10. Tumaganga með Sturlu, Flugstoðum og flugumferðarstjórum

 

 

 

            Opinber hlutafélög eru nýjasta afkvæmi nýfrjálshyggjumanna í ríkisstjórn þar sem þeir berjast fyrir því baksviðs með samtökum íslenskra auðmanna að færa ríkis­þjónustu og ríkisfyrirtæki hægum skrefum í hendur einstaklinga. Frumhvati að þessari baráttu er að færa aftur eigin­legt vald í íslensku samfélagi frá íslenska ríkinu, hinum þremur þáttum þess, löggjafanum, framkvæmdavaldinu og dómstólunum, og þar með frá stjórnmálamönnum og kjósendum, yfir til vellauðugrar, íslenskrar yfirstéttar. Áköfustu boðberar þeirrar trúarsannfæringar að með þessari yfirfærslu á valdi sé verið að leggja traustan grunn að betri framtíð fyrir alla landsmenn, eru í raun að leggja grunn að afturhvarfi til þeirrar vald- og auðskiptingar sem einkenndi íslenskt samfélag í nærri hálfa öld frá árinu 1874. Minni nýfrjálshyggjumanna hrekkur svo skammt að úr þeim er stolið að þetta samfélag var ranglátt og vont og skapaði þorra Íslend­inga hraksmánarleg kjör, jafnvel á mælikvarða þess tíma.
            Nýtt og harla undarlegt dæmi um slíka ófrjósemisaðgerð, sem Alþingi fram­kvæmir á sjálfu sér, dæmi um fyrsta skref í þessari hægfara tilfærslu á valdi og ein­hverri arðsvon, fyrsta skref sem er fólgið í því að losa ríkisstofnun undan afskiptum löggjafans og ríkissjóð við launa­greiðslur og annan kostnað vegna samningsskuld­bind­inga, er stofnun hins opinbera hlutafélags sem nefnt er Flugstoðir og á að taka við verkefnum Flugmálastjórnar. Samgönguráðherra hefur sagt að þessi breyting miði að því að auðvelda mönnum að bregðast við í harðnandi samkeppni um flug­leiðsögn á hinu íslenska flugstjórnarsvæði. Öðrum kosti sé hætta á að Íslendingar missi flug­umsjón á þessu svæði úr höndum sér og verði þar með af drjúgum greiðslum erlendis frá. Er svo að skilja orð ráðherrans - ef ég þá skil þau rétt - að trúbræður hans, ný­frjálsir markaðshyggjumenn og kapítalistar, sem fara nú eldi og ójöfnuði um heims­byggðina, séu í þann veginn að ná undir sig flugumsjón í veröldinni, ótæmandi auðsuppsprettu í höndum manna sem stjórnendur og starfsmenn venjulegrar ríkis­stofnana hafi ekki roð við. Óskandi er að opinbert hlutafélag samgönguráðherrans nái að bregðast við kapítalist­unum með þeim hætti sem ráðherrann segist gera sér vonir um. Ekki veitir okkur af peningum frá útlendingum til að halda uppi flug­samgöngum við landið. Þó vaknar sú spurn í huga manns hvort sam­göngu­ráðherra sé svo óljúft sem hann lætur að sjá á eftir tekjum í hendur einstaklinga, jafn­vel þó erlendir séu. Hitt er sennilegra að hann og trúbræður hans í ríkisstjórn og meirihluta alþingis vilji, ef Flugstoðir ná að halda velli í samkeppni við útlendinga um flugum­sjónargjöld, sjá þessar tekjur renna í vasa íslenskra auðhringa og kapítalista.
            Það yrði þó aldrei svo að saga Flugstoða ohf. yrði áþekk sögu Símans? Eflaust gætu íslenskir auðmenn, sem ráða lögum og lofum í öllum samgöngum til og frá landinu, á sjó og í lofti, hugsað sér sjá flugumsjónar- og lendingargjöld fyrir flugvélar sínar lenda að drjúgum hluta í sínum eigin vösum. En þá verður að hafa hraðar hendur við sölu á Flugstoðum ohf. Alþingiskosningar eru í vor og ekki séð með fullri vissu hvort ríkis­stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tekst að halda völdum.
            Kjaradeila 60 flugumferðarstjóra við stjórn og forstjóra Flugstoða ohf. snýst, ef ég skil það rétt, fyrst og fremst um lífeyrisskuldbindingar og áunnin lífeyrisréttindi. Deilan verður hvorki skýrð né skilin nema gert sé ráð fyrir að það sé stað­fastur ásetningur samgönguráðherra í umboði ríkisstjórnar að fría hið nýstofnaða opinbera hlutafélag undan lífeyris­skuldbindingum sem flugumferðarstjórar hafa samið um til viðbótar launagreiðslum á undanförnum áratugum, lífeyrisskuldbindingar sem tíðkast ekki gagnvart hinum almenna launamanni hjá einkafyrirtækjum. Ef slíkar lífeyris­skuld­bindingar lentu á Flugstoðum ohf. yrði söluverð­mæti félagsins eflaust allnokkru lægra og ríkið fengi þannig allnokkru minna upp í lífeyrisskuldbindingar sínar gagnvart ráðherrum eins og Sturlu Böðvarssyni. Eins og mál horfa við nú í dag, 28. desember, verður ekki annað ráðið af viðbrögðum ráðherra og stjórnar Flugstoða en að deila við hina 60 flugumferðarstjóra verði látin óleyst. Kergjan - eða öllu heldur gallharður ásetningur stjórnvalda - er svo mikil að menn eru reiðubúnir að kosta til 200 miljónum króna í biðlauna­greiðslur sem lenda þá á skatt­greiðendum en ekki á væntanlegum kaup­endum Flugstoða ohf.
            En gætum allrar sanngirni í garð ríkisstjórnar og samgönguráð­herra. Ekkert hefur komið fram um það að ætlunin sé að selja Flugstoðir ohf. Þá verður að leita annarra skýringa á hnútnum sem deilan við flug­umferðarstjóra er komin í. Kergjuna má þá kannski skýra með því að ríkisstjórnin vilji senda öðrum opin­berum starfs­mönnum hjá ríkisstofn­unum, sem verið er að breyta eða kæmi til greina að breyta í opinber hlutfélög, skilaboð þess efnis hvernig ríkis­valdið ætli sér að standa að hugs­anlegum samningum og uppgjöri vegna lífeyrisskuldbindinga og áunn­inna líf­eyris­réttinda þessara starfsmanna. BSRB hefur lýst áhyggjum sínum vegna lífeyrisréttinda opinberra starfs­manna sem verða að ganga til starfa hjá opinberu hlutafélagi eða missa vinnu sína ella. Vafalaust hefur BSRB hvatt sextíumenningana til dáða á laun á undanförnum vikum og skorað á þá að hvika hvergi frá settu marki.
            Þá gæti það enn skýrt kergj­una í deilunni að flugmálayfirvöld - og þar með talinn flugmálastjóri og væntanlegur forstjóri Flugstoða ohf. - eru líklega orðin langþreytt á kröfuhörku og samningatregðu flugumferðar­stjóra sem hafa margoft notfært sér við samningaborðið vanmönnum við flugum­ferðar­stjórn og lykilhlutverk flugumferðarstjóra þegar kemur að flug­samgöngum við landið og öryggi flugfarþega. Ríkisstjórnin, sam­gönguráðherra og stjórn Flugstoða ohf. hugsa sér þá að líkindum að láta nýtt ár ganga í garð án þess að deilan sé leyst en reikna síðan fastlega með, þegar einhver röskun verður á flugsamgöngum, að almenningsálit, andsnúið flugum­ferðar­stjórum, verði til þess að sextíu­menningarnir gangi til samninga og starfa hjá hinu opinbera hlutafélagi.
            Við sjáum hvað setur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tumagöngur

Tumi sýndi mér þann vináttuvott á hverju kvöldi í 15 ár að fallast á að ég fengi að fara út með honum að ganga. Hann dró mig á eftir sér í ól og beið ævinlega rólegur ef ég þvældist frá honum eða villtist. Hann tók því einnig með jafnaðargeði þegar ég ræddi við hann um hvaðeina sem lá mér á hjarta í þessum gönguferðum og átti það stundum til að rjúfa einræðu mína með skarplegum athugasemdum. Nú er Tumi allur. Hann hefur hvílt í tvö og hálft ár undir björkum í Marteinsseli. Ég fer samt enn í Tumagöngu á hverju kvöldi. Ég skrafa enn upphátt við sjálfan mig og Tumi skýtur inn einu og einu orði. Ég finn hvernig hann togar í mig í ólinni á eftir sér. Ég þykist vita hvert við erum báðir að fara.

Höfundur

Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband