17. Tumaganga með pólitík í kollinum

 

            Enda þótt auðmenn hafi nú bæði tögl og hagldir í íslensku þjóðfélagi þykir mörgum einhvers um vert að í alþingiskosningum í vor færi kjósendur löggjafarvald og þar með framkvæmdavald úr höndum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þeir eru ekki ófáir sem hafa nú í kringum áramót látið í ljós þá von að tólf ára stjórnarferli þessara tveggja flokka muni ljúka eftir fimm mánuði. Þeir hafa spáð því í ræðu og riti að nýbyrjað ár verði um­skipta­ár í íslenskum stjórnmálum.
            Af síðustu skoðanakönnun Gallups má draga þá ályktun að stjórnar­andstaðan á Alþingi njóti fylgis um 55% kjósenda. Þessi hlutfallstala endur­speglar fremur hagsmuna- og valdabaráttu en mismunandi stjórnmálavið­horf. Frjálslyndi flokkurinn er græðlingur út af Sjálfstæðisflokki og hann sækir sér m.a. fylgi til hægrimanna á landsbyggðinni, sem báru skarðan hlut frá borði í kvóta­kerfinu, og til gamalla liðsmanna Sjálfstæðisflokks sem urðu þar undir í togstreitu við Davíð Oddsson og liðsheild hans. Eitthvað gæti svo slæðst inn í fylgi flokksins af framsóknarfólki sem er orðið ósátt við verk Framsóknar­flokksins í núverandi ríkisstjórn. Með hliðsjón af þessu má gera sér í hugarlund út frá niðurstöðum tilgreindrar skoðana­könnunar að hægrilæg markaðshyggja með forskriftir óhefts kapítalisma að leiðar­ljósi í efnahagsmálum sé grunnur að stjórnmálaviðhorfi rétt rúmlega helmings kjósenda, 52 til 53% atkvæðisbærra manna.
            Ef stjórnarandstaðan ætlar sér ein að mynda ríkisstjórn eftir næstu alþingiskosningar - og ef niðurstöður þeirra verða í líkingu við niðurstöður skoðanakannana nú - er ljóst að afrakstur stjórnarskipta verður fyrst og fremst að skipt verður um menn við valdatauma og alls ekki einsýnt að verulegar breyt­ingar verði í grundvallaratriðum á stjórnarstefnu þó að hún verði án efa öll mýkri. Enn sem fyrr vantar þá, sem hafa vinstrilæg stjórnmálaviðhorf á Íslandi, þann sam­eiginlega þunga sem þarf til að geta mótað stjórnarstefnu eftir sínu höfði og án málamiðlana við hægri-miðlæg eða jafnvel hægrilæg viðhorf.
            Það má halda því fram að síðasta skoðanakönnun Gallups bendi til þess að vinstrilæg stjórnmálaviðhorf njóti fylgis á að giska 42 - 45% kjósenda. (Við þessa hlutfallstölu má líklega bæta framsóknarmönnum með miðlæg fé­lagshyggjuviðhorf sem halda enn tryggð við Framsóknarflokkinn, kannski 3 eða 4%.) Það vantar því ekki nema nokkur prósentustig á fylgi vinstrilægra stjórn­málaflokka til að koma á verulegum umskiptum á Alþingi og í ráðuneytum. Það er því ekki að undra þó að ýmsir séu farnir að sjá fyrir sér örlagarík stjórnar­skipti eftir Alþingiskosningar í vor. En af því getur greinilega ekki orðið nema Samfylking fái verulega meira fylgi upp úr kjörkössunum en hún uppskar í skoðanakönnun Gallup í des­emberbyrjun. Forystusveit Samfylkingar á mikið verk fyrir höndum og vandasamt ef slíkt á að takast.
            Vinstri-grænir eru eini stjórnmálaflokkur á Íslandi sem fylgir eindreginni vinstri­stefnu. Könnun í desember gefur vísbendingu um að fylgi þessa flokks sé að nálgast fimmtung kjósenda og hlutur hans væntanlega ekki fjarri því sem var t.d. um Alþýðubanda­lagið í kosningum 1995 að viðbættum atkvæðum vinstri­manna sem greiddu þá Kvennalista atkvæði sitt. Ef vinstri-grænir halda vel á málum fram að kosningum er ekki ólíklegt að þeir nái að halda þessu tæpa fimmt­ungsfylgi.
            Samfylking er um margt farin að minna á borgaralegan sósíal-demókrat­ískan flokk - í líkingu við slíka flokka annars staðar á Norðurlöndum - í bland við Verkamannaflokkinn breska. Könnunin í desember bendir til að hlutur Sam­fylkingar sé nú um fjórðungur kjósenda. For­ystumenn flokksins hafa ekki farið í launkofa með að þeim þykir þetta rýr hlutur, að þeir vildu hafa fylgi á að giska þriðjungs kjósenda. Fylgi gamla Alþýðuflokksins var rúm 15% árið 1991 og tæp 11,5% í kosningunum 1995. Má þannig leika sér með þá ágiskun að hlutur Alþýðuflokks í fylgi Samfylk­ingar nú sé rúmur helmingur 25 prósentanna, en hinn helming­urinn sé fylgi alþýðubandalagsmanna, sem vildu af alhug sameina vinstrimenn og félags­hyggjufólk á Íslandi, og að auki brot af fylgi Kvenna­listans í eina tíð og eitthvert óánægju­fylgi frá gömlu framsóknarfólki. Ljóst er, ef marka má skoðanakannanir Gallup, að Vinstri-grænir hafa verið að taka til sín fylgi frá Samfylkingu og af því leiðir að vægi og þar með áhrif alþýðu­flokksmanna hafa verið að aukast í flokknum. Nú er ógjörningur að sjá fyrir hvort Samfylkingu tekst að rétta hlut sinn. Til þess þarf hún án efa að ná í fylgi aftur frá Vinstri-grænum, ná að höfða til þeirra, sem ganga nú að kjörborði í fyrsta skipti, og að ná til sín fylgi frá félagshyggjusinnuðum og óánægðum kjósendum Framsókn­arflokks. Eins og staðan er nú er óvíst hvort þetta tekst hjá Samfylkingu. Innan flokksins er einhver ágrein­ingur, ágreiningur um málefni, um stefnu, um völd, ágreiningur sem forystumenn í flokknum hafa ekki enn náð að leysa og verður til þess að flokkinn vantar kraft og sannfærandi hern­aðar­áætlun. Ingibjörg Sólrún og dyggustu liðsmenn hennar hafa tvisvar lagt rangt mat á stöðu sína á meðal kjósenda og á meðal flokksmanna sjálfra og þessi mistök ætla að reynast dýr­keypt fyrir Samfylkinguna. Ef samfylkingarmenn slíðra ekki sverðin og ganga sameinaðir að baki formanni sínum til kosninga og styðja hann af ráðum og dáð er ólíklegt að flokkurinn geti gert sér sæmilegar vonir um að ná atkvæðum þriðjungs kjósenda.
            Miðað við fylgistölur flokkanna í skoðanakönnunum nú yrði niðurstaðan þá líklegast samstjórn stjórnarandstöðuflokkanna ef vinstri-grænir og sam­fylkingarmenn spilla ekki öllum samstarfshorfum þessara flokka með því að hamra á því í sífellu að frjálslyndir séu orðnir „rasistar". Sjálfstæðismenn gera sér vonir um að geta myndað ríkisstjórn annað hvort með Samfylkingu eða Vinstri-grænum, eru hikandi að tilreiða að kjósendum fjórðu samstjórn Sjálf­stæðisflokks og Framsóknarflokks. Líklega er Samfylking ekki áfjáð í slíkt samstarf með sjálfstæðismönnum; það yrði banabiti hennar. Vinstri-grænir væru aftur á móti tilkipplegri, sé ég fyrir mér, að hugleiða samstarf við Sjálfstæðis­flokk; sambúðin á slíku stjórnarheimili yrði óefað samt býsna stormasöm þó að hún gæti orðið affarasæl fyrir þjóðina ef hófsamari öfl í Sjálfstæðisflokknum fengju að ráða ferðinni. Eflaust væri skynsamlegast fyrir Sjálfstæðis­flokk að taka sér hlé frá ríkisstjórnarsetum eftir 16 ár í valdastólum enda hafa hann og fylgis­menn hans mun meiri völd í íslensku samfélagi en Alþingi og stjórnarráð eftir valdaafsal á flestum sviðum þjóðlífsins til auðmanna og auðhringja þeirra.
            Enn sem fyrr blasir það við í þessari ársbyrjun að það var ógæfa vinstri­manna, sósíal-demókrata og félagshyggjufólks á Íslandi að persónulegar ýfingar, valdfíkn, stjórnlyndi og vandmeðfarin skapgerð ýmissa forystumanna í gamla Alþýðu­bandalaginu urðu til þess að ekki tókst að mynda samfylkingu þessara kjós­enda á Íslandi. Það verk bíður enn allra sem vilja sveigja samfélags­þróun á Ísland úr því fari sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Fram­sóknar­flokks hefur markað henni á valdatíma sínum í tólf ár.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tumagöngur

Tumi sýndi mér þann vináttuvott á hverju kvöldi í 15 ár að fallast á að ég fengi að fara út með honum að ganga. Hann dró mig á eftir sér í ól og beið ævinlega rólegur ef ég þvældist frá honum eða villtist. Hann tók því einnig með jafnaðargeði þegar ég ræddi við hann um hvaðeina sem lá mér á hjarta í þessum gönguferðum og átti það stundum til að rjúfa einræðu mína með skarplegum athugasemdum. Nú er Tumi allur. Hann hefur hvílt í tvö og hálft ár undir björkum í Marteinsseli. Ég fer samt enn í Tumagöngu á hverju kvöldi. Ég skrafa enn upphátt við sjálfan mig og Tumi skýtur inn einu og einu orði. Ég finn hvernig hann togar í mig í ólinni á eftir sér. Ég þykist vita hvert við erum báðir að fara.

Höfundur

Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 480

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband