19. Tumaganga með íslensku krónunni

 

            Það er ekki öfundsvert að vera íslensk króna þessa dagana. Íslenska krónan er borin svo mörgum sökum að riddarar auðhringborðsins, Baugskappar og olíuforstjór­ar, eru eins og sakleysið sjálft í samanburði við hana. Krónan á sök á háum vöxtum og verðtryggingu. Krónan á sök á því hvað bjórinn kostar mikið. Krónan á sök á hvað vínið er dýrt og það er krónunni að kenna að matvælaverð á Íslandi er 63% hærra en meðal­verð á matvælum í öðrum Evrópulöndum. Það fer svo illt orð af íslensku krónunni að jafnvel eigendur íslensku bankanna, sem krónan hélt að hefðu heitið henni trúnaði allt til dauða, vilja ekki sjá hana í nánd við sig og safna erlendum gjaldeyri eins og þeir eigi lífið að leysa. Hjá voldugu, ís­lensku fjármálafyrirtæki, þar sem menn mega ekki vamm sitt vita, þykir ekki lengur við hæfi að sjá þessa auvirði­legu, íslensku krónu í talnadálk­um bókaranna því að svo bersyndug mynt þykir setja blett á annars heiðvirt bókhald. Það eru nánast allir fjármála- og viðskiptajöfrar landsins að koma út úr peningaskápnum og viðurkenna að þeir elski evruna. Jafnvel Ingibjörg Sólrún, sem ég hélt að mætti ekkert aumt sjá, setur upp „varstu-að-stela-smákökum-strákur-svipinn" og rakkar niður krónuna fyrir framan alþjóð. Botnarðu eitthvað í þessu, Tumi?
            - Nei, ekki vitundar ögn, ansar Tumi. En það er ekki rétt hjá þér að Ingibjörg hafi kennt krónunni um háa vexti og hátt matvælaverð. Hún rétti ásakandi fingur sinn í áttina að þeim sem hún sagði að vildu halda í krónuna hvað sem það kostaði
            Veist þú hverjir það eru?
            - Nei. Ég hef hvergi fengið það almennilega á hreint. Þó held ég að megi fullyrða að Steingrímur Sigfúss ætlar að berjast fyrir málstað íslensku krónunnar með kjafti, sem er feiknmikill, og klóm sem eru fjarska beittar. Kannski að Ingibjörg hafi átt við hann svona í aðdraganda alþingiskosninga. Jón Sig. hefur heldur ekki þorað eins og drottningin frá Lómatjörn að koma út úr peningaskápnum og lýsa því yfir að hann hafi snúið við baki við krónunni. Seðlabankinn er svo auðvitað síðasta vígi krónunnar og Davíðs Oddssonar. Einhverjir, sem mega sín mikils í Sjálfstæðisflokkn­um, geta ekki heldur, er mér sagt, hugsað sér að kveðja krónuna, að minnsta kosti ekki í bili.
            Það liggur að sjálfsögðu í augum uppi, Tumi, að íslensk stjórnvöld og yfirstjórn peningamála í landinu geta ekki komið fram fyrir þjóðina sisona allt í einu og sagt að þau séu búin að gefast upp á krónunni af því að hún sé einkis virði og handónýt mynt. Hvað myndi þá gerast? Staða þeirra, sem hafa ákvörðunarvaldið í þessum efnum, er ekki öfundsverð. En manni sýnist samt að verði ekki dregið lengur að setja saman eitthvert aðgerðaplan, að taka ákvörðun um hvert skuli stefna. Ég fæ ekki betur séð en fullt af mönnum, sem hafa mikil völd í íslensku efnahagslífi, séu búnir að taka ákvörðun um hvert skuli stefnt. Stjórnvöld og við hin megum ekki fljóta sofandi að evruósi.
            Tumi lyfti löppinni og sprændi upp við jólatréð sem ég fleygði út á gangstétt á sunnudaginn var. Síðan hristi hann sig og sagði:
            - Ja, ég þarf ekki að hafa neinar áhyggjur út af krónu eða evru. Ég á ekki grænan eyri.
            En þarna er króna, sagði ég og benti honum á hundraðkrónupening sem einhver hafði gloprað úr höndum sér og glitraði í hrímskell­óttu grasinu. Það á hana enginn. Þér er alveg óhætt að hirða hana.
            Tumi nam andartak staðar og virti krónuna fyrir sér.
            - Nei, það tekur því ekki, held ég. Hefði kannski borgað sig ef þetta væri evra.
            Hann græddi ekkert í kvöld. Og hann tapaði heldur engu sem máli skiptir.
         

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tumagöngur

Tumi sýndi mér þann vináttuvott á hverju kvöldi í 15 ár að fallast á að ég fengi að fara út með honum að ganga. Hann dró mig á eftir sér í ól og beið ævinlega rólegur ef ég þvældist frá honum eða villtist. Hann tók því einnig með jafnaðargeði þegar ég ræddi við hann um hvaðeina sem lá mér á hjarta í þessum gönguferðum og átti það stundum til að rjúfa einræðu mína með skarplegum athugasemdum. Nú er Tumi allur. Hann hefur hvílt í tvö og hálft ár undir björkum í Marteinsseli. Ég fer samt enn í Tumagöngu á hverju kvöldi. Ég skrafa enn upphátt við sjálfan mig og Tumi skýtur inn einu og einu orði. Ég finn hvernig hann togar í mig í ólinni á eftir sér. Ég þykist vita hvert við erum báðir að fara.

Höfundur

Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 480

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband