13.2.2007 | 21:31
37. Tumaganga með þjóðarsátt iðnaðarráðherra
Vel má vera að Jón iðnaðarráðherra og Steingrímur formaður séu í skeggbræðralagi en fjarri fer því að þeir séu í fóstbræðralagi. Vart hafði Jón friðflytjandi kynnt frumvarp sitt til þjóðarsáttar en Steingrímur Siff. umhverfðist í pontunni svo að gneistar hrukku af grön. Það var ekkert sáttahljóð í honum svo mikið er víst. Ég hef skilning á því. Ef blaðafrásagnir af efni frumvarpsins eru sæmilega réttar virðist það vera ætlun Jóns með frumvarpinu að ná fram þjóðarsátt um nýtingu orkulinda og stóriðjuframkvæmdir. En þar sem slík þjóðarsátt gæti stofnað í hættu stórfelldum stóriðjufram-kvæmdum og enn stórfelldari virkjunaráformum þykir Jóni ekki ásættanlegt að láta þjóðarsáttina verða að veruleika fyrr en árið 2011 þegar búið er að framkvæma það sem engin þjóðarsátt er um. Þetta gæti verið í líkingu við friðarsamninga sem stríðandi aðilar gerðu sín á milli með þeim fyrirvara að friðarsamningar tækju ekki gildi fyrr en búið væri að fella tl viðbótar a.m.k. 200.000 þúsund hermenn og óbreytta borgarara, særa 300.000 og eyðileggja meira af fasteignum og innviðum hinna stríðandi þjóða.
Ég hef á tilfinningunni að með þessu þjóðarsáttarfrumvarpi sé formaður Framsóknarflokksins einvörðungu að reyna í aðdraganda kosninga að setja á flokk sinn og samstarfsflokk í ríkisstjórn svolitla umhverfisvina- og náttúruverndarslikju. Það verður ekki séð að samþykkt frumvarpsins breyti nokkru um þau stóriðju- og virkjunaráform (ef áform skyldi kalla, sumt af þessu virðist fastákveðið) sem nú eru uppi. Þess er svo sem ekki heldur að vænta því að lýðræðislega kjörið framkvæmda- og löggjafarvald hefur afsalað sér öllu ákvarðanavaldi um þessi áform. Ákvarðanir um þreföldun orkuöflunar á Íslandi til stærri álbræðsluvera en áður hafa verið reist hér á landi virðast nú vera einvörðungu í höndum meirihlutans í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, íbúa í Hafnarfirði, á Húsavík og í Gnúpverjahreppi. Aldrei hafa jafnfáir tekið ákvörðun um jafnmikið fyrir jafnmarga.
Það er ekki allt með felldu í þessum efnum. Þjóðarsátt eftir árið 2010 stoðar lítið eins og málum er nú háttað. Þjóðarsátt núna kæmi að notum en framar öllu þurfum við nýjar Sigríðar í Brattholti svo þúsundum skiptir.
10.2.2007 | 18:07
36. Tumaganga með Álftnesingum og heimselítum
Ég sé til dæmis fyrir mér að forseti vor, forseti þjóðar sem hefur sótt sér lífsbjörg í hafið og stundað sjóinn í aldir alda, hlýtur fyrr en síðar að verða að þiggja lystireisuboð á skemmtisnekkju með hinum nýju biljarðavinum sínum - og þá er óhjákvæmilegt að þjóðin geri forseta vorum mögulegt að endurgjalda slíka gestrisni með því að færa honum eða forsetaembættinu skemmtisnekkju til einka- og opinberra nota. Enginn getur eiginlega látið sjá sig með heimselítunni nema hann hafi lystisnekkju til umráða.
Bill til dæmis var tæplega búinn að kveðja forseta vorn eftir langt samtal þeirra um fátækt í heiminum og hugvit Íslendinga en hann steig um borð í skemmtisnekkju samstarfsvinar síns í Microsoft, Paul Allens. Þeir munu nú vera á leið til Suðurskautslandsins með fjölskyldum og vinum - þó ekki forseta vorum sem neyddist til að fara til Kaupmannahafnar að bregða ljóma sínum yfir íslensk fjármagnsfyrirtæki. Snekkjan, sem flytur þá Paul Allen og Bill Gates, heitir Octopus, kannski með tilvísun í kolkrabbann" íslenska. Snekkjan mun hafa kostað Paul um 16 miljarða og 600 miljónir króna. Hún er 126 metra löng og innanborðs er flest það að finna sem biljarðamæringar og forsetar þurfa á að halda. Þar munu vera 7 minni bátar og kafbátur sem rúmar 10 manns í sæti, músíkstúdíó, kvikmyndahús, körfuboltavöllur og sundlaug. Í áhöfn eru 60 manns og útgerðarkostnaður á ári kvað nema 1 miljarði og tæpum 400 miljónum króna.
Hinn kunningi forseta vors, Roman Abramovich, á dágóðan flota af snekkjum, m.a. hina 105 metra löngu Pelorus þar sem öll kýraugu og gluggar eru með skotheldu gleri, 40 manns eru í áhöfn og fylling á tankinn kostar 8,3 miljónir króna. En Ambramovich er stórhuga og nú er verið að smíða fyrir hann 168 metra langa lystisnekkju, Eclipse eða Myrkva. Hún skyggir svo sannarlega á stærstu lystisnekkju sem nú sést á heimshöfunum, hina 160 metra löngu Dubai" sem er í eigu einræðisherrans í Dubai, Mohammed bin Rashid Al Maktoum, sjeik (ég veit ekki hvort forseti vor er búinn að stofna til kynna við hann - væntanlega hefur honum ekki gefist tími til þess enn sem komið er). Hin nýja lystisnekkja Abramovich, sem verið er að smíða í Hamborg, mun kosta rúmlega 20 milljarða króna. Hún verður lengsta lystisnekkja veraldar og vel til hennar vandað á allan hátt, m.a. tveir þyrlupallar á þilfari, og líkt og Microsofteigendur ætlar Abramovich að hafa kafbát um borð.
Ég sé ekki fyrir mér, úr því að Geir Haarde ætlar að aflétta öllum sköttum af íslenskum auðmönnum, að við, íslenskt launafólk, getum skotið saman í fleytu handa forseta vorum sem stenst samanburð við Octopus eða Eclipse. En eitthvað í líkingu við Hríseyjarferjuna til dæmis gæti hugsanlega komið forseta vorum að einhverjum notum og má ímynda sér að Gates og Abramovich þætti það sérstök upplifun að sigla um höfin á svo lítilli kænu.
Á því leikur ekki nokkur vafi að sterk tengsl forseta vors við menn eins og Paul, Bill og Roman geta orðið mikils virði fyrir Íslendinga og ekki minna virði en þessi tengsl virðast vera fyrir forseta vorn. Það er því brýnt að við færum forseta vorum lystisnekkju svo að hann geti endurgoldið hefðarboð og prívatsamtöl eins og kurteisisreglur og prótókollar heimselítunnar mæla fyrir um. Ef við bregðumst ekki strax við gæti svo farið að forseti vor yrði að láta sér nægja að mingla við íslenska miljarðamæringa sem eru nánast skrýtla í samanburði við Gates og Abramovich og Eggert kexbarón, kunningja þess síðastnefnda og kollega í enska fótboltanum.
9.2.2007 | 21:42
35. Tumaganga með Rúmfó, sendiherra og forseta
Okkur Tuma varð hálfkalt áðan þegar við fengum okkur vanabundna kvöldgöngu, eilítill raki í austanandvara ofan frá Beverly Hills" sem ég kalla svo en hétu áður Hnoðraholt; þar eru nú dýrustu hrossataðsskákir á landinu. Leið okkar lá framhjá Jakobsstiganum sem nær ekki enn til himins, enda í smíðum, en mun gera það þegar hann hefur náð fullri hæð. Ég efast ekki um að verður glatt á hjalla þar uppi, þegar drottinlegir postular og englar fá loks tækifæri til að gera góð kaup í Rúmfatalagernum enda bráðnauðsynlegt eflaust að hagræða hjá himnaríkinu eins og hjá íslenska ríkinu. Ég spurði Tuma hvort honum þætti ekki mikið til koma þessa vísis að turni við Smáratorg en hann lét sér fátt um finnast. Hann er kvikindi sem hefur ekki áhuga á mannlegri framtakssemi annarri en þeirri sem felst í því að gefa honum að éta.
Hver hefði trúað því fyrir tuttugu og fimm árum að færeyskur maður ætti eftir að reisa hæsta turn á Íslandi? Maður hefur ekki undan að verða standandi hlessa þessa dagana. Og hver hefði trúað því fyrir tuttugu og fimm árum að hann ætti eftir að sjá allaballana og vini alþýðunnar, Ólaf Ragnar og Svavar Gests, skrúðklædda á fundi með fjáraflamönnum að lofsyngja kapítalismann og íslenska rokkefellera? Ég hefði fyrr lagt trúnað á þá fullyrðingu að þú gætir séð kött án þess að reka upp bofs! Róbert nokkrum Walpole eru eignuð þessi orð: Every man has his price." Ójá. Ég er farinn að venjast þessum hamskiptum, þegar forseti vor á í hlut, en ég á enn eftir að jafna mig á þessu með Svavar. Ég sé hann ennþá fyrir mér í portinu bak við MR, í flaksandi frakkanum með trotskímakkann að teyga að sér nautnina úr frímínúturettunni og boða byltingu alþýðunnar og úthellingu hins kapítalíska blóðs. Og hann stóð í mörg ár á eftir það á barríköðunum, fyrst Ólafslaus, því að Ólafur var að prófa hvort hann næði mannvirðingum í Framsókn, og síðan með Ólafi eftir að Ólafur reiknaði út að hann gæti náð meiri mannvirðingum sem Allaballi. Svona er það, Tumi minn. Það verður ekki allt fyrir séð í lífinu. Þú hefur kannski haldið, þegar þér var gotið, að ætti fyrir þér að liggja að verða villtur útigangshundur að berjast gegn klóbeittum fressum - og núna ertu orðinn pempíulegur stofuhundur og gæludýr, hafður í ól. En þú sérð þó rautt þegar lánlaust kattarkvikindi dirfist að birtast í grennd við þig. Ég er farinn að halda að Svavar sjái ekki lengur rautt, sama hvernig kvikindi eru allt í kringum hann og upp við hann.
Jæja, við skulum koma okkur heim. Ég ætla að útlista fyrir þér á leiðinni sparnaðarhugmynd sem ég kem hugsanlega á framfæri við Geir þegar hann er búinn að afnema allar skattálögur af auðmönnum. Þessi hugmynd gengur út að fá athafnamenn, grúppur, banka, fjárfestingarfélög og eignarhaldsfélög til að sponsorera forsetaembættið. Hvernig líst þér á það, Tumi. Forseti Íslands árið 2007 er í boði FL-Group og Kaupthing Bank." Áramótaávarp Forseta Íslands fram að næstsíðustu málsgrein er í boði Glitnis - þið megið eiga afganginn." Forseti Íslands er í boði Bónuss - það býður enginn betur í draumlandinu." Þetta er hugmynd, finnst þér það ekki?
7.2.2007 | 21:46
34. Tumaganga með ónotum út af fjölmiðlun
Fjölmiðlamenn, sem vilja koma einhverju góðu til leiðar og leggja sitt af mörkum til að hreinsa alla óværu af þjóðarlíkamanum, hafa nú um nokkurra vikna skeið verið í krossferð þar sem leituð eru uppi fórnarlömb kynlífsofbeldis og annarrar illrar meðferðar á stofnunum eða meðferðarheimilum og þau fengin til að svipta hulunni af ófreskjum í mannsmynd", barnaníðingum og öðrum slíkum úrhrökum. Ef tekst ekki um stundarsakir að grafa upp dæmi um ofbeldisbrot í samtímanum er leitað aftur í tímann og hálfrar aldar gamlar hroðasögur dregnar fram í dagsljósið. Þeir sem koma að þessari krossferð hjá fjölmiðlum hafa sumir hverjir a.m.k. brugðist af fyrirlitningu við þeim orðum kennara í fjölmiðlafræði hjá Háskóla Íslands að með efni af þessu tagi séu blaðamenn, fréttamenn og þáttastjórnendur að skemmta áhorfendum heima í stofu". Með orðum sínum á kennarinn að sjálfsögðu ekki við að áhorfendur að viðtölum við fórnarlömb kynlífsafbrota veltist um af hlátri eða hafi reglulega gaman af þessari umfjöllun á sama hátt og þeir hafa gaman af Spaugstofu eða Fóstbræðrum. Fjölmiðlamenn vita hins vegar ósköp vel að umfjöllun um kynlífsofbeldi og níðingsskap gagnvart börnum trekkir að áhorfendur og lesendur", hún heldur þeim föngnum eins og morðsaga eða hryllingsmynd meðfram því sem hún fær þá - eða látum okkur vona það - fær þá til að fordæma illvirki og illvirkja, krefjast skýringa á afskiptaleysi stjórnvalda og fara fram á að reynt verði að tryggja eins og kostur er að þvílíkir atburðir gerist ekki aftur. Ég skal ekki draga í efa að fjölmiðlamenn, sem tilreiða þetta efni, telja sig vera að vinna þjóðþrifaverk með því að afhjúpa hið illa í íslensku samfélagi og vekja þjóðina til vitundar um, ef hún skyldi þá ekki gera sér grein fyrir því, að undir sléttu og felldu yfirborði leynist margur sorinn og hefur leynst í áratugi og svo öldum skiptir. En ég er líka jafnsannfærður um að fjölmiðlamönnum er ljóst og þykir það ákjósanleg hliðarverkun að umfjöllun og uppljóstranir af þessu tagi trekkja að" áhorfendur og lesendur. Öðrum kosti t.d. verður ekki skýrð sú samkeppni" nánast um afhjúpunarefni af ýmsu tagi, oft tengt kynlífsofbeldi, sem þjóðin hefur orðið vitni að í vetur á milli þáttarins Kompáss hjá Stöð 2 og Kastljóss í Ríkissjónvarpinu. Eða eru menn í keppni um það hver geti látið meira gott af sér leiða? Nei, ég ætla mönnum ekki slíkt. En ég get ekki bægt frá mér þeirri hugsun að fleira kunni að ráða nær linnulausri umfjöllun um óhroða og fórnarlömb hans en vandlætingin ein og löngun til að rétta hlut lítilmagnans, löngun til að fletta ofan af þeim sem ódæðin unnu og löngun til að bæta heiminn svolítið í leiðinni. Einkanlega læðist þessi grunur að mér þegar frásögn af meðferðarheimilinu í Breiðuvík, sem hafði vissulega fréttagildi, þegar hún kom fyrst fram, af því að hún brá nýju ljósi á tilteknar samfélagsaðstæður á Íslandi á síðari hluta 20. aldar, er orðin að framhaldssögu kvöld eftir kvöld og drjúgur hluti af aðalfréttatíma Sjónvarpsins og Kastljósi. Þá er ég farinn að finna til ónota ekki ólíkum þeim og þegar ég fletti æsifréttablöðum sem ég hef talið fram að þessu af allt öðru sauðarhúsi en Ríkissjónvarpið. - Þar með er ekki sagt að ég hafi ekki fullan skilning á þjáningum þeirra, sem urðu fyrir misbeitingu í Breiðuvík, og beri til þeirra og vandamanna þeirra einlæga samúð. Þar með er ekki sagt að ég taki ekki undir með þeim mönnum sem hafa lýst því yfir að nauðsynlegt sé fyrir þjóðina að horfast í augu við það, sem gerðist í Breiðuvík og á Heyrnleysingjaskólanum, og full ástæða til að skoða hvort ekki megi takast með einhverjum hætti að bæta mönnum misgjörðirnar sem þeir máttu þola vegna afskiptaleysis og eftirlitsleysis stjórnvalda í eina tíð. En það er önnur saga. Fjölmiðlamenn eiga heiður skilinn fyrir að draga óþægilegar staðreyndir, sem skipta þjóðina máli, fram í dagsljósið en þeir skyldu gæta sín á að umgangast þær eins og söluvöru eða velta sér og landsmönnum upp úr þeim löngu eftir að kjarna málsins hefur verið komið til skila.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.2.2007 | 12:26
33. Tumaganga með Mogganum og Hæstarétti
Ég vona að forsíða Morgunblaðsins föstudaginn 2. febrúar hafi verið mistök en ekki dæmi um breytta stefnu og ný efnistök á ritstjórn blaðsins. Fréttafrásögn og myndbirting af fimm hæstaréttardómurum voru blaðinu til álitshnekkis og vanhugsuð æsifréttamennska. Morgunblaðið ætti að biðja þjóðina og Hæstarétt afsökunar.
Það eru ýmsar ástæður til þess að mér blöskraði. Ég nefni til dæmis:
1. Morgunblaðið og ritstjórn þess hafa fram að þessu lagt áherslu á að lesendur geti treyst því að blaðið stundi það sem stundum er kallað óhlutlæg" fréttamennska, þ.e. að greint sé glöggt á milli beinna frétta annars vegar og hins vegar fréttaskýringa eða túlkunar og skoðana blaðsins á því sem lesa má úr frétt. Á forsíðunni á föstudaginn var þessi regla freklega brotin.
2. Hæstiréttur Íslands, æðsta dómstig hér innanlands, er skipaður virtum lögfræðingum, þrautreyndum sérfræðingum á sviði laga og réttar, sem ég er ekki í nokkrum vafa um að hafa í heiðri í öllum sínum verkum lög landsins og beita þeim við úrlausn dóma af ríkri réttlætiskennd, réttsýni og heiðarleik. Það er fáheyrð ósvífni og ómakleg árás á æru þessara manna þegar Morgunblaðið leyfir sér að birta myndir af þeim á forsíðu eins og þeir séu dæmdir sakborningar. Lögfræðingar, dómþolar og aðrir, t.d. blaðamenn og ritstjórar blaða, geta verið ósammmála niðurstöðum Hæstaréttar. Menn lesa þá væntanlega öðru vísi í gögn máls og túlka lagafyrirmæli með öðrum hætti en hæstaréttardómarar í viðkomandi máli. Menn eiga þá að ræða slíkan ágreining í sérstökum greinum en sæmir ekki blaði, sem vill teljast virtur fréttamiðill, að matreiða frétt af niðurstöðu dómsmáls með þeim hætti sem Morgunblaðið gerði á föstudag. - Nýverið var dæmt í einhverjum þætti svonefndra Baugsmála í Hæstarétti. Niðurstaða hæstaréttar um hluta sakarefnis byggðist t.d. á túlkun á tilteknu hugtaki í lagagrein. Óefað varð túlkun Hæstaréttar á þessu hugtaki, sem var mun þrengri en túlkun ákæruvaldsins, til þess að ákærðir menn voru ekki af lagatæknilegum eða formlegum rökum dæmdir sekir um tiltekið atferli þó að fæstir efist um að hinir ákærðu höfðu stundað þetta atferli. Setjum sem svo að ritstjórn Morgunblaðsins hefði - eins og fleiri - verið ósammmála niðurstöðu Hæstaréttar. Hefði mönnum þótt við hæfi að blaðið birti á forsíðu myndir af hæstaréttardómurum yfir fyrirsögninni Þeir vildu ekki fullnægja réttlætinu"?
3. Í hvaða tilgangi er Morgunblaðið að þjarma" með þessum hætti að dómurum hæstaréttar? Telur ritstjórn blaðsins það til réttarframfara og álítur hún að það muni leiða til réttlátari" dómsuppkvaðninga hjá íslenskum dómstólum, héraðdómstólum og Hæstarétti, ef dómurum sé gert ljóst fyrirfram að Morgunblaðið muni birta myndir af þeim eins og hverjum öðrum sakborningum" ef þeir gæti þess ekki í dómum sínum að taka ekki aðeins mið af lögum og rétti heldur líka af skoðunum ritstjórnar Morgunblaðsins á því hvernig eigi að dæma í máli, hvað sé réttlát niðurstaða? - Ég er ekki í nokkrum vafa um að réttlætið ætti erfiðara uppdráttar í íslensku samfélagi ef æðsta dómsvald væri fengið þannig dómstól götunnar og aðilar að dómsmáli ættu það undir skoðun manna á ritstjórn Morgunblaðsins hvernig leyst yrði úr réttarágreiningi fyrir lögskipuðum, íslenskum dómstól.
Steingrímur Hermannsson svaraði einhverju sinni í fréttaviðtali, þegar honum var borið á brýn að hafa gert eitthvað sem samræmdist ekki lögum og reglum, að hann skyldi aldrei gera þetta aftur. Ég vona að ritstjórn Morgunblaðsins geri þetta aldrei aftur. Þetta var svartur föstudagur" í sögu blaðsins. Ef eigendur og ritstjórn Morgunblaðsins telja enga aðra leið færa til að auka sölu blaðsins en að reyna að láta það líkjast æ meira DV, ættu þeir að beita til þess öðrum aðferðum en að grafa undan trausti fólks á Hæstarétti Íslands og leiða dómara hans í gapastokk á fjölmiðlatorginu eins og ótínda sakamenn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2007 | 20:38
32. Tumaganga með lýðræði og auðræði út í Örfirisey
Allan þennan stutta tíma hefur lýðræðið ævinlega átt undir högg að sækja, fyrst og fremst vegna þess að valdastéttum þykir oftar en ekki að lýðræðið setji auði þeirra og þar með valdinu, sem auður þessa stétta hefur fært þeim, of þröngar skorður. Lýðræðislegar kjörnir valdhafar hafa orðið að gæta eða að láta a.m.k. líta svo út sem þeir væru að gæta hagsmuna allra atkvæða sinna, allra hugsanlegra kjósenda, og jafnvel valdhafar, þóknanlegir hinum ráðandi peningaöflum, hafa orðið að leita málamiðlunar þegar kom að því að þóknast einnig hinum almenna borgara. En handhöfum auðvaldsins, hins raunverulega valds í öllum samfélögum, hefur samt tekist að koma sér þægilega fyrir innan hins formlega ramma lýðræðisskipulagsins. Þeir hafa á grundvelli hlutafélagaréttar hreiðrað um sig í sjálfstæðum ríkjum í ríkinu, í stórum og öflugum fyrirtækjum og fyrirtækjasamsteypum sem hefur vaxið ásmegin af fáheyrðum krafti á undanförunum 15 til 20 árum, hér á landi eins og hvarvetna annars staðar. Á sama tíma hefur dregið smám saman mátt úr þeim valdsþáttum, sem lúta lýðræðinu, framkvæmdavaldi og löggjafarvaldi ríkisins og sveitarstjórnavaldi. Er þess varla lengi að bíða að á Íslandi og í flestum öðrum ríkjum heims verði komið á svokallað auðræði í stað lýðræðis, auðræði sem styðst við fyrirtækjaræði, lénsskipulag sem minnir á það sem auðkenndi Evrópu á miðöldum og þar sem eignarhaldsfélög og fyrirtækjasamsteypur eru komin í stað kastala og forstjórar og framkvæmdastjórar í stað brynjuklæddra riddara.
Lítið en lærdómsríkt dæmi um sífellt virkari áhrif, sem bera keim af auðræði og fyrirtækjaræði, eru t.d. tíðindi af því að öflugt fyrirtæki á íslenska vísu hafi keypt upp lóðir úti í Örfirisey í Reykjavík, lagt fé í mikla undirbúningsvinnu við hönnun og verkfræðilega útfærslu á íbúðahverfi á landfyllingu hjá eynni og krefjist" þess nú að fá að reisa þetta hverfi eins og hugmyndir eigenda fyrirtækisins gera ráð fyrir. Vissulega er það svo að umrætt fasteignafyrirtæki leggur þessar hugmyndir sínar fyrir hin lýðræðislega kjörnu skipulagsyfirvöld í borginni og að þau hafa síðasta orðið - en það er jafnframt ljóst með hliðsjón af lóðauppkaupum og undirbúningi verksins fram að þessu að eigendur byggingafyrirtækisins eru eiginlega ekki í nokkrum vafa um hvaða afgreiðslu málið fær. Í þeirra augum er auðræði í skjóli fyrirtækjaræðis hið eðlilega og nútímalega stjórnarform. Auðræðið ætlar sér að segja lýðræðinu fyrir verkum, lýðræðislega kjörnir fulltrúar borgarinnar, skipulagsyfirvaldið, eiga að byggja ákvörðun sína á hagsmunum fyrirtækisins en ekki á hagsmunum Reykvíkinga. Svo einfalt er það. Svo einfalt að Gísli Marteinn Baldursson, sem á sæti í skipulagsráði borgarinnar, er þegar farinn að viðra þá hugmynd að Reykvíkingar leggi miljarða króna í gerð jarðganga undir Reykjavíkurhöfn svo að umrætt miljarðafyrirtæki geti hrint byggingaráætlunum sínum í framkvæmd og eigendur þess haldið áfram að moka hagnaði í botnlausa vasa sína.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.1.2007 | 20:04
31. Tumaganga með forsetanum og Ólafi Ragnari
Mikið getum við, Tumi minn, verið þakklátir fyrir, úr því að við náðum ekki að sigra á heimsmeistarmótinu í handbolta, að eiga forseta sem er í þann veginn að sigra á heimsmeistara-mótinu í MMM, manngæsku, mannúð og mannviti. Ég hef alltaf haft trú á forseta vorum en ég hafði aldrei gert mér grein fyrir að verðleikar hans væru svo einstakir á heimsvísu að þjóð, sem telur meira en einn miljarð einstaklinga, yrði að leita út á Álftanes til að fá skynsamleg ráð um hvert skuli stefna á komandi áratugum.
- Þú gleymir því að vísu, sagði Tumi, að þessi einn miljarður einstaklinga leitaði ekki til forseta Íslands heldur til Ólafs Ragnars Grímssonar. Það kann að vera að þú hafir farið nærri um verðleika forseta Íslands en vanmetið hins vegar verðleika Ólafs Ragnars Grímssonar. Forsetaritari, sem þekkir aðstæður betur en flestir aðrir Íslendingar, hefur lagt áherslu á að þeim verði ekki jafnað saman, forsetanum sem slíkum og Ólafi persónulega sem slíkum.
Fyrst svo er - og ekki vil ég rengja orð forsetaritara - hver var þá á fundi djúpviturra stórhugsuða í Edinborg og hver hitti Bill Gates? Var það forseti Íslands eða Ólafur Ragnar Grímsson? Ég er viss um að Bill Gates vildi gefa einn miljarð fyrir að fá svar við þeirri spurningu. Í silkifóðruðum skrautsölum mannvina á heimsvísu hlýtur það að vera grundvallaratriði í etíkettu, þegar manni er boðið til Íslands, hvort maður á að segja æm oblædsd, mister presídent" eða einfaldlega mení þanks, Ouli".
Tumi nam snögglega staðar.
- Hvað ertu að segja? Var forsetinn að bjóða Bill Gates í heimsókn?
Já, já, hann ætlar líklega að spjalla við Bill úti á Álftanesi um leiðir til þess að útrýma fátækt án þess að þurfa að útrýma um leið miljarðamæringum og ólígörkum. Forseti Íslands má ekki til þess hugsa að útrýma þeim. Þá hefði Ólafur Ragnar engan sem væri nógu fínn til þess að umgangast hann.
- Og hvað segir Valgerður Sverris?
Hún er að láta kanna hvort það var forseti Íslands eða Ólafur Ragnar sem bauð Bill til Íslands. Mér skilst að utanríkisráðuneytið hafi leitað til Seðlabankans en þar starfar maður sem hefur allt frá því að birti af degi á Möðruvöllum fengið að kynnast fleiri en einni hlið á húsráðanda á Bessastöðum. Það verður fróðlegt að sjá hver niðurstaðan verður. Ég ímynda mér að Bill bíði spenntur. Það er óþægilegt að vita ekki hver er að bjóða manni í heimsókn. - En hérna skaltu heyra lítið erindi sem mér datt í hug:
Lýðum má vera ljóst með sanni
að leynast tveir ólar í einum manni.
Við erum öll svona af guði gjörð,
gersemar, fólk og sauðahjörð:
Heill forseta vorum og fósturjörð!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2007 | 22:40
30. Tumaganga með Jóni Baldvin í pólitísku rallý
Ef ég væri Jón Baldvin, sem væri enn stuðningsmaður Samfylkingar, liði mér ekki vel í dag. Ég hefði vart getað bægt frá mér þeirri hugsun að ég hefði sagt eitthvað í Silfri Egils sem ég átti ekki að segja. Það er undarleg herkænskulist að koma fram fyrir alþjóð og byrja á yfirlýsingu þess efnis að maður megi ekki hugsa til þess ógrátandi að ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna setjist aftur að völdum eftur þingkosningar í vor og halda síðan áfram þrumandi ræðu sinni með því að gagnrýna af hörku og tala niðrandi um fólkið og stjórnmálaflokkinn sem maður kveðst fylgja að málum, flokkinn sem hlýtur að gegna mikilvægu hlutverki ef takast á að koma í veg fyrir að maður bresti í grát á nýjan leik í maí.
Stundum er engu líkara en Jón Baldvin sé með sjálfskiptingu í talfærum og heila. Hann byrjar í fyrsta gír, hrekkur svo, þegar nægum skaphita er náð, í annan gír, fer svo ósjálfrátt - að því er virðist - í þriðja gírinn, þar sem orðaval fer að verða beinskeyttara og setningarnar meitlaðri, skiptir svo yfir í fjórða gír, þegar hann er að komast í virkilegan mælskuham, og þegar nautnin af því að heyra sjálfan sig segja eitthvað mergjað er orðin næstum óviðráðanleg, setur sjálfskiptingin í fimmta gír og Jón Baldvin geysist áfram af þvílíkum mælskunnar eldmóði að maður fer að óttast að hann nái ekki stöðva sjálfan sig, orðfyndnina og hugarflugið í tæka tíð. Stundum tekst honum það ekki - eða svo þótti mér í gær þegar nafni minn var farinn að impra á því að stofna ný stjórnmálasamtök og nefndi sem hugsanlega liðsmenn ýmsar kunnar Silfurskottur úr spjallþáttum Egils Helgasonar. Margt af því, sem rann viðstöðulaust af vörum Jóns Baldvins, má til sanns vegar færa og var holl ádrepa fyrir fósturbörn hins gamla og lífsreynda stjórnmálarefs. En ég hefði haldið að góður heimilisfaðir ávítaði afkomendur sína innan veggja heimilisins en tæki þau ekki til bæna í ásýnd alþjóðar. Góður handboltaþjálfari les yfir mönnum sínum í búningsherbergjum en ekki úti á leikvellinum sjálfum. Ég hef ekki ennþá fengið botn í hvað Jóni Baldvini gekk til - nema þá að hann hafi nú fengið þá hugsjón að draga allan mátt úr Samfylkingunni. Ég sem hélt að væru nógu margir aðrir til þess. - Mikil blessuð guðsgjöf er pólitíkin á þessum regnþungu vetrardögum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.1.2007 | 16:42
29. Tumaganga með kosningaloforðum
Það er annars, Tumi minn, ekkert gamanmál að verða vitni að því þessa dagana hvernig ríkisstjórnarflokkarnir ausa nú út tugum miljarða króna í kosningaloforð. Ráðherrar í öllum ráðuneytum lofa út og suður og jafnvel mörg ár fram í tímann. Þeir standa í röð fyrir framan ríkiskassann, hver með sína stólpípu, og eru staðráðnir í að hreinsa út úr fjárhirslum ríkisins hverja einustu krónu sem til er og á eftir að verða til. Mér sýnist þeir ætla ekki að hætta meðferðinni - fremur en Jónína Ben - fyrr en búið er að skrapa hverja einustu örðu úr hverri einustu smugu. Það mætti svo sannarlega segja um ríkisstjórnarráðherra þessa dagana að þeir ættu peninga eins og skítinn. Það er bara ekki alls kostar rétt af því þeir eiga enga peninga. Það er engin peningalykt af kosningaloforðum ráðherranna. Það er af þeim einhver skítalykt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2007 | 20:56
28. Tumaganga með Frjálslyndum og fleiri fýlupokum
Fyrir rétt rúmum hundrað árum tókst mönnum í landsmálapólitík á Íslandi að skipta sér niður í fylkingar með svo flóknum hætti að í sögutímum í skóla tókst manni hreint alls ekki að botna í hvaða skoðanaágreiningur varð til þess að menn röðuðu sér þannig niður í andstæðar liðssveitir. Höfundar kennslubóka virtust ekki botna neitt mikið í þessu heldur og afgreiddu málið gjarnan með því að segja að menn hefðu haldið áfram sjálfstæðisbaráttunni og greint nokkuð á um markmið og leiðir en á endanum hafi danska stjórnin boðið Íslendingum að.... Það var eiginlega ekki fyrr en á ofanverðri síðustu öld að sagnfræðingar og aðrir rýnendur í íslenskt samfélag um aldamótin 1900 fóru að upplýsa okkur um að í reynd áttu myndun fylkinga og klíkuskiptingin sér rætur fyrst og fremst í valdabaráttu og prívatstyrjöldum á milli einstakra manna. Eiginlega voru allir sammála um fyrir hverju ætti að berjast, þ.e. sjálfstjórn Íslendinga, og blæbrigði við þessa meginstefnu voru mótuð og sett fram í því skyni einvörðungu, að því er virðist, að réttlæta þá stöðu að Jón gat ekki þolað Pál og verið með honum í sama flokki og Páll gat ekki til þess hugsað að Jón, sem hann þoldi ekki heldur, næði meiri völdum en hann á þingi o.s.frv. Illdeilur og rígur á milli manna og klikkanna, sem þeir voru í forsvari fyrir, áttu þannig sinn þátt í hversu Íslendingum þokaði seint áfram í átt til sjálfstjórnar og fullveldis.
Þeir sem hafa grúskað eitthvað sér til fróðleiks í mannkynssögu - og þá sérstaklega stjórnmálasögu - verða svo sem ekkert hlessa á að þannig hafi málum verið háttað á Íslandi í lok 19. og í upphafi 20. aldar. Hinn persónulegi þáttur í stjórnmála- og valdabaráttu hefur ævinlega ráðið miklu um atburðarásina og stundum meiru en allar stjórnmálakenningar samanlagðar. Og enn er þetta svo. Frjálslyndi flokkurinn varð til vegna þess að einhverjir þoldu ekki einhverja aðra og nú hriktir í máttarstoðum þessa litla stjórnmálaflokks vegna þess að einhverjir þola ekki einhverja aðra og þessir einhverjir aðrir þola ekki þessa einhverja sem þola ekki þá. Átökin hjá Frjálslyndum og í öllum öðrum stjórnmálaflokkum endurspegla þá grundvallarkenningu", sem ég hef sett fram við minn lærisvein, Tuma, að oftar en ekki eigi stjórnmálaþróun sér upptök í að menn séu annað hvort að komast í feitt eða að menn séu farnir í fýlu hver út í annan. Ýmislegt er þannin á seyði í kastala Sjálfstæðisflokksins hjá Inverness. Ólígarkar takast á við upprunategundir í Framsókn. Samfylking ferðast um í hjólastól, hálflömuð af innri togstreitu, og þyrfti að komast í nýja afeitrunarfótabaðið sem búið er að kynna svo rækilega í Kastljósi. Þó að enginn komist svo upp með það, þrátt fyrir fýlusvipinn á þingmönnum flokksins, að fara í fýlu í Vinstri-grænum nema Steingrímur Sigfússon er þess að gæta að Vinstri-grænir urðu til - eins og Frjálslyndir - vegna þess að einhver þoldi ekki einhvern sem þoldi ekki þennan einhvern sem þoldi ekki hann. Við megum líka horfa upp á fallkandídata í prófkjörum sem fara í fýlu og virðast eiga jafnauðvelt með að skipta um stjórnmálasannfæringu og nærbrækur. Og nú eru aldraðir og öryrkjar farnir í fýlu hverjir út í aðra og að auki innbyrðis hvor fylking; hlýtur það að teljast nýtt Íslandsmet í fýluköstum og stjórnmálaklofningi af þeim sökum að landsmálasamtök, sem ætla að bjóða til alþingiskosninga, skuli klofna áður en þau eru stofnuð.
Það getur skemmt ýmsum að fylgjast með framvindu fýlukastanna og slagsmálum út af völdum, virðingu og valútu, en þetta fjargviðri verður á endanum til bölvunar fyrir kjósendur og alla landsmenn og gagnast engum nema hugsanlega þeim sem ná yfirhönd í átökunum. Hinn persónulegi þáttur hefur mikið vægi í stjórnmálum en íslenskir kjósendur eiga heimtingu á í aðdraganda alþingiskosninga að stjórnmálamenn muni eftir því að stjórnmál eiga líka að snúast um grundvallarstefnu. Baráttumenn eldri borgara og öryrkja mættu muna eftir því líka og brýna fólk til dáða, hvern í sínum stjórnmálaflokki, í stað þess að sólunda atkvæðum fólks sem má ekki við því að þau fari í súginn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Tumagöngur
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 480
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar