67. Tumaganga með þáttaskilum í borgarstjórn

 

Þau stórtíðindi urðu í íslenskum stjórnmálum í dag að slitnaði upp úr meirihluta­samstarfi Sjálfstæðisflokks og Fram­sóknar í borgarstjórn Reykjavíkur. Ljóst er af fréttum á visir.is að það var eins og mig grunaði að gamlir framsóknarrefir stóðu á bak við þá leik­stýrðu framvindu mála að láta Björn Inga slíta samstarfi við Sjálf­stæðisflokkinn, Alfreð Þorsteinsson hefur að heita má játað því að hann hafi komið þarna við sögu (eflaust í nánu samráði við formann sinn og þingmenn flokksins). Sjálfstæðismenn úr röðum borgarfulltrúa tönnlast nú á því að þeir hafi ekki talið það samræmast almannahagsmunum eða hagsmunum Reykvíkinga að OR tæki þátt í áhætturekstri - eins og þeir kalla „útrásina" núna. Þess vegna hafi þeir viljað selja hlut OR í REI strax. Um þetta eru greinilega ekki allir sammála í Sjálfstæðisflokknum. Þorgerður Katrín spurði í Silfri Egils á sunnudag hvað lægi svona á að selja - menn ættu að bíða eftir lagaramma og reglum o.s.frv. Gísli Marteinn sagði svo í kvöld að stofnun REI hefði frá upphafi verið hugsuð til þess að losa OR út úr áhætturekstri. Það er stórfurðurleg fullyrðing í ljósi þess að Villi Þonn hafði aldrei hugsað sér að selja neinn hlut OR í REI - fyrr en hann var neyddur á þá skoðun af meðreiðarfólki sínu í borgarstjórn. Myndun nýja meirihlutans í borgarstjórn grundvallast á þeirri sameigin­legu skoðun allra flokka, sem þau eru fulltrúar fyrir, að þjóni ekki hagsmunum al­mennings að selja hlut OR í REI vegna þess að með þeirri gjörð verður spekúlöntum á borð við Hannes Smárason fengið óskorað vald yfir orkulindum á Reykjanesskaga og í Borgarfirði. Sala nú - áður en búið er að setja löggjöf um nýtingu orkulinda í eigu þjóðarinnar og hvernig einkaaðilar geti komið að henni - er einfaldlega upphafið á nánast stjórnlausri einkavæðingu þessarar dýrmætu auðlindar í þágu nokkurra fjárplógsmanna. Allt tal borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Villa Þonn um að afstaða þeirra til sölu mótist af umhyggju með almannahags­munum er tómt yfirklór og ógeðfellt að hlusta á þessa tuggu af vörum þeirra aftur og aftur í viðtölum. Bráðri hættu á einkaeignarvæð­ingu auðlindanna hefur verið bægt frá um stundarsakir en ógjörningur að spá hver verður framvinda mála. Raunverulegt eignarhald og yfirráð yfir orkulindum þjóðarinnar er grundvallaratriði sem tekist er á um í íslenskum stjórnmálum þessa dagana. Ekki kæmi mér á óvart þó að leikstjórar væru að velta fyrir sér að líta inn baksviðs á alþingi.


66. Tumaganga með A Taste of Iceland

Fékk að kynnast matargerð liðinna kynslóða í Icelandairþotu á leið frá Noregi til Íslands á mánudaginn. Ekki svo að skilja að um hafi verið að ræða mat, sem var tilreiddur samkvæmt uppskrift frá fyrri öldum, heldur var hér um að ræða mat sem var raunverulega frá fyrri öldum. Ég verð að segja eins og er að ég hafði ekki hugmynd um að Icelandair væri farið í samvinnu við Fornleifastofnun að stunda fornleifaupp­gröft í rusla- og frákastshaugum við forna mannabú­staði á Íslandi. Þetta kom því óneitan­lega á óvart. Matarfornleifafræði er vaxandi fræðigrein og til fyrirmyndar hjá Icelandair að vilja leggja henni lið með einhverjum hætti. Þetta sýnis­horn af fornmat (sem var án efa mjög dýrmætt með hliðsjón af aldri) var borið fyrir mig í öskju sem á var letrað „A Taste of Iceland”. Ég verð að játa að ég opnaði öskjuna með titrandi fingrum því að í þjóðminjasöfnum eru svona gersemar venjulegast hafðar í glerskáp­um, vörðum með leysi­geislum, og stranglega bannað að snerta við þeim. Í öskjunni reyndist svo vera einhver brúnleit spor­öskjulaga klessa sem minnti einna helst á smjör­horn eða croissant eins og það heitir á frönsku. Engar skýringar fylgdu með þessu, hvorki t.d. um fundarstað, fundarár eða frá hvaða tíma væri talið að þessi matarfornleif væri. Ég verð að segja að þetta kom verulega á óvart. Ég hafði aldrei látið mér detta í hug að Íslendingar hefðu búið til eitthvað í líkingu við frönsk croissant á fyrri öldum. En svona veit maður lítið um tengsl á milli Íslands og meginlands Evrópu á fyrri tíð. - Í flugvélinni voru a.m.k. 40 kínverskir ferðamenn. Þeir fengu einnig „A Taste of Iceland”. Sumir þeirra brögðuðu meira að segja á þessum fornaldardýrgrip, væntanlega svolítið forvitnir að kynnast brauðmat sem var tilreiddur um svipað leyti og víkingar fundu norðurströnd Ameríku. Ég bragðaði hins vegar ekki á mínu sýnishorni. Ég get barasta ekki fengið mig til að borða fornleifar sem hafa ómetanlegt gildi. - Svona undir lokin get ég svo ekki stillt mig um að nefna að í sælgætisdeildinni í komufrí­höfninni í Leifsstöð virðist einnig ríkja nokkur áhugi á að kynna matarfornleifa­fræði fyrir viðskiptavinum. Þessir tveir eða þrír inn­flytjendur erlends sælgætis á Íslandi virðast safna saman í gáma öllum sætindum, sem eru að komast á síðasta söludag eftir tvö til þrjú ár í verslunum, og moka þeim í tonnavís inn í komufríhöfnina í Leifsstöð. Ég hvet komufarþega til Íslands til að láta þessa sælgætishauga vera - nema þeir hafi auðvitað áhuga á að fá að kynnast hvernig sælgæti var búið til í Bandaríkjunum og Evrópu áður en innrásin var gerð í Írak.

65. Tumaganga í stækkaðri Leifsstöð

Fékk að kynnast stækkaðri Leifsstöð í síðustu viku og aftur nú á mánudagsmorgun. Það má teljast arkítektúrískt afrek hvað mönnum hefur tekist að breyta hlýlegri og aðlaðandi flugstöð í kuldalegt, fráhrindandi og ljótt gímald. Það er engu líkara en komið sé inn í stórt flugskýli sem reynt hefur verið að fríkka uppá með járnteinum og steini í gráum, svörtum og dökkryðrauðum lit. Skipulagið hefur greinilega verið mótað með þarfir kaupmanna og versl­unareigenda í huga. Flugfarþegum er nú smalað saman í miðjunni á þessu gímaldi þar sem birtan er eins og í loftvarnar­byrgi. Ys og þys og hávaði allt um kring. Í horni einhvers staðar er bar sem hefur yfirbragð yfirheyrsluherbergis í höfuðstöðvum Stasi í Berlín; þar er allt svo grátt og svart að í fyrstu hélt ég að ég hefði misst allt lita­skyn. Svo reyndist þó ekki vera. Bjórinn í glasinu mínu var gullinn. Það var eiginlega eini hlýlegi liturinn í allri hinni stækkuðu flugstöð. Hvað hefur mönnum gengið til? Áður voru hlýlegir viðarlitir og hlýleg birta auðkenni í Leifsstöð. Nú er köld birta og gráir og svartir litir allt um kring. Lókalið þar sem maður fer í gegnum svokallað öryggisskoðun minnir á móttökuherbergi fyrir nýja lestarfarma af gyðingum í Auschwitz. - Í ofanálag er svo orðið til lítils að ætla sér að versla í þessari fríhöfn nema ef á að kaupa snyrtivörur og áfengi. Hverjum datt í hug að láta lágvöruverðsstórmarkað með raftæki fá einokunaraðstöðu í Leifsstöð? Hverjum datt í hug að yrði til bóta að láta einokunarrisa með CD, DVD og allt af þeim toga fá einokun líka inni í Leifsstöð? Trúir nokkur Ís­lendingur því að borgi sig að kaupa vörur af þessum aðilum í Leifs­stöð? - Nei, þá er Gardermoen hjá Osló þekki­legri og hlýlegri staður að dveljast á en ný Leifsstöð eftir stækkun og afskræmingu.

64. Tumaganga eftir Noregsumferð

Dvaldist nokkra daga um helgina í Osló. Hún er falleg borg og Norðmenn þægilegir heim að sækja. Ég hef ekki komið þarna í aldarfjórðung eða svo. Vakti sérstaka athygli mína hversu almenningssamgöngum er vel háttað í Osló, neðanjarðarlestar, ofanjarðarlestar, ferjur, sporvagnar og  strætis­vagnar. Umferð í miðborginni óvenju fyrirferðarlítil með hliðsjón af að í Osló búa meira en hálf miljón manna og séu nágrannabyggðir teknar með í myndina eru íbúar á Oslóarsvæðinu um ein miljón manna. Umferðar­mannvirki, jarðgöng og umferðarstokkar í jörðu í miðborginni bera þess greinilega merki að Norðmenn hafa úr drjúgum sjóðum að moka. Loftið hreint, ekki umferðaröngþveiti á götum borgarinnar. Svo kemur maður hingað heim - á höfuðborgarsvæðið - og manni verður ljóst hvílíkt ófremdarástand ríkir í umferðar­málum hérna og hvílíkt fyrir­hyggju­­leysi og óstjórn hafa nánast þurrkað út almenn­ingssamgöngur, sama hvaða flokkar hafa átt í hlut. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru að drukkna í bílum og sitja fastir í löngum röðum á leið sinni til og frá vinnu. Á meðan er verið að greiða fyrir umferð nokkura bíla með miljarða­framkvæmdum á milli Ólafs­fjarðar og Siglufjarðar, verið að tala um göng undir fjallkjálka hingað og þangað til að tengja saman byggðir þar sem allir eru að flosna upp..... Er nokkuð skrýtið þó að maður sé að sannfærast um það betur og betur að Ísland er nánast eins og lítill og lélegur brandari. En þetta er kannski of kaldhæðnislegt. Hjá mörgu launafólki hér á landi, hvort sem það er íslenskt eða erlent, er íslensk tilvera smám saman að verða sorgleg og óyfirstíganleg staðreynd.

63. Tumaganga með uppstigningarstjórn Ingibjargar Sólrúnar

 

            Ný samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gæti þess vegna kallast „uppstigningarstjórn". Þessi nafngift á ekki aðeins við vegna þess að flokkarnir byrjuðu opinberar viðræður um myndun þessarar ríkisstjórnar á uppstigningardag heldur einnig vegna þess að  með myndun þessarar stjórnar tókst Ingibjörgu Sólrúnu að stíga upp á ný til stjörnu­himins stjórnmálanna.

            Ég bjó mér til kenningu um atburðarás á meðan við Tumi fengum okkur kvöldröltið áðan. Ég ætlast ekki til að nokkur maður taki mark á þessari kenningu. Eflaust finnst mörgum hún hreinasta vitleysa og að sjálfsögðu hef ég ekkert fyrir mér í þessu. En Tuma fannst kvöldgöngukenningin ekkert fjar­stæðukenndari en margt annað svo að ég læt hana flakka hér:

 

            Ingibjörg Sólrún hefur ekki verið með hýrri há síðan henni mistókst hrapallega það ætlunarverk sitt í alþingiskosningum árið 2003 að fella Davíð Oddsson, forsætisráðherra. Hún náði ekki einu sinni þingsæti og hélt sig baksviðs um skeið með þá byrði að hafa skyndilega og að óvörum mörgum kjós­endum sínum stigið niður úr stóli borgarstjóra.

            Eftir að hafa náð í for­mannstitil Össurar Skarphéðinssonar má ætla að Ingibjörgu hafi verið deginum ljósara að Samfylkingin, undir forystu hennar, yrði að ná góðum árangri, helst glæsilegum, í næstu al­þingiskosninum ef hún, Ingibjörg, ætti ekki að bíða aftur nokkurn hnekki á pólitískum framaferli sínum og jafnvel eiga á hættu að missa formannsembættið.

            Út á við náði Ingibjörg ekki að njóta sín með sama hætti og áður síðustu tvö árin. Fólk hafði orð á þessu og í vetur ætlaði henni ekki að takast - eins og í borginni forðum - að verða þessi baráttudjarfi, glaðbeitti og einarði stjórnmála­maður sem laðaði til sín fólk í baráttu gegn ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

            Eftir áramót, uppákomuna í Frjálslynda flokknum og endalok „kaffi­bandalagsins" var greinilegt að Ingi­björg hafði áhyggjur af komandi kosningum. Þegar niðurstöður skoðana­kannana í febrúar og mars fóru síðan að sýna að fylgi félagshyggjufólks reyttist af Sam­fylkingu en hlóðst utan á Vinstri-græn (þau voru um tíma að verða nær jafnstór flokkur) má geta sér til að Ingibjörg hafi einnig farið að óttast um staða hennar sem formanns í Samfylk­ingunni gæti veikst til muna nema tækist að fella ríkisstjórnina og henni tækist í hlutverki forsætisráðherra að koma Samfylkingu í ríkisstjórn með Vinstri-grænum og þá Frjálslyndum ef þá þyrfti til við myndun þingmeiri­hluta.

            Eins og kunnugt er tókst Ingibjörgu og Samfylkingarfólki með miklum dugnaði að ná smám saman mun betri stöðu í skoðanakönnunum þegar leið nær kosningunum. En þá virtist fylgið ætla að reytast aftur af Vinstri-grænum og voru sterk teikn á lofti um það síðustu tíu daga fyrir kosningarnar að væri tæpt að Samfylk­ingu, Vinstri-grænum og Frjálslyndum tækist að fella ríkisstjórn­ina. Framsóknarflokksins virtist þá ekki bíða annað en drjúgt tap en Sjálf­stæðis­flokkur stefndi í að bæta við sig. Í vikunni fyrir kosningar hefur Ingi­björgu án efa verið ljóst að kæmi ekki til eitthvert kraftaverk, sem gjör­breytti fylgishorfum félagshyggjuflokk­anna til hins betra, yrði næsta ríkisstjórn ekki mynduð án þátttöku og undir forystu Sjálf­stæðisflokksins. Þar sem Ingibjörg ætlaði sér ekki að vera ótilneydd í stjórnar­and­stöðu næsta kjörtímabil og hætta þannig pólitískri framtíð sinni, hafa hún og aðrir stefnu­mótandi forystu­menn í Samfylkingunni þá þegar farið að leggja drög að því með hvaða hætti mætti ná málefnalegu sam­komulagi við Sjálfstæðisflokk ef til þess kæmi að Geir Haarde leitað eftir samvinnu við Samfylkinguna.

            Strax eftir kosningar var ljóst að stjórnarandstaðan hafði ekki bolmagn til að mynda meirihlutastjórn. Framsóknarflokkur hafði tapað hressilega og formaðurinn, iðnaðarráðherra, og umhverfisráðherra dottið út af þingi. Jafn­framt var ljóst að þingmeirihluti ríkisstjórnar­flokk­anna var svo tæpur að var ekki ráðlegt að treysta á að hann héldi og hætta á að einn þingmaður gæti þess vegna beitt stjórnina þrýstingi. Geir Haarde og aðrir í forystu Sjálfstæð­is­flokks­ins höfðu ekki áhuga á að halda stjórnarsamstarfinu áfram og mátu það strax svo (væntanlega á grundvelli viðræðna á milli „góðkunningjanna" Geirs og Ingibjargar) að ætti að mynda nýja ríkisstjórn með Samfylkingu.

            Framsóknarmenn gerðu sér loks grein fyrir að nærveru þeirra var ekki óskað í næstu ríkisstjórn og að málefnaþreifingar á milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar voru þegar hafnar. Eftirleikurinn tók undraskamman tíma. Inigbjörg var staðráðin í að styrkja stöðu sína á meðal flokksmanna sinna með því að koma Samfylkingunni í ríkisstjórn og kunningsskapur milli hennar og Geirs Haarde virðist hafa átt drjúgan þátt í hversu vel það gekk. Ingibjörgu og Samfylkingarfólki tókst að koma ýmsum baráttumálum sínum inn í stjórnar­sáttmálann en það lét ekki gamlar heitingar í garð Sjálfstæðisflokksins og stór orð um misskiptingu auðs og ofurvald kapítalsins koma í veg fyrir að Sam­fylkingin legði praktískt og pragmatískt mat á úrslit kosninganna. Samfylk­ingin tók þannig bæði vinsamlegt tillit til talsmanna frjálshyggju og markaðshyggju og mildaði sósíaldemókratíska afstöðu sína með hliðsjón af heimssýn sem margir héldu að væri Samfylkingarfólki býsna fram­andi í ljósi þess sem það hefur látið á sér skiljast í allhörðum stjórnmálaumræð­um á þingi í vetur og víðar.

            Ignibjörg Sólrún var farin að ganga í einhverja endurnýjun strax í upphafi vikunnar eftir kosningar. Það réttist úr henni, alvörusvipurinn vék fyrir brosi og engu líkara en hún væri að losna undan þungu fargi. Hún sá þá strax fram á að allt stefndi í að sér hefi tekist að bjarga pólitískri stöðu sinni í Samfylkingunni og nú væru bjartari tímar framundan, fyrir hana og fyrir Samfylkinguna ef vel væri á haldið. Ekki spillti það svo persónulegri ánægju Ingibjargar að ríkis­stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var vissulega eini raunhæfi kosturinn í stöðunni og endurspeglaði einna best vilja meginþorra kjósenda í kosningum þar sem náðist ekki - fremur en oft áður - afdráttarlaus niðurstaða.

            Nú er eftir að sjá hvernig Samfylkingu og grundvallarhugsjónum sósíal­demókrata reiðir af í stjórnarsamstarfinu. Um það getur enginn spáð á þessari stundu en ljóst að Ingibjörg hefur hætt miklu til í metnaði sínum og löngun til að stjórna og láta að sér kveða svo að hún gæti notað gullið tækifæri og stigið aftur upp á stjörnu­himin stjórnmálanna. Ný ríkisstjórn Geirs Haarde er vissulega uppstigningarstjórn Ingibjargar Sólrúnar.

 

             


62. Tumaganga með ráðherra á heilanum

Það er eftirtektarvert hversu margir í þingflokkum stjórnarflokkanna hafa greint frá því í samtölum við fjölmiðla að þeir hafi sóst eftir því að fá ráðherraembætti í hinni nýju ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Það kom einnig fram í viðtölum við þingmenn, sem hrepptu hnossið og setjast nú í ráðherrastól, að þeim þótti mikils virði að fá nú tækifæri til þess að beita sér í tilteknum málaflokki og koma þar góðu til leiðar. Þessi ummæli, hvort sem þau komu frá ráðherrum eða vonsviknum þingmönnum, endurspegla vel þá gagngeru breytingu sem hefur smám verið að verða á hlutverki þingmannsins, löggjafans, og hlutverki ráðherrans, þess sem fer með framkvæmdavaldið í umboði þingsins. Menn hafa oft verið að hnýta í Alþingi og sakað þingmenn - og þá sérstaklega stjórnarþingmenn - um vöntun á frumkvæði og kallað þingið afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórn. Það leynir sér ekki af ummælum þeirra, sem bitust nú um ráðherraembættin, að stjórnarþingmenn eru einnig farnir að líta svo að þingmennskan ein færi þeim takmarkað áhrifavald. Metnaðarfullir einstaklingar, sem vilja setja mark sitt á stjórn og stefnu í tilteknum landsmálaflokki, líta greinilega svo á að það nái þeir ekki að gera af fullum þunga nema sem ráðherrar í ríkisstjórn. Vestrænt þingræði hefur verið að þróast í þessa átt býsna lengi, í 60 eða 70 ár. Ráðherrar og ríkisstjórnir verða sífellt valdameiri og fara að heita má bæði með löggjafarvald og framkvæmdavald en hlutverk hins eiginlega löggjafarvalds, þingsins, verður sífellt lítilvægara í samanburði við hlutverk framkvæmdavaldsins. Kannski menn ættu að staldra við áður en vestræn lýðræðisríki breytast í ólígarkí forystumanna í stjórnmálaflokkum sem hreppa ráðherraembætti.


61. Tumaganga eftir stjórnarmyndun og stefnuskrá

 

 

 

            Jæja, Tumi minn, langar þig ekki til að vita hvernig mér líst á stefnuskrá nýju ríkisstjórnarinnar?

            Nei, í guðs bænum, ekki þú líka. Það skiptir ekki nokkurn mann nokkru máli hvað þér finnst um stefnuskrána.

            Ég má þó alla vega segja þér hvað mér finnst um ráðherrana.

            Gerðu það fyrir mig, slepptu því. Ég fæ bólur. Í dag er ég búinn að heyra eða lesa skoðanir hátt á annað hundrað manna um nýju ráðherrana. Auðsýn miskunn!

            Ég hlýt að mega segja þér hvað mér finnst svona almennt um nýju ríkistjórnina sem Guðfinna situr ekki í þó að hún sé með tuttugu ára reynslu af stjórnunarstörfum?

            Þú mátt láta þér finnast hvað sem er svona almennt um þessa nýju ríkisstjórn. Ég hef engan áhuga á að fá að vita það og ég þekki enga Guðfinnu. Er það konan sem afgreiðir þig með hundamatinn í Bónus?

            En ég hef mjög skynsamlega skoðun á því hvaða stjórnmálamenn glopruðu niður tækifærinu með því að gera afdrifa­ríkustu mistökin í kjölfar alþingiskosning­anna. Viltu ekki fá að heyra hana? Þetta er alveg útpæld skoðun. Ekki verri en skoðanir allra hinna. Ég lít svo á að Steingrímur......

            Tumi setti upp flónskulegan spurnarsvip.

            Hvaða Steingrímur? Og eftir hvaða alþingiskosningar?

            Þú ert þó ekki að gera lítið úr þessum tímamótum í íslenskum stjórnmálum? Geir er búinn að fá fyrstu ágætiseinkunn hjá Guðfinnu og greiningar­deildum bankanna og Ingibjörg er að fá límúsínu hjá utan­ríkisráðuneytinu.

            Æi, stundi Tumi, lagðist fram á lappir sínar í grasinu við Kópa­vogslækinn og lygndi aftur augunum.

            Þá áttaði ég mig á að hann er hundur sem hefur lifað tímana tvenna og að ég má ekki draga það lengur að stinga upp kartöflugarðinn.

 

 

                       

           

           


60. Tumaganga kvöldið fyrir kosningar

  

            Niðurstöður síðustu skoðanakannana benda til þess að stjórnarflokk­arnir hafi allnokkra ástæðu til að óttast að þeir muni missa þingmeirihluta eða a.m.k. starfhæfan þingmeirihluta í kosningunum á morgun. Niðurstöður þessara kannana benda einnig til þess að fylgi Samfylkingar sé að þokast upp undir 30% markið og að fylgi Vinstri grænna sé að staðfestast í kringum 17 til 18%. Kannarnirnar benda einnig til þess að Frjálslyndir nái örugglega yfir 5% og fái þar með a.m.k. þrjá menn á Alþingi.

            Mér þótti stjórnmálaforingjar bera þess nokkur merki í umræðuþætti í ríkissjónvarpinu í kvöld að þeir hefðu á tilfinningunni að úrslit kosninganna á morgun yrðu ekki fjarri niðurstöðum í þessum skoðanakönnunum sem greint var frá í dag og kvöld. Vonar­neistinn hjá Jóni Sigurðssyni flökti meira en nokkur sinni áður. Hófsemd og kurt­eisislegt viðmót Geirs Haarde gátu ekki dulið að honum virtist eilítið brugðið og ekki laust við að hann væri þreytulegur. Ingibjörg Sólrún var brosandi og sýndi merki um sjálfstraust sem hana hefur sárlega vantað í langan tíma. Steingrímur var þreytulegur og eitthvert gall í honum, væntanlega vegna þess að fylgi Vinstri grænna hefur sigið um allmörg prósentustig á sama tíma og Samfylkingin hefur náð af rétta sig af. Guðjón Arnar var vígreifari en áður og komst vel frá umræðunni, baráttuhugur í honum á síðasta sprettinum. Ómar talaði um sömu hlutina af sama tilfinningahit­anum og með sömu orðum. Náttúra Íslands hefur svo sannarlega átt sinn málsvara í þessari kosningabaráttu og það er vel; fæstir kjósendur virðast hins vegar reiðubúnir að greiða atkvæði sitt til framboðshreyfingar sem hefur ekki náð að móta skýra stefnu í öðrum málflokki en náttúruvernd.

            Án efa verður unnið ötullega að atkvæðasmölun í öllum flokkum á morgun og ekki síst af hálfu Framsóknarmanna og Sjálfstæðismanna sem eiga mikið í húfi í þetta skipti og ganga ekki til kosninga á morgun með hagfelldar tölur samkvæmt síðustu skoðana­könnunum. Enn sem fyrr getur enginn séð fyrir með neinni vissu hver úr­slitin verða. Viðhorfskannanir benda til þess að kosningavakan verði óþægilega spennandi, hvort sem menn fylgja ríkisstjórnarflokkunum eða stjórnarandstöðunni að málum.

 

       


59. Tumaganga með skoðanakönnunum

           

            Í dag birta íslenskir fjölmiðlar tvær skoðanakannanir þar sem Framsókn fær 14,6% atkvæða í annarri og 8,6% atkvæða í hinni. Munurinn er svo mikill að ekki er að undra þó að maður láti sér detta í hug að einhverjir megingallar hljóti að vera á verklagi og aðferðum við aðra hvora þessara kannana. Úrtak Félagsvísindastofnunar er tvisvar sinnum stærra en úrtak Capacent Gallup og gerir því niðurstöðu Félagsvísindastofnunar trúverðugri í augum leik­manns. En sérfræðingar segja mér að stærð úrtaks, ef úrtak fullnægir tilteknum lágmarks­skilyrðum, þurfi ekki að vera trygging fyrir að niðurstaða könnunar endurspegli betur raun­veruleg viðhorf. En niðurstaða Félagsvísindastofnunar er vissulega í meira sam­ræmi við niðurstöður skoðanakannana að undanförnu en niðurstaða Capacent Gallup sem kom held ég öllum á óvart.

            Annars er það orðið hvimleitt í aðdraganda kosninga hvað mikið er bollalagt um skoðanakannanir og miklu púðri og mannviti eytt í að tala um kannanir og niðurstöður þeirra. Ég veit ekki hvort frambjóðendur taka eitthvert mið af þessum könnunum. Mér þykir þó líklegt að þær hafi einhver áhrif á þá suma og ráði einhverju um hvernig baráttunni er hagað. Ég er hins vegar ekki í nokkrum vafa um að skoðanakannanir hafa áhrif á allmarga kjósendur, einkum með þeim hætti að stjórnmálaflokkur, sem mælist hvað eftir annað undir lágmarks­fylgi til þingsetu, nái ekki að laða til sín fleiri kjósendur. Fólk sé hik­andi að ljá slíkum flokki stuðning með atkvæði sínu sem skoðana­kannanir stimpla „ónýtt". Skoðana­kannanir geta því orðið nýju framboði eins og Ís­landshreyfingunni fjötur um fót. Eins getur viðvarandi afleitur árangur samkvæmt skoðanakönnunum hjá virku hagsmunaafli eins og Framsóknarflokknum orðið til þess að lagt sé meira ofurkapp á en ella væri að safna saman í samúðar- og hagsmunafylgi síðustu sólarhringa fyrir kosningar. Framsóknarmenn hafa iðulega stært sig af því að koma ávallt betur út í kosn­ingum en í skoðanakönnunum. Skýringin á því er örugglega ekki viðhorfs­breyting á meðal kjósenda frá því að þeir sáu síðustu skoðanakönnun og þar til þeir gengu inn í kjörklefann.     

            Margir bregðast ókvæða við þegar imprað er á því að banna skoðana­kannanir í 10 daga eða viku fyrir kosningar - eins og víða mun gert. Ég hallast samt að því að væri rétt að stíga þetta skref og láta kjósendur og frambjóðendur eina um hituna á lokasprettinum og gefa reiknimeisturum og atkvæðasmölum frí fram á sjálfan kosningadaginn.

 

      

 


58. Tumaganga síðustu daga fyrir kosningar

  

            Nú styttist í kosningar. Skoðanakannanir, jafnvel þó að þeim beri nánast aldrei saman og breytist lítillega frá degi til dags, benda til þess sem mátti sjá fyrir að íslenskir kjósendur verða seinþreyttir til umskipta þegar kemur að því að ákveða í kjörklefanum hvaða flokk eða stjórnmála­stefnu eigi að greiða atkvæði. Það eru þá einna helst yngstu kjósendurnir sem kunna að geta hugsað sér nýjar leiðir.   

            Fylgi Sjálfstæðisflokksins er á sínu óhagganlega bili milli 36-40%, klofning­urinn út úr Sjálfstæðisflokknum, Frjálslyndir, ná líklega að koma inn þremur þing­mönnum eða svo í jöfnunarsæti, vinstrihóparnir halda sínu miðað við síðustu kosn­ingar og hugsanlega eitthvað aðeins meira en það og Fram­sóknarflokkurinn virðist ætla að ná 10% þegar upp er staðið. Það verður mjótt á munum hvort stjórnin fellur eða ekki.

            Falli stjórnin er það ekki stjórnarandstöðunni að þakka heldur þeim kjósendum á kjördag sem telja komið nóg af veru Framsóknarmanna í ríkisstjórn. Stjórnarand­stöðuflokkarnir hafa verð að skerpa málflutning sinn þessa síðustu daga fyrir kosn­ingar en eru hikandi samt að taka slaginn beint við Sjálfstæðisflokkinn; þeir láta sér nægja að níða niður Framsókn­arflokk­inn, eru líkast til búnir að láta stjórnmála­fræð­inga reikna það út fyrir sig að lykillinn að því að fella stjórnina sé að reyta eins og hægt er utan af Framsóknarflokknum. Það er með ólíkindum, finnst okkur Tuma, hvað þessi litli flokkur verður ævinlega fyrirferðarmikill.

            Það er annars að bera í bakkafullan lækinn að bollaleggja um kosn­ingabarátt­una og hugsanleg úrslit á laugardaginn kemur. Forysta Sjálf­stæðisflokksins hefur greinilega ákveðið að taka ekki virkan þátt í kosn­ingabaráttunni heldur sýna öðrum flokkum kurteisi og þolgæði og bíða þess með yfirlætislegu jafnaðargeði hvaða flokk verði að taka til samstarfs í ríkisstjórn eftir kosningar ef svo færi að Framsókn biði slíkt afhroð að væri ekki boðlegt kjósendum - eða varla gerlegt vegna þing­manna­fæðar Framsóknar - að hafa Framsókn áfram í ríkisstjórn.

            Við Tumi höfum hugsað okkur að fara að fordæmi Sjálfstæðis­manna, segja fátt og láta kosningarnar ekki koma okkur úr jafnvægi. Við teljum það happasælast fyrir þjóðina að breytt verði um áherslur í íslenska stjórnarráðinu eftir 16 ár af sama handritinu. Á laugardaginn verður það samt hinn jarðbundni, sjálfhverfi, skuldsetti og pragmatíski Íslendingur sem hefur síðasta orðið. Stjórnar­and­staðan virðist ekki hafa haft neinn áhuga á að hagga neitt að ráði við honum - að minnsta kosti ekki ennþá - og nú er stuttur tími til stefnu. 

 

     


Næsta síða »

Um bloggið

Tumagöngur

Tumi sýndi mér þann vináttuvott á hverju kvöldi í 15 ár að fallast á að ég fengi að fara út með honum að ganga. Hann dró mig á eftir sér í ól og beið ævinlega rólegur ef ég þvældist frá honum eða villtist. Hann tók því einnig með jafnaðargeði þegar ég ræddi við hann um hvaðeina sem lá mér á hjarta í þessum gönguferðum og átti það stundum til að rjúfa einræðu mína með skarplegum athugasemdum. Nú er Tumi allur. Hann hefur hvílt í tvö og hálft ár undir björkum í Marteinsseli. Ég fer samt enn í Tumagöngu á hverju kvöldi. Ég skrafa enn upphátt við sjálfan mig og Tumi skýtur inn einu og einu orði. Ég finn hvernig hann togar í mig í ólinni á eftir sér. Ég þykist vita hvert við erum báðir að fara.

Höfundur

Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 480

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband