27. Tumaganga með Hjálmari, Guðna og Bjarna

 

 

            Þá er það komið á hreint hvernig Framsóknarflokkurinn ætlar að endurnýja ásýnd sína í Suðurlandskjördæmi. Guðni Ágústsson, náttúruvætti, skipar fyrsta sæti og Bjarni Harðar­son, forneskjufræðingur, situr við hlið Guðna í öðru sæti. Hjálmari Árnasyni, sem reyndi að komast í takt við nýja tíma með því að læra á trommusett, var þröngvað niður í þriðja sæti. Enda þótt heilögum anda sé ævinlega raðað í þriðja sæti, sbr. „í nafni föður, sonar og heilags anda", leit Hjálmar svo á að í þessu tilfelli væri þriðja sætið enginn virðingarstaður. Hann lét þau boð út ganga að hann hyrfi nú brott af leiksviði íslenskra stjórn­mála og létti þar með þeirri nauð af liðsmönnum sínum að þurfa að fylgja honum í gegnum þykkt og þunnt. Í ljósi þess að framsóknarforystan hefur lagt á það áherslu í aðdraganda þingkosninga að draga hulu yfir margt í fortíð Fram­sóknar í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, verður að telja kaldhæðn­islegt að kjósendur í prófkjöri skuli vísa þeim manndi á dyr sem hefur hvað eftir annað síðan í fyrrasumar verið staðinn að því vera gjörsamlega búinn að gleyma fortíðinni, ekki einungis því sem bar að höndum heldur einnig því sem hann sagði þá sjálfur. Þessi dómur yfir Hjálm­ari er þeim mun nöturlegri að það er langt í frá að Hjálmar sé eini stjórnmálamaðurinn á Íslandi sem þjáist af svona flokkshollri „amnesíu" eða „suðurnesíu" eins og þetta ástand er einnig nefnt í fræðiritum.
            Guðni Ágústsson brást hart við þegar lítilssigldur trommukjuði af Suðurnesjum ógnaði veldi hans og ríki á Suðurlandi. Reis hann upp í öllum sínum mikilfengleik og kvað:

„Hart mun þér sárna,
Hjálmar minn Árna.
Ræð ég þér, rangkjaftur
að þú snúir heim aftur."

            En Hjálmar lét ekki deigan síga - eða skildi ekki stökuna - réðst til atlögu gegn Brúnastaða­jöfrinum og lét þar pólitískt líf sitt.
            Að því er fundið við nokkra þingmenn á þessum dögum að þeim sé jafn náttúrulegt að skipta um stjórnmálaflokk og snákum og frumskógarslöngum að skipta um ham. Guðni Ágústsson verður ekki borinn þessum sökum. Guðna er gjörsamlega um megn að skipta um flokk og reyndar eru tengsl hans við Fram­sókn svo haganlega snúin að flokknum er gjör­samlega um megn að skipta um Guðna. Guðni er hins vegar borinn oft þeim sökum að honum hafi ekki tekist að skipta um samtíð, að samtíð hans sé enn sjöundi áratugur síðustu aldar, þessi yndis­legi tími þegar við vorum báðir ungir menn að leita okkur að kærustum og nutum þess að láta reyna á persónutöfra okkar og karlmannlegar tíktúrur á heiðbjörtum sumarnóttum til sveita. Því er jafnvel haldið fram að Guðni sé rómantískt nátttröll sem sjái bændur og sveitir liðins tíma í hillingum og vilji allt til vinna að halda sem lengst í „gamla" og „úrelta" sveitamenningu. Þvílík guðsblessun, segi ég, ef Guðni væri með þessu marki brenndur. En það er fjarri því. Með forystu Guðna í landbúnaðarráðu­neytinu og þátttöku Framsóknar­flokksins hans Guðna í ríkis­stjórn á liðnum 12 árum hefur tekist að umbylta svo til hins verra öllum sköp­uðum hlutum í ís­lenskum sveitum að héruð eins og Suðurland, sem var áður blómlegt land­búnaðarhérað og angaði af ljúfsárri mykju og íslenskri sveitamenningu, hefur nú að mestu horfið undir stóðhaga miljarða­mæringa og annarra slíkra fulltrúa hins kapítalíska samtíma. Kýr og sauðfé eru orðin jafnsjaldséðir gripir á Suðurlandi og sjálf­stæðir bændur. Megi segja það um nokkurn mann að hann hafi leitt  hinn harða nútíma peninga- og efnis­hyggju til vegs og valda í íslenskum sveitum þá verður það sagt um Guðna Ágústsson. Íhaldssamt og býsna þjóðlegt yfirbragð Guðna er ekki annað og meira en ímyndargervi. Undir leynist sá Framsóknar­maður sem Bjarni Harðar­son hefur skorið upp herör gegn ef marka má orð hans í aðdraganda prófkjörs Fram­sóknar­manna í Suðurkjördæmi.
            Bjarni Harðarson hefur skeleggan talanda og drjúgt málvit þegar hann ræðir um pólitík og önnur þjóðmál enda hefur hann verið einn af riddurum Egils konungs Helgasonar við hringborð hans í Silfrinu. Tíminn mun leiða í ljós hvort Bjarna auðnast sitt ætlunarverk að sigrast á hinum síshreistraða dreka „Ólíg­arka" sem hefur lagt undir sig Framsóknarflokkinn. Ég þekki ekki Bjarna nema í fjarska fjölmiðlanna. Ég get því ekki dæmt um hvort hann hafi þrek og burði til baráttunnar þegar á hólminn er komið og drekinn „Ólígarki" hefur sig upp yfir honum, gnæfir við himin sjálfan og Elton John eins og Ólafur lopi og spýr eldi og eim­yrju í átt að hinum sunnlenska riddara. En Bjarni óttast ekki drauga og því óska ég honum alls velfarnaðar á hinum pólitíska skógi þó að ég vilji nefna í leiðinni að nú sé tími til kominn að fara að ráðum Jónasar frá Hriflu og skipta Fram­sóknarflokknum upp á milli markaðs­hyggjumanna og félagshyggju­fólks.

 


26. Tumaganga með Guðmundi og Ómari

              Forsætisráðherra fullyrti við þjóð sína í sjónvarpi á dögunum að allt efasemdatal um ágæti íslensku krónunnar segði meira um þann, sem hall­mælti krónunni, en um krónuna sjálfa og gildi hennar fyrir efnahagslíf á Íslandi og lífskjör almennings. Hafi forsætisráðherra hlustað á Guðmund Ólafsson, hagfræðing, í Silfri Egils nú eftir hádegið, hlýtur hann - með hlið­sjón af framangreindu - að hafa  orðið býsna fróður um Guðmund og allt hans innræti og styrkst enn frekar í krónískri trú sinni á íslenska gjald­miðilinn. Guðmundi er annars einkar lagið að stikla á aðal­atriðum, þegar hann rennir sínum haukfránu gagnrýnisaugum yfir íslenska hagkerfið, og að tala skýrt og tæpitungulaust svo að augu okkar almennings nái nú loks að opnast. Hann styður mál sitt með glöggum dæmum og útreikningum og sækir rök í brunn mikillar þekkingar á sérsviði sínu, í þroska sinn og reynslu og kynni af þeim öflum - og mönnum sem þar eru - sem ráða ferðinni. Hlutur Guðmundar í Silfrinu var hvort tveggja í senn tímabær upplýsing í upphafi kosningabaráttu til alþingiskosninga og þörf gagnrýni á efnahagsstjórn og viðskiptahætti hér landi. Óskandi að þeir hafi ekki verið í meirihluta á meðal hlustenda sem fengu ekkert út úr umfjöllun Guðmund­ar um íslensku krónuna, okrið og skattastefnu Sjálfstæðis­flokksins í 15 ár annað en nánari upplýsingar um og staðfestingu á hvað Guðmundur er illa innrættur. Egill á þakkir skildar fyrir að hleypa Guðmundi að.
            Egill á einnig hrós skilið fyrir að gefa Ómari Ragnarssyni færi á að þruma yfir landslýð og reyna þannig að virkja fólk til andstöðu við glóru­lausar stóriðjuáætlanir. Ómar hefur nú þegar aflað sér virðingar á meðal þjóðarinnar fyrir þolgæði gagnvart hinum alls ráðandi öflum, einurð og eldmóð. Barátta hans og þeirra, sem hafa stutt hann í verki með ráðum og dáð, er farin að skila árangri. Ljóst er að næstu virkjana- og stór­iðju­áformum verður ekki hrundið átakalaust í framkvæmd. Kann svo að fara að fleiru verði drekkt í Hálslóni en ásýnd lands, sem okkur var trúað fyrir, og hugsjónir manna eins og Ómars Ragnarssonar hefji sig til flugs af gruggugum vatnsfletinum.

25. Tumaganga með Hreini spritt, fyrrum Byrgismanni

 

          Við Tumi vorum á rölti áðan niður í Kópavogsdalnum þegar við rákumst á Hrein spritt, gamlan kunningja minn sem hefur marga fjöruna og flöskuna sopið. Hann virtist niðurdreginn og þegar ég gekk á hann sagðist hann vera hálfmiður sín út af honum Guðmundi í Byrginu og öllu þessu „andskotans klúðri" eins og hann orðaði það. Ég vissi að Hreinn hafði verið í meðferð í Byrginu í fyrravor og spurði hann hvort honum kæmi nokkuð á óvart hvernig málum væri háttað.
          „Byrgið var fínt pleis," svaraði Hreinn spritt. „Maður fékk gospela, kók eða appelsín, og sálmat, kjötbollur eða signaðan fisk, og desert í fjörutíu daga eins og frelsarinn. Svo batt Guðmundur mann við predikun­arstólinn og barði mann með ritningargreinum þar til maður var orðinn meyr og viðráðanlegur eins og postull. Hann var alveg ótrúlegur stuð­spjallamaður, hann Guðmundur. Það komst enginn með tærnar þar sem hann hafði hælana þegar hann var að engilja konurnar. Og hvernig böndin og svipan léku í höndunum á honum. Það fór ekki á milli mála að þarna fór sannur káfboj enda maðurinn ævinlega klæddur, þegar hann var ekki að frelsa konurnar, eins og hetjurnar í villta vestrinu. Hann er þriggja manna maki, ekki nokkur spurning, hann er bæði ðu gúdd, ðu badd and ðí ögglí. Já, ég hálfsé á eftir honum. Ég varð alveg blessunar­lega skraufaþurr í Byrginu og ég fann guð hjá Guðmundi. Ójá, ég fann guð - en þegar ég kom úr meðferðinni tíndi ég guði aftur niðrá Hlemmi svo að þess vegna er ég eins og ég er núna. Ég var að frétta að þeir hjá félagsklúðursráðu­neyt­inu væru til í að bjóða mér að finna guð aftur á ríkisins kostnað í einhverju Hlaðgerðarkoti. En mér líst ekkert á þessa Hlaðgerði. Nafnið er einhvern veginn svo gribbulegt, finnst þér ekki. Ég er viss um að það er miklu dauflegra að leita að guði hjá þessari Hlað­gerði en hjá honum Guðmundi. Honum var einhvern veginn svo eiginlegt að keyra upp fjörið, bæði í Rokk og rólvill og ég tala nú ekki um eftir að ríkið fór að dæla í hann peningum þarna rétt hjá Ljósafossi. Þá var hann Guðmundur sko í Grímsnessinu sínu. En - nú er þetta allt búið. Maður verður bara að halda áfram að drekka og vona að Guðmundur eigi eftir að rísa upp aftur, betri maður. Hann fær örugglega að taka út sína refsingu eins og við öll hin þegar okkur verður það á að láta komast upp um okkur. Kannski fá líka ein­hverjir skammir í félagsklúðursráðuneytinu. En þeir eiga finnst mér allt gott skilið. Þeir voru bara að hjálpa Guðmundi að hjálpa okkur, þessum ræflum, að finna guð. Þeir bara vissu ekki að Guð­mundur hafði gert per­sónulegt samkomulag við guð um að fá að nota svolítið af peningunum fyrir sjálfan sig, svona í guðslaun. Er það eitthvað nýtt? Fara ekki af því talsverðar sögur að í gegnum tíðina hafi ekki allar tekjur kirkna og klaustra runnið beint í vasa þurfamanna, fátæklinga og vesalinga. Fengu ekki biskupar og prelátar að skáskjóta nokkrum skildingum í eigin vasa til eigin þarfa. Og svo eru menn að heimta nótur og reikninga af honum Guð­mundi. Ég hef það á tilfinning­unni að guð sé svona að öllu jöfnu yfir það hafinn að þurfa að skila nótum og reikningum. Við eigum að standa reikn­ingsskil frammi fyrir honum en ekki öfugt. Það hefur Guðmundur sagt við mig og ég veit að það er rétt. En þeir hjá félagsklúðursráðuneyt­inu eru auðvitað í slæmum málum af því þeir hafa ekki ennþá fundið neinn til að bera ábyrgðina. Ætli ég rölti ekki niðreftir, banki upp á hjá honum Magnúsi og bjóðist til að taka á mig alla ábyrgð. Því að, ég meina, þegar öllu er á botninn hvolft og flöskunni líka þá erum það við, þessir ræflar sem eigum svo erfitt með brennivínið, sem erum undirrótin að öllu þessu hörmulega ástandi, primus motor. Ef við hefðum ekki verið vanda­mál, þá væri Guðmundur ekki neitt vandamál heldur og engin vandamál að plaga hann Magnús. Það er svo einfalt. Ég held ég fari strax niður í félagsklúðursráðu­neyti þegar ég er búinn úr sprittglasinu."
          Þar með slangraði Hreinn spritt upp á Fífuhvamm en við Tumi héldum áfram göngu okkar í froststillunni.


24. Tumaganga með allan hugann við hesthús

            Hvenær skyldi koma að því að hin nýríka yfirstétt á Íslandi fari að fá brenn­andi áhuga á hundakofum? Hvenær skyldu hún renna upp, sú stund þegar enginn í þotuliði miljarðamæringanna þykir maður með mönnum nema hann sé með útikamar sem gestir í síðdegiskokteilum fá að prófa sér til organískrar og sjálfbærrar upp­lifunar? Ég spyr bara vegna þess að ég á hundakofa, að vísu ekki með setustofu, vínstúku, gufubaði og hrein­lætisaðstöðu, en samt sem áður allframbærilegan hunda­kofa sem ég gæti alveg hugsað mér að selja fyrir til dæmis fimm miljónir. Um útikam­arinn, sem ég hef í huga og gæti á sama hátt hugsað mér að selja ef vel væri boðið, verður að vísu að upplýsa að hann er kominn nokkuð til ára sinna, krækjan er dottin af hurðarflekanum og gólffjalirnar farnar að gefa sig. En þar á móti vegur að útikamrar af svo frumstæðri gerð eru orðnir býsna torgætir á Íslandi og svo er hitt að undir kamrinum er býsna verð­mætt byggingarland í grennd við golfvöll, flugbraut og gamlan fjóshaug. Gunnar Birgisson myndi ekki hika við að skoða málið að minnsta kosti.
            Mér þykir annars vænt um þennan kamar. Á milli okkar er ekki aðeins andlegt heldur einnig líkamlegt samband og við eigum ýmsar sameiginlegar minningar. Ég væri samt til viðræðu um að selja hann einhverjum út­rásar­greifanum ef vel væri boðið í hann, til dæmis segjum átta til tíu miljónir. Ég væri þá jafnvel til viðræðu um að láta blikkfötuna fylgja með í kaup­unum þó að hún sé strangt til tekið lausafjármunur. Vír­lykkjan fyrir rúlluna er hins vegar naglföst og fylgir því að sjálfsögðu með.
            En þetta eru vafalaust óráðsdraumar hjá mér, Tumi minn. Það kemst ekkert að þessa dagana hjá hinni nýju, moldríku - eða réttara sagt hinni taðríku - yfirstétt nema hestar og aftur hestar enn einn ganginn. En ég á hvorki hesta né hesthús. Það væri nú eitthvert annað útlitið hjá mér ef ég hefði til dæmis átt hesthús í Hnoðraholti. Þá þyrfti maður ekki að vera að velta því fyrir sér hvort hundakofar eða útikamrar komist ein­hvern tímann í tísku hjá fína fólkinu.
            - Æ, hættu þessu eilífa öfundarsífri. Þú hefur það ágætt þó að skúffurnar hjá þér séu ekki fullar af pappírsgulli. Þú átt ýmislegt fleira en þennan hundakofa og útikamar og örugglega er flest af því meira virði fyrir þig, minn ágæti húsbóndi, en þrjátíu miljón króna hesthús. Ég get svo sem ekki neitað því að mér finnst ansvíti góð lyktin af hrossaskít en hann hlýtur að vera að hægt að fá ókeypis einhvers staðar. Ég trúi ekki öðru.
            Tað er nú tað, Tollleifur minn. Þetta er nú einu sinni markaðs­þjóðfélag. Ég sé ekki fyrir mér að skítur úr þrjátíu miljón króna hest­húsi geti verið gratís.

23. Tumaganga með ESB, Vinstri-grænum og Árnum-möttum

 

 

            Það liggur í augum uppi og ég er ekki einn um þá skoðun að Íslendingar geta ekki dregið lengur að ræða sín á milli í fullri alvöru hvort þeiri eigi að sækja um fulla aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Menn hafa ýmist „bannað" þessa umræðu eða sneitt hjá henni á undanförnum árum. Aðstæður hafa hins vegar breyst til mikilla muna í upphafi nýrrar aldar frá því sem var fyrir 10 til 15 árum. Samtvinnun viðskipta, verslun­ar, þjónustu og fram­leiðslu­starfsemi milli einstakra landa og heimshluta er orðin svo umfangsmikil að það er ekki lengur nein skynsemi í að þráast við og fullyrða með sömu rökum og fyrir 5 eða 10 árum að það sé að því ótvíræður ávinningur fyrir Íslendinga að standa utan við Evrópusambandið um ófyrirsjáanlega framtíð; óþarft að skoða málin frekar. Sjálfur hef ég eins og flestir aðrir Íslendingar einvörðungu brjóst­vit og leikmannsskilning að styðjast við, þegar ég reyni að móta afstöðu til aðildar, en í skrifum hagfræðinga um þessi mál virðist mér þeir yfirleitt telja kosti aðildar meiri en ókosti hennar fyrir íslenskt efnahagslíf þegar til lengri tíma er litið.

            Á síðustu dögum hafa stjórnmálamenn og ýmsir skoðanavitar masað og þrasað um evrur og krónur. Þetta eru ekki nytsamlegar skeggræður og til þess fallnar eingöngu að þoka til hliðar umræðunni sem nú verður að fara fram, umræðunni um hvort Íslendingar eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu eða ekki og í framhaldi af því hvort þeir eigi að ganga í myntbandalagið eða ekki.

            Það er býsna athyglisvert annars að eindregnust andstaða við aðild Íslands að Evrópusam­bandinu skuli komi frá gagnstæðum skautum í íslenskri pólitík, annars vegar frá Vinstri-grænum og hins vegar frá valdamiklum kjarna í Sjálfstæðisflokknum. Hvorir tveggju nefna eða ýja a.m.k. að einhvers konar skerðingu á fullveldi sem einni af meginástæðum þess að þeir leggjast gegn aðild að ESB; aðild muni leiða til þess að Íslendingar missi eigin stjórn á ýmsum veigamiklum sviðum efnahags-, viðskipta- og atvinnumála. „Hugsan­legur ávinn­ingur af aðild Íslands að ESB réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar," segir í stefnuskrá Vinstri-grænna á vefsetri þeirra. „Íslendingar eiga að halda áfram á braut fríverslunar með gerð tvíhliða samninga við önnur ríki," segir í einni landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokks­ins. Og nokkru síðar í sömu samþykkt: „Sjálfstæðis­flokkurinn telur aðild að sambandinu ekki þjóna hagsmunum íslensku þjóðarinnar eins og málum er nú háttað."

            Athyglisvert er í þessu sambandi að í framtíðarsýn Verslunarráðs Íslands, sem er eins konar hugmyndafræðilegt útibú Sjálfstæðisflokksins, framtíðarsýn, sem kom út í skýrslu­formi í fyrra og nefnist „Ísland 2015", er hvergi minnst einu orði á Evrópusambandið eða tæpt á því að gæti verið ástæða til að ræða hvort Íslendingar ættu að sækja um aðild að sambandinu eða ekki. Þessi þögn í skýrslu Verslunarráðs er eftirtektarverð og verður ekki túlkuð öðru vísi en svo að í valdaklikkum Sjálstæðisflokksins sé í raun svo mikill ágrein­ingur um ávinning þess fyrir Íslendinga að ganga í Evrópusambandið að forystumenn Verslunar­ráðsins hafi talið rétt af pólitískum og „taktískum" ástæðum að víkja ekki beint einu orði að Evrópusambandinu í framtíðarsýn og stefnumörkun fyrir Ísland til ársins 2015.

            „Aðild að ESB myndi skerða fullveldi Íslands enn frekar en orðið er með EES-samningnum og tefla í tvísýnu yfirráðum Íslendinga yfir auðlindum sín­um," segir í stefnuskrá Vinstri-grænna. Ljóst er að Vinstri-grænir eru ekki sáttir við veru Íslendinga á Evrópska efnahagssvæðinu og því síður líkar þeim að Ís­lendingar skuli hafa orðið aðilar að Schengen: „Aðild Íslands að Schengen-samkomulaginu um afnám vegabréfaskoðunar var óheillaskref. Í því felst að Íslendingar taka að sér vörslu ytri landamæra Evrópusambandsins og girðingar eru hækkaðar gagnvart öðrum ríkjum og heimshlutum."

            Ég hef verið að grufla yfir því hvað gæti ráðið mestu um þessa afdráttar­lausu afstöðu Vinstri-grænna til ESB. Sennilegast þykir mér - með hliðsjón af öðrum grundvallarþáttum í stefnu þeirra - að Vinstri-grænir séu mótfallnir ESB af því að þeim stendur ógn af ofurvaldi kapítalista og auðmagnsins í Evrópu­sam­bandinu. Vissulega hafa sósíal-demókratar náð að setja mark sitt á marg­víslega þætti í ESB, enda sósíal-demókratar iðulega við stjórnartauma í ein­stökum aðildarríkjum, en það held ég að enginn efist um að Evrópusambandið hefur reynst kapítalistum, auðmagni og stórfyrirtækjum einkar hagfellt starfs­umhverfi og hags­munir þessara afla hafa ævinlega náð að ráða miklu um stjórn og stefnumál í sambandinu. Gott, síðasta dæmi um það eru nýju aðildar­ríkin, Rúmenía og Búlgaría. Enda þótt himinn og haf skilji á milli þessara ríkja og t.d. Þýskalands, Bretlands, Sví­þjóðar og Danmerkur, var þeim hleypt inn í ESB, ekki síst vegna þess að þar sáu kapítalistar stórar hjarðir af ódýru vinnuafli, sem mátt virkja til starfa hvar sem er í sambandinu, og einnig töldu kapítalistar minni líkur eftir inngöngu þessara ríkja í sambandið að þar risu upp einhverjir „vinir bláfátækrar alþýðu" og færu að krukka í hið vestræna, kapítalíska markaðshagkerfi sem aðild að ESB bein­línis knýr þessi ríki til að laga sig að. Í ljósi þessa skil ég afstöðu Vinstri-grænna. Ef þeir komast einhvern tímann að stjórnartaumum á Íslandi og fá tækifæri þar með til að hrinda einhverjum af hugsjónum sínum í framkvæmd, þykir þeim ekki fýsilegt að vera búnir að binda hendur þjóðarinnar í veiga­miklum málum með aðildarsamningi við ESB og auðvaldið sem ræður þar mestu um ferðina.

            Hið skondna við afstöðu eða öllur heldur - á síðustu misserum - af­stöðuflótta Sjálf­stæðisflokksins, þegar komið er út í umræðu um aðild að ESB,  er að kapítalistarnir og frjálshyggjumennirnir í Valhöll eru að því leyti samstíga Vinstri-grænum að þeir óttast líka kapítalistana og auðvaldið í ESB. En ótti þeirra virðist eiga sér þá rót að íslenskir kapítalistar kæra sig ekki um að kapítalistar í Evrópusambandinu fari að segja þeim fyrir verkum meira en orðið er eða skipta sér af hagstjórn kapítalista á Íslandi, vöxtum og öðrum slíku. Íslenska kapítalið vill fá að leika tiltölulega lausum hala, að svo miklu leyti sem aðild að Evrópska efnahagssvæðinu kemur ekki í veg fyrir slíkt, og jafnframt fá að njóta ýmissa kosta sem aðild að Evrópska efnahagssvæðinu hefur fært ís­lenskum kapítalistum, t.d. ódýrs, erlends vinnuafls. Óbreytt ástand að öðru leyti „þjónar.... hagsmunum þjóðarinnar". Þessi hugsun kom t.d. skýrt fram hjá Árna Mathiesen, fjármálaráðherra, í samtali við Ingibjörgu Sólrúnu í Kastljósþætti í gærkvöld. Af orðum hans mátti ráða að væru Íslendingar aðilar að ESB gætu þeir t.d. ekki farið öðru hverju í þessar gríðarlegu uppsveiflur í hagkerfinu, með allt að 8% hagvexti á ári, sem færðu þeim bæði auð og velsæld langt umfram það sem þekktist í Evrópusambandinu. Það kom ekki fram í máli Árna en er sjálfsagt að hafa í huga að ávinningur almennings af uppsveifl­unni rýrnar yfirleitt verulega eða hverfur jafnvel fyrr en síðar í niðursveiflunni, sem á eftir fylgir. Það eru fyrst og fremst íslenskir kapítalistar sem hagnast á þessum stórfelldu uppsveiflum og ekki síst eftir að þeim opnuðust leiðir til að koma fjármagni sínu undan niðursveiflunni í skjól stöðugleikans í Evrópusamband­inu. Hagur íslenskra kapítalista af sjálfstæðri hagstjórn Íslendinga er því ótvíræður og skiljanlegt að þeir séu tregir að missa hana að nokkru leyti í hendur starfs- og trú­bræðra sinna í ESB. Íslenskir kapítalistar í Sjálfstæðisflokknum og Vinstri-grænir geta þannig sameinast í afstöðu sinni gagnvart aðild að ESB og nánu samstarfi við kapítalista þar þó að ólíkar hvatir og gagnstæð hugmyndafræði liggi að baki þessari afstöðu svo óskyldra stjórnamálaafla.

            Samfylkingin hefur í afstöðu sinni til aðildar að Evrópusambandinu lagt áherslu á gildi stöðugleika í efnahagsstarfsemi fyrir hagsmuni þjóðar í heild og til lengri tíma litið. Mörgum hagfræðingum hugnast einnig sá stöðugleiki sem færðist væntanlega yfir íslenskt efnahagslíf og þjóðarbúskap ef Íslendingar gerðust aðilar að ESB. Endanlegt svar við spurningunni um aðild hlýtur svo að ráðast af pólitískri sannfæringu eða skoðun á því hvor leiðin sé affarasælli fyrir þorra Íslendinga, dínamískur öldugangur, þar sem skiptast á öldufaldar og öldudalir og brimið skolar stundum miljörðum í fárra hendur og/eða til annarra landa, eða lygnari hafflötur þar sem gefur oftar á sjó og ekki er sama hættan á að aflanum skoli út aftur. Afstaða Vinstri-grænna á sér hugmyndafræðileg rök en hún mun aldrei verða öðrum til gagns en íslenskum kapítalistum og frjálshyggðum mark­aðstrúarmönnum sem vilja halda sjálfræði íslenskra kapítalista í hinu litla, íslenska hagkerfi. Draumur Vinstri-grænna um sósíalískt sældarríki á lítilli eyju í Norður-Atlants­hafi verður - á meðan heimsbyggðin veltist áfram eftir braut veraldarvæðingar - aldrei annað og meira en þetta: Draumsýn. Vinstri-grænir verða að hafa pólitískan merg til að leita raunsærri og „pragmatískari" leiða til að koma böndum á óheftan kapítal­isma.

            Öllum er okkur hollt að halda áfram að hugsa og vega og meta kosti og ókosti aðildar að ESB. Síðan, í ljósi þess sem forystumenn þjóðarinnar ætla út frá pólitískri sannfæringu sinni að sé öllum landsmönnum fyrir bestu og telja að sé í samræmi við meirihlutavilja kjósenda, ber stjórnvöldum, hver svo sem þau eru, að marka ákveðna stefnu á þessu ári varðandi samskipti Íslendinga við ESB. Af þeim sökum er brýnt að spurningin um aðild eða ekki aðild að Evrópusambandinu verði eitt af kosningamálunum í vor.


22. Tumaganga með kynferðislegu Kastljósi

              Er ætlast til að ég geri eitthvað í þessu? Á ég að reyna að sjá til þess að eitthvað þessu líkt gerist aldrei aftur? Á ég að gæta mín á þessu? Eða á ég ekki að gera neitt nema að setja í brúnir, hrista höfuðið og segja hálfhátt við sjálfan mig: Hvílík ósköp eru að heyra þetta! Að þetta skuli geta gerst! Að þetta skuli geta viðgengist í íslensku samfélagi!
            Sumir íslenskir fjölmiðlar - og þá ekki síst Ríkissjónvarpið í Kastljósi og aðal­fréttatíma - eru haldnir þeirri áráttu að láta vart líða nokkra viku án þess að flytja, oft dag eftir dag, hryllingsfrásagnir af því sem kallað er kyn­ferðisleg misnotkun eða kynferðislegt ofbeldi. Má vera að ritstjórum, fréttastjórum og umsjónarmönnum Kastljóss þyki þetta endurspegla þjóðfélags­lega ábyrgð en mér finnst þetta endur­spegla miklu fremur einhverja „uppíhrærufíkn", áráttu til að hræra upp í fólki með ógeðfelldum frásögnum af ógeðfelldri kynhegðun og illri meðferð, einkanlega á konum og börnum, áráttu sem magnast ða sjálfsögðu, tvíeflist og sexeflist þegar fórnarlömb kynferðis­ofbeldis eru fólk sem býr við fötlun, til dæmis heyrnarleysi.
            Tilgangurinn með þessum ýtarlegu frásögnum og sam­tölum við fórnarlömb dag eftir dag, viku eftir viku, er mér í flestum tilfellum alls ekki ljós. Stundum er jafnvel verið að grafa aftur í fortíðina, lýsa atburðum sem gerðust fyrir allmörgum árum, fjalla um ástand sem ég fæ ekki betur skilið en að sé ekki lengur fyrir hendi. Þannig er því háttað um heyrnarlausa einstaklinga og kynferðislega mis­notkun á þeim sem er efni nýrrar skýrslu. Svo er að skilja að skýrslan lýsi atferli sem fram fór á ofanverðri nýliðinni öld. Vissulega er skýrsla af þessu tagi fréttaefni, þegar hún kemur út. Hún opnar augu manna fyrir því hvað heyrnarlausir máttu þola á fyrri árum, fjarri heimili sínu og fjöl­skyldu, „dæmdir" af kerfinu og góðviljuðum sérfræð­ing­um þess tíma til vistar svo árum skipti á heyrnleysingjaskólanum. En ýtarlegar vanga­veltur dag eftir dag og samtöl við einstaklinga, sem vilja ekki þekkjast eða koma fram undir nafni, þar sem þeir eru beðnir að svara spurningum eins og „hvað var gert við þig?", „hvernig var það gert?", „hvar var það gert?", „hvernig leið þér á meðan?", „hvernig hefur þér liðið síðan?" o.s.frv. virðast mér ekki þjóna öðrum tilgangi gagn­vart hlustendum en að svala annars vegar kynferðis­legri hryllingsþörf, sem leynist í brjóstinu á mun fleira fólki en okkur grunar, og hins vegar að gefa öðrum færi á að njóta þess vera „svona miklu betra fólk" en gerendurnir í kynferðislegu ofbeldi, þessir einhverjir aðrir, þessir hinir til aðgreiningar frá okkur. Vissulega finnur maður sárt til með fórnarlömbum ofbeldisverknaða af þessu tagi og vonar að skýrslan og umfjöllun um efni hennar verði þeim til hjálpar sem hafa ekki treyst sér fram að þessu, í mörg ár eða áratugi, að leita slíkrar hjálpar. En þeim tilgangi verður náð án þess að skýrslan sé notuð sem tilefni til umfjöllunar í æsifréttastíl í aðalfréttatíma Sjónvarps og í Kastljósi dag eftir dag. Þar virðast ráða ferðinni aðrar hvatir en samúð með heyrnarlausum einstaklingum. Eftir að hafa skáskotið augum á Kastljós á undanförnu ári verður manni fyrir að spyrja hvort „ohf" fyrir aftan Ríkisútvarp í frumvarpi, sem nú er til afgreiðslu á alþingi, standi fyrir „ofbeldi, heilsuleysi, fíkn"?

 


21. Tumaganga með Hjörleifi Hallgríms

 

            Tumi er afleitur samferðafélagi þegar snjór er nýfallinn. Þá fyllist hann einhverri ástríðuþrunginni ókyrrð, rekur trýnið ofan í mjöllina og snusar án afláts út og suður án þess að lyfta höfði frá jörð. Ákefðin er svo mikil að hann minnir einna helst á prófkjörsframbjóðanda að snusa eftir atkvæðum. Hann lét svona í kvöld og ég gat ekki stillt mig um að segja að hann minnti mig á Hjörleif.
            Tumi rak snoppuna upp úr mjöllinni og horfði á mig með spurnar­svip.
            - Hvaða Hjörleif?
            Hann Hjörleif Hallgrímsson, framsóknarmanninn á Akureyri sem stefnir á þriðja sætið í prófkjörinu þeirra fyrir norðan.
            - Já, hann, umlaði í Tuma sem virtist gjörsamlega áhugalaus.
            Þú gætir ekki hugsað þér að styðja hann í þriðja sætið? Hann er búinn að bjóðast til að leggja fram tvær miljónir króna í hússjóð fram­sóknarfélaga á Akureyri ef hann nær þriðja sætinu.
            - Til hvers þurfa framsóknarfélög á Akureyri heilt hús? Dugir þeim ekki lítið kjallaraherbergi? Fer framsóknarmönnum ekki fækkandi fyrir norðan eins og annars staðar? Hefði ekki verið nær fyrir Hjörleif að bjóðast til að leggja fram peninga í minningarsjóð um framsóknarfélög á Akureyri?
            Hjörleifur ákvað þetta nú samt og það hafa ýmsir orðið til þess að úthrópa hann fyrir útspilið. Björn Ingi Hrafnsson, einsetuframmari við Reykjavíkurtjörn og flokksbróðir Hjörleifs, segir til dæmis á blogginu sínu í dag að þetta sé „verulega vond hugmynd" hjá Hjörleifi. En mér finnst þetta ekki jafnmikið einsdæmi og menn vilja vera láta - að öðru leyti en því að Hjörleifur hefur látið þessi boð út ganga á opinber­um vettvangi, fer ekkert í launkofa með að hann sé reiðubúinn til að launa kjósendum sínum greiðann og að hann ætlar að reiða fram fé úr eigin vasa en ekki nota fé skatt­greiðenda til þess að borga fyrir sig.
            - Það er svolítið til í þessu hjá þér, ansaði Tumi. Má ekki halda því fram til dæmis að Björn Ingi hafi launað framsóknarmönnum í Reykjavík dyggilega fyrir stuðning við sig bæði í prófkjöri og í borgar­stjórnarkosn­ingum. Má ekki halda því fram að til þess hafi hann notað fé úr vasa útsvarsgreiðenda en ekki úr eigin vasa. Er það svo ýkja ólíklegt að Björn Ingi hafi í kosningabaráttu í bæði skiptin orðað það sisona lauslega við þá, sem kringum hann snerust, að hann skyldi muna eftir þeim ef hann kæmist í aðstöðu til þess að beita áhrifum sínum í stjórn borgarinnar?
            Það er nú ekki að öllu leyti sanngjarnt af þér, Tumi, að nefna Björn Inga sérstaklega í þessu sambandi. Hann er örugglega ekki eini stjórn­mála- og sveitar­stjórnarmaðurinn sem hefur launað flokksbræðrum sínum dyggilega fyrir sig með því að fleygja til þeirra kjötflís. Og þess utan: Er þetta ekki bara eins og hvert annað kosningaloforð hjá Hjörleifi? Hafa menn yfirleitt einhverja ástæðu til að halda að Hjörleifur telji sér - fremur en öðrum stjórnmálamönnum - skylt að efna loforð og fyrirheit sem gefin eru í kosningabaráttu? Ég man ekki betur en Björn Ingi t.d.....
            Tumi rykkti í ólina og gjammaði inn í miðja setningu hjá mér.
            - Björn Ingi!? Varstu ekki að segja að það væri ekki sanngjarnt að taka bara dæmi um Björn Inga?
            Jú, jú, en það er barasta ekki hægt að stilla sig um, þegar talað er um kosn­ingaloforð, að minna á að Björn Ingi lofaði kjósendum gjaldfrjálsum leikskóla fyrir borgarstjórnarkosningar í vor. Og honum virðist samt ekki hafa fundist það neitt „verulega vond hugmynd" að greiða atkvæði fyrir skömmu með 9% hækkun á leikskólagjöldum. Kannski tekur Hjörleifur kosningaloforðin sín ekki neitt alvarlegar en Björn Ingi.
            - Ég held það sé misskilningur hjá Hjörleifi, sagði Tumi, að leiðin að hug og hjarta framsóknarmanna, sem eftir eru á Akureyri, liggi í gegnum hússjóð framsóknar­félaganna. Ég held að loforð um persónu­legan greiða séu miklu betri gjaldmiðill í atkvæðakaupum.
            Og svo er auð­vitað spurning, Tumi minn, hvort framsóknar­mönnum fyrir norðan finnst nóg að fá tværi miljónir fyrir að kjósa Hjörleif. Kannski þurfa menn að beita sig verulega hörðu til að greiða honum atkvæði sitt, jafnvel loka augunum og bíta á jaxlinn, og vilja fá þrjár miljónir fyrir eða jafnvel fjórar. Þarf Hjörleifur ekki að bjóða betur?
            - Við látum framsóknarmennina á Akureyri svara því, ansaði Tumi. Það þýðir að minnsta kosti ekkert fyrir Hjörleif að reyna að múta mér. Ég á minn hundakofa sjálfur og meira að segja nokkrar krónur í sjóði fyrir upphitun og rafmagni. Ég læt það duga.

 


20. Tumaganga með réttarhöldum án enda

 

            Við teljum og það með réttu að eitt af aðalsmerkjum hins góða samfélags sé jafnræði fyrir dómstólum. Allir skulu jafnir fyrir lögunum. Við treystum því að dómari ákvarði sýknu eða sakfellingu, sektir og refsingu án tillits til þess hver eigi í hlut. Ég efast ekki um að hjá íslenskum dómstólum er þessi jafn­ræðisregla í heiðri höfð. Ég veit að íslenskir dómarar hafa til þess bæði ríka réttlætiskennd og lögfræðilegan metnað að komast að réttlátri niðurstöðu um sérhvert sakarefni sem fyrir þá er lagt til úrskurðar.
            Jafnræðisreglan í réttarkerfinu fer hins vegar að verða móskuleg út við jaðrana þegar komið er einmitt að þessum þætti í réttarhöldum, hvernig sakarefni eru lögð fram fyrir dóm­arann, einkanlega hvernig ákærði bregst til varnar eða öllu heldur hversu hart hann getur látið lögfræðinga sækja fram sér til varnar. Hér fara veraldleg efni manna og mátturinn, sem þau gefa þeim, að hliðra mönnum til í hinum heilögu véum jafnræðisreglunnar með þeim afleið­ingum að sumir verða jafnari en aðrir. Smáþjófur í slitinni flíspeysu og jösk­uðum striga­skóm með slitnum sóla hefur engin efni til að siga lögfræðingum á rannsóknarlög­reglumenn, sak­sóknara og ákæruvald; hann hefur enga burði til að ráða sér sveit lögfræðinga sem verja mánuðum og jafnvel árum í það eitt að bera brigður á formlegt lögmæti málatilbún­aðar, á óhlutdrægni þeirra sem koma að rannsókn sakarefnis og ákæru og þar fram eftir göt­un­um og útsmognum lagakrókum. Hér fara pen­ingar í enn eitt skiptið að ráða öllu um það að menn eru misjafnlega jafnir. Við þetta verðum við líkast til að sætta okkur á meðan þorri fólks hefur þá skoðun að sé gott fyrir samfélagið í heild að eignir skiptist á milli manna eftir öðrum viðmið­um en jafn­ræðisreglunni og að gríðarleg misskipting eigna sé bæði óhjákvæmileg og eðlileg niðurstaða af þessari tilhögun.
            Einhvers staðar las ég að Silvio Berlusconi og skjólstæðingar hans hefðu átt upptökin að því á Ítalíu fyrir allmörgum árum að reyna að teygja réttarhöld á hendur sér á langinn með öllum tiltækum ráðum. Einatt var um að ræða ákærur  vegna meintrar spillingar, misbeitingar á valdi o.s.frv. sem tengdust viðskiptum og fyrirtækjum Berlusconis, mál sem vöktu athygli almennings. Fjölmiðlar, sem Berlusconi hafði ekkert eignarvald yfir, sinntu þessum málum af kappi. En með því að draga réttarhöld óhóflega á langinn tókst smám saman að slæva áhuga almennings á málunum og meintum sakargiftum á hendur ákærðu svo að eftir þrjú til fjögur ár féllu þessi mál í mók inn í réttarsölum og dómur féll án þess að nokkur sála hefði lengur áhuga á að vita hvort ákærðu hefðu verið dæmdir brotlegir eða ekki.
            Engu er líkara en að lögfræðingar hér á landi séu farnir að taka upp þessi vinnubrögð þegar svo stendur á að ákærðir eru vel efnaðir og geta þess vegna stofnað til verulegra út­gjalda vegna málaferla sem þeir virðast þá ætla að láta standa eins lengi og lagarefir geta fundið ný álitaefni í varnargarða. Baugsmálið er dæmi­gert að þessu leyti og nú virðist sams konar lang­loka í uppsiglingu þar sem fyrrverandi olíuforstjórar eiga í hlut. Vissulega er það réttur sérhvers einstaklings, sem sætir ákæru og stefnt er fyrir dómstól, að beita öllum lög­mætum ráðum til varnar sér. Af þeim sökum verður að taka því með jafnaðargeði og skilningi á grundvallarreglum réttarríkisins þegar sveitir lögfræðinga ganga fram fyrir skjöldu stór­eigna­manna og þvælast fyrir dómurum í héraði og hæstarétti mánuðum og árum saman með frávís­unarkröfur vegna formgalla, rannsóknargalla, vanhæfni og guð má vita hvað. Óheppileg afleiðing þessa er þó að ásakanir á hendur rann­sókn­arlögreglu og ákæruvaldinu og mála­tilbúnaði þessara aðila, jafnvel ásakanir í garð dóms­valdsins, verða svo fyrir­ferða­miklar í fréttum fjölmiðla af gangi þessara langlokuréttarhalda að almenn­ingur fer smám saman að glata traustinu sem er frumskilyrði að fólk beri til þessara máttarstoða réttarkerfisins, lögreglu, saksóknara og dómara. Við megum ekki láta slíkt gerast. Enda þótt verk allra manna geti verið misjöfn eru engin rök til þess að ganga út frá því sem sjálf­gefnum hlut að starfsmenn rannsóknar­lögreglu og saksóknara geti nánast aldrei undir­búið mál með viðunandi hætti og samkvæmt þeim réttarreglum og rétt­lætissjónarmiðum sem við viljum öll láta gilda. Það er að sjálfsögðu réttur ákærðra og lögfræðinga þeirra að draga þetta allt í efa og reyna þannig að ónýta málatilbúnað ákæruvaldsins en í umfjöllun fjölmiðla um slíkan málarekstur ættu menn að gæta varúðar, einkanlega vegna þess að ekki þykir við hæfi að mál­svarar lögreglu eða ákæruvalds beri hönd fyrir höfuð sér í slíkum sökum á opinberum vettvangi.
            Það er skil­yrðis­laust grundvallaratriði í íslenska réttar­ríkinu að hinn almenni borgari beri traust til lögreglu og handhafa dómsvalds. Þegar stóreignamenn setja langlokuréttar­höld á svið ættu fjölmiðlar því að setja sér þær reglur að sleppa því að hleypa ákærðu eða lögfræð­ingum þeirra hvað eftir annað í bein viðtöl í útvarpi eða sjónvarpi um þessar máltafaaðgerðir sínar. Fjölmiðlar ættu að láta nægja að skýra stuttlega og ekki efnislega frá formgallakærum, frávísunar­kröfum og öðrum uppáfinningum varnarlögfræð­inga og segja þá heldur frá máls­rökum með og á móti slíkum kröfum þegar úrskurður dómara liggur fyrir. Með því móti væri að minnsta kosti reynt að koma í veg fyrir að slík langloku­réttar­höld smituðu óþarflega mikið út frá sér, færu að móta afstöðu hins almenna borgara og draga úr trausti hans á íslenska réttarkerfinu.


19. Tumaganga með íslensku krónunni

 

            Það er ekki öfundsvert að vera íslensk króna þessa dagana. Íslenska krónan er borin svo mörgum sökum að riddarar auðhringborðsins, Baugskappar og olíuforstjór­ar, eru eins og sakleysið sjálft í samanburði við hana. Krónan á sök á háum vöxtum og verðtryggingu. Krónan á sök á því hvað bjórinn kostar mikið. Krónan á sök á hvað vínið er dýrt og það er krónunni að kenna að matvælaverð á Íslandi er 63% hærra en meðal­verð á matvælum í öðrum Evrópulöndum. Það fer svo illt orð af íslensku krónunni að jafnvel eigendur íslensku bankanna, sem krónan hélt að hefðu heitið henni trúnaði allt til dauða, vilja ekki sjá hana í nánd við sig og safna erlendum gjaldeyri eins og þeir eigi lífið að leysa. Hjá voldugu, ís­lensku fjármálafyrirtæki, þar sem menn mega ekki vamm sitt vita, þykir ekki lengur við hæfi að sjá þessa auvirði­legu, íslensku krónu í talnadálk­um bókaranna því að svo bersyndug mynt þykir setja blett á annars heiðvirt bókhald. Það eru nánast allir fjármála- og viðskiptajöfrar landsins að koma út úr peningaskápnum og viðurkenna að þeir elski evruna. Jafnvel Ingibjörg Sólrún, sem ég hélt að mætti ekkert aumt sjá, setur upp „varstu-að-stela-smákökum-strákur-svipinn" og rakkar niður krónuna fyrir framan alþjóð. Botnarðu eitthvað í þessu, Tumi?
            - Nei, ekki vitundar ögn, ansar Tumi. En það er ekki rétt hjá þér að Ingibjörg hafi kennt krónunni um háa vexti og hátt matvælaverð. Hún rétti ásakandi fingur sinn í áttina að þeim sem hún sagði að vildu halda í krónuna hvað sem það kostaði
            Veist þú hverjir það eru?
            - Nei. Ég hef hvergi fengið það almennilega á hreint. Þó held ég að megi fullyrða að Steingrímur Sigfúss ætlar að berjast fyrir málstað íslensku krónunnar með kjafti, sem er feiknmikill, og klóm sem eru fjarska beittar. Kannski að Ingibjörg hafi átt við hann svona í aðdraganda alþingiskosninga. Jón Sig. hefur heldur ekki þorað eins og drottningin frá Lómatjörn að koma út úr peningaskápnum og lýsa því yfir að hann hafi snúið við baki við krónunni. Seðlabankinn er svo auðvitað síðasta vígi krónunnar og Davíðs Oddssonar. Einhverjir, sem mega sín mikils í Sjálfstæðisflokkn­um, geta ekki heldur, er mér sagt, hugsað sér að kveðja krónuna, að minnsta kosti ekki í bili.
            Það liggur að sjálfsögðu í augum uppi, Tumi, að íslensk stjórnvöld og yfirstjórn peningamála í landinu geta ekki komið fram fyrir þjóðina sisona allt í einu og sagt að þau séu búin að gefast upp á krónunni af því að hún sé einkis virði og handónýt mynt. Hvað myndi þá gerast? Staða þeirra, sem hafa ákvörðunarvaldið í þessum efnum, er ekki öfundsverð. En manni sýnist samt að verði ekki dregið lengur að setja saman eitthvert aðgerðaplan, að taka ákvörðun um hvert skuli stefna. Ég fæ ekki betur séð en fullt af mönnum, sem hafa mikil völd í íslensku efnahagslífi, séu búnir að taka ákvörðun um hvert skuli stefnt. Stjórnvöld og við hin megum ekki fljóta sofandi að evruósi.
            Tumi lyfti löppinni og sprændi upp við jólatréð sem ég fleygði út á gangstétt á sunnudaginn var. Síðan hristi hann sig og sagði:
            - Ja, ég þarf ekki að hafa neinar áhyggjur út af krónu eða evru. Ég á ekki grænan eyri.
            En þarna er króna, sagði ég og benti honum á hundraðkrónupening sem einhver hafði gloprað úr höndum sér og glitraði í hrímskell­óttu grasinu. Það á hana enginn. Þér er alveg óhætt að hirða hana.
            Tumi nam andartak staðar og virti krónuna fyrir sér.
            - Nei, það tekur því ekki, held ég. Hefði kannski borgað sig ef þetta væri evra.
            Hann græddi ekkert í kvöld. Og hann tapaði heldur engu sem máli skiptir.
         

 


18. Tumaganga með Kaspar, Melkíor og Baltasar

  

           Maður upplifir þessa daga ýmist líf eða dauða. Þessir tveir tvíbura­bræður auðkenna alla manns daglegu tilveru, skipta meira máli en evra og króna. Ég sat við hlið dauðans í gær, hann var hæverskur að vanda, kann að koma fram eins og sannur sjentílmaður, hreykti sér ekki en bauð mér hlé undan stormum líðandi tíðar í fanginu á fallegri tónlist. Návist hans er alltaf gefandi, skerpir útlínur á lífi manns. Prestur, sem hafði hljóð­nema í kverkinni, dreitlaði sínum rútínuflötu ritningargreinum og náðar­romsum yfir bekkina í kirkjunni eins og það skipti máli fyrir fólkið sem sat þarna og veit hvað bíður þess.  
            Einhver maður lét dæluna ganga í dag um það hvort væri  affara­sælla að hafa krónur í buddunni eða evrur. Sessu­nautur minn í viðkvæmri vitund frá í gær lagði fingur sína á hönd mér og hristi höfuðið. Hann veit sínu viti. Hann veit hvað skiptir máli og er affarasælt. Hann hefur hettu á höfðinu og í skugganum, sem féll yfir andlit hans, glóðu augu; þau leiftruðu eins og háleitar hugsanir í textum eða tónverkum þeirra manna sem ég hef kjörið mér til fylgilags um ævina. „Haltu bara áfram," sagði hann, „og hafðu bara þínar skoðanir á evru eða krónu. Við erum ágætir vinir, er það ekki? Það er í reynd ekkert nema gott um það að segja að við skulum fylgjast að. Hvað ætti annars að verða um þig?"
            Og á þrettándakvöldi hitti ég hana Evu. Hún var með hlífðargler­augu og stóð í öruggri fjarlægð frá föður sínum og bróður sem voru að skjóta upp púðureldum og kveðja þessi jól. Einhvers staðar í þrúgandi hitanum frá eyðimörkum horfa önnur börn með skelfingu á skotblossa og hafa hvorki hlífðargleraugu né tryggingu fyrir að faðir þeirra fylgi þeim til sængur þegar friður næturinnar leggur svartbláa blæju sína yfir heims­veldi og hjörtu fólks.
            „Æ, já," segir sá hettuklæddi. „Þú heldur þó ekki að ég standi fyrir þessu öllu. Ég gæti vel hugsað mér að hvílast stundum. En þið mennirnir sjáið fyrir því að mér kemur varla blundur á brá."
            Þá sá ég Kaspar, Melkíor og Baltasar koma út úr leið 24 við Smáralind. Alltaf jafn hressir. Alltaf jafn hrifnir. Alltaf jafn bjartsýnir. Alltaf í sama stuðinu og með fangið fullt af gjöfum. Ég ætla að bjóða þeim í kaffi og sörur þegar þeir eru búnir á fundinum í fjárhúsinu.
            „Mér líst vel á það," sagði sá kuflklæddi, hann vinur minn.

                


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Tumagöngur

Tumi sýndi mér þann vináttuvott á hverju kvöldi í 15 ár að fallast á að ég fengi að fara út með honum að ganga. Hann dró mig á eftir sér í ól og beið ævinlega rólegur ef ég þvældist frá honum eða villtist. Hann tók því einnig með jafnaðargeði þegar ég ræddi við hann um hvaðeina sem lá mér á hjarta í þessum gönguferðum og átti það stundum til að rjúfa einræðu mína með skarplegum athugasemdum. Nú er Tumi allur. Hann hefur hvílt í tvö og hálft ár undir björkum í Marteinsseli. Ég fer samt enn í Tumagöngu á hverju kvöldi. Ég skrafa enn upphátt við sjálfan mig og Tumi skýtur inn einu og einu orði. Ég finn hvernig hann togar í mig í ólinni á eftir sér. Ég þykist vita hvert við erum báðir að fara.

Höfundur

Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 480

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband