6.1.2007 | 22:20
18. Tumaganga með Kaspar, Melkíor og Baltasar
Maður upplifir þessa daga ýmist líf eða dauða. Þessir tveir tvíburabræður auðkenna alla manns daglegu tilveru, skipta meira máli en evra og króna. Ég sat við hlið dauðans í gær, hann var hæverskur að vanda, kann að koma fram eins og sannur sjentílmaður, hreykti sér ekki en bauð mér hlé undan stormum líðandi tíðar í fanginu á fallegri tónlist. Návist hans er alltaf gefandi, skerpir útlínur á lífi manns. Prestur, sem hafði hljóðnema í kverkinni, dreitlaði sínum rútínuflötu ritningargreinum og náðarromsum yfir bekkina í kirkjunni eins og það skipti máli fyrir fólkið sem sat þarna og veit hvað bíður þess.
Einhver maður lét dæluna ganga í dag um það hvort væri affarasælla að hafa krónur í buddunni eða evrur. Sessunautur minn í viðkvæmri vitund frá í gær lagði fingur sína á hönd mér og hristi höfuðið. Hann veit sínu viti. Hann veit hvað skiptir máli og er affarasælt. Hann hefur hettu á höfðinu og í skugganum, sem féll yfir andlit hans, glóðu augu; þau leiftruðu eins og háleitar hugsanir í textum eða tónverkum þeirra manna sem ég hef kjörið mér til fylgilags um ævina. Haltu bara áfram," sagði hann, og hafðu bara þínar skoðanir á evru eða krónu. Við erum ágætir vinir, er það ekki? Það er í reynd ekkert nema gott um það að segja að við skulum fylgjast að. Hvað ætti annars að verða um þig?"
Og á þrettándakvöldi hitti ég hana Evu. Hún var með hlífðargleraugu og stóð í öruggri fjarlægð frá föður sínum og bróður sem voru að skjóta upp púðureldum og kveðja þessi jól. Einhvers staðar í þrúgandi hitanum frá eyðimörkum horfa önnur börn með skelfingu á skotblossa og hafa hvorki hlífðargleraugu né tryggingu fyrir að faðir þeirra fylgi þeim til sængur þegar friður næturinnar leggur svartbláa blæju sína yfir heimsveldi og hjörtu fólks.
Æ, já," segir sá hettuklæddi. Þú heldur þó ekki að ég standi fyrir þessu öllu. Ég gæti vel hugsað mér að hvílast stundum. En þið mennirnir sjáið fyrir því að mér kemur varla blundur á brá."
Þá sá ég Kaspar, Melkíor og Baltasar koma út úr leið 24 við Smáralind. Alltaf jafn hressir. Alltaf jafn hrifnir. Alltaf jafn bjartsýnir. Alltaf í sama stuðinu og með fangið fullt af gjöfum. Ég ætla að bjóða þeim í kaffi og sörur þegar þeir eru búnir á fundinum í fjárhúsinu.
Mér líst vel á það," sagði sá kuflklæddi, hann vinur minn.
Um bloggið
Tumagöngur
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 480
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.