Færsluflokkur: Dægurmál

22. Tumaganga með kynferðislegu Kastljósi

              Er ætlast til að ég geri eitthvað í þessu? Á ég að reyna að sjá til þess að eitthvað þessu líkt gerist aldrei aftur? Á ég að gæta mín á þessu? Eða á ég ekki að gera neitt nema að setja í brúnir, hrista höfuðið og segja hálfhátt við sjálfan mig: Hvílík ósköp eru að heyra þetta! Að þetta skuli geta gerst! Að þetta skuli geta viðgengist í íslensku samfélagi!
            Sumir íslenskir fjölmiðlar - og þá ekki síst Ríkissjónvarpið í Kastljósi og aðal­fréttatíma - eru haldnir þeirri áráttu að láta vart líða nokkra viku án þess að flytja, oft dag eftir dag, hryllingsfrásagnir af því sem kallað er kyn­ferðisleg misnotkun eða kynferðislegt ofbeldi. Má vera að ritstjórum, fréttastjórum og umsjónarmönnum Kastljóss þyki þetta endurspegla þjóðfélags­lega ábyrgð en mér finnst þetta endur­spegla miklu fremur einhverja „uppíhrærufíkn", áráttu til að hræra upp í fólki með ógeðfelldum frásögnum af ógeðfelldri kynhegðun og illri meðferð, einkanlega á konum og börnum, áráttu sem magnast ða sjálfsögðu, tvíeflist og sexeflist þegar fórnarlömb kynferðis­ofbeldis eru fólk sem býr við fötlun, til dæmis heyrnarleysi.
            Tilgangurinn með þessum ýtarlegu frásögnum og sam­tölum við fórnarlömb dag eftir dag, viku eftir viku, er mér í flestum tilfellum alls ekki ljós. Stundum er jafnvel verið að grafa aftur í fortíðina, lýsa atburðum sem gerðust fyrir allmörgum árum, fjalla um ástand sem ég fæ ekki betur skilið en að sé ekki lengur fyrir hendi. Þannig er því háttað um heyrnarlausa einstaklinga og kynferðislega mis­notkun á þeim sem er efni nýrrar skýrslu. Svo er að skilja að skýrslan lýsi atferli sem fram fór á ofanverðri nýliðinni öld. Vissulega er skýrsla af þessu tagi fréttaefni, þegar hún kemur út. Hún opnar augu manna fyrir því hvað heyrnarlausir máttu þola á fyrri árum, fjarri heimili sínu og fjöl­skyldu, „dæmdir" af kerfinu og góðviljuðum sérfræð­ing­um þess tíma til vistar svo árum skipti á heyrnleysingjaskólanum. En ýtarlegar vanga­veltur dag eftir dag og samtöl við einstaklinga, sem vilja ekki þekkjast eða koma fram undir nafni, þar sem þeir eru beðnir að svara spurningum eins og „hvað var gert við þig?", „hvernig var það gert?", „hvar var það gert?", „hvernig leið þér á meðan?", „hvernig hefur þér liðið síðan?" o.s.frv. virðast mér ekki þjóna öðrum tilgangi gagn­vart hlustendum en að svala annars vegar kynferðis­legri hryllingsþörf, sem leynist í brjóstinu á mun fleira fólki en okkur grunar, og hins vegar að gefa öðrum færi á að njóta þess vera „svona miklu betra fólk" en gerendurnir í kynferðislegu ofbeldi, þessir einhverjir aðrir, þessir hinir til aðgreiningar frá okkur. Vissulega finnur maður sárt til með fórnarlömbum ofbeldisverknaða af þessu tagi og vonar að skýrslan og umfjöllun um efni hennar verði þeim til hjálpar sem hafa ekki treyst sér fram að þessu, í mörg ár eða áratugi, að leita slíkrar hjálpar. En þeim tilgangi verður náð án þess að skýrslan sé notuð sem tilefni til umfjöllunar í æsifréttastíl í aðalfréttatíma Sjónvarps og í Kastljósi dag eftir dag. Þar virðast ráða ferðinni aðrar hvatir en samúð með heyrnarlausum einstaklingum. Eftir að hafa skáskotið augum á Kastljós á undanförnu ári verður manni fyrir að spyrja hvort „ohf" fyrir aftan Ríkisútvarp í frumvarpi, sem nú er til afgreiðslu á alþingi, standi fyrir „ofbeldi, heilsuleysi, fíkn"?

 


21. Tumaganga með Hjörleifi Hallgríms

 

            Tumi er afleitur samferðafélagi þegar snjór er nýfallinn. Þá fyllist hann einhverri ástríðuþrunginni ókyrrð, rekur trýnið ofan í mjöllina og snusar án afláts út og suður án þess að lyfta höfði frá jörð. Ákefðin er svo mikil að hann minnir einna helst á prófkjörsframbjóðanda að snusa eftir atkvæðum. Hann lét svona í kvöld og ég gat ekki stillt mig um að segja að hann minnti mig á Hjörleif.
            Tumi rak snoppuna upp úr mjöllinni og horfði á mig með spurnar­svip.
            - Hvaða Hjörleif?
            Hann Hjörleif Hallgrímsson, framsóknarmanninn á Akureyri sem stefnir á þriðja sætið í prófkjörinu þeirra fyrir norðan.
            - Já, hann, umlaði í Tuma sem virtist gjörsamlega áhugalaus.
            Þú gætir ekki hugsað þér að styðja hann í þriðja sætið? Hann er búinn að bjóðast til að leggja fram tvær miljónir króna í hússjóð fram­sóknarfélaga á Akureyri ef hann nær þriðja sætinu.
            - Til hvers þurfa framsóknarfélög á Akureyri heilt hús? Dugir þeim ekki lítið kjallaraherbergi? Fer framsóknarmönnum ekki fækkandi fyrir norðan eins og annars staðar? Hefði ekki verið nær fyrir Hjörleif að bjóðast til að leggja fram peninga í minningarsjóð um framsóknarfélög á Akureyri?
            Hjörleifur ákvað þetta nú samt og það hafa ýmsir orðið til þess að úthrópa hann fyrir útspilið. Björn Ingi Hrafnsson, einsetuframmari við Reykjavíkurtjörn og flokksbróðir Hjörleifs, segir til dæmis á blogginu sínu í dag að þetta sé „verulega vond hugmynd" hjá Hjörleifi. En mér finnst þetta ekki jafnmikið einsdæmi og menn vilja vera láta - að öðru leyti en því að Hjörleifur hefur látið þessi boð út ganga á opinber­um vettvangi, fer ekkert í launkofa með að hann sé reiðubúinn til að launa kjósendum sínum greiðann og að hann ætlar að reiða fram fé úr eigin vasa en ekki nota fé skatt­greiðenda til þess að borga fyrir sig.
            - Það er svolítið til í þessu hjá þér, ansaði Tumi. Má ekki halda því fram til dæmis að Björn Ingi hafi launað framsóknarmönnum í Reykjavík dyggilega fyrir stuðning við sig bæði í prófkjöri og í borgar­stjórnarkosn­ingum. Má ekki halda því fram að til þess hafi hann notað fé úr vasa útsvarsgreiðenda en ekki úr eigin vasa. Er það svo ýkja ólíklegt að Björn Ingi hafi í kosningabaráttu í bæði skiptin orðað það sisona lauslega við þá, sem kringum hann snerust, að hann skyldi muna eftir þeim ef hann kæmist í aðstöðu til þess að beita áhrifum sínum í stjórn borgarinnar?
            Það er nú ekki að öllu leyti sanngjarnt af þér, Tumi, að nefna Björn Inga sérstaklega í þessu sambandi. Hann er örugglega ekki eini stjórn­mála- og sveitar­stjórnarmaðurinn sem hefur launað flokksbræðrum sínum dyggilega fyrir sig með því að fleygja til þeirra kjötflís. Og þess utan: Er þetta ekki bara eins og hvert annað kosningaloforð hjá Hjörleifi? Hafa menn yfirleitt einhverja ástæðu til að halda að Hjörleifur telji sér - fremur en öðrum stjórnmálamönnum - skylt að efna loforð og fyrirheit sem gefin eru í kosningabaráttu? Ég man ekki betur en Björn Ingi t.d.....
            Tumi rykkti í ólina og gjammaði inn í miðja setningu hjá mér.
            - Björn Ingi!? Varstu ekki að segja að það væri ekki sanngjarnt að taka bara dæmi um Björn Inga?
            Jú, jú, en það er barasta ekki hægt að stilla sig um, þegar talað er um kosn­ingaloforð, að minna á að Björn Ingi lofaði kjósendum gjaldfrjálsum leikskóla fyrir borgarstjórnarkosningar í vor. Og honum virðist samt ekki hafa fundist það neitt „verulega vond hugmynd" að greiða atkvæði fyrir skömmu með 9% hækkun á leikskólagjöldum. Kannski tekur Hjörleifur kosningaloforðin sín ekki neitt alvarlegar en Björn Ingi.
            - Ég held það sé misskilningur hjá Hjörleifi, sagði Tumi, að leiðin að hug og hjarta framsóknarmanna, sem eftir eru á Akureyri, liggi í gegnum hússjóð framsóknar­félaganna. Ég held að loforð um persónu­legan greiða séu miklu betri gjaldmiðill í atkvæðakaupum.
            Og svo er auð­vitað spurning, Tumi minn, hvort framsóknar­mönnum fyrir norðan finnst nóg að fá tværi miljónir fyrir að kjósa Hjörleif. Kannski þurfa menn að beita sig verulega hörðu til að greiða honum atkvæði sitt, jafnvel loka augunum og bíta á jaxlinn, og vilja fá þrjár miljónir fyrir eða jafnvel fjórar. Þarf Hjörleifur ekki að bjóða betur?
            - Við látum framsóknarmennina á Akureyri svara því, ansaði Tumi. Það þýðir að minnsta kosti ekkert fyrir Hjörleif að reyna að múta mér. Ég á minn hundakofa sjálfur og meira að segja nokkrar krónur í sjóði fyrir upphitun og rafmagni. Ég læt það duga.

 


20. Tumaganga með réttarhöldum án enda

 

            Við teljum og það með réttu að eitt af aðalsmerkjum hins góða samfélags sé jafnræði fyrir dómstólum. Allir skulu jafnir fyrir lögunum. Við treystum því að dómari ákvarði sýknu eða sakfellingu, sektir og refsingu án tillits til þess hver eigi í hlut. Ég efast ekki um að hjá íslenskum dómstólum er þessi jafn­ræðisregla í heiðri höfð. Ég veit að íslenskir dómarar hafa til þess bæði ríka réttlætiskennd og lögfræðilegan metnað að komast að réttlátri niðurstöðu um sérhvert sakarefni sem fyrir þá er lagt til úrskurðar.
            Jafnræðisreglan í réttarkerfinu fer hins vegar að verða móskuleg út við jaðrana þegar komið er einmitt að þessum þætti í réttarhöldum, hvernig sakarefni eru lögð fram fyrir dóm­arann, einkanlega hvernig ákærði bregst til varnar eða öllu heldur hversu hart hann getur látið lögfræðinga sækja fram sér til varnar. Hér fara veraldleg efni manna og mátturinn, sem þau gefa þeim, að hliðra mönnum til í hinum heilögu véum jafnræðisreglunnar með þeim afleið­ingum að sumir verða jafnari en aðrir. Smáþjófur í slitinni flíspeysu og jösk­uðum striga­skóm með slitnum sóla hefur engin efni til að siga lögfræðingum á rannsóknarlög­reglumenn, sak­sóknara og ákæruvald; hann hefur enga burði til að ráða sér sveit lögfræðinga sem verja mánuðum og jafnvel árum í það eitt að bera brigður á formlegt lögmæti málatilbún­aðar, á óhlutdrægni þeirra sem koma að rannsókn sakarefnis og ákæru og þar fram eftir göt­un­um og útsmognum lagakrókum. Hér fara pen­ingar í enn eitt skiptið að ráða öllu um það að menn eru misjafnlega jafnir. Við þetta verðum við líkast til að sætta okkur á meðan þorri fólks hefur þá skoðun að sé gott fyrir samfélagið í heild að eignir skiptist á milli manna eftir öðrum viðmið­um en jafn­ræðisreglunni og að gríðarleg misskipting eigna sé bæði óhjákvæmileg og eðlileg niðurstaða af þessari tilhögun.
            Einhvers staðar las ég að Silvio Berlusconi og skjólstæðingar hans hefðu átt upptökin að því á Ítalíu fyrir allmörgum árum að reyna að teygja réttarhöld á hendur sér á langinn með öllum tiltækum ráðum. Einatt var um að ræða ákærur  vegna meintrar spillingar, misbeitingar á valdi o.s.frv. sem tengdust viðskiptum og fyrirtækjum Berlusconis, mál sem vöktu athygli almennings. Fjölmiðlar, sem Berlusconi hafði ekkert eignarvald yfir, sinntu þessum málum af kappi. En með því að draga réttarhöld óhóflega á langinn tókst smám saman að slæva áhuga almennings á málunum og meintum sakargiftum á hendur ákærðu svo að eftir þrjú til fjögur ár féllu þessi mál í mók inn í réttarsölum og dómur féll án þess að nokkur sála hefði lengur áhuga á að vita hvort ákærðu hefðu verið dæmdir brotlegir eða ekki.
            Engu er líkara en að lögfræðingar hér á landi séu farnir að taka upp þessi vinnubrögð þegar svo stendur á að ákærðir eru vel efnaðir og geta þess vegna stofnað til verulegra út­gjalda vegna málaferla sem þeir virðast þá ætla að láta standa eins lengi og lagarefir geta fundið ný álitaefni í varnargarða. Baugsmálið er dæmi­gert að þessu leyti og nú virðist sams konar lang­loka í uppsiglingu þar sem fyrrverandi olíuforstjórar eiga í hlut. Vissulega er það réttur sérhvers einstaklings, sem sætir ákæru og stefnt er fyrir dómstól, að beita öllum lög­mætum ráðum til varnar sér. Af þeim sökum verður að taka því með jafnaðargeði og skilningi á grundvallarreglum réttarríkisins þegar sveitir lögfræðinga ganga fram fyrir skjöldu stór­eigna­manna og þvælast fyrir dómurum í héraði og hæstarétti mánuðum og árum saman með frávís­unarkröfur vegna formgalla, rannsóknargalla, vanhæfni og guð má vita hvað. Óheppileg afleiðing þessa er þó að ásakanir á hendur rann­sókn­arlögreglu og ákæruvaldinu og mála­tilbúnaði þessara aðila, jafnvel ásakanir í garð dóms­valdsins, verða svo fyrir­ferða­miklar í fréttum fjölmiðla af gangi þessara langlokuréttarhalda að almenn­ingur fer smám saman að glata traustinu sem er frumskilyrði að fólk beri til þessara máttarstoða réttarkerfisins, lögreglu, saksóknara og dómara. Við megum ekki láta slíkt gerast. Enda þótt verk allra manna geti verið misjöfn eru engin rök til þess að ganga út frá því sem sjálf­gefnum hlut að starfsmenn rannsóknar­lögreglu og saksóknara geti nánast aldrei undir­búið mál með viðunandi hætti og samkvæmt þeim réttarreglum og rétt­lætissjónarmiðum sem við viljum öll láta gilda. Það er að sjálfsögðu réttur ákærðra og lögfræðinga þeirra að draga þetta allt í efa og reyna þannig að ónýta málatilbúnað ákæruvaldsins en í umfjöllun fjölmiðla um slíkan málarekstur ættu menn að gæta varúðar, einkanlega vegna þess að ekki þykir við hæfi að mál­svarar lögreglu eða ákæruvalds beri hönd fyrir höfuð sér í slíkum sökum á opinberum vettvangi.
            Það er skil­yrðis­laust grundvallaratriði í íslenska réttar­ríkinu að hinn almenni borgari beri traust til lögreglu og handhafa dómsvalds. Þegar stóreignamenn setja langlokuréttar­höld á svið ættu fjölmiðlar því að setja sér þær reglur að sleppa því að hleypa ákærðu eða lögfræð­ingum þeirra hvað eftir annað í bein viðtöl í útvarpi eða sjónvarpi um þessar máltafaaðgerðir sínar. Fjölmiðlar ættu að láta nægja að skýra stuttlega og ekki efnislega frá formgallakærum, frávísunar­kröfum og öðrum uppáfinningum varnarlögfræð­inga og segja þá heldur frá máls­rökum með og á móti slíkum kröfum þegar úrskurður dómara liggur fyrir. Með því móti væri að minnsta kosti reynt að koma í veg fyrir að slík langloku­réttar­höld smituðu óþarflega mikið út frá sér, færu að móta afstöðu hins almenna borgara og draga úr trausti hans á íslenska réttarkerfinu.


19. Tumaganga með íslensku krónunni

 

            Það er ekki öfundsvert að vera íslensk króna þessa dagana. Íslenska krónan er borin svo mörgum sökum að riddarar auðhringborðsins, Baugskappar og olíuforstjór­ar, eru eins og sakleysið sjálft í samanburði við hana. Krónan á sök á háum vöxtum og verðtryggingu. Krónan á sök á því hvað bjórinn kostar mikið. Krónan á sök á hvað vínið er dýrt og það er krónunni að kenna að matvælaverð á Íslandi er 63% hærra en meðal­verð á matvælum í öðrum Evrópulöndum. Það fer svo illt orð af íslensku krónunni að jafnvel eigendur íslensku bankanna, sem krónan hélt að hefðu heitið henni trúnaði allt til dauða, vilja ekki sjá hana í nánd við sig og safna erlendum gjaldeyri eins og þeir eigi lífið að leysa. Hjá voldugu, ís­lensku fjármálafyrirtæki, þar sem menn mega ekki vamm sitt vita, þykir ekki lengur við hæfi að sjá þessa auvirði­legu, íslensku krónu í talnadálk­um bókaranna því að svo bersyndug mynt þykir setja blett á annars heiðvirt bókhald. Það eru nánast allir fjármála- og viðskiptajöfrar landsins að koma út úr peningaskápnum og viðurkenna að þeir elski evruna. Jafnvel Ingibjörg Sólrún, sem ég hélt að mætti ekkert aumt sjá, setur upp „varstu-að-stela-smákökum-strákur-svipinn" og rakkar niður krónuna fyrir framan alþjóð. Botnarðu eitthvað í þessu, Tumi?
            - Nei, ekki vitundar ögn, ansar Tumi. En það er ekki rétt hjá þér að Ingibjörg hafi kennt krónunni um háa vexti og hátt matvælaverð. Hún rétti ásakandi fingur sinn í áttina að þeim sem hún sagði að vildu halda í krónuna hvað sem það kostaði
            Veist þú hverjir það eru?
            - Nei. Ég hef hvergi fengið það almennilega á hreint. Þó held ég að megi fullyrða að Steingrímur Sigfúss ætlar að berjast fyrir málstað íslensku krónunnar með kjafti, sem er feiknmikill, og klóm sem eru fjarska beittar. Kannski að Ingibjörg hafi átt við hann svona í aðdraganda alþingiskosninga. Jón Sig. hefur heldur ekki þorað eins og drottningin frá Lómatjörn að koma út úr peningaskápnum og lýsa því yfir að hann hafi snúið við baki við krónunni. Seðlabankinn er svo auðvitað síðasta vígi krónunnar og Davíðs Oddssonar. Einhverjir, sem mega sín mikils í Sjálfstæðisflokkn­um, geta ekki heldur, er mér sagt, hugsað sér að kveðja krónuna, að minnsta kosti ekki í bili.
            Það liggur að sjálfsögðu í augum uppi, Tumi, að íslensk stjórnvöld og yfirstjórn peningamála í landinu geta ekki komið fram fyrir þjóðina sisona allt í einu og sagt að þau séu búin að gefast upp á krónunni af því að hún sé einkis virði og handónýt mynt. Hvað myndi þá gerast? Staða þeirra, sem hafa ákvörðunarvaldið í þessum efnum, er ekki öfundsverð. En manni sýnist samt að verði ekki dregið lengur að setja saman eitthvert aðgerðaplan, að taka ákvörðun um hvert skuli stefna. Ég fæ ekki betur séð en fullt af mönnum, sem hafa mikil völd í íslensku efnahagslífi, séu búnir að taka ákvörðun um hvert skuli stefnt. Stjórnvöld og við hin megum ekki fljóta sofandi að evruósi.
            Tumi lyfti löppinni og sprændi upp við jólatréð sem ég fleygði út á gangstétt á sunnudaginn var. Síðan hristi hann sig og sagði:
            - Ja, ég þarf ekki að hafa neinar áhyggjur út af krónu eða evru. Ég á ekki grænan eyri.
            En þarna er króna, sagði ég og benti honum á hundraðkrónupening sem einhver hafði gloprað úr höndum sér og glitraði í hrímskell­óttu grasinu. Það á hana enginn. Þér er alveg óhætt að hirða hana.
            Tumi nam andartak staðar og virti krónuna fyrir sér.
            - Nei, það tekur því ekki, held ég. Hefði kannski borgað sig ef þetta væri evra.
            Hann græddi ekkert í kvöld. Og hann tapaði heldur engu sem máli skiptir.
         

 


18. Tumaganga með Kaspar, Melkíor og Baltasar

  

           Maður upplifir þessa daga ýmist líf eða dauða. Þessir tveir tvíbura­bræður auðkenna alla manns daglegu tilveru, skipta meira máli en evra og króna. Ég sat við hlið dauðans í gær, hann var hæverskur að vanda, kann að koma fram eins og sannur sjentílmaður, hreykti sér ekki en bauð mér hlé undan stormum líðandi tíðar í fanginu á fallegri tónlist. Návist hans er alltaf gefandi, skerpir útlínur á lífi manns. Prestur, sem hafði hljóð­nema í kverkinni, dreitlaði sínum rútínuflötu ritningargreinum og náðar­romsum yfir bekkina í kirkjunni eins og það skipti máli fyrir fólkið sem sat þarna og veit hvað bíður þess.  
            Einhver maður lét dæluna ganga í dag um það hvort væri  affara­sælla að hafa krónur í buddunni eða evrur. Sessu­nautur minn í viðkvæmri vitund frá í gær lagði fingur sína á hönd mér og hristi höfuðið. Hann veit sínu viti. Hann veit hvað skiptir máli og er affarasælt. Hann hefur hettu á höfðinu og í skugganum, sem féll yfir andlit hans, glóðu augu; þau leiftruðu eins og háleitar hugsanir í textum eða tónverkum þeirra manna sem ég hef kjörið mér til fylgilags um ævina. „Haltu bara áfram," sagði hann, „og hafðu bara þínar skoðanir á evru eða krónu. Við erum ágætir vinir, er það ekki? Það er í reynd ekkert nema gott um það að segja að við skulum fylgjast að. Hvað ætti annars að verða um þig?"
            Og á þrettándakvöldi hitti ég hana Evu. Hún var með hlífðargler­augu og stóð í öruggri fjarlægð frá föður sínum og bróður sem voru að skjóta upp púðureldum og kveðja þessi jól. Einhvers staðar í þrúgandi hitanum frá eyðimörkum horfa önnur börn með skelfingu á skotblossa og hafa hvorki hlífðargleraugu né tryggingu fyrir að faðir þeirra fylgi þeim til sængur þegar friður næturinnar leggur svartbláa blæju sína yfir heims­veldi og hjörtu fólks.
            „Æ, já," segir sá hettuklæddi. „Þú heldur þó ekki að ég standi fyrir þessu öllu. Ég gæti vel hugsað mér að hvílast stundum. En þið mennirnir sjáið fyrir því að mér kemur varla blundur á brá."
            Þá sá ég Kaspar, Melkíor og Baltasar koma út úr leið 24 við Smáralind. Alltaf jafn hressir. Alltaf jafn hrifnir. Alltaf jafn bjartsýnir. Alltaf í sama stuðinu og með fangið fullt af gjöfum. Ég ætla að bjóða þeim í kaffi og sörur þegar þeir eru búnir á fundinum í fjárhúsinu.
            „Mér líst vel á það," sagði sá kuflklæddi, hann vinur minn.

                


17. Tumaganga með pólitík í kollinum

 

            Enda þótt auðmenn hafi nú bæði tögl og hagldir í íslensku þjóðfélagi þykir mörgum einhvers um vert að í alþingiskosningum í vor færi kjósendur löggjafarvald og þar með framkvæmdavald úr höndum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þeir eru ekki ófáir sem hafa nú í kringum áramót látið í ljós þá von að tólf ára stjórnarferli þessara tveggja flokka muni ljúka eftir fimm mánuði. Þeir hafa spáð því í ræðu og riti að nýbyrjað ár verði um­skipta­ár í íslenskum stjórnmálum.
            Af síðustu skoðanakönnun Gallups má draga þá ályktun að stjórnar­andstaðan á Alþingi njóti fylgis um 55% kjósenda. Þessi hlutfallstala endur­speglar fremur hagsmuna- og valdabaráttu en mismunandi stjórnmálavið­horf. Frjálslyndi flokkurinn er græðlingur út af Sjálfstæðisflokki og hann sækir sér m.a. fylgi til hægrimanna á landsbyggðinni, sem báru skarðan hlut frá borði í kvóta­kerfinu, og til gamalla liðsmanna Sjálfstæðisflokks sem urðu þar undir í togstreitu við Davíð Oddsson og liðsheild hans. Eitthvað gæti svo slæðst inn í fylgi flokksins af framsóknarfólki sem er orðið ósátt við verk Framsóknar­flokksins í núverandi ríkisstjórn. Með hliðsjón af þessu má gera sér í hugarlund út frá niðurstöðum tilgreindrar skoðana­könnunar að hægrilæg markaðshyggja með forskriftir óhefts kapítalisma að leiðar­ljósi í efnahagsmálum sé grunnur að stjórnmálaviðhorfi rétt rúmlega helmings kjósenda, 52 til 53% atkvæðisbærra manna.
            Ef stjórnarandstaðan ætlar sér ein að mynda ríkisstjórn eftir næstu alþingiskosningar - og ef niðurstöður þeirra verða í líkingu við niðurstöður skoðanakannana nú - er ljóst að afrakstur stjórnarskipta verður fyrst og fremst að skipt verður um menn við valdatauma og alls ekki einsýnt að verulegar breyt­ingar verði í grundvallaratriðum á stjórnarstefnu þó að hún verði án efa öll mýkri. Enn sem fyrr vantar þá, sem hafa vinstrilæg stjórnmálaviðhorf á Íslandi, þann sam­eiginlega þunga sem þarf til að geta mótað stjórnarstefnu eftir sínu höfði og án málamiðlana við hægri-miðlæg eða jafnvel hægrilæg viðhorf.
            Það má halda því fram að síðasta skoðanakönnun Gallups bendi til þess að vinstrilæg stjórnmálaviðhorf njóti fylgis á að giska 42 - 45% kjósenda. (Við þessa hlutfallstölu má líklega bæta framsóknarmönnum með miðlæg fé­lagshyggjuviðhorf sem halda enn tryggð við Framsóknarflokkinn, kannski 3 eða 4%.) Það vantar því ekki nema nokkur prósentustig á fylgi vinstrilægra stjórn­málaflokka til að koma á verulegum umskiptum á Alþingi og í ráðuneytum. Það er því ekki að undra þó að ýmsir séu farnir að sjá fyrir sér örlagarík stjórnar­skipti eftir Alþingiskosningar í vor. En af því getur greinilega ekki orðið nema Samfylking fái verulega meira fylgi upp úr kjörkössunum en hún uppskar í skoðanakönnun Gallup í des­emberbyrjun. Forystusveit Samfylkingar á mikið verk fyrir höndum og vandasamt ef slíkt á að takast.
            Vinstri-grænir eru eini stjórnmálaflokkur á Íslandi sem fylgir eindreginni vinstri­stefnu. Könnun í desember gefur vísbendingu um að fylgi þessa flokks sé að nálgast fimmtung kjósenda og hlutur hans væntanlega ekki fjarri því sem var t.d. um Alþýðubanda­lagið í kosningum 1995 að viðbættum atkvæðum vinstri­manna sem greiddu þá Kvennalista atkvæði sitt. Ef vinstri-grænir halda vel á málum fram að kosningum er ekki ólíklegt að þeir nái að halda þessu tæpa fimmt­ungsfylgi.
            Samfylking er um margt farin að minna á borgaralegan sósíal-demókrat­ískan flokk - í líkingu við slíka flokka annars staðar á Norðurlöndum - í bland við Verkamannaflokkinn breska. Könnunin í desember bendir til að hlutur Sam­fylkingar sé nú um fjórðungur kjósenda. For­ystumenn flokksins hafa ekki farið í launkofa með að þeim þykir þetta rýr hlutur, að þeir vildu hafa fylgi á að giska þriðjungs kjósenda. Fylgi gamla Alþýðuflokksins var rúm 15% árið 1991 og tæp 11,5% í kosningunum 1995. Má þannig leika sér með þá ágiskun að hlutur Alþýðuflokks í fylgi Samfylk­ingar nú sé rúmur helmingur 25 prósentanna, en hinn helming­urinn sé fylgi alþýðubandalagsmanna, sem vildu af alhug sameina vinstrimenn og félags­hyggjufólk á Íslandi, og að auki brot af fylgi Kvenna­listans í eina tíð og eitthvert óánægju­fylgi frá gömlu framsóknarfólki. Ljóst er, ef marka má skoðanakannanir Gallup, að Vinstri-grænir hafa verið að taka til sín fylgi frá Samfylkingu og af því leiðir að vægi og þar með áhrif alþýðu­flokksmanna hafa verið að aukast í flokknum. Nú er ógjörningur að sjá fyrir hvort Samfylkingu tekst að rétta hlut sinn. Til þess þarf hún án efa að ná í fylgi aftur frá Vinstri-grænum, ná að höfða til þeirra, sem ganga nú að kjörborði í fyrsta skipti, og að ná til sín fylgi frá félagshyggjusinnuðum og óánægðum kjósendum Framsókn­arflokks. Eins og staðan er nú er óvíst hvort þetta tekst hjá Samfylkingu. Innan flokksins er einhver ágrein­ingur, ágreiningur um málefni, um stefnu, um völd, ágreiningur sem forystumenn í flokknum hafa ekki enn náð að leysa og verður til þess að flokkinn vantar kraft og sannfærandi hern­aðar­áætlun. Ingibjörg Sólrún og dyggustu liðsmenn hennar hafa tvisvar lagt rangt mat á stöðu sína á meðal kjósenda og á meðal flokksmanna sjálfra og þessi mistök ætla að reynast dýr­keypt fyrir Samfylkinguna. Ef samfylkingarmenn slíðra ekki sverðin og ganga sameinaðir að baki formanni sínum til kosninga og styðja hann af ráðum og dáð er ólíklegt að flokkurinn geti gert sér sæmilegar vonir um að ná atkvæðum þriðjungs kjósenda.
            Miðað við fylgistölur flokkanna í skoðanakönnunum nú yrði niðurstaðan þá líklegast samstjórn stjórnarandstöðuflokkanna ef vinstri-grænir og sam­fylkingarmenn spilla ekki öllum samstarfshorfum þessara flokka með því að hamra á því í sífellu að frjálslyndir séu orðnir „rasistar". Sjálfstæðismenn gera sér vonir um að geta myndað ríkisstjórn annað hvort með Samfylkingu eða Vinstri-grænum, eru hikandi að tilreiða að kjósendum fjórðu samstjórn Sjálf­stæðisflokks og Framsóknarflokks. Líklega er Samfylking ekki áfjáð í slíkt samstarf með sjálfstæðismönnum; það yrði banabiti hennar. Vinstri-grænir væru aftur á móti tilkipplegri, sé ég fyrir mér, að hugleiða samstarf við Sjálfstæðis­flokk; sambúðin á slíku stjórnarheimili yrði óefað samt býsna stormasöm þó að hún gæti orðið affarasæl fyrir þjóðina ef hófsamari öfl í Sjálfstæðisflokknum fengju að ráða ferðinni. Eflaust væri skynsamlegast fyrir Sjálfstæðis­flokk að taka sér hlé frá ríkisstjórnarsetum eftir 16 ár í valdastólum enda hafa hann og fylgis­menn hans mun meiri völd í íslensku samfélagi en Alþingi og stjórnarráð eftir valdaafsal á flestum sviðum þjóðlífsins til auðmanna og auðhringja þeirra.
            Enn sem fyrr blasir það við í þessari ársbyrjun að það var ógæfa vinstri­manna, sósíal-demókrata og félagshyggjufólks á Íslandi að persónulegar ýfingar, valdfíkn, stjórnlyndi og vandmeðfarin skapgerð ýmissa forystumanna í gamla Alþýðu­bandalaginu urðu til þess að ekki tókst að mynda samfylkingu þessara kjós­enda á Íslandi. Það verk bíður enn allra sem vilja sveigja samfélags­þróun á Ísland úr því fari sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Fram­sóknar­flokks hefur markað henni á valdatíma sínum í tólf ár.


16. Tumaganga í leit að nýársnótt

 

            Ég er enn að leita að nýársnótt í eldglæringum og skothríðardunum á höfuðborgarsvæðinu fyrir þremur sólarhringum. Ég hef á tilfinn­ingunni að ég hafi týnt henni fljótlega eftir áramótaskaupið. Ég rótaði áðan í öskuhrúgu sem var einhverju sinni 20.000 króna skotterta. Þar fannst engin nýársnótt, einvörðungu sviðnir pappírsgöndlar, plastbútar og járnteinar úr stjörnuljósum. Ég skil þetta ekki. Ég á svo margar góðar minningar frá nýársnóttum hér áður fyrr. Ég man eftir tungli í skýjum, fólki við brennur, körlum að syngja Máninn hátt og Ólafur reið, dómkirkju­klukkum í útvarpinu og síðan Nú árið er liðið. Hvað hefur orðið um þetta allt? Getur verið að Landsbjörg sé búin að stela nýársnótt frá þjóðinni? Er ekki nóg að sjónvarpið skuli hafa hrifsað frá manni gamlárskvöld við áramótabrennu með misjafnlega brosvekjandi áramótaskaupum í fjörutíu ár?! Í fjörutíu ár! Að hugsa sér! Og maður sest enn niður til þess að hlæja ekki.
            - Þú ert úr öllum takti við tímann, hnussaði í Tuma. Heldur áfram að nöldra svona um hver áramót. Þessi hálfdanska rómantík er passé. Álfar að dansa á svelli, tunglsljós og norðurljósavella - þetta er át, skilurðu. Fólk vill ekki frið, viðkvæmni og íhugun um áramót. Það vill hvelli, skelli og gauragang og síðan leigubíl í púðursvælu í næsta partý.
            En það er öllum hollt að líta um öxl við áramót, hugsa til þeirra sem kvöddu á árinu fyrir fullt og fast og velta því fyrir sér hvernig maður sjálfur ætli að halda áfram að lifa.
            - Flíslendingar eru margir held ég ekkert að velta fyrir sér lengur hvaðan þeir komu og hvert þeir eru að fara. Á nýársnótt takmarkast fortíðin hjá þeim flestum við síðasta greiðslutímabil hjá Visa og framtíðin miðast við næsta greiðslutímabil. Það kostar ekkert smáræði að sprengja frá sér allt vit.
            Já, það má vel vera að ég sé á aldur við gamlan nýsköpunar­togara. Já, já, ég á það til að hrökkva ósjálfrátt í plusquamperfectum þegar ég fer að rifja upp löngu liðnar nýársnætur. En mér finnst sjónarsviptir að álfum og draugum á nýársnótt. Það var eitthvað heillandi við það þegar þjóðin lét landið lifna við af yfirnáttúrlegum verum á þessari nótt hinnar illskilj­anlegu nálægðar alls og einskis.
            - Þú hlýtur þá að hafa fagnað því að mætir menn á Suðurlandi skuli hafa boðið álfum, draugum og tröllum að fá skjólshús á Stokkseyti?
            Það er engin spurning, Tumi. Ég þekki vel til á Stokkseyri frá gamalli tíð og veit að þar er búið vel að álfum og draugum ef þeir koma ekki frá Eyrar­bakka. Best þótti mér þó að forgöngumenn þessa þjóðþrifa­fyrir­tækis skuli vera annars vegar maður, sem lifði einhverju sinni sem alla­balli, og hins vegar eitt síðasta eintakið af sönnum, þjóðræknum Fram­sóknarmanni á Suðurlandi sem er ekki frá Brúnastöðum. Ég vona að setrið þeirra hafi fyllst af álfum og draugum á nýársnótt - og þá á ég við að þeir hafi ekki setið uppi eingöngu með sósíalistískar afturgöngur og svipi fyrrverandi kjósenda Framsókn­arflokksins. En jafnvel þó að svo hafi verið er ég viss um að þeir hafa ekki týnt sinni nýársnótt í púður­svælu og nútíma eins og ég. Ég á örugglega eftir að leita mér skjóls hjá þeim á Stokkseyri þegar þar að kemur.


15. Tumaganga með skoteldanöldri

 

            Þá erum við að verða jafngóðir eftir áramótin, Flís­lendingar. Allt var með hefðbundnu sniði á nýársnótt. Frá mínum bæjar­dyrum séð stóð loftárás björgunar­sveitanna í 50 mínútur og skildi eftir sig þykka reykjar­slæðu í Kópavogsdalnum. Laust eftir hádegi á nýársdag voru nágrannar mínir og íbúar í næstu götum komnir út með kústa, hrífur, fægiskúffur og plastpoka og dreggjar næturinnar hurfu smám saman. Voru þó sumar götur eins og vígvöllur yfir að líta þar sem skot­tertur skilja eftir sig reiðinnar býsn af pappírssnifsum og rusli.
            Ég hef fylgst með mörgum áramótum um ævina og get ekki neitað því nöldur­mannlega viðhorfi að mér finnst eins og flugelda- og tertuham­farir um miðnætti á gamlárskvöld séu komnar út yfir öll skyn­samleg mörk. Ég get ekki ímyndað mér að á nokkru byggðu bóli - annars staðar en á Íslandi - sé almenningi, þéttkenndum í þétt­býli, hleypt út með sex til sjö­hundr­uð tonn af púðri. Niðurstaðan er ekki litfögur og tilkomu­mikil sjón heldur drynjandi ljósagangur sem er miklu fremur ógnvæn­legur en hrífandi. Ég veit að svona tala einvörðungu leiðindagaurar - og hundar sem fengu enga áfallahjálp - en ég leyfi mér samt að vera þeirrar skoð­unar að sé tími til kominn fyrir þar til heyrandi yfirvöld og björgun­arsveitir að staldra við og velta fyrir sér hvort breytinga sé ekki þörf. Reykjarmekkinum hefur nú svifað frá og menn ættu því að geta séð til. Leikurinn er að fara úr böndum. Menn hljóta að geta viðurkennt það. Og björgunarsveitir hljóta að geta fundið aðra fjáröflunarleið sem gæti dregið úr mikil­vægi skoteldasölu fyrir afkomu þessara samtaka sem þjóðin öll stendur í ævarandi þakkarskuld við.


14. Tumaganga í rökkrinu á gamlársdag

 

 

            Jæja, Tumi minn. Þá styttist í áramótin. Hvernig hefur þér árið fundist? Hefurðu afrekað eitthvað sem er ástæða til að minnast á? Og ég á þá við eitthvað annað en þessar þrjár ástarnætur með tíkinni á Geysi sem voru auðvitað umtalsvert afrek hjá hundi á gamalsaldri en mér þykir sannast sagna engin ástæða til að fara að rifja upp einu sinni enn. Ég á til dæmis heldur við afrek eins og þegar þér tókst að hundskast þetta á eftir mér langleiðina upp að Skotmannsvörðu. Manstu eftir fleiri afrekum?
            Tumi skokkaði þögull í drykklanga stund, hugsi á svip eins og hann væri að snusa innan um sellurnar í þokukenndum minningabankanum. Loks heyrðist hann muldra ofan í götuna: Nei, eiginlega ekki. Það er svona líkt á komið með okkur. Nema hvað ég hef aldrei heyrt þig ýja að því að þú hefðir átt ástarnótt á árinu, hvað þá þrjár eins og ég.
            Fólk talar ekki um þessháttar, sagði ég. Og svo má líka halda því til haga að það var ekkert vitni að þessum ástarnóttum hjá þér. Þó að þú hafir látið annað í veðri vaka getur sannleikurinn allt eins verið sá að þú hafir einvörðungu elst við tíkina, blautur og hrakinn, og ekkert fengið út úr þessu nema sárið á eyrað og gigtina í afturlöppina.
            - Ég hélt þú værir sjentílmaður, ansaði Tumi. Sjentílmaður gefur ekkert svona í skyn um annan sjentílmann.
            Nei, það er rétt hjá þér. Ég skal heldur ekki minnast á það við nokkurn mann að þú ekur þér ýlfrandi á kviðnum undir stóra dívaninn í herberginu mínu þegar Flíslendingar gera loftárás á höfuðborgarsvæðið í umboði Flugbjörgunarsveitanna um miðnæturbil í kvöld.
            - Þakka þér fyrir. Hvað yrði hugsað í sumum hundabælum í Tung­unum ef það fréttist!
            Þú ert þó ekki enn einu sinni að hugsa um hana?! Þú ætlar þó ekki enn einu sinni á næsta ári....?!
            Tumi tók af mér orðið.
            - Það gildir að vera bjartsýnn. Aldrei að vita hvað getur gerst á nýju ári.
            Geturðu ekki sett þér háleitari markmið en þetta?
            - Þið mannfólkið setjið ykkur stundum allt of háleit markmið. Það er ekki gæfulegt. Best að hugsa um það sem er næst okkur. Sá sem óskar sér of mikils, missir oft af því sem er meira um vert.
            Það er með ólíkindum hvað þú getur verið skynsamur, Tumi. Eigum við þá að setja okkur sameiginlegt markmið á næsta ári?
            - Já, ég legg til að við setjum okkur það markmið að ganga upp á Sandfell næsta sumar.
            Við gerum það, svaraði ég. Við námum staðar á göngunni, litum svolítið upphafnir til himins og sögðum báðir í einu:
            Upp á Sandfell næsta sumar!
            Svo röltum við heim til að kveðja gamla árið.      


13. Tumaganga að Saddam Hussein gengnum

 

 

            Sum andartök fletta af okkur ytra byrðinu, sneiða af okkur brynju valdhrokans, svipta okkur mikillæti lærdóms og reynslu, sneiða utan af okkur þóttskap, fánýtt persónuglingur, glys og titla og stundlegar mann­virðingar. Við verðum þá öll það sem við erum sameiginlega, menn, litlar leirskálar sem bera í sér líf frá kynslóð til kynslóðar. 
            Ytra byrðið féll af Saddam Hussein þar sem komið var fyrir honum eins og hundruðum þúsunda af fórnarlömbum hans - hann horfðist í augu við dauða sinn. Þegar ég horfði á andlit hans á því andartaki sem snörunni var brugðið um háls honum, sá ég ekki lengur harðstjórann, slóttugan, hefnigjarnan, blóðþyrstan og fullan af viðbjóði, heldur horfði ég á mann, venjulegan mann, steyptan í sama mót og við hin. Mér leið ekki vel. Þarna stóð maður. Hann var maður eins og ég. Hann stóð mér miklu nær en böðlarnir sem sáust á myndinni og báru svartar hettur. Þetta var óþægi­leg tilfinning. Það getur ekki verið siðferðilega rétt að skynja mannlega reisn og mannlegan harmleik þegar horft er á aftöku illvirkja sem hefur látið myrða köldu blóði hundruð þúsunda karla, kvenna og barna.
            Alexander Solzhenitsyn komst að þeirri niðurstöðu eftir að hafa kynnst harð­ræði, þjáningum og dauða í sovéska Gúlaginu að hið illa og hið góða búi í hverjum manni. Þessi öfl hins illa og hins góða heyja sí­fellda baráttu um sál og vilja mannsins. Vígstaðan er svo jöfn að ekki verður séð fyrir um nokkurn einstakling hvort hið illa nái ekki að stjórna gjörðum hans. Það þarf ekki nema lítið lóð á vogarskál hins illa til að breyta góðum og heiðvirðum manneskjum í tilfinningakaldar ófreskjur.
            Hið illa í veröldinni verður ekki hamið með því að taka einn ill­virkja af lífi. Hið illa, sem býr í hverjum manni - ef við föllumst á skoðun Solzhenitsyns - verður því aðeins að hamið að við, hvert og eitt okkar, og samfélag manna reyni hvar sem er og hvenær sem er að hlú að hinu góða. Aftaka Saddams Husseins eða hvaða annars sakamanns sem er, hvort sem hann er Íraki, Kínverji eða Bandaríkjamaður, er ekki lóð á vogarskál hinna góðu afla. Hún er blóðhefnd, hún er illvirki. Hún er lítilsvirðing við réttlætistilfinningu þeirra sem vilja hlú að hinu góða. Það er ef til vill þess vegna sem ég fann ekki til neins léttis við það að sjá illvirkjann Saddam Hussein tekinn af lífi. Ég sá að tugir þúsunda manna glöddust þegar harðstjórinn spriklaði í snörunni. Ég skil líka hvers vegna þeir glöddust. En gleði þeirra átti sér rætur í hinu illa en ekki í hinu góða. Þess vegna var þetta dapurlegt á að horfa.
            Þó olli mestri ókyrrð í brjóstinu að uppgötva þarna af mynd­unum að á dauðastundu sinni var Saddam Hussein maður eins og ég, eins og við hin.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Tumagöngur

Tumi sýndi mér þann vináttuvott á hverju kvöldi í 15 ár að fallast á að ég fengi að fara út með honum að ganga. Hann dró mig á eftir sér í ól og beið ævinlega rólegur ef ég þvældist frá honum eða villtist. Hann tók því einnig með jafnaðargeði þegar ég ræddi við hann um hvaðeina sem lá mér á hjarta í þessum gönguferðum og átti það stundum til að rjúfa einræðu mína með skarplegum athugasemdum. Nú er Tumi allur. Hann hefur hvílt í tvö og hálft ár undir björkum í Marteinsseli. Ég fer samt enn í Tumagöngu á hverju kvöldi. Ég skrafa enn upphátt við sjálfan mig og Tumi skýtur inn einu og einu orði. Ég finn hvernig hann togar í mig í ólinni á eftir sér. Ég þykist vita hvert við erum báðir að fara.

Höfundur

Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 334

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband