Færsluflokkur: Dægurmál
29.12.2006 | 22:44
12. Tumaganga með bréfi til Rannveigar Rist
Kæra Rannveig Rist.
Um leið og ég sendi þér og öðru starfsfólki Alcan á Íslandi mínar bestu óskir um farsælt komandi ár og þakka fyrir liðnar stundir í Kapelluhrauni, kemst ég ekki hjá því að spyrja hvers vegna þú sendir ekki mér eins og Hafnfirðingum diskinn með Björgvin Halldórssyni og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ég er reyndar ekki Hafnfirðingur - en þannig er því einnig háttað um flestalla Íslendinga og hefur yfirleitt, hvarvetna á landinu nema í Hafnarfirði, verið talið mönnum fremur til álitsauka en hins gagnstæða. En þó að ég sé ekki Hafnfirðingur er ekki þar með sagt að hafi ekki verið fyllsta ástæða fyrir þig að gefa mér disk eins og þú gafst öllum Hafnfirðingum disk. Ef grannt er skoðað hefðir þú raunar átt að gefa næstum öllum Íslendingum disk því að Hafnfirðingar ráða því ekki einir hvort þér og yfirmönnum þínum í útlöndum tekst að gera stóriðjuáform ykkar í Straumsvík að veruleika. Ég sagði næstum öllum Íslendingum því að sjálfsögðu gefur þú Austfirðingum og Þingeyingum engan disk; þeir eru að sleikja sig upp við Alcoa og mega mín vegna og örugglega þín vegna eiga sín jól og áramót disklausir.
Nú hlýtur þú eflaust að spyrja sjálfa þig, Rannveig, hvort það þjóni yfirleitt einhverjum tilgangi að vera að gefa mér disk, jafnvel þó svo ólíklega vildi til að ég, gagnstætt öllu öðru venjulegu fólki á Íslandi, hefði eitthvað um það að segja hvort landið okkar, óspillt náttúra þess og grösugar sveitir verði lögð undir stóriðjuver, virkjanir og háspennulínur. Ég spurði mig einmitt sjálfur þessarar spurningar þegar ég frétti að þú hefðir gefið öllum Hafnfirðingum diskinn með Bó og Sinfó. Heldur hún að skoðanir fólks í umhverfismálum séu falar fyrir einn geisladisk," spurði ég sjálfan mig. Og það kom á daginn að sumir Gaflarar mátu afstöðu sína svo dýru verði að þeir skiluðu diskunum sínum. Þessi skilaathöfn var glögglega liður í áróðursstríði því að Hafnfirðingar kölluð til sjónvarpsfréttamenn og myndavélar svo að öll þjóðin fengi að horfa upp á þá að skila gjöfum sínum og sýna þannig gefandanum vanvirðingu sína. Þú barst þig vel og bauðst upp á kaffi og rjómapönnukökur sem mér virtist fólk gera sér gott af. Það þótti mér skondið að sjá; undarlegt að þeir, sem vilja ekki geisladisk, skuli vera svo lítillátir að þiggja kaffisopa og pönsur í staðinn. Þetta var neyðarleg uppákoma. Þó að þú værir létt í bragði í sjónvarpsviðtölum býður mér í grun að þú hafir stuttu síðar hellt þér yfir markaðsráðgjafa Alcan í Straumsvík fyrir þá vanhugsuðu markaðsaðgerð að reyna að bæta ímynd Alcan í huga Gaflara með því að senda þeim öllum geisladisk með Bó að kyrja gamla slagara.
En svo að ég víki aftur að spurningunni um hvort það þjóni einhverjum tilgangi að senda mér disk. Ég er að sjálfsögðu mikill náttúrunnandi eins og flestir Íslendingar og hef ákveðnar skoðanir um forgangsröðun þegar kemur að umhverfisvernd, virkjunum og stóriðju. En þar með er ekki sagt að ég sé ekki eins og aðrir Íslendingar svolítið sveigjanlegur. Ég hef til dæmis ekkert sagt við því að Orkuveita Reykjavíkur er búin að eyðileggja fyrir mér, börnum mínum og komandi kynslóðum, yndislegar útivistarslóðir á Hellisheiði. Ég lét eyðileggja óbyggðaparadís í Þjórsárdal án þess að stynja upp einu einasta orði í mómælaskyni. Þetta eru einungis dæmi en þú getur séð af þeim, Rannveig, að það er hægt að tala mig til. En ég verð að segja það hreinskilnislega að það dugir ekki að gefa mér Bó og Sinfó til að fá mig til að skipta um síðustu skoðun mína í umhverfismálum. Ég veit að fjöldi Íslendinga hefur haft mikla ánægju af að hlusta á Björgvin í nærri fjóra ártugi og hann er án efa með fremstu músíköntum á sínu sviði, listnæmur, vandvirkur og þroskaður. Mér finnst samt sem áður of ódýrt að selja sannfæringu sína um nauðsyn nýrrar stefnu í umhverfismálum á Íslandi fyrir disk með Björgvin Halldórssyni. Hins vegar er ekki alveg útilokað að ég gæti tekið þessa sannfæringu mína til endurskoðunar ef þú sendir mér disk með Pastóralsinfóníu Beethovens, t.d. hljóðritun sem kom út í fyrra með Sinfóníuhljómsveit Lundúna undir stjórn Bernards Haitinks. Ef þú vilt að ég fallist á stækkunina alveg skilyrðislaust yrðir þú samt, held ég, að senda mér sett af diskum með öllum sinfóníum Beethovens. En ef ég á að gera það fyrir þig, Alcan og Landsvirkjun, að gleyma öllum mínum umhverfis- og náttúruverndarhugsjónum og láta bara gamla Ísland róa, held ég að þú komist ekki hjá því að gefa mér allan Niflungahringinn eftir Wagner. Ég gæti ekki staðist það. Ég elska Hringinn, sérstaklega Götterdämmerung eða Ragnarök.
En látum þetta nægja að sinni. Þú íhugar bara málið. Ég er ekki alveg fráhverfur afstöðubreytingu.
Ég þakka þér svo, Rannveig, og Alcan fyrir allt gamalt og gott og endurtek óskir mínar um farsælt komandi ár. Skilaðu einnig kveðju til Landsvirkjunar ef þú skyldir rekast á hana.
Með vinsemd og virðingu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2006 | 13:46
11. Tumaganga í áramótaheitum austanvindi
Hefurðu hugsað þér, Tumi, að strengja áramótaheit?
- Já, ég ætla að strengja þess hátíðlega heit að kjósa ekki Sjálfstæðisflokkinn í alþingiskosningunum í maí.
Heldurðu að þú getir staðið við það? Fer það ekki á sömu lund og í hitteðfyrra þegar þú strengdir þess heit að hætta að eltast við tíkina á Geysi? Þú varst kominn á þeysisprett út mýrina á eftir lyktinni af henni strax í byrjun apríl.
- Það er liðin tíð, ansaði Tumi. Vertu ekki að rifja upp gömul mistök. Ég ætla að horfa eingöngu framávið - eins og Hjálmar Árnason. Ég ætla ekki að dragnast með á bakinu gamlar ákvarðanir, sem voru réttar þá en reyndust síðan mistök, og láta þær tefja mig í nýrri sókn til framtíðar.
Hann rótaði sinutægjum og mold yfir stykki sem hann hafði rétt í þessu látið frá sér. Síðan skokkaði hann á undan mér léttur á fæti og dillaði skottinu eins og pólitíkussi sem hefur grafið gamlar syndir og heldur áfram að lofa bót og betrun, fullur bjartsýni í trausti þess að syndirnar finnist aldrei aftur.
Þú hefur alltaf kosið Sjálfstæðisflokkinn, Tumi minn. Þú ert þvílíkt erkiíhald, ferð sömu leið á hverjum einasta morgni, snusar á sömu stöðum, sprænir á sömu stöðum, klórar þér alltaf með sömu löppinni á bak við sama eyrað; þér er ómögulegt að kjósa eitthvað annað en Sjálfstæðisflokkinn. Ég ráðlegg þér að strengja öðru vísi áramótaheit, til dæmis að lofa mér að ráða einstaka sinnum ferðinni. Ég fæ aldrei að ráða neinu. Ég er eins og nýi seðlabankastjórinn. Verð að láta mér að nægja eins og hann að þusa eitthvað út í loftið.
- Nei, ég er staðráðinn í þessu, ansaði Tumi. Ég var að hugsa um þetta núna um daginn og gerði mér ljóst að það er orðinn stórhættulegur ávani hjá mér að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, barasta eins og reykingafíkn eða eitthvað þess háttar. Ég vil láta reyna á það einu sinni hvort ég hafi ekki nægan innri styrk til að prófa að minnsta kosti að láta mér detta það í hug inni í kjörklefanum hvort ég ætti ekki að exa við eitthvað annað en lista Sjálfstæðisflokksins.
Heldurðu að þú getir ráðið við það einn þíns liðs?
- Samfylkingin ætlar að halda námskeið fyrir hunda sem vilja reyna losa sig undan þeim álögum að kjósa alltaf Sjálfstæðisflokkinn. Það á að sýna myndir af soltnum útigangshundum, höltum hundum, þrífættum hundum, skottlausum hundum, Kristjáni H. Gunnars, blindum hvolpum og Birki Jóni; þeir eru allir lýsandi dæmi um áhrif stjórnarstefnunnar. Síðan á að sýna fram á að þetta hefur verið algjört hundalíf hjá okkur í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins.
En þú ert hundur, Tumi. Það breytir engu þó að þú kjósir ekki Sjálfstæðisflokkinn í vor. Þú getur ekki átt annað en hundalíf. Það hefur verið búið þannig um hnútana. Þetta er smám saman að renna upp fyrir Flíslendingum.
- Ég ætla samt á þetta námskeið. Það er bara verst að þau hjá Samfylkingunni geta ekki komið sér saman um hvar og hvenær þau ætla að halda námskeiðið. Kannski verður ekkert úr því þess vegna.
Ef það verkar á þig eins og reykingafíkn að geta ekki kosið annað en íhaldið þá gætirðu kannski íhugað að kjósa Frjálslynda. Það er ekki meiri munur á því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og kjósa Frjálslynda flokkinn en það er munur á því að fá sér smók eða taka í nefið.
Tumi leit upp á mig með fyrirlitningarsvip.
- Nei, ég kýs ekki flokk sem hefur ekki bolmagn einu sinni til að reka framkvæmdastjórann sinn. Þá gefst ég heldur upp á íhaldsbindindinu og kýs Sjálfstæðisflokkinn. Geir hafði þó dug í sér með góðra manna hjálp til að reka framkvæmdastjórann og fá annan framkvæmdastjóra í staðinn, þennan sem er kallaður þessi ágæti maður" í Seðlabankanum.
Hver sagði það?
- Hann sagði það, þessi ágæti maður í Seðlabankanum.
Þú hefur ekki hundsvit á pólitík, Tumi.
- Jú, það er einmitt það sem ég hef og hundsvitið hefur fleytt mörgum býsna langt í pólitíkinni hér á Íslandi.
Það er nú svolítið til í þessu hjá honum, hugsaði ég með mér.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.12.2006 | 14:48
10. Tumaganga með Sturlu, Flugstoðum og flugumferðarstjórum
Opinber hlutafélög eru nýjasta afkvæmi nýfrjálshyggjumanna í ríkisstjórn þar sem þeir berjast fyrir því baksviðs með samtökum íslenskra auðmanna að færa ríkisþjónustu og ríkisfyrirtæki hægum skrefum í hendur einstaklinga. Frumhvati að þessari baráttu er að færa aftur eiginlegt vald í íslensku samfélagi frá íslenska ríkinu, hinum þremur þáttum þess, löggjafanum, framkvæmdavaldinu og dómstólunum, og þar með frá stjórnmálamönnum og kjósendum, yfir til vellauðugrar, íslenskrar yfirstéttar. Áköfustu boðberar þeirrar trúarsannfæringar að með þessari yfirfærslu á valdi sé verið að leggja traustan grunn að betri framtíð fyrir alla landsmenn, eru í raun að leggja grunn að afturhvarfi til þeirrar vald- og auðskiptingar sem einkenndi íslenskt samfélag í nærri hálfa öld frá árinu 1874. Minni nýfrjálshyggjumanna hrekkur svo skammt að úr þeim er stolið að þetta samfélag var ranglátt og vont og skapaði þorra Íslendinga hraksmánarleg kjör, jafnvel á mælikvarða þess tíma.
Nýtt og harla undarlegt dæmi um slíka ófrjósemisaðgerð, sem Alþingi framkvæmir á sjálfu sér, dæmi um fyrsta skref í þessari hægfara tilfærslu á valdi og einhverri arðsvon, fyrsta skref sem er fólgið í því að losa ríkisstofnun undan afskiptum löggjafans og ríkissjóð við launagreiðslur og annan kostnað vegna samningsskuldbindinga, er stofnun hins opinbera hlutafélags sem nefnt er Flugstoðir og á að taka við verkefnum Flugmálastjórnar. Samgönguráðherra hefur sagt að þessi breyting miði að því að auðvelda mönnum að bregðast við í harðnandi samkeppni um flugleiðsögn á hinu íslenska flugstjórnarsvæði. Öðrum kosti sé hætta á að Íslendingar missi flugumsjón á þessu svæði úr höndum sér og verði þar með af drjúgum greiðslum erlendis frá. Er svo að skilja orð ráðherrans - ef ég þá skil þau rétt - að trúbræður hans, nýfrjálsir markaðshyggjumenn og kapítalistar, sem fara nú eldi og ójöfnuði um heimsbyggðina, séu í þann veginn að ná undir sig flugumsjón í veröldinni, ótæmandi auðsuppsprettu í höndum manna sem stjórnendur og starfsmenn venjulegrar ríkisstofnana hafi ekki roð við. Óskandi er að opinbert hlutafélag samgönguráðherrans nái að bregðast við kapítalistunum með þeim hætti sem ráðherrann segist gera sér vonir um. Ekki veitir okkur af peningum frá útlendingum til að halda uppi flugsamgöngum við landið. Þó vaknar sú spurn í huga manns hvort samgönguráðherra sé svo óljúft sem hann lætur að sjá á eftir tekjum í hendur einstaklinga, jafnvel þó erlendir séu. Hitt er sennilegra að hann og trúbræður hans í ríkisstjórn og meirihluta alþingis vilji, ef Flugstoðir ná að halda velli í samkeppni við útlendinga um flugumsjónargjöld, sjá þessar tekjur renna í vasa íslenskra auðhringa og kapítalista.
Það yrði þó aldrei svo að saga Flugstoða ohf. yrði áþekk sögu Símans? Eflaust gætu íslenskir auðmenn, sem ráða lögum og lofum í öllum samgöngum til og frá landinu, á sjó og í lofti, hugsað sér sjá flugumsjónar- og lendingargjöld fyrir flugvélar sínar lenda að drjúgum hluta í sínum eigin vösum. En þá verður að hafa hraðar hendur við sölu á Flugstoðum ohf. Alþingiskosningar eru í vor og ekki séð með fullri vissu hvort ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tekst að halda völdum.
Kjaradeila 60 flugumferðarstjóra við stjórn og forstjóra Flugstoða ohf. snýst, ef ég skil það rétt, fyrst og fremst um lífeyrisskuldbindingar og áunnin lífeyrisréttindi. Deilan verður hvorki skýrð né skilin nema gert sé ráð fyrir að það sé staðfastur ásetningur samgönguráðherra í umboði ríkisstjórnar að fría hið nýstofnaða opinbera hlutafélag undan lífeyrisskuldbindingum sem flugumferðarstjórar hafa samið um til viðbótar launagreiðslum á undanförnum áratugum, lífeyrisskuldbindingar sem tíðkast ekki gagnvart hinum almenna launamanni hjá einkafyrirtækjum. Ef slíkar lífeyrisskuldbindingar lentu á Flugstoðum ohf. yrði söluverðmæti félagsins eflaust allnokkru lægra og ríkið fengi þannig allnokkru minna upp í lífeyrisskuldbindingar sínar gagnvart ráðherrum eins og Sturlu Böðvarssyni. Eins og mál horfa við nú í dag, 28. desember, verður ekki annað ráðið af viðbrögðum ráðherra og stjórnar Flugstoða en að deila við hina 60 flugumferðarstjóra verði látin óleyst. Kergjan - eða öllu heldur gallharður ásetningur stjórnvalda - er svo mikil að menn eru reiðubúnir að kosta til 200 miljónum króna í biðlaunagreiðslur sem lenda þá á skattgreiðendum en ekki á væntanlegum kaupendum Flugstoða ohf.
En gætum allrar sanngirni í garð ríkisstjórnar og samgönguráðherra. Ekkert hefur komið fram um það að ætlunin sé að selja Flugstoðir ohf. Þá verður að leita annarra skýringa á hnútnum sem deilan við flugumferðarstjóra er komin í. Kergjuna má þá kannski skýra með því að ríkisstjórnin vilji senda öðrum opinberum starfsmönnum hjá ríkisstofnunum, sem verið er að breyta eða kæmi til greina að breyta í opinber hlutfélög, skilaboð þess efnis hvernig ríkisvaldið ætli sér að standa að hugsanlegum samningum og uppgjöri vegna lífeyrisskuldbindinga og áunninna lífeyrisréttinda þessara starfsmanna. BSRB hefur lýst áhyggjum sínum vegna lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna sem verða að ganga til starfa hjá opinberu hlutafélagi eða missa vinnu sína ella. Vafalaust hefur BSRB hvatt sextíumenningana til dáða á laun á undanförnum vikum og skorað á þá að hvika hvergi frá settu marki.
Þá gæti það enn skýrt kergjuna í deilunni að flugmálayfirvöld - og þar með talinn flugmálastjóri og væntanlegur forstjóri Flugstoða ohf. - eru líklega orðin langþreytt á kröfuhörku og samningatregðu flugumferðarstjóra sem hafa margoft notfært sér við samningaborðið vanmönnum við flugumferðarstjórn og lykilhlutverk flugumferðarstjóra þegar kemur að flugsamgöngum við landið og öryggi flugfarþega. Ríkisstjórnin, samgönguráðherra og stjórn Flugstoða ohf. hugsa sér þá að líkindum að láta nýtt ár ganga í garð án þess að deilan sé leyst en reikna síðan fastlega með, þegar einhver röskun verður á flugsamgöngum, að almenningsálit, andsnúið flugumferðarstjórum, verði til þess að sextíumenningarnir gangi til samninga og starfa hjá hinu opinbera hlutafélagi.
Við sjáum hvað setur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.12.2006 | 18:49
9. Tumaganga með 12 dögum jóla hjá Glúbb glúbb grúpp
Á fyrsta degi jóla
hann Hannes seldi mér
pínkulítið af sálinni í sér.
Á öðrum degi jóla
hann Hannes keypti'af mér
hlut í Jús fál er
og pínkulítið af sálinni í sér.
Á þriðja degi jóla
hann Hannes seldi mér
allt Makk and brask,
hlut í Jús fál er,
og pínkulítið af sálinni í sér.
Á fjórða degi jóla
hann Hannes keypti'af mér
Hvararí og Sterling,
allt Makk and brask,
hlut í Jús fál er
og pínkulítið af sálinni í sér.
Á fimmta degi jóla
hann Hannes seldi mér
hálft Elleff Grúpp,
Havarí og Sterling,
allt Makk and brask,
hlut í Jús fál er
og pínkulítið af sálinni í sér.
Á sjötta degi jóla
hann Hannes keypti'af mér
hlut í Fallítt Travel,
hálft Elleff Grúpp,
Havarí og Sterling,
allt Makk and brask,
hlut í Jús fál er
og pínkulítið af sálinni í sér.
Á sjö'nda degi jóla
hann Hannes seldi mér
Sikk and grídí hóldings,
hlut í Fallítt travel,
hálft Elleff Grúpp,
Havarí og Sterling,
allt Makk and brask,
hlut í Jús fál er
og pínkulítið af sálinni í sér.
Á áttunda degi jóla
hann Hannes keypti'af mér
hundrað þúsund örlög,
Sikk and grídí hóldings,
hlut í Fallítt travel,
hálft Elleff Grúpp,
Havarí og Sterling,
allt Makk and brask,
hlut í Jús fál er
og pínkulítið af sálinni í sér.
Á níunda degi jóla
hann Hannes seldi mér
sjö miljón manns,
hundrað þúsund örlög,
Sikk and grídí hóldings,
hlut í Fallítt travel,
hálft Elleff Grúpp,
Havarí og Sterling,
allt Makk and brask,
hlut í Jús fál er
og pínkulítið af sálinni í sér.
Á tíunda degi jóla
hann Hannes keypti'af mér
einn loðinn lófa
sjö miljón manns,
hundrað þúsund örlög,
Sikk and grídí hóldings,
hlut í Fallítt travel,
hálft Elleff Grúpp,
Havarí og Sterling,
allt Makk and brask,
hlut í Jús fál er
og pínkulítið af sálinni í sér.
Á ellefta degi jóla
hann Hannes seldi mér
hjarta úr gulli,
einn loðinn lófa,
sjö miljón manns,
hundrað þúsund örlög,
Sikk and grídí hóldings,
hlut í Fallítt travel,
hálft Elleff Grúpp,
Havarí og Sterling,
allt Makk and brask,
hlut í Jús fál er
og pínkulítið af sálinni í sér.
Á tólfta degi jóla
hann Hannes keypti'af mér
meirihluta í mömmu,
hjarta úr gulli,
einn loðinn lófa,
sjö miljón manns,
hundrað þúsund örlög,
Sikk and grídí hóldings,
hlut í Fallítt travel,
hálft Elleff Grúpp,
Havarí og Sterling,
allt Makk and brask,
hlut í Jús fál er,
og pínkulítið af sálinni í sér.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.12.2006 | 17:53
8. Tumaganga með góðum horfum á jólasteik
Árvissum aðventuspreng er að ljúka. Ég bíð eftir því með steikarlykt í vitum að Dómkirkjuklukkurnar hringi inn jólin í útvarpinu. Það er óbrigðult í mínu tilfelli að þessi klukknahringing slær á einu augabragði á aðventusprenginn í brjósti mér eins og róandi sprauta. Ég öðlast þannig sálarstyrk til að eiga enn eitt ljósríkt aðfangadagskvöldið með fjölskyldunni. Það er besta jólagjöfin. Ég minni mig á það í hvert skipti sem ég er kominn í jólafötin: Gleðileg jól eru ekki sjálfsagður hlutur.
Aðventusprengur Flíslendinga verður trylltari með hverju árinu sem líður. Það eru ekki aðeins verslunarkeðjur og kaupmenn, sem drekkja börnum og fullorðnum í sínu plastfóðraða hálslóni, heldur pappírsarka bókúgefendur yfir sjó og land, frjálsar útvarpsstöðvar fara ófrjálsri hendi um andlegt jafnvægi manns með linnulausum jólalagahraglanda og hljóðfæraleikarar, kórar og einsöngvarar virðast á einu máli um að fyrir hver jól sé alsíðasta tækifærið sem þeir fá til að láta heyra í sér.
Eflaust hafa margir ómælt gaman af þessum aðventusperringi. Ég er hins vegar með þeim ósköpum gerður að hann veldur í brjóstinu á mér einhverri ókyrrð sem ég get með engu móti notið. Ég reyni þess vegna að taka ekki þátt í aðventusprengnum, reyni að forðast áreitið og jólaglamrið. En það er hvergi að finna nógu traust skjól, a.m.k ekki hérna í þéttbýlinu. Síðustu daga fyrir jól eru spennustraumarnir allt um kring orðnir svo magnaðir að stundum verð ég að setjast niður, draga djúpt að mér andann og brýna fyrir sjálfum mér að slaka á, þetta líði fljótlega hjá. Kannski hef ég orðið svona viðkvæmur með aldrinum.
Lægðagangurinn að undanförnu hefur svo ekki verið til þess að auka manni ró og innri frið. Átök í veðrinu, þar sem loftþyngdin hleypur upp og niður um nokkra tugi hektópaskala á örfáum klukkustundum, hafa áhrif á líkamlegt ástand manns og óbeint á andlega líðan. Ókyrrð í lofti leggst ofan á ókyrrð í samfélaginu. Mér finnst það óþægilegt ástand. Ég er örugglega ekki einn um það.
En ég vildi ekki án jólanna vera. Ég á því ekki annarra kosta völ en að þola þessar aukaverkanir á aðventunni. Lækningin kemur svo með Dómkirkjuklukkunum á eftir.
- Og fæ ég bjúga eins og þú lofaðir í fyrradag.
Auðvitað færðu bjúga.
- Ég hélt að þú hefðir vorkennt svo sjálfum þér í jólalátunum í gær að þú hefðir kannski gleymt að ná í bjúgað.
Auðvitað sé ég til þess að jólin hjá þér verði gleðlileg. En mundu, þegar þú gleypir ofan í þig bjúgað á eftir, að það er ekki sjálfsagður hlutur að fá að njóta gleðilegra jóla.
Við skulum koma okkur heim. Finnurðu ekki steikarlyktina eins og ég?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2006 | 18:15
7. Tumaganga um þjóðlendur með Standard, Púr og Árna Mattador
Það blés svo skarpt á okkur í kvöld að Tumi vafraði hvað eftir annað til hliðar þar sem hann dró mig á eftir sér í ólinni.
Er ekki allt í lagi, Tumagrey, svona rétt fyrir jólin?
- Ætli þaðki, ansaði hann og leit snöggt aftur fyrir sig eins og til að fullvissa sig um að ég hefði ekki hrakist frá honum undan veðrinu. Ég vildi samt gjarnan merkja betur hérna utan í ljósastaurinn. Þetta voru ekki nema örfáir dropar hjá mér áðan.
Farðu nú ekki of geyst í því, Tumi, að merkja þér blettinn hérna. Þetta gæti verið þjóðlenda.
- Ég læt þá reyna á það fyrir dómstólum, sagði Tumi og lyfti löppinni við ljósastaurinn.
Heldurðu að hafi eitthvað upp á sig fyrir þig, spurði ég, að grípa til varnar fyrir dómstólum?
Tumi leit upp á mig, glotti sjálfbirgingslega og hristi sig.
- Hannes Hólmsteinn er búinn að vinna öll sín mál. Dómaranir hljóta að gæta fyllsta réttlætis gagnvart mér eins og Hannesi. Annnars má ég hundur heita.
En einmitt þar liggur hundurinn grafinn. Þú ert hundur, Tumi. Dómarar líta allt öðrum augum á hunda en menn. Það breytti öllu fyrir Hannes Hólmstein. Ég held að hundum sé hins vegar fátt til varnar og málsbóta fyrir dómstólum.
- Ég fæ Gest Jónsson til að reka málið fyrir mig, ansaði Tumi hróðugur og skokkaði af stað. Gestur er pottþéttur verjandi. Það væri ekki enn komið að dómsuppkvaðningu yfir Axlar-Birni og Guy Fawkes ef Gestur hefði verið búinn að opna lögfræðistofu fyrir fjögurhundruð árum.
Reyndu ekki að gera þér vonir um, Tumi, að Gestur fáist til að taka að sér málsvörn fyrir þig. Hann stendur í svo viðamiklu málastappi að stórsér á honum. Hann er kominn með Baug undir augun.
- Gestur finnur örugglega smugu fyrir mig, ansaði Tumi. Hann er hreint ótrúlega naskur á að finna smugur. Sérðu allar smugurnar sem hann er búinn að finna fyrir Jón Ásgeir.
Já, en Jón Ásgeir er miljarðamæringur. Þú ert bara skosk-íslenskur blendingur og átt ekki neitt nema bælið þitt og jaskað bein. Þú þarft að rétta Gesti meira en eina hnútu ef þú vilt fá hann til að finna smugur fyrir þig.
Tumi nam staðar, hugsi á svip. Svo sagði hann:
- Ef þú gefur mér bjúga á aðfangadagskvöld ætla ég að geyma það handa Gesti.
Heldurðu að Gestur Jónsson, hæstaréttarlögmaður, geri það fyrir eitt hundskvikindi að smeygja sér í svörtu skikkjuna með bláu bryddingunum fyrir eitt bjúga!? Ha! Ég er viss um að hann tekur andvirði eins bjúga fyrir það eitt að segja upphátt í réttarsal tvö orð, t.d. Haraldur" og Johannesen". Það kostaði þig örugglega hálft bjúga í viðbót að fá hann til að segja upphátt ríkislögreglustjóri".
- Fyrst þú minnist á Harald Johannesen, sagði Tumi eins og hann vildi eyða talinu um hugsanlega málsókn út af þjóðlendum. Það er illa komið fyrir honum núna. Mér er sagt að hann sé vanhæfur til að leggja dóm á jólasteikina á aðfangadagskvöld. Hann ætlar nefninlega að elda hana sjálfur. Það sér auðvitað hver heilvita maður - og ekki bara hann Gestur - að það verður ekkert að marka hvað Haraldi finnst um steikina. Ég tala ekki um ef hann hefur í ofanálag keypt steikina í Bónus.
Við Tumi vorum komnir að andapollinum neðst í læknum í Kópavogsdal sem Gunnar Birgis lét innrétta upp á nýtt þegar hann var á atkvæðaveiðum fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor. Á pollinum lónuðu nokkrar gæsir og endur en sáust engin atkvæði. Gunnar veiddi þau öll.
Hvað finnst þér um Standard og Púr, spurði ég.
- Mér finnst þeir hundfúlir þó að ég segi sjálfur frá, ansaði Tumi. Er hægt að hugsa sér nöturlegri jólajöf en svona lánshæfismat. Ég skil ekki hvaða uppeldi þeir hafa fengið, þessir Standard og Púr. Það ætti að senda þá á meðferðarheimili eða í Kastljósið til Þórhalls. Hvað á það að þýða að eyðileggja jólin svona fyrir heilli þjóð!? Það verður sjón að sjá okkur með allt fráhneppt ef við týnum úrvalsvísitölunni!
Árni Mattador sagði að það væri Alþingi að kenna að hefði hlaupið þessi fýla í Standard og Púr. Þingmenn hefðu samþykkt lagafrumvarp um lækkun matarskattsins sem hann lagði fyrir Alþingi. Hann hefði aldrei trúað því fyrirfram að þingmenn væru svona vitlausir. Ef hann hefði grunað að þingmenn ætluðu að samþykkja frumvarpið hefði hann aldrei látið sér detta í hug að mæla fyrir því. En þeir samþykktu frumvarpið og þess vegna laumuðu Standard og Púr þessum jólaglaðningi í skóinn okkar. Ég dáist að Árna Mattador. Hann kemst alltaf að kjarna málsins.
- Ég heyrði áðan, sagði Tumi, að Standard og Púr hefðu látið kartöflu í skóinn hjá Árna Mattador.
Hvernig brást hann við því, spurði ég.
- Hann á að hafa sagt að þetta væri ekki sinn skór.
Datt mér ekki í hug, sagð ég, og við Tumi héldum áfram göngu okkar upp með Kópavogslæknum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2006 | 21:19
6. Tumaganga með smjörklípubragði og ákveðnum greini
Svo er að heyra á ýmsum frétta- og blaðamönnum að þeim hafi komið á óvart þegar Davíð Oddsson upplýsti í sjónvarpsviðtali í haust að hann hefði lært það, sem hann nefndi smjörklípuaðferð", af konu nokkurri sem hann tilgreindi og ég man ekki gjörr hver var, og þessari aðferð hefði hann beitt gjarnan í þrasræðum við andstæðinga sína í stjórnmálum. Ég hlýt að viðurkenna að þessi uppljóstrun" Davíðs var mér engin opinberun enda hef ég nánast aldrei í 25 ár heyrt til hans í pólitískri þrætu við andstæðinga án þess að hann beitti þessu glímubragði. En það voru sumsé einhverjir á meðal þrautreyndra blaðamanna sem höfðu ekki tekið eftir þessu.
Síðan Davíð upplýsti tilurð þess, að hann fór að nota þetta bragð, hefur nafngiftin smjörklípubragð" skotið upp kollinum hvað eftir annað í fjölmiðlum þegar menn átta sig á að verið er að snúast gegn andstæðingi með þeim hætti sem Davíð nefndi og hann að sagði að hefði oft reynst sér vel. Þetta er í sjálfu sér skemmtileg nafngift hjá Davíð og söguskýringin ágæt en ég geri samt ráð fyrir að Davíð hafi vitað sem er að smjöklípubragðið" er æfagömul rökræðubrella eða villurök sem kallast á latínu argumentum ad hominem". Þá er gagnrýni eða umræðu beint að þeim, sem fullyrðir eitthvað, í stað þess að gagnrýna fullyrðinguna sjálfa og hrekja hana með gildum rökum. Villurök af þessum toga birtast í mörgum afbrigðum. Til dæmis er hægt að draga persónueinkenni viðkomandi andstæðings, þjóðerni eða kynþátt inn í umræðuna. Enn fremur er algengt að vakin sé athygli á að sá, sem staðhæfir að eitthvað sé rétt, hagnist á gefinni niðurstöðu eða bent er á hagsmuna- eða persónubundin tengsl hans við umræðuefnið, félagið, flokkinn eða hópinn sem ræðumaður heyrir til eða er fulltrúi fyrir.
Argumentum ad hominem er algengast í þessum þremur afbrigðum:
(1) ad hominem (niðrandi): Í stað þess að ráðast gegn fullyrðingu er ráðist gegn persónunni sem heldur því fram að fullyrðing sé sönn.
(2) ad hominem (aðstæður): Í stað þess að ráðast gegn fullyrðingu er bent á tengsl milli persónu, sem heldur fram fullyrðingu, og aðstæðna hennar.
(3) ad hominem (tu quoque): Í þessu afbrigði málsvarnar er bent á að persóna fari ekki eftir því sem hún boðar öðrum að gera í fullyrðingu sinni.
Dæmi:
(i) Þú þykist halda því fram með rökum að guð sé ekki til en þú ert bara að apa upp vitleysuna eftir öðrum. (Ad hominem - niðrandi)
(ii) Við skulum ekki taka neitt mark á því sem kemur fram í áliti Háskólans í Reykjavík því að skólinn þiggur umtalsverðar fjárhæðir frá Verslunarráði. (Ad hominem - aðstæður)
(iii) Þú segir að ég ætti ekki að drekka en þú sjálfur ert ekki barnanna bestur í þessum efnum. (Ad hominem tu quoque)
(iv) Þessi tillaga Samfylkingarinnar um aðgerðir til að bæta kjör aldraðra er ekki svara verð. Við vitum hér á Alþingi að frá fyrsta degi hefur Samfylkingin sérhæft sig í vitlausum tillögum. (Ad hominem - niðrandi)
Argumentum ad hominem er eitthvert vinsælasta glímubragð stjórnmálamanna sem vilja komast hjá því að rökræða um staðhæfingu við pólitískan andstæðing, hvort sem er í ræðustól, umræðuþætti eða í rituðu máli. Menn geta gert sér það til dundurs á hverjum degi að finna þessi villurök í málflutningi allra stjórnmálamanna í öllum flokkum. Davíð er langt í frá eini stjórnmálamaðurinn sem hefur snúist gegn andstæðingum sínum með argumentum ad hominem en nafngiftin smjörklípubragð" tengir þessi villurök við hann, mann sem beitti þessum villurökum hvað eftir annað þegar andstæðingar hans voru að reyna að fá hann út í efnislega rökræður.
Til að sýna fram á að sá, sem talar, noti argumentum ad hominem verður að tilgreina efnisatriði í atlögu- eða gagnrýnislið og færa að því gild rök að persónugerð, aðstæður, hagmsunir eða tengsl ræðumanns, sem heldur fram fullyrðingu, komi því ekkert við hvort fullyrðing hans sé rétt eða röng. Sá sem verður fyrir argumentum ad hominem gerir réttast í því að falla ekki fyrir þessu glímubragði og hvika hvergi frá umræðuefninu sjálfu. Sá sem glepst til að svara gagnrýni eða ávirðingu, sem fólgin er í argumentum ad hominem, bregst þá við eins og andstæðingur hans ætlaðist til, hann beinir umræðu og athygli að sjálfum sér og frá hinu eiginlega viðfangsefni sem upphafleg fullyrðing varðaði.
......Og úr því að ég minntist á fréttamenn og blaðamenn hérna í upphafi. Á undanförnum vikum hef ég tekið eftir því að fréttamenn á Stöð2 og RÚV eru sem óðast að taka upp þann óvana að klína viðskeyttum greini við örnefni og staðaheiti. Þetta er algengt í sænsku t.d. en hefur ekki tíðkast í íslensku nema þá um tiltölulega fá örnefni (t.d. Sogið, Elliðaárnar, Esjan, Flóinn), um styttingar á örnefnum (t.d. Stóllinn, Hlíðin, Bakkinn) eða þegar heimamenn eru að tala um kennileiti eða náttúrufyrirbæri í næsta nágrenni við sig, fjall eða fljót t.d. sem er vegna nálægðar sinnar orðinn nokkurs konar persónugerður nágranni eða samsveitungur heimamanna. Í fréttum í gærkvöld var Eyjafjarðaráin" farin að flæða yfir Akureyrarflugvöll - ekki Eyjafjarðará - og menn voru farnir að bíða eftir að Ölfusáin flæddi yfir bakka sína. Það er hætta á að fréttamenn í sjónvarpi fari að bíða eftir því að Katlan gjósi ( í stað þess að Katla gjósi) eða hlaup komi í Skaftána (í stað þess að hlaup komi í Skaftá). Ég veit að samkvæmt nýjustu viðmiðum er ekkert rangt í notkun tungumáls og ekkert réttara en annað en ég leyfi mér a.m.k. að fullyrða að notkun viðskeytts, ákveðins greinis með örnefnum og staðarheitum, þar sem ekki er stuðst við staðbundna málvenju, er a.m.k. ekki vandað málfar. Ef fréttamenn ljósvakamiðlanna hafa ekki gengist undir að fara í sérstaka krossferð fyrir Samtök um aukna notkun ákveðins greinis" ættu þeir að stilla þessari greinisnotkun með örnefnum og staðarheitum í hóf. --- Og af gefnu tilefni: Það eru engir bæir innst í Eyjafirði. Þeir eru fremst í Eyjafirði. Menn aka fram Skagafjörð en ekki inn Skagafjörð. Norðlendingar fá vægt taugaáfall þegar þeir heyra sunnlenska bögubósa segja að bær sé innst í Vatnsdal. Sjálfsagt fyrir ljósvakamiðla að umgangast taugakerfi Norðlendinga af nærgætni og varúð.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.12.2006 | 22:00
5. Tumaganga með Kompási og Kastljósi í kringum jólatréð
Það er engu líkara en íslenskir fjölmiðlar hafi einsett sér að stela jólunum frá íslensku þjóðinni. Hvaða rétt hafa forráðamenn fréttadeilda og fréttaþátta til að dæla yfir fólk á síðustu dögum fyrir jól illa þefjandi sora sem leggst yfir aðdraganda hátíðarinnar eins og kæfandi mengun. Ég fæ ekki betur séð en hefði mátt bíða með það framyfir hátíðar að lesa yfir þeim, sem áhuga hafa á slíku, ásakanir í garð nafnkenndra einstaklinga um kynferðislega misneytingu og öfuguggahátt og skreyta þennan hneykslunarbeljanda með ógeðfelldu myndefni. Ég fæ ekki betur séð en að sjálfskipaðir dómstólar" fjölmiðlanna hefðu að ósekju getað beðið með aftökuna" fram yfir áramót, jafnvel fram yfir þrettándann. Slíkt hefði engu breytt að öðru leyti en því að þjóðin hefði fengið að halda sín jól í friði fyrir vandlega unnum æsingafréttum". Jafnvel óvinaherir í fyrstu og annarri heimsstyrjöld höfðu með sér þegjandi samkomulag um að láta fallbyssurnar þagna á aðfangadag og jóladag. En kompásar og kastlýsingar mega greinilega ekki til þess að hugsa að slaka á í baráttunni gegn hinu illa" og fyrir betra mannlífi" í þágu sannleika og réttlætis". Jafnvel jólagleði fólks verður að fórna í kapphlaupinu um að vera fyrstur með æsisöguna, að vera öflugastur í aurkastinu og ganga lengra í því að minna þjóðina á að þrátt fyrir jólaljós, jólasálma, jólasveina og jóladót í skóinn sé samfélagið morandi í óþverra. Kastlýsingar slógu svo fyrri met í þættinum í kvöld þar sem ægði öllu saman, kynferðislegri misneytingu, eiturlyfjum, jólasveinum, kynfærum, jólatrjám, sjálfskvalafíkn, aðdróttunum um fjárdrátt, ljóðabókum, jólasöngvum, tölvupóstmyndum af nöktum karlmanni að sýna 14 ára stúlku á sér besefann og í lokin var svo klykkt út með sönglaginu Við erum vinir að eilífu". Mér varð bumbult. Hvað eru yfirmenn RÚV, helstu menningarstofnunar" Íslendinga, að hugsa þessa síðustu daga fyrir jól? Hvar í víðri veröld dytti mönnum í hug sú smekkleysa að bera á borð fyrir grandalaust fólk í einum pakka jól barnanna og tól karlanna? Hefur mönnum gleymst að jólin eru ljóssins hátíð en ekki kastljóssins klámtíð? Í guðs bænum, látum nú gott heita í bili. Lofið okkur, sem enn höfum sloppið undan rannsóknarrétti" Stöðvar 2 og Kastljóssins, að njóta jólanna í friði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2006 | 20:07
4. Tumaganga, 16.12.2006, í vetrarblíðu með minnkandi tungli og Sigurjóni
Ritstjórinn raunum hryggi er rekinn af fjölmiðlatröllum, borinn út á hjarn fyrir önnur gráðug fjölmiðlatröll.
Ritstjórar og blaðamenn á Íslandi eru ekki öfundsverð hjörð. Tröll hafa menn sér til matar í helli sínum og hrækja þeim út úr sér ef þeim líkar ekki bragðið af skoðunum þeirra.
Ritstjórinn raunum hryggi boðaði útgáfu á nýju,íslensku blaði. Kollegi hans og þjáningarbróðir í íslenskum tröllmiðlahelli spurði ekki: Hvað stendur í blaðinu? Hann spurði: Hver stendur á bak við blaðið?
- Er það ekki stóra spurningin í hinum kapítalíska helli á Íslandi: Hvaða tröll á hvað? Ekki svo að skilja að þurfi að vera spyrja að því úr þessu mikið lengur. Eru það ekki átta eða tíu tröll og leppalúðar þeirra sem eru langt komin með að eignast alla skapaða hluti á Íslandi og hafa að auki eignast veð í sálum og lífi hvers einasta Flíslendings?
Mér hefði samt þótt eðlilegra að viðmælandi ritstjórans raunum hrygga hefði spurt hvað ætti að vera í nýja blaðinu, hvert yrði efni þess, hvernig efnistök, ritstjórnarstefna, jafnvel hvort blaðinu væri ætlað að fylgja einhverri tiltekinni afstöðu til þjóðmála. En að slíku er ekki lengur spurt í íslenskum tröllmiðlaheimi. Mér þykir það varhugavert ástand. Nú hafa menn einungis áhuga á að fá vita hvaða tröll eigi hin nýju hellistíðindi, hvaða Trunt Trunt hafi boðist til að fita hinn brottrekna ritstjóra. Það sýnir kannski betur en nokkuð annað hvort hefur orðið einhver framför í íslenskum tröllmiðlaheimi.
- Framför? Hvers vegna er alltaf verið að biðja um framför? Við bara fæðumst, lifum og deyjum. Afi hrökk upp af um daginn. Var það framför? Já, eiginlega. Það losnaði um leið íbúð sem rúmaði sjö Pólverja - og tíu ef þeir voru nógu fullir.
Ég er farinn að sakna gömlu flokksblaðanna. Og ég held að blaðamenn og ritstjórar nýju, íslensku blaðanna megi fara að velta fyrir sér hvort það sé í raun og veru einhvers virði - fyrir þá og fyrir okkur, hina Flíslendingana - að þeir skuli hafa tekið að sér þetta auvirðilega hlutverk sem fimmta varaaflið að snúast ævinlega í kringum tröll og auglýsendur.
Ég hef samúð með okkur, blaðalesendum, ritstjórum og blaðamönnum. Við erum öll - eins og stendur - týnd og tröllum gefin.
- Hver á þessa bloggsíðu annars?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2006 | 11:35
3. Tumaganga, 15.12.2006, á góðum Degi með Birni Inga
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Tumagöngur
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 480
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar