43. Tumaganga í algerum jöfnuði

Við Tumi vorum í Marteinsseli um helgina. Það var sólríkt í Biskupstungum en norðangjóstur ofan af heiði og niður Haukadal svo að beit fast í kinnar ef maður vogaði sér út. Jörð snjólaus og gaddfreðin. Við bíðum báðir eftir vorhlýindum á Íslandi og á hinum pólitíska vettvangi. Óskandi að fari að hlána og heyrast kliður í lækjum löngu áður en sér fyrir endann á vitnaleiðslum í Baugsmálinu.

Ég missti af einvígi aldarinnar þar sem þeir áttust við um ójöfnuð, Hannes Hólmsteinn og Stefán Ólafsson. Ég ræð af ummælum þeirra, sem fylgdust með hólmgöngunni, að Hannes og Stefán hafi ekki skilið jafnir. Hins vegar greinir fólk á um hvor þeirra hafi lotið í lægra haldi. Ég hef sjálfur á tilfinningunni að ríkir Íslendingar séu núna mörgum sinnum meira ríkari en ég en þeir voru meira ríkari en ég fyrir tíu árum. Kannski er þetta misskilningur hjá mér af því að ég kann ekki að lesa í tölur eða ber ekki á þær sama skynbragð og t.d. Hannes Hólmsteinn. Tölurnar tala sínu máli, segir hann. Kannski ég lifi í einhverjum blekkingaheimi en við Hannes erum örugglega sammála um að ójöfnuður megi ekki verða of mikill. Sagan sýnir að samfélög þola ekki slíkt til lengdar. Hvenær er ójöfnuður hæfilegur? Hann er örugglega orðinn of mikill hér á landi þegar að því kemur að tiltölulega fáir fjáraflamenn og viðskiptajöfrar eiga nánast allt, sem hægt er að eignast á Íslandi, og geta sagt lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum fyrir verkum eða haft í hótunum við þau. Vonandi kemur aldrei aftur til þess.

Talsmenn stjórnarflokkanna segja að kjör allra hafi batnað til muna í valdatíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Mér finnst ég raunar ekki vera neitt sérstaklega miklu ríkari núna en ég var fyrir tíu árum. Ég hef á tilfinningunni að ég sé jafnblankur þanninlagað og að ég þurfi að reiða meira úr eigin vasa en áður þegar ég þarf á einhverri samfélagsþjónustu að halda. Ég gæti trúað að það væri svona um fleiri en mig sem teljast til meðaltekjufólks. Stoðirnar undir svokallaðri aukinni velmegun hins almenna borgara, sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa nú oft á orði, eru held ég saman settar nær eingöngu úr skuldum. Íslensk heimili eru sögð skulda liðlega 70 miljarða króna í yfirdráttarlán. Þar við bætast svo bílalánin, greiðslukortaskuldir og íbúðarlán. Margir hafa ráðstafað ráðstöfunartekjum sínum aldarfjórðung fram í tímann. Það virðist fremur fátítt - og hefur svo lengi verið - að venjulegt fólk á Íslandi miði neysluútgjöld sín við rauntekjur. Það hefur líka komið sér vel á undanförnum árum fyrir stjórnvöld og atvinnurekendur að venjulegt launafólk væri ekki að miða lífsstandardinn við rauntekjur sínar. Það hefur verið lán í lánunum. Óánægjan hefði ella verið meiri og sagt til sín í kjörkössunum og fólk hefði ekki þurft að ganga til kjarasamninga í skuldahlekkjum. En sé litið á viðskiptahallann hljóta sumir að vera uggandi yfir hvað staða okkar er ótrygg þegar á heildina er litið. Úrslit í alþingiskosningum breyta þar engu um.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tumagöngur

Tumi sýndi mér þann vináttuvott á hverju kvöldi í 15 ár að fallast á að ég fengi að fara út með honum að ganga. Hann dró mig á eftir sér í ól og beið ævinlega rólegur ef ég þvældist frá honum eða villtist. Hann tók því einnig með jafnaðargeði þegar ég ræddi við hann um hvaðeina sem lá mér á hjarta í þessum gönguferðum og átti það stundum til að rjúfa einræðu mína með skarplegum athugasemdum. Nú er Tumi allur. Hann hefur hvílt í tvö og hálft ár undir björkum í Marteinsseli. Ég fer samt enn í Tumagöngu á hverju kvöldi. Ég skrafa enn upphátt við sjálfan mig og Tumi skýtur inn einu og einu orði. Ég finn hvernig hann togar í mig í ólinni á eftir sér. Ég þykist vita hvert við erum báðir að fara.

Höfundur

Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 394

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband