44. Tumaganga með hægri-grænum

 

            Hægrimenn leggja áherslu á að hentast sé að ein­staklingar en ekki ríkisvald taki ákvarðanir um nýtingu hinna hagrænu gæða jarðar og hvernig þeim sé skipt á milli jarðarbúa. Hagkerfið, sem þeim hefur þótt falla best að þessari grundvallar­skoðun og líklegast til að vinna í anda hennar, er kapítalisminn. Kapítalistar taka ákvarðanir um nýtingu og skiptingu efnislegra gæða á grundvelli þess hvar og hvernig þeir telja að kapítalið nýtist best og gefi þeim mestan arð. Þessu er oft lýst sem svo að efnahagsstarfsemin lúti lögmálum markaðarins, hin „ósýni­lega hönd markaðarins" leiði menn til skynsamlegustu og affarasælustu nýtingar og skiptingar takmarkaðra jarðargæða.

            Umhverfisvernd hefur ekki átt upp á pallborðið hjá kapítalistum vegna þess að oftar en ekki hefur hún gengið þvert gegn skynsamlegustu nýtingu kapítalsins sam­kvæmt lögmálum markaðarins. Kapítalisti fellur sig ekki við umhverfis­friðun nema hann geti rökstutt hana með því að hún skapi tekjur, t.d. af þjónustu við ferðamenn, m.ö.o. að kapítalistinn geti sett á hana verðmiða og metið þannig gagnsemi hennar. Umhverfis­vernd, sem byggir eingöngu á tilfinn­ingalegum rökum, t.d. nýting land­svæðis sem er fólgin í því að nýta það ekki, er stefna sem kapítalistinn getur ekki aðhyllst, ef hann vill vera trúr skynsamlegri nýtingu á kapítali, og slík umhverfis­vernd er andstæð markaðslögmálum. Í ljósi þessa er hið nýja fyrirbæri í stjórnmálalífi nútímans, svonefndir hægri-grænir, eilítið ankannalegt og í raun ekki trúverðugt þegar litið er til þess að hægrisinnaður maður hlýtur að vilja efnahagskerfi sem byggir í öllum meginatriðum á kapítalisma.

            Höfum í huga t.d. virkjunaráform í neðri hluta Þjórsár. Ef maður, sem segist vera hægrisinnaður-grænn, styður það að samfélagið eða meirihluti einstaklinga í tilteknu byggðarlagi, taki ákvörðun um umhverf­isfriðun, sem kemur í veg fyrir að einstaklingur geti nýtt takmörk jarð­nesk gæði á landi sem hann hefur eignarrétt yfir, er sá sami hægri­sinnaði-græni að tileinka sér viðhorf sósíalista eða sósíal-demókrata, hann telur að hagsmunir heildarinnar séu ofar hagsmunum einstaklingsins.

            Kannski megum við ekki leggja of djúpa merkingu í ýmiss konar nafngiftir sem verða til í stjórnmálalífi líðandi stundar. Ef hægri-grænn er ekki nýtt lýsingarorð um framsóknarmann, sem mér þykir ekki fjarstæðu­kennd orðanotkun, er hægri-grænn kannski ekki annað og meira en áróðurskenndur frasi sem ætlað er að fá kjósendur, sem aðhyllast umhverfisvernd og einarðari afstöðu í umhverfismálum, til að halda áfram að greiða hægri­sinnuðum stjórnmálahreyfingum atkvæði sitt. Ef ætlast er til að maður trúi því að sé til raunverulega hægrisinnaður maður, sem sé hægri-grænn - eins og sumir vilja nú nefna sig - er alveg eins hægt að ætlast til að maður trúi því að séu til t.d. talíbanar sem séu talíbanskir femínistar eða kapítalistar sem séu sósíalískir kapítalistar. Mér er næst að halda að sá, sem segist vera hægri-grænn og meinar það einlæglega, sé í raun hægrimaður sem hafi smitast af grundvallarviðhorfum sósíal-demókrata. Það er óskandi að sjúkdómurinn nái að búa um sig til langframa og skili okkur nýjum og betri manni.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tumagöngur

Tumi sýndi mér þann vináttuvott á hverju kvöldi í 15 ár að fallast á að ég fengi að fara út með honum að ganga. Hann dró mig á eftir sér í ól og beið ævinlega rólegur ef ég þvældist frá honum eða villtist. Hann tók því einnig með jafnaðargeði þegar ég ræddi við hann um hvaðeina sem lá mér á hjarta í þessum gönguferðum og átti það stundum til að rjúfa einræðu mína með skarplegum athugasemdum. Nú er Tumi allur. Hann hefur hvílt í tvö og hálft ár undir björkum í Marteinsseli. Ég fer samt enn í Tumagöngu á hverju kvöldi. Ég skrafa enn upphátt við sjálfan mig og Tumi skýtur inn einu og einu orði. Ég finn hvernig hann togar í mig í ólinni á eftir sér. Ég þykist vita hvert við erum báðir að fara.

Höfundur

Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband