31.12.2006 | 00:06
13. Tumaganga að Saddam Hussein gengnum
Sum andartök fletta af okkur ytra byrðinu, sneiða af okkur brynju valdhrokans, svipta okkur mikillæti lærdóms og reynslu, sneiða utan af okkur þóttskap, fánýtt persónuglingur, glys og titla og stundlegar mannvirðingar. Við verðum þá öll það sem við erum sameiginlega, menn, litlar leirskálar sem bera í sér líf frá kynslóð til kynslóðar.
Ytra byrðið féll af Saddam Hussein þar sem komið var fyrir honum eins og hundruðum þúsunda af fórnarlömbum hans - hann horfðist í augu við dauða sinn. Þegar ég horfði á andlit hans á því andartaki sem snörunni var brugðið um háls honum, sá ég ekki lengur harðstjórann, slóttugan, hefnigjarnan, blóðþyrstan og fullan af viðbjóði, heldur horfði ég á mann, venjulegan mann, steyptan í sama mót og við hin. Mér leið ekki vel. Þarna stóð maður. Hann var maður eins og ég. Hann stóð mér miklu nær en böðlarnir sem sáust á myndinni og báru svartar hettur. Þetta var óþægileg tilfinning. Það getur ekki verið siðferðilega rétt að skynja mannlega reisn og mannlegan harmleik þegar horft er á aftöku illvirkja sem hefur látið myrða köldu blóði hundruð þúsunda karla, kvenna og barna.
Alexander Solzhenitsyn komst að þeirri niðurstöðu eftir að hafa kynnst harðræði, þjáningum og dauða í sovéska Gúlaginu að hið illa og hið góða búi í hverjum manni. Þessi öfl hins illa og hins góða heyja sífellda baráttu um sál og vilja mannsins. Vígstaðan er svo jöfn að ekki verður séð fyrir um nokkurn einstakling hvort hið illa nái ekki að stjórna gjörðum hans. Það þarf ekki nema lítið lóð á vogarskál hins illa til að breyta góðum og heiðvirðum manneskjum í tilfinningakaldar ófreskjur.
Hið illa í veröldinni verður ekki hamið með því að taka einn illvirkja af lífi. Hið illa, sem býr í hverjum manni - ef við föllumst á skoðun Solzhenitsyns - verður því aðeins að hamið að við, hvert og eitt okkar, og samfélag manna reyni hvar sem er og hvenær sem er að hlú að hinu góða. Aftaka Saddams Husseins eða hvaða annars sakamanns sem er, hvort sem hann er Íraki, Kínverji eða Bandaríkjamaður, er ekki lóð á vogarskál hinna góðu afla. Hún er blóðhefnd, hún er illvirki. Hún er lítilsvirðing við réttlætistilfinningu þeirra sem vilja hlú að hinu góða. Það er ef til vill þess vegna sem ég fann ekki til neins léttis við það að sjá illvirkjann Saddam Hussein tekinn af lífi. Ég sá að tugir þúsunda manna glöddust þegar harðstjórinn spriklaði í snörunni. Ég skil líka hvers vegna þeir glöddust. En gleði þeirra átti sér rætur í hinu illa en ekki í hinu góða. Þess vegna var þetta dapurlegt á að horfa.
Þó olli mestri ókyrrð í brjóstinu að uppgötva þarna af myndunum að á dauðastundu sinni var Saddam Hussein maður eins og ég, eins og við hin.
Um bloggið
Tumagöngur
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 480
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Vel mælt!
Júlíus Valsson, 31.12.2006 kl. 00:48
það er víst alveg satt að illa í veröldinni verður ekki hamið með því að taka einn illvirkja af lífi. En það er ekki nóg að hlú að hinu góða í sjálfum sér. Það þarf líka að byggja upp þannig samfélög að illskan leiki þar ekki lausum hala og vopnaður ribbaldaskríll ráði ekki öllu.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 31.12.2006 kl. 00:59
Eins og út úr mínu hjarta talað.
Hlynur Þór Magnússon, 31.12.2006 kl. 01:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.