20. Tumaganga með réttarhöldum án enda

 

            Við teljum og það með réttu að eitt af aðalsmerkjum hins góða samfélags sé jafnræði fyrir dómstólum. Allir skulu jafnir fyrir lögunum. Við treystum því að dómari ákvarði sýknu eða sakfellingu, sektir og refsingu án tillits til þess hver eigi í hlut. Ég efast ekki um að hjá íslenskum dómstólum er þessi jafn­ræðisregla í heiðri höfð. Ég veit að íslenskir dómarar hafa til þess bæði ríka réttlætiskennd og lögfræðilegan metnað að komast að réttlátri niðurstöðu um sérhvert sakarefni sem fyrir þá er lagt til úrskurðar.
            Jafnræðisreglan í réttarkerfinu fer hins vegar að verða móskuleg út við jaðrana þegar komið er einmitt að þessum þætti í réttarhöldum, hvernig sakarefni eru lögð fram fyrir dóm­arann, einkanlega hvernig ákærði bregst til varnar eða öllu heldur hversu hart hann getur látið lögfræðinga sækja fram sér til varnar. Hér fara veraldleg efni manna og mátturinn, sem þau gefa þeim, að hliðra mönnum til í hinum heilögu véum jafnræðisreglunnar með þeim afleið­ingum að sumir verða jafnari en aðrir. Smáþjófur í slitinni flíspeysu og jösk­uðum striga­skóm með slitnum sóla hefur engin efni til að siga lögfræðingum á rannsóknarlög­reglumenn, sak­sóknara og ákæruvald; hann hefur enga burði til að ráða sér sveit lögfræðinga sem verja mánuðum og jafnvel árum í það eitt að bera brigður á formlegt lögmæti málatilbún­aðar, á óhlutdrægni þeirra sem koma að rannsókn sakarefnis og ákæru og þar fram eftir göt­un­um og útsmognum lagakrókum. Hér fara pen­ingar í enn eitt skiptið að ráða öllu um það að menn eru misjafnlega jafnir. Við þetta verðum við líkast til að sætta okkur á meðan þorri fólks hefur þá skoðun að sé gott fyrir samfélagið í heild að eignir skiptist á milli manna eftir öðrum viðmið­um en jafn­ræðisreglunni og að gríðarleg misskipting eigna sé bæði óhjákvæmileg og eðlileg niðurstaða af þessari tilhögun.
            Einhvers staðar las ég að Silvio Berlusconi og skjólstæðingar hans hefðu átt upptökin að því á Ítalíu fyrir allmörgum árum að reyna að teygja réttarhöld á hendur sér á langinn með öllum tiltækum ráðum. Einatt var um að ræða ákærur  vegna meintrar spillingar, misbeitingar á valdi o.s.frv. sem tengdust viðskiptum og fyrirtækjum Berlusconis, mál sem vöktu athygli almennings. Fjölmiðlar, sem Berlusconi hafði ekkert eignarvald yfir, sinntu þessum málum af kappi. En með því að draga réttarhöld óhóflega á langinn tókst smám saman að slæva áhuga almennings á málunum og meintum sakargiftum á hendur ákærðu svo að eftir þrjú til fjögur ár féllu þessi mál í mók inn í réttarsölum og dómur féll án þess að nokkur sála hefði lengur áhuga á að vita hvort ákærðu hefðu verið dæmdir brotlegir eða ekki.
            Engu er líkara en að lögfræðingar hér á landi séu farnir að taka upp þessi vinnubrögð þegar svo stendur á að ákærðir eru vel efnaðir og geta þess vegna stofnað til verulegra út­gjalda vegna málaferla sem þeir virðast þá ætla að láta standa eins lengi og lagarefir geta fundið ný álitaefni í varnargarða. Baugsmálið er dæmi­gert að þessu leyti og nú virðist sams konar lang­loka í uppsiglingu þar sem fyrrverandi olíuforstjórar eiga í hlut. Vissulega er það réttur sérhvers einstaklings, sem sætir ákæru og stefnt er fyrir dómstól, að beita öllum lög­mætum ráðum til varnar sér. Af þeim sökum verður að taka því með jafnaðargeði og skilningi á grundvallarreglum réttarríkisins þegar sveitir lögfræðinga ganga fram fyrir skjöldu stór­eigna­manna og þvælast fyrir dómurum í héraði og hæstarétti mánuðum og árum saman með frávís­unarkröfur vegna formgalla, rannsóknargalla, vanhæfni og guð má vita hvað. Óheppileg afleiðing þessa er þó að ásakanir á hendur rann­sókn­arlögreglu og ákæruvaldinu og mála­tilbúnaði þessara aðila, jafnvel ásakanir í garð dóms­valdsins, verða svo fyrir­ferða­miklar í fréttum fjölmiðla af gangi þessara langlokuréttarhalda að almenn­ingur fer smám saman að glata traustinu sem er frumskilyrði að fólk beri til þessara máttarstoða réttarkerfisins, lögreglu, saksóknara og dómara. Við megum ekki láta slíkt gerast. Enda þótt verk allra manna geti verið misjöfn eru engin rök til þess að ganga út frá því sem sjálf­gefnum hlut að starfsmenn rannsóknar­lögreglu og saksóknara geti nánast aldrei undir­búið mál með viðunandi hætti og samkvæmt þeim réttarreglum og rétt­lætissjónarmiðum sem við viljum öll láta gilda. Það er að sjálfsögðu réttur ákærðra og lögfræðinga þeirra að draga þetta allt í efa og reyna þannig að ónýta málatilbúnað ákæruvaldsins en í umfjöllun fjölmiðla um slíkan málarekstur ættu menn að gæta varúðar, einkanlega vegna þess að ekki þykir við hæfi að mál­svarar lögreglu eða ákæruvalds beri hönd fyrir höfuð sér í slíkum sökum á opinberum vettvangi.
            Það er skil­yrðis­laust grundvallaratriði í íslenska réttar­ríkinu að hinn almenni borgari beri traust til lögreglu og handhafa dómsvalds. Þegar stóreignamenn setja langlokuréttar­höld á svið ættu fjölmiðlar því að setja sér þær reglur að sleppa því að hleypa ákærðu eða lögfræð­ingum þeirra hvað eftir annað í bein viðtöl í útvarpi eða sjónvarpi um þessar máltafaaðgerðir sínar. Fjölmiðlar ættu að láta nægja að skýra stuttlega og ekki efnislega frá formgallakærum, frávísunar­kröfum og öðrum uppáfinningum varnarlögfræð­inga og segja þá heldur frá máls­rökum með og á móti slíkum kröfum þegar úrskurður dómara liggur fyrir. Með því móti væri að minnsta kosti reynt að koma í veg fyrir að slík langloku­réttar­höld smituðu óþarflega mikið út frá sér, færu að móta afstöðu hins almenna borgara og draga úr trausti hans á íslenska réttarkerfinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tumagöngur

Tumi sýndi mér þann vináttuvott á hverju kvöldi í 15 ár að fallast á að ég fengi að fara út með honum að ganga. Hann dró mig á eftir sér í ól og beið ævinlega rólegur ef ég þvældist frá honum eða villtist. Hann tók því einnig með jafnaðargeði þegar ég ræddi við hann um hvaðeina sem lá mér á hjarta í þessum gönguferðum og átti það stundum til að rjúfa einræðu mína með skarplegum athugasemdum. Nú er Tumi allur. Hann hefur hvílt í tvö og hálft ár undir björkum í Marteinsseli. Ég fer samt enn í Tumagöngu á hverju kvöldi. Ég skrafa enn upphátt við sjálfan mig og Tumi skýtur inn einu og einu orði. Ég finn hvernig hann togar í mig í ólinni á eftir sér. Ég þykist vita hvert við erum báðir að fara.

Höfundur

Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 6
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 383

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband