12. Tumaganga með bréfi til Rannveigar Rist

 

Kæra Rannveig Rist.

            Um leið og ég sendi þér og öðru starfsfólki Alcan á Íslandi mínar bestu óskir um farsælt komandi ár og þakka fyrir liðnar stundir í Kapellu­hrauni, kemst ég ekki hjá því að spyrja hvers vegna þú sendir ekki mér eins og Hafnfirðingum diskinn með Björgvin Halldórssyni og Sinfóníu­hljómsveit Íslands. Ég er reyndar ekki Hafnfirðingur - en þannig er því einnig háttað um flestalla Íslendinga og hefur yfirleitt, hvarvetna á land­inu nema í Hafnarfirði, verið talið mönnum fremur til álitsauka en hins gagnstæða. En þó að ég sé ekki Hafnfirðingur er ekki þar með sagt að hafi ekki verið fyllsta ástæða fyrir þig að gefa mér disk eins og þú gafst öllum Hafnfirðingum disk. Ef grannt er skoðað hefðir þú raunar átt að gefa næstum öllum Íslendingum disk því að Hafnfirðingar ráða því ekki einir hvort þér og yfirmönnum þínum í útlöndum tekst að gera stóriðjuáform ykkar í Straumsvík að veruleika. Ég sagði næstum öllum Íslendingum því að sjálfsögðu gefur þú Austfirðingum og Þingeyingum engan disk; þeir eru að sleikja sig upp við Alcoa og mega mín vegna og örugglega þín vegna eiga sín jól og áramót disklausir.
            Nú hlýtur þú eflaust að spyrja sjálfa þig, Rannveig, hvort það þjóni yfirleitt einhverjum tilgangi að vera að gefa mér disk, jafnvel þó svo ólíklega vildi til að ég, gagnstætt öllu öðru venjulegu fólki á Íslandi, hefði eitthvað um það að segja hvort landið okkar, óspillt náttúra þess og grösugar sveitir verði lögð undir stóriðjuver, virkjanir og háspennulínur. Ég spurði mig einmitt sjálfur þessarar spurningar þegar ég frétti að þú hefðir gefið öllum Hafnfirðingum diskinn með Bó og Sinfó. „Heldur hún að skoðanir fólks í umhverfismálum séu falar fyrir einn geisladisk," spurði ég sjálfan mig. Og það kom á daginn að sumir Gaflarar mátu afstöðu sína svo dýru verði að þeir skiluðu diskunum sínum. Þessi skila­athöfn var glögglega liður í áróðursstríði því að Hafnfirðingar kölluð til sjónvarps­fréttamenn og myndavélar svo að öll þjóðin fengi að horfa upp á þá að skila gjöfum sínum og sýna þannig gefandanum vanvirðingu sína. Þú barst þig vel og bauðst upp á kaffi og rjómapönnukökur sem mér virtist fólk gera sér gott af. Það þótti mér skondið að sjá; undarlegt að þeir, sem vilja ekki geisladisk, skuli vera svo lítillátir að þiggja kaffisopa og pönsur í staðinn. Þetta var neyðarleg uppákoma. Þó að þú værir létt í bragði í sjónvarpsviðtölum býður mér í grun að þú hafir stuttu síðar hellt þér yfir markaðsráðgjafa Alcan í Straumsvík fyrir þá vanhugs­uðu mark­aðs­að­gerð að reyna að bæta ímynd Alcan í huga Gaflara með því að senda þeim öllum geisladisk með Bó að kyrja gamla slagara.          
            En svo að ég víki aftur að spurningunni um hvort það þjóni einhverjum tilgangi að senda mér disk. Ég er að sjálfsögðu mikill nátt­úrunnandi eins og flestir Íslendingar og hef ákveðnar skoðanir um for­gangsröðun þegar kemur að umhverfis­vernd, virkjunum og stóriðju. En þar með er ekki sagt að ég sé ekki eins og aðrir Íslendingar svolítið sveigjanlegur. Ég hef til dæmis ekkert sagt við því að Orkuveita Reykja­víkur er búin að eyðileggja fyrir mér, börnum mínum og komandi kyn­slóðum, yndislegar útivistarslóðir á Hellisheiði. Ég lét eyðileggja óbyggðaparadís í Þjórsárdal án þess að stynja upp einu einasta orði í mómælaskyni. Þetta eru einungis dæmi en þú getur séð af þeim, Rann­veig, að það er hægt að tala mig til. En ég verð að segja það hrein­skilnislega að það dugir ekki að gefa mér Bó og Sinfó til að fá mig til að skipta um síðustu skoðun mína í umhverfismálum. Ég veit að fjöldi Íslendinga hefur haft mikla ánægju af að hlusta á Björgvin í nærri fjóra ártugi og hann er án efa með fremstu músíköntum á sínu sviði, list­næmur, vandvirkur og þroskaður. Mér finnst samt sem áður of ódýrt að selja sannfæringu sína um nauðsyn nýrrar stefnu í umhverfismálum á Íslandi fyrir disk með Björgvin Halldórssyni. Hins vegar er ekki alveg úti­lokað að ég gæti tekið þessa sannfæringu mína til endurskoðunar ef þú sendir mér disk með Pastóralsinfóníu Beethovens, t.d. hljóðritun sem kom út í fyrra með Sinfóníuhljómsveit Lundúna undir stjórn Bernards Haitinks. Ef þú vilt að ég fallist á stækkunina alveg skilyrðislaust yrðir þú samt, held ég, að senda mér sett af diskum með öllum sinfóníum Beethovens. En ef ég á að gera það fyrir þig, Alcan og Landsvirkjun, að gleyma öllum mínum umhverfis- og náttúruverndarhugsjónum og láta bara gamla Ísland róa, held ég að þú komist ekki hjá því að gefa mér allan Niflungahringinn eftir Wagner. Ég gæti ekki staðist það. Ég elska Hringinn, sérstaklega Götterdämmerung eða Ragnarök.
            En látum þetta nægja að sinni. Þú íhugar bara málið. Ég er ekki alveg fráhverfur afstöðubreytingu.
            Ég þakka þér svo, Rannveig, og Alcan fyrir allt gamalt og gott og endurtek óskir mínar um farsælt komandi ár. Skilaðu einnig kveðju til Landsvirkjunar ef þú skyldir rekast á hana.
                                                Með vinsemd og virðingu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tumagöngur

Tumi sýndi mér þann vináttuvott á hverju kvöldi í 15 ár að fallast á að ég fengi að fara út með honum að ganga. Hann dró mig á eftir sér í ól og beið ævinlega rólegur ef ég þvældist frá honum eða villtist. Hann tók því einnig með jafnaðargeði þegar ég ræddi við hann um hvaðeina sem lá mér á hjarta í þessum gönguferðum og átti það stundum til að rjúfa einræðu mína með skarplegum athugasemdum. Nú er Tumi allur. Hann hefur hvílt í tvö og hálft ár undir björkum í Marteinsseli. Ég fer samt enn í Tumagöngu á hverju kvöldi. Ég skrafa enn upphátt við sjálfan mig og Tumi skýtur inn einu og einu orði. Ég finn hvernig hann togar í mig í ólinni á eftir sér. Ég þykist vita hvert við erum báðir að fara.

Höfundur

Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband