17. Tumaganga með pólitík í kollinum

 

            Enda þótt auðmenn hafi nú bæði tögl og hagldir í íslensku þjóðfélagi þykir mörgum einhvers um vert að í alþingiskosningum í vor færi kjósendur löggjafarvald og þar með framkvæmdavald úr höndum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þeir eru ekki ófáir sem hafa nú í kringum áramót látið í ljós þá von að tólf ára stjórnarferli þessara tveggja flokka muni ljúka eftir fimm mánuði. Þeir hafa spáð því í ræðu og riti að nýbyrjað ár verði um­skipta­ár í íslenskum stjórnmálum.
            Af síðustu skoðanakönnun Gallups má draga þá ályktun að stjórnar­andstaðan á Alþingi njóti fylgis um 55% kjósenda. Þessi hlutfallstala endur­speglar fremur hagsmuna- og valdabaráttu en mismunandi stjórnmálavið­horf. Frjálslyndi flokkurinn er græðlingur út af Sjálfstæðisflokki og hann sækir sér m.a. fylgi til hægrimanna á landsbyggðinni, sem báru skarðan hlut frá borði í kvóta­kerfinu, og til gamalla liðsmanna Sjálfstæðisflokks sem urðu þar undir í togstreitu við Davíð Oddsson og liðsheild hans. Eitthvað gæti svo slæðst inn í fylgi flokksins af framsóknarfólki sem er orðið ósátt við verk Framsóknar­flokksins í núverandi ríkisstjórn. Með hliðsjón af þessu má gera sér í hugarlund út frá niðurstöðum tilgreindrar skoðana­könnunar að hægrilæg markaðshyggja með forskriftir óhefts kapítalisma að leiðar­ljósi í efnahagsmálum sé grunnur að stjórnmálaviðhorfi rétt rúmlega helmings kjósenda, 52 til 53% atkvæðisbærra manna.
            Ef stjórnarandstaðan ætlar sér ein að mynda ríkisstjórn eftir næstu alþingiskosningar - og ef niðurstöður þeirra verða í líkingu við niðurstöður skoðanakannana nú - er ljóst að afrakstur stjórnarskipta verður fyrst og fremst að skipt verður um menn við valdatauma og alls ekki einsýnt að verulegar breyt­ingar verði í grundvallaratriðum á stjórnarstefnu þó að hún verði án efa öll mýkri. Enn sem fyrr vantar þá, sem hafa vinstrilæg stjórnmálaviðhorf á Íslandi, þann sam­eiginlega þunga sem þarf til að geta mótað stjórnarstefnu eftir sínu höfði og án málamiðlana við hægri-miðlæg eða jafnvel hægrilæg viðhorf.
            Það má halda því fram að síðasta skoðanakönnun Gallups bendi til þess að vinstrilæg stjórnmálaviðhorf njóti fylgis á að giska 42 - 45% kjósenda. (Við þessa hlutfallstölu má líklega bæta framsóknarmönnum með miðlæg fé­lagshyggjuviðhorf sem halda enn tryggð við Framsóknarflokkinn, kannski 3 eða 4%.) Það vantar því ekki nema nokkur prósentustig á fylgi vinstrilægra stjórn­málaflokka til að koma á verulegum umskiptum á Alþingi og í ráðuneytum. Það er því ekki að undra þó að ýmsir séu farnir að sjá fyrir sér örlagarík stjórnar­skipti eftir Alþingiskosningar í vor. En af því getur greinilega ekki orðið nema Samfylking fái verulega meira fylgi upp úr kjörkössunum en hún uppskar í skoðanakönnun Gallup í des­emberbyrjun. Forystusveit Samfylkingar á mikið verk fyrir höndum og vandasamt ef slíkt á að takast.
            Vinstri-grænir eru eini stjórnmálaflokkur á Íslandi sem fylgir eindreginni vinstri­stefnu. Könnun í desember gefur vísbendingu um að fylgi þessa flokks sé að nálgast fimmtung kjósenda og hlutur hans væntanlega ekki fjarri því sem var t.d. um Alþýðubanda­lagið í kosningum 1995 að viðbættum atkvæðum vinstri­manna sem greiddu þá Kvennalista atkvæði sitt. Ef vinstri-grænir halda vel á málum fram að kosningum er ekki ólíklegt að þeir nái að halda þessu tæpa fimmt­ungsfylgi.
            Samfylking er um margt farin að minna á borgaralegan sósíal-demókrat­ískan flokk - í líkingu við slíka flokka annars staðar á Norðurlöndum - í bland við Verkamannaflokkinn breska. Könnunin í desember bendir til að hlutur Sam­fylkingar sé nú um fjórðungur kjósenda. For­ystumenn flokksins hafa ekki farið í launkofa með að þeim þykir þetta rýr hlutur, að þeir vildu hafa fylgi á að giska þriðjungs kjósenda. Fylgi gamla Alþýðuflokksins var rúm 15% árið 1991 og tæp 11,5% í kosningunum 1995. Má þannig leika sér með þá ágiskun að hlutur Alþýðuflokks í fylgi Samfylk­ingar nú sé rúmur helmingur 25 prósentanna, en hinn helming­urinn sé fylgi alþýðubandalagsmanna, sem vildu af alhug sameina vinstrimenn og félags­hyggjufólk á Íslandi, og að auki brot af fylgi Kvenna­listans í eina tíð og eitthvert óánægju­fylgi frá gömlu framsóknarfólki. Ljóst er, ef marka má skoðanakannanir Gallup, að Vinstri-grænir hafa verið að taka til sín fylgi frá Samfylkingu og af því leiðir að vægi og þar með áhrif alþýðu­flokksmanna hafa verið að aukast í flokknum. Nú er ógjörningur að sjá fyrir hvort Samfylkingu tekst að rétta hlut sinn. Til þess þarf hún án efa að ná í fylgi aftur frá Vinstri-grænum, ná að höfða til þeirra, sem ganga nú að kjörborði í fyrsta skipti, og að ná til sín fylgi frá félagshyggjusinnuðum og óánægðum kjósendum Framsókn­arflokks. Eins og staðan er nú er óvíst hvort þetta tekst hjá Samfylkingu. Innan flokksins er einhver ágrein­ingur, ágreiningur um málefni, um stefnu, um völd, ágreiningur sem forystumenn í flokknum hafa ekki enn náð að leysa og verður til þess að flokkinn vantar kraft og sannfærandi hern­aðar­áætlun. Ingibjörg Sólrún og dyggustu liðsmenn hennar hafa tvisvar lagt rangt mat á stöðu sína á meðal kjósenda og á meðal flokksmanna sjálfra og þessi mistök ætla að reynast dýr­keypt fyrir Samfylkinguna. Ef samfylkingarmenn slíðra ekki sverðin og ganga sameinaðir að baki formanni sínum til kosninga og styðja hann af ráðum og dáð er ólíklegt að flokkurinn geti gert sér sæmilegar vonir um að ná atkvæðum þriðjungs kjósenda.
            Miðað við fylgistölur flokkanna í skoðanakönnunum nú yrði niðurstaðan þá líklegast samstjórn stjórnarandstöðuflokkanna ef vinstri-grænir og sam­fylkingarmenn spilla ekki öllum samstarfshorfum þessara flokka með því að hamra á því í sífellu að frjálslyndir séu orðnir „rasistar". Sjálfstæðismenn gera sér vonir um að geta myndað ríkisstjórn annað hvort með Samfylkingu eða Vinstri-grænum, eru hikandi að tilreiða að kjósendum fjórðu samstjórn Sjálf­stæðisflokks og Framsóknarflokks. Líklega er Samfylking ekki áfjáð í slíkt samstarf með sjálfstæðismönnum; það yrði banabiti hennar. Vinstri-grænir væru aftur á móti tilkipplegri, sé ég fyrir mér, að hugleiða samstarf við Sjálfstæðis­flokk; sambúðin á slíku stjórnarheimili yrði óefað samt býsna stormasöm þó að hún gæti orðið affarasæl fyrir þjóðina ef hófsamari öfl í Sjálfstæðisflokknum fengju að ráða ferðinni. Eflaust væri skynsamlegast fyrir Sjálfstæðis­flokk að taka sér hlé frá ríkisstjórnarsetum eftir 16 ár í valdastólum enda hafa hann og fylgis­menn hans mun meiri völd í íslensku samfélagi en Alþingi og stjórnarráð eftir valdaafsal á flestum sviðum þjóðlífsins til auðmanna og auðhringja þeirra.
            Enn sem fyrr blasir það við í þessari ársbyrjun að það var ógæfa vinstri­manna, sósíal-demókrata og félagshyggjufólks á Íslandi að persónulegar ýfingar, valdfíkn, stjórnlyndi og vandmeðfarin skapgerð ýmissa forystumanna í gamla Alþýðu­bandalaginu urðu til þess að ekki tókst að mynda samfylkingu þessara kjós­enda á Íslandi. Það verk bíður enn allra sem vilja sveigja samfélags­þróun á Ísland úr því fari sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Fram­sóknar­flokks hefur markað henni á valdatíma sínum í tólf ár.


16. Tumaganga í leit að nýársnótt

 

            Ég er enn að leita að nýársnótt í eldglæringum og skothríðardunum á höfuðborgarsvæðinu fyrir þremur sólarhringum. Ég hef á tilfinn­ingunni að ég hafi týnt henni fljótlega eftir áramótaskaupið. Ég rótaði áðan í öskuhrúgu sem var einhverju sinni 20.000 króna skotterta. Þar fannst engin nýársnótt, einvörðungu sviðnir pappírsgöndlar, plastbútar og járnteinar úr stjörnuljósum. Ég skil þetta ekki. Ég á svo margar góðar minningar frá nýársnóttum hér áður fyrr. Ég man eftir tungli í skýjum, fólki við brennur, körlum að syngja Máninn hátt og Ólafur reið, dómkirkju­klukkum í útvarpinu og síðan Nú árið er liðið. Hvað hefur orðið um þetta allt? Getur verið að Landsbjörg sé búin að stela nýársnótt frá þjóðinni? Er ekki nóg að sjónvarpið skuli hafa hrifsað frá manni gamlárskvöld við áramótabrennu með misjafnlega brosvekjandi áramótaskaupum í fjörutíu ár?! Í fjörutíu ár! Að hugsa sér! Og maður sest enn niður til þess að hlæja ekki.
            - Þú ert úr öllum takti við tímann, hnussaði í Tuma. Heldur áfram að nöldra svona um hver áramót. Þessi hálfdanska rómantík er passé. Álfar að dansa á svelli, tunglsljós og norðurljósavella - þetta er át, skilurðu. Fólk vill ekki frið, viðkvæmni og íhugun um áramót. Það vill hvelli, skelli og gauragang og síðan leigubíl í púðursvælu í næsta partý.
            En það er öllum hollt að líta um öxl við áramót, hugsa til þeirra sem kvöddu á árinu fyrir fullt og fast og velta því fyrir sér hvernig maður sjálfur ætli að halda áfram að lifa.
            - Flíslendingar eru margir held ég ekkert að velta fyrir sér lengur hvaðan þeir komu og hvert þeir eru að fara. Á nýársnótt takmarkast fortíðin hjá þeim flestum við síðasta greiðslutímabil hjá Visa og framtíðin miðast við næsta greiðslutímabil. Það kostar ekkert smáræði að sprengja frá sér allt vit.
            Já, það má vel vera að ég sé á aldur við gamlan nýsköpunar­togara. Já, já, ég á það til að hrökkva ósjálfrátt í plusquamperfectum þegar ég fer að rifja upp löngu liðnar nýársnætur. En mér finnst sjónarsviptir að álfum og draugum á nýársnótt. Það var eitthvað heillandi við það þegar þjóðin lét landið lifna við af yfirnáttúrlegum verum á þessari nótt hinnar illskilj­anlegu nálægðar alls og einskis.
            - Þú hlýtur þá að hafa fagnað því að mætir menn á Suðurlandi skuli hafa boðið álfum, draugum og tröllum að fá skjólshús á Stokkseyti?
            Það er engin spurning, Tumi. Ég þekki vel til á Stokkseyri frá gamalli tíð og veit að þar er búið vel að álfum og draugum ef þeir koma ekki frá Eyrar­bakka. Best þótti mér þó að forgöngumenn þessa þjóðþrifa­fyrir­tækis skuli vera annars vegar maður, sem lifði einhverju sinni sem alla­balli, og hins vegar eitt síðasta eintakið af sönnum, þjóðræknum Fram­sóknarmanni á Suðurlandi sem er ekki frá Brúnastöðum. Ég vona að setrið þeirra hafi fyllst af álfum og draugum á nýársnótt - og þá á ég við að þeir hafi ekki setið uppi eingöngu með sósíalistískar afturgöngur og svipi fyrrverandi kjósenda Framsókn­arflokksins. En jafnvel þó að svo hafi verið er ég viss um að þeir hafa ekki týnt sinni nýársnótt í púður­svælu og nútíma eins og ég. Ég á örugglega eftir að leita mér skjóls hjá þeim á Stokkseyri þegar þar að kemur.


15. Tumaganga með skoteldanöldri

 

            Þá erum við að verða jafngóðir eftir áramótin, Flís­lendingar. Allt var með hefðbundnu sniði á nýársnótt. Frá mínum bæjar­dyrum séð stóð loftárás björgunar­sveitanna í 50 mínútur og skildi eftir sig þykka reykjar­slæðu í Kópavogsdalnum. Laust eftir hádegi á nýársdag voru nágrannar mínir og íbúar í næstu götum komnir út með kústa, hrífur, fægiskúffur og plastpoka og dreggjar næturinnar hurfu smám saman. Voru þó sumar götur eins og vígvöllur yfir að líta þar sem skot­tertur skilja eftir sig reiðinnar býsn af pappírssnifsum og rusli.
            Ég hef fylgst með mörgum áramótum um ævina og get ekki neitað því nöldur­mannlega viðhorfi að mér finnst eins og flugelda- og tertuham­farir um miðnætti á gamlárskvöld séu komnar út yfir öll skyn­samleg mörk. Ég get ekki ímyndað mér að á nokkru byggðu bóli - annars staðar en á Íslandi - sé almenningi, þéttkenndum í þétt­býli, hleypt út með sex til sjö­hundr­uð tonn af púðri. Niðurstaðan er ekki litfögur og tilkomu­mikil sjón heldur drynjandi ljósagangur sem er miklu fremur ógnvæn­legur en hrífandi. Ég veit að svona tala einvörðungu leiðindagaurar - og hundar sem fengu enga áfallahjálp - en ég leyfi mér samt að vera þeirrar skoð­unar að sé tími til kominn fyrir þar til heyrandi yfirvöld og björgun­arsveitir að staldra við og velta fyrir sér hvort breytinga sé ekki þörf. Reykjarmekkinum hefur nú svifað frá og menn ættu því að geta séð til. Leikurinn er að fara úr böndum. Menn hljóta að geta viðurkennt það. Og björgunarsveitir hljóta að geta fundið aðra fjáröflunarleið sem gæti dregið úr mikil­vægi skoteldasölu fyrir afkomu þessara samtaka sem þjóðin öll stendur í ævarandi þakkarskuld við.


14. Tumaganga í rökkrinu á gamlársdag

 

 

            Jæja, Tumi minn. Þá styttist í áramótin. Hvernig hefur þér árið fundist? Hefurðu afrekað eitthvað sem er ástæða til að minnast á? Og ég á þá við eitthvað annað en þessar þrjár ástarnætur með tíkinni á Geysi sem voru auðvitað umtalsvert afrek hjá hundi á gamalsaldri en mér þykir sannast sagna engin ástæða til að fara að rifja upp einu sinni enn. Ég á til dæmis heldur við afrek eins og þegar þér tókst að hundskast þetta á eftir mér langleiðina upp að Skotmannsvörðu. Manstu eftir fleiri afrekum?
            Tumi skokkaði þögull í drykklanga stund, hugsi á svip eins og hann væri að snusa innan um sellurnar í þokukenndum minningabankanum. Loks heyrðist hann muldra ofan í götuna: Nei, eiginlega ekki. Það er svona líkt á komið með okkur. Nema hvað ég hef aldrei heyrt þig ýja að því að þú hefðir átt ástarnótt á árinu, hvað þá þrjár eins og ég.
            Fólk talar ekki um þessháttar, sagði ég. Og svo má líka halda því til haga að það var ekkert vitni að þessum ástarnóttum hjá þér. Þó að þú hafir látið annað í veðri vaka getur sannleikurinn allt eins verið sá að þú hafir einvörðungu elst við tíkina, blautur og hrakinn, og ekkert fengið út úr þessu nema sárið á eyrað og gigtina í afturlöppina.
            - Ég hélt þú værir sjentílmaður, ansaði Tumi. Sjentílmaður gefur ekkert svona í skyn um annan sjentílmann.
            Nei, það er rétt hjá þér. Ég skal heldur ekki minnast á það við nokkurn mann að þú ekur þér ýlfrandi á kviðnum undir stóra dívaninn í herberginu mínu þegar Flíslendingar gera loftárás á höfuðborgarsvæðið í umboði Flugbjörgunarsveitanna um miðnæturbil í kvöld.
            - Þakka þér fyrir. Hvað yrði hugsað í sumum hundabælum í Tung­unum ef það fréttist!
            Þú ert þó ekki enn einu sinni að hugsa um hana?! Þú ætlar þó ekki enn einu sinni á næsta ári....?!
            Tumi tók af mér orðið.
            - Það gildir að vera bjartsýnn. Aldrei að vita hvað getur gerst á nýju ári.
            Geturðu ekki sett þér háleitari markmið en þetta?
            - Þið mannfólkið setjið ykkur stundum allt of háleit markmið. Það er ekki gæfulegt. Best að hugsa um það sem er næst okkur. Sá sem óskar sér of mikils, missir oft af því sem er meira um vert.
            Það er með ólíkindum hvað þú getur verið skynsamur, Tumi. Eigum við þá að setja okkur sameiginlegt markmið á næsta ári?
            - Já, ég legg til að við setjum okkur það markmið að ganga upp á Sandfell næsta sumar.
            Við gerum það, svaraði ég. Við námum staðar á göngunni, litum svolítið upphafnir til himins og sögðum báðir í einu:
            Upp á Sandfell næsta sumar!
            Svo röltum við heim til að kveðja gamla árið.      


13. Tumaganga að Saddam Hussein gengnum

 

 

            Sum andartök fletta af okkur ytra byrðinu, sneiða af okkur brynju valdhrokans, svipta okkur mikillæti lærdóms og reynslu, sneiða utan af okkur þóttskap, fánýtt persónuglingur, glys og titla og stundlegar mann­virðingar. Við verðum þá öll það sem við erum sameiginlega, menn, litlar leirskálar sem bera í sér líf frá kynslóð til kynslóðar. 
            Ytra byrðið féll af Saddam Hussein þar sem komið var fyrir honum eins og hundruðum þúsunda af fórnarlömbum hans - hann horfðist í augu við dauða sinn. Þegar ég horfði á andlit hans á því andartaki sem snörunni var brugðið um háls honum, sá ég ekki lengur harðstjórann, slóttugan, hefnigjarnan, blóðþyrstan og fullan af viðbjóði, heldur horfði ég á mann, venjulegan mann, steyptan í sama mót og við hin. Mér leið ekki vel. Þarna stóð maður. Hann var maður eins og ég. Hann stóð mér miklu nær en böðlarnir sem sáust á myndinni og báru svartar hettur. Þetta var óþægi­leg tilfinning. Það getur ekki verið siðferðilega rétt að skynja mannlega reisn og mannlegan harmleik þegar horft er á aftöku illvirkja sem hefur látið myrða köldu blóði hundruð þúsunda karla, kvenna og barna.
            Alexander Solzhenitsyn komst að þeirri niðurstöðu eftir að hafa kynnst harð­ræði, þjáningum og dauða í sovéska Gúlaginu að hið illa og hið góða búi í hverjum manni. Þessi öfl hins illa og hins góða heyja sí­fellda baráttu um sál og vilja mannsins. Vígstaðan er svo jöfn að ekki verður séð fyrir um nokkurn einstakling hvort hið illa nái ekki að stjórna gjörðum hans. Það þarf ekki nema lítið lóð á vogarskál hins illa til að breyta góðum og heiðvirðum manneskjum í tilfinningakaldar ófreskjur.
            Hið illa í veröldinni verður ekki hamið með því að taka einn ill­virkja af lífi. Hið illa, sem býr í hverjum manni - ef við föllumst á skoðun Solzhenitsyns - verður því aðeins að hamið að við, hvert og eitt okkar, og samfélag manna reyni hvar sem er og hvenær sem er að hlú að hinu góða. Aftaka Saddams Husseins eða hvaða annars sakamanns sem er, hvort sem hann er Íraki, Kínverji eða Bandaríkjamaður, er ekki lóð á vogarskál hinna góðu afla. Hún er blóðhefnd, hún er illvirki. Hún er lítilsvirðing við réttlætistilfinningu þeirra sem vilja hlú að hinu góða. Það er ef til vill þess vegna sem ég fann ekki til neins léttis við það að sjá illvirkjann Saddam Hussein tekinn af lífi. Ég sá að tugir þúsunda manna glöddust þegar harðstjórinn spriklaði í snörunni. Ég skil líka hvers vegna þeir glöddust. En gleði þeirra átti sér rætur í hinu illa en ekki í hinu góða. Þess vegna var þetta dapurlegt á að horfa.
            Þó olli mestri ókyrrð í brjóstinu að uppgötva þarna af mynd­unum að á dauðastundu sinni var Saddam Hussein maður eins og ég, eins og við hin.

 


12. Tumaganga með bréfi til Rannveigar Rist

 

Kæra Rannveig Rist.

            Um leið og ég sendi þér og öðru starfsfólki Alcan á Íslandi mínar bestu óskir um farsælt komandi ár og þakka fyrir liðnar stundir í Kapellu­hrauni, kemst ég ekki hjá því að spyrja hvers vegna þú sendir ekki mér eins og Hafnfirðingum diskinn með Björgvin Halldórssyni og Sinfóníu­hljómsveit Íslands. Ég er reyndar ekki Hafnfirðingur - en þannig er því einnig háttað um flestalla Íslendinga og hefur yfirleitt, hvarvetna á land­inu nema í Hafnarfirði, verið talið mönnum fremur til álitsauka en hins gagnstæða. En þó að ég sé ekki Hafnfirðingur er ekki þar með sagt að hafi ekki verið fyllsta ástæða fyrir þig að gefa mér disk eins og þú gafst öllum Hafnfirðingum disk. Ef grannt er skoðað hefðir þú raunar átt að gefa næstum öllum Íslendingum disk því að Hafnfirðingar ráða því ekki einir hvort þér og yfirmönnum þínum í útlöndum tekst að gera stóriðjuáform ykkar í Straumsvík að veruleika. Ég sagði næstum öllum Íslendingum því að sjálfsögðu gefur þú Austfirðingum og Þingeyingum engan disk; þeir eru að sleikja sig upp við Alcoa og mega mín vegna og örugglega þín vegna eiga sín jól og áramót disklausir.
            Nú hlýtur þú eflaust að spyrja sjálfa þig, Rannveig, hvort það þjóni yfirleitt einhverjum tilgangi að vera að gefa mér disk, jafnvel þó svo ólíklega vildi til að ég, gagnstætt öllu öðru venjulegu fólki á Íslandi, hefði eitthvað um það að segja hvort landið okkar, óspillt náttúra þess og grösugar sveitir verði lögð undir stóriðjuver, virkjanir og háspennulínur. Ég spurði mig einmitt sjálfur þessarar spurningar þegar ég frétti að þú hefðir gefið öllum Hafnfirðingum diskinn með Bó og Sinfó. „Heldur hún að skoðanir fólks í umhverfismálum séu falar fyrir einn geisladisk," spurði ég sjálfan mig. Og það kom á daginn að sumir Gaflarar mátu afstöðu sína svo dýru verði að þeir skiluðu diskunum sínum. Þessi skila­athöfn var glögglega liður í áróðursstríði því að Hafnfirðingar kölluð til sjónvarps­fréttamenn og myndavélar svo að öll þjóðin fengi að horfa upp á þá að skila gjöfum sínum og sýna þannig gefandanum vanvirðingu sína. Þú barst þig vel og bauðst upp á kaffi og rjómapönnukökur sem mér virtist fólk gera sér gott af. Það þótti mér skondið að sjá; undarlegt að þeir, sem vilja ekki geisladisk, skuli vera svo lítillátir að þiggja kaffisopa og pönsur í staðinn. Þetta var neyðarleg uppákoma. Þó að þú værir létt í bragði í sjónvarpsviðtölum býður mér í grun að þú hafir stuttu síðar hellt þér yfir markaðsráðgjafa Alcan í Straumsvík fyrir þá vanhugs­uðu mark­aðs­að­gerð að reyna að bæta ímynd Alcan í huga Gaflara með því að senda þeim öllum geisladisk með Bó að kyrja gamla slagara.          
            En svo að ég víki aftur að spurningunni um hvort það þjóni einhverjum tilgangi að senda mér disk. Ég er að sjálfsögðu mikill nátt­úrunnandi eins og flestir Íslendingar og hef ákveðnar skoðanir um for­gangsröðun þegar kemur að umhverfis­vernd, virkjunum og stóriðju. En þar með er ekki sagt að ég sé ekki eins og aðrir Íslendingar svolítið sveigjanlegur. Ég hef til dæmis ekkert sagt við því að Orkuveita Reykja­víkur er búin að eyðileggja fyrir mér, börnum mínum og komandi kyn­slóðum, yndislegar útivistarslóðir á Hellisheiði. Ég lét eyðileggja óbyggðaparadís í Þjórsárdal án þess að stynja upp einu einasta orði í mómælaskyni. Þetta eru einungis dæmi en þú getur séð af þeim, Rann­veig, að það er hægt að tala mig til. En ég verð að segja það hrein­skilnislega að það dugir ekki að gefa mér Bó og Sinfó til að fá mig til að skipta um síðustu skoðun mína í umhverfismálum. Ég veit að fjöldi Íslendinga hefur haft mikla ánægju af að hlusta á Björgvin í nærri fjóra ártugi og hann er án efa með fremstu músíköntum á sínu sviði, list­næmur, vandvirkur og þroskaður. Mér finnst samt sem áður of ódýrt að selja sannfæringu sína um nauðsyn nýrrar stefnu í umhverfismálum á Íslandi fyrir disk með Björgvin Halldórssyni. Hins vegar er ekki alveg úti­lokað að ég gæti tekið þessa sannfæringu mína til endurskoðunar ef þú sendir mér disk með Pastóralsinfóníu Beethovens, t.d. hljóðritun sem kom út í fyrra með Sinfóníuhljómsveit Lundúna undir stjórn Bernards Haitinks. Ef þú vilt að ég fallist á stækkunina alveg skilyrðislaust yrðir þú samt, held ég, að senda mér sett af diskum með öllum sinfóníum Beethovens. En ef ég á að gera það fyrir þig, Alcan og Landsvirkjun, að gleyma öllum mínum umhverfis- og náttúruverndarhugsjónum og láta bara gamla Ísland róa, held ég að þú komist ekki hjá því að gefa mér allan Niflungahringinn eftir Wagner. Ég gæti ekki staðist það. Ég elska Hringinn, sérstaklega Götterdämmerung eða Ragnarök.
            En látum þetta nægja að sinni. Þú íhugar bara málið. Ég er ekki alveg fráhverfur afstöðubreytingu.
            Ég þakka þér svo, Rannveig, og Alcan fyrir allt gamalt og gott og endurtek óskir mínar um farsælt komandi ár. Skilaðu einnig kveðju til Landsvirkjunar ef þú skyldir rekast á hana.
                                                Með vinsemd og virðingu.


11. Tumaganga í áramótaheitum austanvindi

 

 

            Hefurðu hugsað þér, Tumi, að strengja áramótaheit?
            - Já, ég ætla að strengja þess hátíðlega heit að kjósa ekki Sjálfstæð­isflokkinn í alþingiskosningunum í maí.
            Heldurðu að þú getir staðið við það? Fer það ekki á sömu lund og í hitteðfyrra þegar þú strengdir þess heit að hætta að eltast við tíkina á Geysi? Þú varst kominn á þeysisprett út mýrina á eftir lyktinni af henni strax í byrjun apríl.
            - Það er liðin tíð, ansaði Tumi. Vertu ekki að rifja upp gömul mistök. Ég ætla að horfa eingöngu framávið - eins og Hjálmar Árnason. Ég ætla ekki að dragnast með á bakinu gamlar ákvarðanir, sem voru réttar þá en reyndust síðan mistök, og láta þær tefja mig í nýrri sókn til framtíðar.
            Hann rótaði sinutægjum og mold yfir stykki sem hann hafði rétt í þessu látið frá sér. Síðan skokkaði hann á undan mér léttur á fæti og dillaði skottinu eins og pólitíkussi sem hefur grafið gamlar syndir og heldur áfram að lofa bót og betrun, fullur bjartsýni í trausti þess að syndirnar finnist aldrei aftur.
            Þú hefur alltaf kosið Sjálfstæðisflokkinn, Tumi minn. Þú ert þvílíkt erkiíhald, ferð sömu leið á hverjum einasta morgni, snusar á sömu stöðum, sprænir á sömu stöðum, klórar þér alltaf með sömu löppinni á bak við sama eyrað; þér er ómögulegt að kjósa eitthvað annað en Sjálf­stæðisflokkinn. Ég ráðlegg þér að strengja öðru vísi áramótaheit, til dæmis að lofa mér að ráða einstaka sinnum ferðinni. Ég fæ aldrei að ráða neinu. Ég er eins og nýi seðlabankastjórinn. Verð að láta mér að nægja eins og hann að þusa eitthvað út í loftið.
            - Nei, ég er staðráðinn í þessu, ansaði Tumi. Ég var að hugsa um þetta núna um daginn og gerði mér ljóst að það er orðinn stórhættulegur ávani hjá mér að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, barasta eins og reykingafíkn eða eitthvað þess háttar. Ég vil láta reyna á það einu sinni hvort ég hafi ekki nægan innri styrk til að prófa að minnsta kosti að láta mér detta það í hug inni í kjörklefanum hvort ég ætti ekki að exa við eitthvað annað en lista Sjálfstæðisflokksins.
            Heldurðu að þú getir ráðið við það einn þíns liðs?
            - Samfylkingin ætlar að halda námskeið fyrir hunda sem vilja reyna losa sig undan þeim álögum að kjósa alltaf Sjálfstæðisflokkinn. Það á að sýna myndir af soltnum útigangshundum, höltum hundum, þrífættum hundum, skottlausum hundum, Kristjáni H. Gunnars, blindum hvolpum og Birki Jóni; þeir eru allir lýsandi dæmi um áhrif stjórnarstefn­unnar. Síðan á að sýna fram á að þetta hefur verið algjört hundalíf hjá okkur í stjórnartíð Sjálfstæðis­flokksins.
            En þú ert hundur, Tumi. Það breytir engu þó að þú kjósir ekki Sjálfstæðis­flokkinn í vor. Þú getur ekki átt annað en hundalíf. Það hefur verið búið þannig um hnútana. Þetta er smám saman að renna upp fyrir Flíslendingum.
            - Ég ætla samt á þetta námskeið. Það er bara verst að þau hjá Sam­fylkingunni geta ekki komið sér saman um hvar og hvenær þau ætla að halda námskeiðið. Kannski verður ekkert úr því þess vegna.
            Ef það verkar á þig eins og reykingafíkn að geta ekki kosið annað en íhaldið þá gætirðu kannski íhugað að kjósa Frjálslynda. Það er ekki meiri munur á því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og kjósa Frjálslynda flokkinn en það er munur á því að fá sér smók eða taka í nefið.
            Tumi leit upp á mig með fyrirlitningarsvip.
             - Nei, ég kýs ekki flokk sem hefur ekki bolmagn einu sinni til að reka framkvæmdastjórann sinn. Þá gefst ég heldur upp á íhaldsbindind­inu og kýs Sjálfstæðisflokkinn. Geir hafði þó dug í sér með góðra manna hjálp til að reka fram­kvæmdastjórann og fá annan framkvæmdastjóra í staðinn, þennan sem er kallaður „þessi ágæti maður" í Seðlabankanum.   
            Hver sagði það?
            - Hann sagði það, þessi ágæti maður í Seðlabankanum.
            Þú hefur ekki hundsvit á pólitík, Tumi.
            - Jú, það er einmitt það sem ég hef og hundsvitið hefur fleytt mörgum býsna langt í pólitíkinni hér á Íslandi.
            Það er nú svolítið til í þessu hjá honum, hugsaði ég með mér.
   


10. Tumaganga með Sturlu, Flugstoðum og flugumferðarstjórum

 

 

 

            Opinber hlutafélög eru nýjasta afkvæmi nýfrjálshyggjumanna í ríkisstjórn þar sem þeir berjast fyrir því baksviðs með samtökum íslenskra auðmanna að færa ríkis­þjónustu og ríkisfyrirtæki hægum skrefum í hendur einstaklinga. Frumhvati að þessari baráttu er að færa aftur eigin­legt vald í íslensku samfélagi frá íslenska ríkinu, hinum þremur þáttum þess, löggjafanum, framkvæmdavaldinu og dómstólunum, og þar með frá stjórnmálamönnum og kjósendum, yfir til vellauðugrar, íslenskrar yfirstéttar. Áköfustu boðberar þeirrar trúarsannfæringar að með þessari yfirfærslu á valdi sé verið að leggja traustan grunn að betri framtíð fyrir alla landsmenn, eru í raun að leggja grunn að afturhvarfi til þeirrar vald- og auðskiptingar sem einkenndi íslenskt samfélag í nærri hálfa öld frá árinu 1874. Minni nýfrjálshyggjumanna hrekkur svo skammt að úr þeim er stolið að þetta samfélag var ranglátt og vont og skapaði þorra Íslend­inga hraksmánarleg kjör, jafnvel á mælikvarða þess tíma.
            Nýtt og harla undarlegt dæmi um slíka ófrjósemisaðgerð, sem Alþingi fram­kvæmir á sjálfu sér, dæmi um fyrsta skref í þessari hægfara tilfærslu á valdi og ein­hverri arðsvon, fyrsta skref sem er fólgið í því að losa ríkisstofnun undan afskiptum löggjafans og ríkissjóð við launa­greiðslur og annan kostnað vegna samningsskuld­bind­inga, er stofnun hins opinbera hlutafélags sem nefnt er Flugstoðir og á að taka við verkefnum Flugmálastjórnar. Samgönguráðherra hefur sagt að þessi breyting miði að því að auðvelda mönnum að bregðast við í harðnandi samkeppni um flug­leiðsögn á hinu íslenska flugstjórnarsvæði. Öðrum kosti sé hætta á að Íslendingar missi flug­umsjón á þessu svæði úr höndum sér og verði þar með af drjúgum greiðslum erlendis frá. Er svo að skilja orð ráðherrans - ef ég þá skil þau rétt - að trúbræður hans, ný­frjálsir markaðshyggjumenn og kapítalistar, sem fara nú eldi og ójöfnuði um heims­byggðina, séu í þann veginn að ná undir sig flugumsjón í veröldinni, ótæmandi auðsuppsprettu í höndum manna sem stjórnendur og starfsmenn venjulegrar ríkis­stofnana hafi ekki roð við. Óskandi er að opinbert hlutafélag samgönguráðherrans nái að bregðast við kapítalist­unum með þeim hætti sem ráðherrann segist gera sér vonir um. Ekki veitir okkur af peningum frá útlendingum til að halda uppi flug­samgöngum við landið. Þó vaknar sú spurn í huga manns hvort sam­göngu­ráðherra sé svo óljúft sem hann lætur að sjá á eftir tekjum í hendur einstaklinga, jafn­vel þó erlendir séu. Hitt er sennilegra að hann og trúbræður hans í ríkisstjórn og meirihluta alþingis vilji, ef Flugstoðir ná að halda velli í samkeppni við útlendinga um flugum­sjónargjöld, sjá þessar tekjur renna í vasa íslenskra auðhringa og kapítalista.
            Það yrði þó aldrei svo að saga Flugstoða ohf. yrði áþekk sögu Símans? Eflaust gætu íslenskir auðmenn, sem ráða lögum og lofum í öllum samgöngum til og frá landinu, á sjó og í lofti, hugsað sér sjá flugumsjónar- og lendingargjöld fyrir flugvélar sínar lenda að drjúgum hluta í sínum eigin vösum. En þá verður að hafa hraðar hendur við sölu á Flugstoðum ohf. Alþingiskosningar eru í vor og ekki séð með fullri vissu hvort ríkis­stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tekst að halda völdum.
            Kjaradeila 60 flugumferðarstjóra við stjórn og forstjóra Flugstoða ohf. snýst, ef ég skil það rétt, fyrst og fremst um lífeyrisskuldbindingar og áunnin lífeyrisréttindi. Deilan verður hvorki skýrð né skilin nema gert sé ráð fyrir að það sé stað­fastur ásetningur samgönguráðherra í umboði ríkisstjórnar að fría hið nýstofnaða opinbera hlutafélag undan lífeyris­skuldbindingum sem flugumferðarstjórar hafa samið um til viðbótar launagreiðslum á undanförnum áratugum, lífeyrisskuldbindingar sem tíðkast ekki gagnvart hinum almenna launamanni hjá einkafyrirtækjum. Ef slíkar lífeyris­skuld­bindingar lentu á Flugstoðum ohf. yrði söluverð­mæti félagsins eflaust allnokkru lægra og ríkið fengi þannig allnokkru minna upp í lífeyrisskuldbindingar sínar gagnvart ráðherrum eins og Sturlu Böðvarssyni. Eins og mál horfa við nú í dag, 28. desember, verður ekki annað ráðið af viðbrögðum ráðherra og stjórnar Flugstoða en að deila við hina 60 flugumferðarstjóra verði látin óleyst. Kergjan - eða öllu heldur gallharður ásetningur stjórnvalda - er svo mikil að menn eru reiðubúnir að kosta til 200 miljónum króna í biðlauna­greiðslur sem lenda þá á skatt­greiðendum en ekki á væntanlegum kaup­endum Flugstoða ohf.
            En gætum allrar sanngirni í garð ríkisstjórnar og samgönguráð­herra. Ekkert hefur komið fram um það að ætlunin sé að selja Flugstoðir ohf. Þá verður að leita annarra skýringa á hnútnum sem deilan við flug­umferðarstjóra er komin í. Kergjuna má þá kannski skýra með því að ríkisstjórnin vilji senda öðrum opin­berum starfs­mönnum hjá ríkisstofn­unum, sem verið er að breyta eða kæmi til greina að breyta í opinber hlutfélög, skilaboð þess efnis hvernig ríkis­valdið ætli sér að standa að hugs­anlegum samningum og uppgjöri vegna lífeyrisskuldbindinga og áunn­inna líf­eyris­réttinda þessara starfsmanna. BSRB hefur lýst áhyggjum sínum vegna lífeyrisréttinda opinberra starfs­manna sem verða að ganga til starfa hjá opinberu hlutafélagi eða missa vinnu sína ella. Vafalaust hefur BSRB hvatt sextíumenningana til dáða á laun á undanförnum vikum og skorað á þá að hvika hvergi frá settu marki.
            Þá gæti það enn skýrt kergj­una í deilunni að flugmálayfirvöld - og þar með talinn flugmálastjóri og væntanlegur forstjóri Flugstoða ohf. - eru líklega orðin langþreytt á kröfuhörku og samningatregðu flugumferðar­stjóra sem hafa margoft notfært sér við samningaborðið vanmönnum við flugum­ferðar­stjórn og lykilhlutverk flugumferðarstjóra þegar kemur að flug­samgöngum við landið og öryggi flugfarþega. Ríkisstjórnin, sam­gönguráðherra og stjórn Flugstoða ohf. hugsa sér þá að líkindum að láta nýtt ár ganga í garð án þess að deilan sé leyst en reikna síðan fastlega með, þegar einhver röskun verður á flugsamgöngum, að almenningsálit, andsnúið flugum­ferðar­stjórum, verði til þess að sextíu­menningarnir gangi til samninga og starfa hjá hinu opinbera hlutafélagi.
            Við sjáum hvað setur.


9. Tumaganga með 12 dögum jóla hjá Glúbb glúbb grúpp

 

Á fyrsta degi jóla
hann Hannes seldi mér
pínkulítið af sálinni í sér.

Á öðrum degi jóla
hann Hannes keypti'af mér
hlut í Jús fál er
og pínkulítið af sálinni í sér.

Á þriðja degi jóla
hann Hannes seldi mér
allt Makk and brask,
hlut í Jús fál er,
og pínkulítið af sálinni í sér.

Á fjórða degi jóla
hann Hannes keypti'af mér
Hvararí og Sterling,
allt Makk and brask,
hlut í Jús fál er
og pínkulítið af sálinni í sér.

Á fimmta degi jóla
hann Hannes seldi mér
            hálft Elleff Grúpp,
Havarí og Sterling,
allt Makk and brask,
hlut í Jús fál er
og pínkulítið af sálinni í sér.

Á sjötta degi jóla
hann Hannes keypti'af mér
hlut í Fallítt Travel,
            hálft Elleff Grúpp,
Havarí og Sterling,
allt Makk and brask,
hlut í Jús fál er
og pínkulítið af sálinni í sér.

Á sjö'nda degi jóla
hann Hannes seldi mér
Sikk and grídí hóldings,
hlut í Fallítt travel,
            hálft Elleff Grúpp,
Havarí og Sterling,
allt Makk and brask,
hlut í Jús fál er
og pínkulítið af sálinni í sér.

Á áttunda degi jóla
hann Hannes keypti'af mér
hundrað þúsund örlög,
Sikk and grídí hóldings,
hlut í Fallítt travel,
            hálft Elleff Grúpp,
Havarí og Sterling,
allt Makk and brask,
hlut í Jús fál er
og pínkulítið af sálinni í sér.

Á níunda degi jóla
hann Hannes seldi mér
sjö miljón manns,
hundrað þúsund örlög,
Sikk and grídí hóldings,
hlut í Fallítt travel,
            hálft Elleff Grúpp,
Havarí og Sterling,
allt Makk and brask,
hlut í Jús fál er
og pínkulítið af sálinni í sér.

Á tíunda degi jóla
hann Hannes keypti'af mér
einn loðinn lófa
sjö miljón manns,
hundrað þúsund örlög,
Sikk and grídí hóldings,
hlut í Fallítt travel,
            hálft Elleff Grúpp,
Havarí og Sterling,
allt Makk and brask,
hlut í Jús fál er
og pínkulítið af sálinni í sér.

Á ellefta degi jóla
hann Hannes seldi mér
hjarta úr gulli,
einn loðinn lófa,
sjö miljón manns,
hundrað þúsund örlög,
Sikk and grídí hóldings,
hlut í Fallítt travel,
            hálft Elleff Grúpp,
Havarí og Sterling,
allt Makk and brask,
hlut í Jús fál er
og pínkulítið af sálinni í sér.

Á tólfta degi jóla
hann Hannes keypti'af mér
meirihluta í mömmu,
hjarta úr gulli,
einn loðinn lófa,
sjö miljón manns,
hundrað þúsund örlög,
Sikk and grídí hóldings,
hlut í Fallítt travel,
            hálft Elleff Grúpp,
Havarí og Sterling,
allt Makk and brask,
hlut í Jús fál er,
og pínkulítið af sálinni í sér.

 


8. Tumaganga með góðum horfum á jólasteik

 

 

 

            Árvissum aðventuspreng er að ljúka. Ég bíð eftir því með steikar­lykt í vitum að Dómkirkjuklukkurnar hringi inn jólin í útvarpinu. Það er óbrigðult í mínu tilfelli að þessi klukknahringing slær á einu augabragði á aðventusprenginn í brjósti mér eins og róandi sprauta. Ég öðlast þannig sálarstyrk til að eiga enn eitt ljósríkt aðfangadagskvöldið með fjölskyld­unni. Það er besta jólagjöfin. Ég minni mig á það í hvert skipti sem ég er kominn í jólafötin: Gleðileg jól eru ekki sjálfsagður hlutur.
            Aðventusprengur Flíslendinga verður trylltari með hverju árinu sem líður. Það eru ekki aðeins verslunarkeðjur og kaupmenn, sem drekkja börnum og fullorðnum í sínu plastfóðraða hálslóni, heldur pappírsarka bókúgefendur yfir sjó og land, frjálsar útvarpsstöðvar fara ófrjálsri hendi um andlegt jafnvægi manns með linnulausum jólalagahraglanda og hljóð­færaleikarar, kórar og einsöngvarar virðast á einu máli um að fyrir hver jól sé alsíðasta tækifærið sem þeir fá til að láta heyra í sér.   
            Eflaust hafa margir ómælt gaman af þessum aðventusperringi. Ég er hins vegar með þeim ósköpum gerður að hann veldur í brjóstinu á mér einhverri ókyrrð sem ég get með engu móti notið. Ég reyni þess vegna að taka ekki þátt í aðventusprengnum, reyni að forðast áreitið og jólaglamr­ið. En það er hvergi að finna nógu traust skjól, a.m.k ekki hérna í þétt­býlinu. Síðustu daga fyrir jól eru spennustraumarnir allt um kring orðnir svo magnaðir að stundum verð ég að setjast niður, draga djúpt að mér andann og brýna fyrir sjálfum mér að slaka á, þetta líði fljótlega hjá. Kannski hef ég orðið svona við­kvæmur með aldrinum.
            Lægðagangurinn að undanförnu hefur svo ekki verið til þess að auka manni ró og innri frið. Átök í veðrinu, þar sem loft­þyngdin hleypur upp og niður um nokkra tugi hektópaskala á örfáum klukkustundum, hafa áhrif á líkamlegt ástand manns og óbeint á andlega líðan. Ókyrrð í lofti leggst ofan á ókyrrð í samfélaginu. Mér finnst það óþægilegt ástand. Ég er örugglega ekki einn um það.
            En ég vildi ekki án jólanna vera. Ég á því ekki annarra kosta völ en að þola þessar aukaverkanir á aðventunni. Lækningin kemur svo með Dómkirkjuklukkunum á eftir.
            - Og fæ ég bjúga eins og þú lofaðir í fyrradag.
            Auðvitað færðu bjúga.
            - Ég hélt að þú hefðir vorkennt svo sjálfum þér í jólalátunum í gær að þú hefðir kannski gleymt að ná í bjúgað.
            Auðvitað sé ég til þess að jólin hjá þér verði gleðlileg. En mundu, þegar þú gleypir ofan í þig bjúgað á eftir, að það er ekki sjálfsagður hlutur að fá að njóta gleðilegra jóla.
            Við skulum koma okkur heim. Finnurðu ekki steikarlyktina eins og ég?

 

   

                


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Tumagöngur

Tumi sýndi mér þann vináttuvott á hverju kvöldi í 15 ár að fallast á að ég fengi að fara út með honum að ganga. Hann dró mig á eftir sér í ól og beið ævinlega rólegur ef ég þvældist frá honum eða villtist. Hann tók því einnig með jafnaðargeði þegar ég ræddi við hann um hvaðeina sem lá mér á hjarta í þessum gönguferðum og átti það stundum til að rjúfa einræðu mína með skarplegum athugasemdum. Nú er Tumi allur. Hann hefur hvílt í tvö og hálft ár undir björkum í Marteinsseli. Ég fer samt enn í Tumagöngu á hverju kvöldi. Ég skrafa enn upphátt við sjálfan mig og Tumi skýtur inn einu og einu orði. Ég finn hvernig hann togar í mig í ólinni á eftir sér. Ég þykist vita hvert við erum báðir að fara.

Höfundur

Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 480

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband