja að því úr þessu mikið lengur. Eru það ekki átta eða tíu tröll og leppalúðar þeirra sem eru langt komin með að eignast alla skapaða hluti á Íslandi og hafa að auki eignast veð í sálum og lífi hvers einasta Flíslendings?
Mér hefði samt þótt eðlilegra að viðmælandi ritstjórans raunum hrygga hefði spurt hvað ætti að vera í nýja blaðinu, hvert yrði efni þess, hvernig efnistök, ritstjórnarstefna, jafnvel hvort blaðinu væri ætlað að fylgja einhverri tiltekinni afstöðu til þjóðmála. En að slíku er ekki lengur spurt í íslenskum tröllmiðlaheimi. Mér þykir það varhugavert ástand. Nú hafa menn einungis áhuga á að fá vita hvaða tröll eigi hin nýju hellistíðindi, hvaða Trunt Trunt hafi boðist til að fita hinn brottrekna ritstjóra. Það sýnir kannski betur en nokkuð annað hvort hefur orðið einhver framför í íslenskum tröllmiðlaheimi.
- Framför? Hvers vegna er alltaf verið að biðja um framför? Við bara fæðumst, lifum og deyjum. Afi hrökk upp af um daginn. Var það framför? Já, eiginlega. Það losnaði um leið íbúð sem rúmaði sjö Pólverja - og tíu ef þeir voru nógu fullir.
Ég er farinn að sakna gömlu flokksblaðanna. Og ég held að blaðamenn og ritstjórar nýju, íslensku blaðanna megi fara að velta fyrir sér hvort það sé í raun og veru einhvers virði - fyrir þá og fyrir okkur, hina Flíslendingana - að þeir skuli hafa tekið að sér þetta auvirðilega hlutverk sem fimmta varaaflið að snúast ævinlega í kringum tröll og auglýsendur.
Ég hef samúð með okkur, blaðalesendum, ritstjórum og blaðamönnum. Við erum öll - eins og stendur - týnd og tröllum gefin.
- Hver á þessa bloggsíðu annars?
Um bloggið
Tumagöngur
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 480
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.