24. Tumaganga með allan hugann við hesthús

            Hvenær skyldi koma að því að hin nýríka yfirstétt á Íslandi fari að fá brenn­andi áhuga á hundakofum? Hvenær skyldu hún renna upp, sú stund þegar enginn í þotuliði miljarðamæringanna þykir maður með mönnum nema hann sé með útikamar sem gestir í síðdegiskokteilum fá að prófa sér til organískrar og sjálfbærrar upp­lifunar? Ég spyr bara vegna þess að ég á hundakofa, að vísu ekki með setustofu, vínstúku, gufubaði og hrein­lætisaðstöðu, en samt sem áður allframbærilegan hunda­kofa sem ég gæti alveg hugsað mér að selja fyrir til dæmis fimm miljónir. Um útikam­arinn, sem ég hef í huga og gæti á sama hátt hugsað mér að selja ef vel væri boðið, verður að vísu að upplýsa að hann er kominn nokkuð til ára sinna, krækjan er dottin af hurðarflekanum og gólffjalirnar farnar að gefa sig. En þar á móti vegur að útikamrar af svo frumstæðri gerð eru orðnir býsna torgætir á Íslandi og svo er hitt að undir kamrinum er býsna verð­mætt byggingarland í grennd við golfvöll, flugbraut og gamlan fjóshaug. Gunnar Birgisson myndi ekki hika við að skoða málið að minnsta kosti.
            Mér þykir annars vænt um þennan kamar. Á milli okkar er ekki aðeins andlegt heldur einnig líkamlegt samband og við eigum ýmsar sameiginlegar minningar. Ég væri samt til viðræðu um að selja hann einhverjum út­rásar­greifanum ef vel væri boðið í hann, til dæmis segjum átta til tíu miljónir. Ég væri þá jafnvel til viðræðu um að láta blikkfötuna fylgja með í kaup­unum þó að hún sé strangt til tekið lausafjármunur. Vír­lykkjan fyrir rúlluna er hins vegar naglföst og fylgir því að sjálfsögðu með.
            En þetta eru vafalaust óráðsdraumar hjá mér, Tumi minn. Það kemst ekkert að þessa dagana hjá hinni nýju, moldríku - eða réttara sagt hinni taðríku - yfirstétt nema hestar og aftur hestar enn einn ganginn. En ég á hvorki hesta né hesthús. Það væri nú eitthvert annað útlitið hjá mér ef ég hefði til dæmis átt hesthús í Hnoðraholti. Þá þyrfti maður ekki að vera að velta því fyrir sér hvort hundakofar eða útikamrar komist ein­hvern tímann í tísku hjá fína fólkinu.
            - Æ, hættu þessu eilífa öfundarsífri. Þú hefur það ágætt þó að skúffurnar hjá þér séu ekki fullar af pappírsgulli. Þú átt ýmislegt fleira en þennan hundakofa og útikamar og örugglega er flest af því meira virði fyrir þig, minn ágæti húsbóndi, en þrjátíu miljón króna hesthús. Ég get svo sem ekki neitað því að mér finnst ansvíti góð lyktin af hrossaskít en hann hlýtur að vera að hægt að fá ókeypis einhvers staðar. Ég trúi ekki öðru.
            Tað er nú tað, Tollleifur minn. Þetta er nú einu sinni markaðs­þjóðfélag. Ég sé ekki fyrir mér að skítur úr þrjátíu miljón króna hest­húsi geti verið gratís.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tumagöngur

Tumi sýndi mér þann vináttuvott á hverju kvöldi í 15 ár að fallast á að ég fengi að fara út með honum að ganga. Hann dró mig á eftir sér í ól og beið ævinlega rólegur ef ég þvældist frá honum eða villtist. Hann tók því einnig með jafnaðargeði þegar ég ræddi við hann um hvaðeina sem lá mér á hjarta í þessum gönguferðum og átti það stundum til að rjúfa einræðu mína með skarplegum athugasemdum. Nú er Tumi allur. Hann hefur hvílt í tvö og hálft ár undir björkum í Marteinsseli. Ég fer samt enn í Tumagöngu á hverju kvöldi. Ég skrafa enn upphátt við sjálfan mig og Tumi skýtur inn einu og einu orði. Ég finn hvernig hann togar í mig í ólinni á eftir sér. Ég þykist vita hvert við erum báðir að fara.

Höfundur

Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 40
  • Frá upphafi: 335

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband