30. Tumaganga með Jóni Baldvin í pólitísku rallý

  

            Ef ég væri Jón Baldvin, sem væri enn stuðningsmaður Samfylkingar, liði mér ekki vel í dag. Ég hefði vart getað bægt frá mér þeirri hugsun að ég hefði sagt eitthvað í Silfri Egils sem ég átti ekki að segja. Það er undarleg herkænskulist að koma fram fyrir alþjóð og byrja á yfirlýsingu þess efnis að maður megi ekki hugsa til þess ógrát­andi að ríkisstjórn Sjálfstæðis­- og Fram­sóknar­manna setjist aftur að völdum eftur þing­kosningar í vor og halda síðan áfram þrumandi ræðu sinni með því að gagnrýna af hörku og tala niðrandi um fólkið og stjórn­málaflokkinn sem maður kveðst fylgja að málum, flokkinn sem hlýtur að gegna mikilvægu hlutverki ef takast á að koma í veg fyrir að maður bresti í grát á nýjan leik í maí.
            Stundum er engu líkara en Jón Baldvin sé með sjálf­skiptingu í talfærum og heila. Hann byrjar í fyrsta gír, hrekkur svo, þegar nægum skaphita er náð, í annan gír, fer svo ósjálfrátt - að því  er virðist - í þriðja gírinn, þar sem orðaval fer að verða bein­skeyttara og setningarnar meitlaðri, skiptir svo yfir í fjórða gír, þegar hann er að komast í virkilegan mælskuham, og þegar nautnin af því að heyra sjálfan sig segja eitthvað mergjað er orðin næstum óviðráðanleg, setur sjálfskiptingin í fimmta gír og Jón Baldvin geysist áfram af þvílíkum mælskunnar eldmóði að maður fer að óttast að hann nái ekki stöðva sjálfan sig, orðfyndnina og hugar­flugið í tæka tíð. Stundum tekst honum það ekki - eða svo þótti mér í gær þegar nafni minn var farinn að impra á því að stofna ný stjórnmálasamtök og nefndi sem hugsanlega liðsmenn ýmsar kunnar Silfurskottur úr spjall­þáttum Egils Helgasonar. Margt af því, sem rann viðstöðulaust af vörum Jóns Baldvins, má til sanns vegar færa og var holl ádrepa fyrir fósturbörn hins gamla og lífsreynda stjórnmálarefs. En ég hefði haldið að góður heimilisfaðir ávítaði afkomendur sína innan veggja heimilisins en tæki þau ekki til bæna í ásýnd alþjóðar. Góður handboltaþjálfari les yfir mönnum sínum í búningsherbergjum en ekki úti á leikvellinum sjálfum. Ég hef ekki ennþá fengið botn í hvað Jóni Baldvini gekk til - nema þá að hann hafi nú fengið þá hugsjón að draga allan mátt úr Samfylkingunni. Ég sem hélt að væru nógu margir aðrir til þess. - Mikil blessuð guðsgjöf er pólitíkin á þessum regnþungu vetrardögum.

     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tumagöngur

Tumi sýndi mér þann vináttuvott á hverju kvöldi í 15 ár að fallast á að ég fengi að fara út með honum að ganga. Hann dró mig á eftir sér í ól og beið ævinlega rólegur ef ég þvældist frá honum eða villtist. Hann tók því einnig með jafnaðargeði þegar ég ræddi við hann um hvaðeina sem lá mér á hjarta í þessum gönguferðum og átti það stundum til að rjúfa einræðu mína með skarplegum athugasemdum. Nú er Tumi allur. Hann hefur hvílt í tvö og hálft ár undir björkum í Marteinsseli. Ég fer samt enn í Tumagöngu á hverju kvöldi. Ég skrafa enn upphátt við sjálfan mig og Tumi skýtur inn einu og einu orði. Ég finn hvernig hann togar í mig í ólinni á eftir sér. Ég þykist vita hvert við erum báðir að fara.

Höfundur

Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 334

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband