31.12.2006 | 17:14
14. Tumaganga í rökkrinu á gamlársdag
Jæja, Tumi minn. Þá styttist í áramótin. Hvernig hefur þér árið fundist? Hefurðu afrekað eitthvað sem er ástæða til að minnast á? Og ég á þá við eitthvað annað en þessar þrjár ástarnætur með tíkinni á Geysi sem voru auðvitað umtalsvert afrek hjá hundi á gamalsaldri en mér þykir sannast sagna engin ástæða til að fara að rifja upp einu sinni enn. Ég á til dæmis heldur við afrek eins og þegar þér tókst að hundskast þetta á eftir mér langleiðina upp að Skotmannsvörðu. Manstu eftir fleiri afrekum?
Tumi skokkaði þögull í drykklanga stund, hugsi á svip eins og hann væri að snusa innan um sellurnar í þokukenndum minningabankanum. Loks heyrðist hann muldra ofan í götuna: Nei, eiginlega ekki. Það er svona líkt á komið með okkur. Nema hvað ég hef aldrei heyrt þig ýja að því að þú hefðir átt ástarnótt á árinu, hvað þá þrjár eins og ég.
Fólk talar ekki um þessháttar, sagði ég. Og svo má líka halda því til haga að það var ekkert vitni að þessum ástarnóttum hjá þér. Þó að þú hafir látið annað í veðri vaka getur sannleikurinn allt eins verið sá að þú hafir einvörðungu elst við tíkina, blautur og hrakinn, og ekkert fengið út úr þessu nema sárið á eyrað og gigtina í afturlöppina.
- Ég hélt þú værir sjentílmaður, ansaði Tumi. Sjentílmaður gefur ekkert svona í skyn um annan sjentílmann.
Nei, það er rétt hjá þér. Ég skal heldur ekki minnast á það við nokkurn mann að þú ekur þér ýlfrandi á kviðnum undir stóra dívaninn í herberginu mínu þegar Flíslendingar gera loftárás á höfuðborgarsvæðið í umboði Flugbjörgunarsveitanna um miðnæturbil í kvöld.
- Þakka þér fyrir. Hvað yrði hugsað í sumum hundabælum í Tungunum ef það fréttist!
Þú ert þó ekki enn einu sinni að hugsa um hana?! Þú ætlar þó ekki enn einu sinni á næsta ári....?!
Tumi tók af mér orðið.
- Það gildir að vera bjartsýnn. Aldrei að vita hvað getur gerst á nýju ári.
Geturðu ekki sett þér háleitari markmið en þetta?
- Þið mannfólkið setjið ykkur stundum allt of háleit markmið. Það er ekki gæfulegt. Best að hugsa um það sem er næst okkur. Sá sem óskar sér of mikils, missir oft af því sem er meira um vert.
Það er með ólíkindum hvað þú getur verið skynsamur, Tumi. Eigum við þá að setja okkur sameiginlegt markmið á næsta ári?
- Já, ég legg til að við setjum okkur það markmið að ganga upp á Sandfell næsta sumar.
Við gerum það, svaraði ég. Við námum staðar á göngunni, litum svolítið upphafnir til himins og sögðum báðir í einu:
Upp á Sandfell næsta sumar!
Svo röltum við heim til að kveðja gamla árið.
Um bloggið
Tumagöngur
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 480
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.