41. Tumaganga með ráðgjöfum í hlutabréfakaupum

 

Morgunblaðið skýrði frá því í dag að greiningardeild Landsbankans teldi hluta­bréfakaup í Straumi-Burðarási hagfelldustu viðskiptin í Kauphöll Íslands um þessar mundir. Það er eflaust rétt hjá greiningardeildinni. Að sjálfsögðu hefur starfsfólk á greiningardeild Landsbankans faglegan metnað og ekki þarf að draga í efa að eigend­um og stjórnendum Lands­bankans er það einnig kappsmál að fjárfestar treysti ráðgjöf greiningar­deildar. Samt sem áður er þessi staða dulítið skondin og rifjast upp orð manna, bæði austan hafs og vestan, sem hafa gagnrýnt það fyrirkomulag að greinandi (analyst), ráðgjafi, verðabréfamiðlari og fjárfestingarbanki séu einn og sami aðilinn þegar öllu er á botninn hvolft.

Það er yfirleitt talið miklu skipta um traust, sem fjárfestar bera til manns sem greinir kosti á hlutabréfamarkaði og veitir ráðgjöf um ábatasömustu kaupin, að hann eigi ekki persónulegra hagsmuna að gæta; ráðgjöf hans sé byggð á hlutlausu, faglegu mati sem enginn hafi ástæðu til að draga í efa vegna þess að ráðgjafinn sé fjárhagslega háður eða tengdur þeim sem á mikið undir niðurstöðum og ábendingum ráðgjafans. Þegar staðan er hins vegar með þeim hætti og hvað þá þegar staðan er sú að ráðgjafinn mælir nánast með kaupum „í sjálfum sér" þarf engan að undra þó að einstaka áhorf­andi að viðskiptum á íslenskum hlutabréfamarkaði staldri við og spyrji sjálfan sig hvort málum sé skipað með ákjósanlegum hætti - jafnvel þó að niðurstaða ráðgjafans sé í þessu tilfelli hárrétt og í samræmi við niðurstöður annarra ráðgjafa sem tengjast á engan hátt hlutafélaginu sem um ræðir. (Það er svo skemmtileg tilviljun - og væntan­lega ekkert annað - að blaðið, sem sér ástæðu til að birta boðskap greiningardeildar Landsbankans, svo að niðurstaðan fari sem víðast, er að nokkrum hluta í eigu sömu manna og Landsbankinn og Straumur-Burðarás. Sýnir einungis hvað allt er orðið samansúrrað í þessu litla samfélagi.)

P.S.: Ef fjár­málaráðherra er - eins og greiningardeild Landsbankans - að dást að stórfenglegum afkomutölum Straums-Burðaráss er svo sjálfsagt að minna Árna á að þessi öflugi, íslenski fjárfestingabanki „frestaði" í fyrra að greiða 10 miljarða króna í tekjuskatt; sú „frestun" er kölluð „varanleg" í stuttri frásögn af þessu og öðru fróðlegu, sem tengist „tekjufærslu tekjuskatts", á vef Viðskiptablaðsins 7. febrúar sl.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tumagöngur

Tumi sýndi mér þann vináttuvott á hverju kvöldi í 15 ár að fallast á að ég fengi að fara út með honum að ganga. Hann dró mig á eftir sér í ól og beið ævinlega rólegur ef ég þvældist frá honum eða villtist. Hann tók því einnig með jafnaðargeði þegar ég ræddi við hann um hvaðeina sem lá mér á hjarta í þessum gönguferðum og átti það stundum til að rjúfa einræðu mína með skarplegum athugasemdum. Nú er Tumi allur. Hann hefur hvílt í tvö og hálft ár undir björkum í Marteinsseli. Ég fer samt enn í Tumagöngu á hverju kvöldi. Ég skrafa enn upphátt við sjálfan mig og Tumi skýtur inn einu og einu orði. Ég finn hvernig hann togar í mig í ólinni á eftir sér. Ég þykist vita hvert við erum báðir að fara.

Höfundur

Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband