3.1.2007 | 22:26
16. Tumaganga í leit að nýársnótt
Ég er enn að leita að nýársnótt í eldglæringum og skothríðardunum á höfuðborgarsvæðinu fyrir þremur sólarhringum. Ég hef á tilfinningunni að ég hafi týnt henni fljótlega eftir áramótaskaupið. Ég rótaði áðan í öskuhrúgu sem var einhverju sinni 20.000 króna skotterta. Þar fannst engin nýársnótt, einvörðungu sviðnir pappírsgöndlar, plastbútar og járnteinar úr stjörnuljósum. Ég skil þetta ekki. Ég á svo margar góðar minningar frá nýársnóttum hér áður fyrr. Ég man eftir tungli í skýjum, fólki við brennur, körlum að syngja Máninn hátt og Ólafur reið, dómkirkjuklukkum í útvarpinu og síðan Nú árið er liðið. Hvað hefur orðið um þetta allt? Getur verið að Landsbjörg sé búin að stela nýársnótt frá þjóðinni? Er ekki nóg að sjónvarpið skuli hafa hrifsað frá manni gamlárskvöld við áramótabrennu með misjafnlega brosvekjandi áramótaskaupum í fjörutíu ár?! Í fjörutíu ár! Að hugsa sér! Og maður sest enn niður til þess að hlæja ekki.
- Þú ert úr öllum takti við tímann, hnussaði í Tuma. Heldur áfram að nöldra svona um hver áramót. Þessi hálfdanska rómantík er passé. Álfar að dansa á svelli, tunglsljós og norðurljósavella - þetta er át, skilurðu. Fólk vill ekki frið, viðkvæmni og íhugun um áramót. Það vill hvelli, skelli og gauragang og síðan leigubíl í púðursvælu í næsta partý.
En það er öllum hollt að líta um öxl við áramót, hugsa til þeirra sem kvöddu á árinu fyrir fullt og fast og velta því fyrir sér hvernig maður sjálfur ætli að halda áfram að lifa.
- Flíslendingar eru margir held ég ekkert að velta fyrir sér lengur hvaðan þeir komu og hvert þeir eru að fara. Á nýársnótt takmarkast fortíðin hjá þeim flestum við síðasta greiðslutímabil hjá Visa og framtíðin miðast við næsta greiðslutímabil. Það kostar ekkert smáræði að sprengja frá sér allt vit.
Já, það má vel vera að ég sé á aldur við gamlan nýsköpunartogara. Já, já, ég á það til að hrökkva ósjálfrátt í plusquamperfectum þegar ég fer að rifja upp löngu liðnar nýársnætur. En mér finnst sjónarsviptir að álfum og draugum á nýársnótt. Það var eitthvað heillandi við það þegar þjóðin lét landið lifna við af yfirnáttúrlegum verum á þessari nótt hinnar illskiljanlegu nálægðar alls og einskis.
- Þú hlýtur þá að hafa fagnað því að mætir menn á Suðurlandi skuli hafa boðið álfum, draugum og tröllum að fá skjólshús á Stokkseyti?
Það er engin spurning, Tumi. Ég þekki vel til á Stokkseyri frá gamalli tíð og veit að þar er búið vel að álfum og draugum ef þeir koma ekki frá Eyrarbakka. Best þótti mér þó að forgöngumenn þessa þjóðþrifafyrirtækis skuli vera annars vegar maður, sem lifði einhverju sinni sem allaballi, og hins vegar eitt síðasta eintakið af sönnum, þjóðræknum Framsóknarmanni á Suðurlandi sem er ekki frá Brúnastöðum. Ég vona að setrið þeirra hafi fyllst af álfum og draugum á nýársnótt - og þá á ég við að þeir hafi ekki setið uppi eingöngu með sósíalistískar afturgöngur og svipi fyrrverandi kjósenda Framsóknarflokksins. En jafnvel þó að svo hafi verið er ég viss um að þeir hafa ekki týnt sinni nýársnótt í púðursvælu og nútíma eins og ég. Ég á örugglega eftir að leita mér skjóls hjá þeim á Stokkseyri þegar þar að kemur.
Um bloggið
Tumagöngur
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 480
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.