Færsluflokkur: Dægurmál

2. Tumaganga, 14.12.2006, í hæglætisveðri með olíuforstjórum.

 

 

Löggjöf getur oft verið ófullkomin og þvælst fyrir mönnum sem vilja framfylgja réttlætinu. Nú draga lögfróðir menn í efa og þeirra á meðal lærifaðir í lögfræði við Háskóla Íslands að í Samkeppnis­lögum sé að finna heimild til að sækja einstaklinga til refsingar vegna brota á ákvæðum 10. greinar laganna. Í greininni sé einvörðungu rætt um fyrirtæki, sbr. upphafsmáls­grein hennar: „Allir samningar og samþykktir milli fyrirtækja, hvort heldur þær eru bindandi eða leiðbeinandi, og samstilltar aðgerðir sem hafa að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún sé takmörkuð eða henni raskað eru bannaðar." Ríkissaksóknari hefur birt fyrrverandi forstjórum olíufélaganna ákæru vegna brota á 10. grein. Með ákærunni fylgja gögn sem sýna að þessi tilteknu einstaklingar höfðu forgöngu um og stjórnuðu verknaðinum sem ákært er fyrir. Í orðskýringa­kafla Samkeppnislaga er tilgreint að í lögun­um merki orðið „fyrirtæki" einstakling, félag, opinberan aðila eða aðra sem stunda atvinnurekstur. Saksóknari telur greinilega rétt að láta reyna á það fyrir dómstólum hvort ekki sé mögulegt á grundvelli 10. greinar að koma fram refsiábyrgð á hendur þessum forstjórum olíufélaganna í ljósi þess að orðið „fyrirtæki" nái skv. lögunum til einstaklinga sem stundi atvinnurekstur. Spurningin er væntanlega sú hvort forstjóri fyrirtækis geti skv. almennri málvenju og almennum skilningi fólks á orðinu talist einstakl­ingur sem stundar atvinnurekstur. Þeir sem telja vafa bundið að lögsækja olíuforstjórana benda líklegast á að það sé fyrirtækið eða félagið, sem stundi atvinnu­rekstur, en forstjórinn stjórni fyrirtækinu eða félaginu en geti ekki skv. viðteknum skilningi talist einstaklingur sem stundi atvinnu­rekstur.

Í Samkeppnislögum er fangelsisvist eitt af viðurlögum sem nefnd eru vegna brota á lögunum. Nú verða aðeins einstaklingar settir í fangelsi og þegar brotin varða 10. greinina þá aðeins einstaklingar sem stunda atvinnurekstur. Maður sem á fyrirtæki eða hlut í fyrirtæki og tekur jafnframt mikilvægar ákvarðanir um rekstur þess, hvort sem hann er forstjóri þess eða situr í stjórn þess, hlýtur að teljast einstaklingur sem stundar atvinnurekstur í skilningi laganna. Ákvæði 10. gr. hljóta því að ná til hans sem einstaklings með hliðsjón af merkingarskýringu laganna á orðinu „fyrirtæki". Ef til vill á það eftir að ráða talsverðu um niðurstöðu málsins, sem nú hefur verið höfðað á hendur fyrrverandi forstjórum olíu­félaganna, hvort þeir áttu hlut í félögunum, sem þeir stjórnuðu, á þeim tíma sem ætluð brot voru framin.    


1. Tumaganga, 13.12.2006, í stilltu veðri og vægu frosti.

 

 

Hefurðu heyrt talað um „ferskeytluvind"? Hefurðu heyrt sagt um einhvern að „hann hafi leyst ferskeytluvind?"

            „Það hef ég aldrei heyrt."

            Halldór Blöndal leysir stundum ferskeytlu­vind. Ég á það líka til. Ræð ekki við það. Ég ræð ekki við rímgáfuna. Ég er ofurseldur sömu örlögum og Halldór Blöndal. Þetta kemur ósjálf­rátt. Er oftast nær tómt prump. Þetta datt út úr mér í gærkvöld eftir Kast­ljósið - og nú syngja allir með:

                        Solla var á bláum kjól og Geiri í dökkum sjút.

                        Sigmar var með áhyggjur og setti á sig stút....

Ég týndi framhaldinu. Eða bragliðafreturinn var svo ógreinilegur í endann að ég náði honum ekki.

            „Það má þakka fyrir það. Þetta var leirburður og rangt kveðið."

            En ég sé ennþá fyrir mér Sollu og Geira þar sem þau sátu hvort gegn öðru í Kast­ljósinu eins og nú ættu að fara fram úrslit í störukeppni sjónvarpsins. Sigmar var með svip á alvörustigi þrjú; þá bítur hann saman vörunum eins og litli frændi minn þegar hann vill ekki taka inn lýsið sitt. Stundum var Geiri svo fjarrænn á svip, jafnvel dreymilegur, að kæmi til greina að hann hafi verið að velta fyrir sér hvernig Solla væri innanundir bláa kjólnum.

            „Þetta er alrangt hjá þér. Hann var að raula með sér í huganum tenórröddina í Uppsala er bäst."

            Solla virtist vera búin að sjá inn­undir sjútinn á Geira og hún brosti góðlátlega, stundum.

            „Já, tókstu eftir hvernig hún var alltaf að brosa. Hún hefði örugglega valtað yfir  forsætsiráðherra í samtalinu ef hún hefði sleppt því að brosa og sett upp í staðinn lesgler­augun og skólastýruskeifuna."

            Þau störðu hvort annað í hel og áhorfendur líka. Þau voru að ræða um fátæk börn á Íslandi. Það er nýr vinkill á umræðunni um aðför kapítalista að íslensku samfélagi. Vinstri­menn eru að reyna sannfæra Flíslendinga um að íslenskir kjósendur séu að búa til vont sam­félag með því að koma Sjálfstæðis­flokki til valda í hverjum einustu kosningum. Fyrr á þessu ári var reynt að sýna kjósend­um fram á þetta með því að tala um fátækt, gamalt fólk. Ekkert hrín á íslenska kjósendur. Þeir virðast stað­ráðnir í að búa til enn meiri ójöfnuð. Þeir virðast halda að allir græði á því. Ég veit ekki hvaða áróðurssnillingi hefur tekist að sannfæra þá um það. Geiri sagðist ekki þekkja nokkurn mann sem vildi að börn væru fátæk. Kjósendur Sjálfstæðis­flokksins vilja auðvitað ekki að börn séu fátæk. En þeir amast kannski ekki við því fremur en Davíð og Halldór ömuðust við því þegar Búss og Bler réðust inn í Írak til að frelsa heiminn. Stundum verður að gera fleira en gott þykir til að frelsa kapítalið svo að það rati ekki í vitlausar  hendur.

            Foreldrar eru líka fátækir. En það er áhrifameira að tala um börnin en for­eldra þeirra. Svona rétt fyrir jólin. Leyfið börnunum að koma til mín, segja farsímafyrirtækin. Allir tárast þegar þeir heyra söguna um litlu stúlkuna með eldspýt­urnar. Hún var dönsk. Hún átti í heima í Kaupmanna­höfn laust eftir miðja 19. öld. Þá var danskt samfélag útbíað af meinsemdum og kaunum hins óhefta kapítalisma. Margt hefur breyst þar síðan. Og margt er líka að breytast hér. Við skulum amast við því áður en illa fer. Nú fást hvergi almennilegar eldspýtur nema í Bristol í Bankastræti. Hvar eru litlu stúlkurnar?

            „..... ........ ......  ......!"

            Nei, ég trúi því ekki. Það getur ekki verið.

 

*******************

 

sjútur, -s, ar, no.kk.: jakkaföt (nýmyndun eftir e. orðinu „suit").

sjútaður lo.: klæddur í jakkaföt

 

---------------------------

 

 


« Fyrri síða

Um bloggið

Tumagöngur

Tumi sýndi mér þann vináttuvott á hverju kvöldi í 15 ár að fallast á að ég fengi að fara út með honum að ganga. Hann dró mig á eftir sér í ól og beið ævinlega rólegur ef ég þvældist frá honum eða villtist. Hann tók því einnig með jafnaðargeði þegar ég ræddi við hann um hvaðeina sem lá mér á hjarta í þessum gönguferðum og átti það stundum til að rjúfa einræðu mína með skarplegum athugasemdum. Nú er Tumi allur. Hann hefur hvílt í tvö og hálft ár undir björkum í Marteinsseli. Ég fer samt enn í Tumagöngu á hverju kvöldi. Ég skrafa enn upphátt við sjálfan mig og Tumi skýtur inn einu og einu orði. Ég finn hvernig hann togar í mig í ólinni á eftir sér. Ég þykist vita hvert við erum báðir að fara.

Höfundur

Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 480

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband