7. Tumaganga um þjóðlendur með Standard, Púr og Árna Mattador

 

            Það blés svo skarpt á okkur í kvöld að Tumi vafraði hvað eftir annað til hliðar þar sem hann dró mig á eftir sér í ólinni.
            Er ekki allt í lagi, Tumagrey, svona rétt fyrir jólin?
            - Ætli þaðki, ansaði hann og leit snöggt aftur fyrir sig eins og til að fullvissa sig um að ég hefði ekki hrakist frá honum undan veðrinu. Ég vildi samt gjarnan merkja betur hérna utan í ljósastaurinn. Þetta voru ekki nema örfáir dropar hjá mér áðan.
            Farðu nú ekki of geyst í því, Tumi, að merkja þér blettinn hérna. Þetta gæti verið þjóðlenda.
            - Ég læt þá reyna á það fyrir dómstólum, sagði Tumi og lyfti löppinni við ljósastaurinn.
            Heldurðu að hafi eitthvað upp á sig fyrir þig, spurði ég, að grípa til varnar fyrir dómstólum?
            Tumi leit upp á mig, glotti sjálfbirgingslega og hristi sig.
            - Hannes Hólmsteinn er búinn að vinna öll sín mál. Dómaranir hljóta að gæta fyllsta réttlætis gagnvart mér eins og Hannesi. Annnars má ég hundur heita.
            En einmitt þar liggur hundurinn grafinn. Þú ert hundur, Tumi. Dómarar líta allt öðrum augum á hunda en menn. Það breytti öllu fyrir Hannes Hólm­stein.  Ég held að hundum sé hins vegar fátt til varnar og málsbóta fyrir dómstólum.
            - Ég fæ Gest Jónsson til að reka málið fyrir mig, ansaði Tumi hróðugur og skokkaði af stað. Gestur er pottþéttur verjandi. Það væri ekki enn komið að dómsuppkvaðningu yfir Axlar-Birni og Guy Fawkes ef Gestur hefði verið búinn að opna lögfræðistofu fyrir fjögurhundruð árum.
            Reyndu ekki að gera þér vonir um, Tumi, að Gestur fáist til að taka að sér máls­vörn fyrir þig. Hann stendur í svo viðamiklu málastappi að stórsér á honum. Hann er kominn með Baug undir augun.
            - Gestur finnur örugglega smugu fyrir mig, ansaði Tumi. Hann er hreint ótrúlega naskur á að finna smugur. Sérðu allar smugurnar sem hann er búinn að finna fyrir Jón Ásgeir.
            Já, en Jón Ásgeir er miljarðamæringur. Þú ert bara skosk-íslenskur blend­ingur og átt ekki neitt nema bælið þitt og jaskað bein. Þú þarft að rétta Gesti meira en eina hnútu ef þú vilt fá hann til að finna smugur fyrir þig.
            Tumi nam staðar, hugsi á svip. Svo sagði hann:
            - Ef þú gefur mér bjúga á aðfangadagskvöld ætla ég að geyma það handa Gesti.
            Heldurðu að Gestur Jónsson, hæstaréttarlögmaður, geri það fyrir eitt hundskvikindi að smeygja sér í svörtu skikkjuna með bláu bryddingunum fyrir eitt bjúga!? Ha! Ég er viss um að hann tekur andvirði eins bjúga fyrir það eitt að segja upphátt í réttarsal tvö orð, t.d. „Haraldur" og „Johannesen". Það kostaði þig örugglega hálft bjúga í viðbót að fá hann til að segja upphátt „ríkislögreglu­stjóri".
            - Fyrst þú minnist á Harald Johannesen, sagði Tumi eins og hann vildi eyða talinu um hugsanlega málsókn út af þjóðlendum. Það er illa komið fyrir honum núna. Mér er sagt að hann sé vanhæfur til að leggja dóm á jólasteik­ina á aðfangadagskvöld. Hann ætlar nefninlega að elda hana sjálfur. Það sér auðvitað hver heilvita maður - og ekki bara hann Gestur - að það verður ekkert að marka hvað Haraldi finnst um steikina. Ég tala ekki um ef hann hefur í ofanálag keypt steikina í Bónus.
            Við Tumi vorum komnir að andapollinum neðst í læknum í Kópavogs­dal sem Gunnar Birgis lét innrétta upp á nýtt þegar hann var á atkvæðaveiðum fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor. Á pollinum lónuðu nokkrar gæsir og endur en sáust engin atkvæði. Gunnar veiddi þau öll.
            Hvað finnst þér um Standard og Púr, spurði ég.
            - Mér finnst þeir hundfúlir þó að ég segi sjálfur frá, ansaði Tumi. Er hægt að hugsa sér nöturlegri jólajöf en svona lánshæfismat. Ég skil ekki hvaða upp­eldi þeir hafa fengið, þessir Standard og Púr. Það ætti að senda þá á meðferðar­heimili eða í Kastljósið til Þórhalls. Hvað á það að þýða að eyði­leggja jólin svona fyrir heilli þjóð!? Það verður sjón að sjá okkur með allt fráhneppt ef við týnum úrvalsvísitölunni!
            Árni Mattador sagði að það væri Alþingi að kenna að hefði hlaupið þessi fýla í Standard og Púr. Þingmenn hefðu samþykkt lagafrumvarp um lækkun matarskattsins sem hann lagði fyrir Alþingi. Hann hefði aldrei trúað því fyrir­fram að þingmenn væru svona vitlausir. Ef hann hefði grunað að þingmenn ætluðu að samþykkja frumvarpið hefði hann aldrei látið sér detta í hug að mæla fyrir því. En þeir samþykktu frumvarpið og þess vegna laumuðu Standard og Púr þessum jólaglaðningi í skóinn okkar. Ég dáist að Árna Mattador. Hann kemst alltaf að kjarna málsins.
            - Ég heyrði áðan, sagði Tumi, að Standard og Púr hefðu látið kartöflu í skóinn hjá Árna Mattador.
            Hvernig brást hann við því, spurði ég.
            - Hann á að hafa sagt að þetta væri ekki sinn skór.
            Datt mér ekki í hug, sagð ég, og við Tumi héldum áfram göngu okkar upp með Kópavogslæknum.   
              

  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tumagöngur

Tumi sýndi mér þann vináttuvott á hverju kvöldi í 15 ár að fallast á að ég fengi að fara út með honum að ganga. Hann dró mig á eftir sér í ól og beið ævinlega rólegur ef ég þvældist frá honum eða villtist. Hann tók því einnig með jafnaðargeði þegar ég ræddi við hann um hvaðeina sem lá mér á hjarta í þessum gönguferðum og átti það stundum til að rjúfa einræðu mína með skarplegum athugasemdum. Nú er Tumi allur. Hann hefur hvílt í tvö og hálft ár undir björkum í Marteinsseli. Ég fer samt enn í Tumagöngu á hverju kvöldi. Ég skrafa enn upphátt við sjálfan mig og Tumi skýtur inn einu og einu orði. Ég finn hvernig hann togar í mig í ólinni á eftir sér. Ég þykist vita hvert við erum báðir að fara.

Höfundur

Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 480

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband