11. Tumaganga í áramótaheitum austanvindi

 

 

            Hefurðu hugsað þér, Tumi, að strengja áramótaheit?
            - Já, ég ætla að strengja þess hátíðlega heit að kjósa ekki Sjálfstæð­isflokkinn í alþingiskosningunum í maí.
            Heldurðu að þú getir staðið við það? Fer það ekki á sömu lund og í hitteðfyrra þegar þú strengdir þess heit að hætta að eltast við tíkina á Geysi? Þú varst kominn á þeysisprett út mýrina á eftir lyktinni af henni strax í byrjun apríl.
            - Það er liðin tíð, ansaði Tumi. Vertu ekki að rifja upp gömul mistök. Ég ætla að horfa eingöngu framávið - eins og Hjálmar Árnason. Ég ætla ekki að dragnast með á bakinu gamlar ákvarðanir, sem voru réttar þá en reyndust síðan mistök, og láta þær tefja mig í nýrri sókn til framtíðar.
            Hann rótaði sinutægjum og mold yfir stykki sem hann hafði rétt í þessu látið frá sér. Síðan skokkaði hann á undan mér léttur á fæti og dillaði skottinu eins og pólitíkussi sem hefur grafið gamlar syndir og heldur áfram að lofa bót og betrun, fullur bjartsýni í trausti þess að syndirnar finnist aldrei aftur.
            Þú hefur alltaf kosið Sjálfstæðisflokkinn, Tumi minn. Þú ert þvílíkt erkiíhald, ferð sömu leið á hverjum einasta morgni, snusar á sömu stöðum, sprænir á sömu stöðum, klórar þér alltaf með sömu löppinni á bak við sama eyrað; þér er ómögulegt að kjósa eitthvað annað en Sjálf­stæðisflokkinn. Ég ráðlegg þér að strengja öðru vísi áramótaheit, til dæmis að lofa mér að ráða einstaka sinnum ferðinni. Ég fæ aldrei að ráða neinu. Ég er eins og nýi seðlabankastjórinn. Verð að láta mér að nægja eins og hann að þusa eitthvað út í loftið.
            - Nei, ég er staðráðinn í þessu, ansaði Tumi. Ég var að hugsa um þetta núna um daginn og gerði mér ljóst að það er orðinn stórhættulegur ávani hjá mér að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, barasta eins og reykingafíkn eða eitthvað þess háttar. Ég vil láta reyna á það einu sinni hvort ég hafi ekki nægan innri styrk til að prófa að minnsta kosti að láta mér detta það í hug inni í kjörklefanum hvort ég ætti ekki að exa við eitthvað annað en lista Sjálfstæðisflokksins.
            Heldurðu að þú getir ráðið við það einn þíns liðs?
            - Samfylkingin ætlar að halda námskeið fyrir hunda sem vilja reyna losa sig undan þeim álögum að kjósa alltaf Sjálfstæðisflokkinn. Það á að sýna myndir af soltnum útigangshundum, höltum hundum, þrífættum hundum, skottlausum hundum, Kristjáni H. Gunnars, blindum hvolpum og Birki Jóni; þeir eru allir lýsandi dæmi um áhrif stjórnarstefn­unnar. Síðan á að sýna fram á að þetta hefur verið algjört hundalíf hjá okkur í stjórnartíð Sjálfstæðis­flokksins.
            En þú ert hundur, Tumi. Það breytir engu þó að þú kjósir ekki Sjálfstæðis­flokkinn í vor. Þú getur ekki átt annað en hundalíf. Það hefur verið búið þannig um hnútana. Þetta er smám saman að renna upp fyrir Flíslendingum.
            - Ég ætla samt á þetta námskeið. Það er bara verst að þau hjá Sam­fylkingunni geta ekki komið sér saman um hvar og hvenær þau ætla að halda námskeiðið. Kannski verður ekkert úr því þess vegna.
            Ef það verkar á þig eins og reykingafíkn að geta ekki kosið annað en íhaldið þá gætirðu kannski íhugað að kjósa Frjálslynda. Það er ekki meiri munur á því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og kjósa Frjálslynda flokkinn en það er munur á því að fá sér smók eða taka í nefið.
            Tumi leit upp á mig með fyrirlitningarsvip.
             - Nei, ég kýs ekki flokk sem hefur ekki bolmagn einu sinni til að reka framkvæmdastjórann sinn. Þá gefst ég heldur upp á íhaldsbindind­inu og kýs Sjálfstæðisflokkinn. Geir hafði þó dug í sér með góðra manna hjálp til að reka fram­kvæmdastjórann og fá annan framkvæmdastjóra í staðinn, þennan sem er kallaður „þessi ágæti maður" í Seðlabankanum.   
            Hver sagði það?
            - Hann sagði það, þessi ágæti maður í Seðlabankanum.
            Þú hefur ekki hundsvit á pólitík, Tumi.
            - Jú, það er einmitt það sem ég hef og hundsvitið hefur fleytt mörgum býsna langt í pólitíkinni hér á Íslandi.
            Það er nú svolítið til í þessu hjá honum, hugsaði ég með mér.
   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: GreyTeam Íslandi ehf

Sæll minn kæri Jón. Gaman að sjá þig hér á blogginu. Er ekki kominn tími á kaffi?
Óska þér farsældar 2007.

Guðjón Pálsson 

GreyTeam Íslandi ehf, 29.12.2006 kl. 13:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tumagöngur

Tumi sýndi mér þann vináttuvott á hverju kvöldi í 15 ár að fallast á að ég fengi að fara út með honum að ganga. Hann dró mig á eftir sér í ól og beið ævinlega rólegur ef ég þvældist frá honum eða villtist. Hann tók því einnig með jafnaðargeði þegar ég ræddi við hann um hvaðeina sem lá mér á hjarta í þessum gönguferðum og átti það stundum til að rjúfa einræðu mína með skarplegum athugasemdum. Nú er Tumi allur. Hann hefur hvílt í tvö og hálft ár undir björkum í Marteinsseli. Ég fer samt enn í Tumagöngu á hverju kvöldi. Ég skrafa enn upphátt við sjálfan mig og Tumi skýtur inn einu og einu orði. Ég finn hvernig hann togar í mig í ólinni á eftir sér. Ég þykist vita hvert við erum báðir að fara.

Höfundur

Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 355

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband